Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

05.12.2012 16:09

lífsbaráttusaga langdælskrar kýr

       Sum orð eiga erfitt uppdráttar vegna þess hversu þversum þau eru í beygingarlegu tilliti. Gott dæmi um þetta er orðið "kýr" og hafa margir lærðir menn jafnt sem leikir fallið í þá gryfju að nota bara orðið "belja" í staðinn. Fyrir rúmum tuttugu árum skrifaði ég mjög áhrifamikla frétt um kúna Von frá Fremstagili sem lengdi líf sitt um sólarhring. Frétt þessi rataði meðal annars í "þjóðarsálina" þátt sem Stefán Jón Hafstein stjórnaði á sínum tíma á Rás 2 og var dráp kýrinnar harðlega gagnrýnt. Ég er lengi búinn að leita að þessari frétt í greinasafni Morgunblaðsins en finn hana bara ekki. Þykir mér það miður því fréttina má hiklaust nota sem kennsluefni  í íslensku hvernig  íslenska kýrin í eintölu beygist,  þó ég segi sjálfur frá. Vegna þess að ég held að þessi frétt sé að öllum líkindum horfin úr gagnasafni heimsins hef ég ákveðið að endurskrifa hana hér með:


"Blönduós

Kýr lengdi líf sitt um sólarhring

Einstæð lífsbaráttusaga langdælskrar kýr

Kýrin Von frá Fremstagili í Langadal gerði sér lítið fyrir sl. fimmtudag og hljóp frá gæslumönnum sínum við sláturhúdyrnar á Blönduósi og hélt heim á leið. Rétt tæpur sólarhringur leið áður en kýrin náðist á ný og þurfti þá að skjóta hana á færi þar sem hún jórtraði undir barði á bænum Blöndubakka skammt norðan við Blönduós. Á þessum tæpa sólarhring hafði Von lagt að minnsta kosti 30 kílómetra að baki, brotið niður nokkrar girðingar, synt yfir vatn og farið yfir ótal skurði.

Eftir að kýrin skildi við eiganda sinn og sláturhúsfólk í dyrum sláturhússins stefndi hún vestur fjöruna og í átt að ósi Blöndu. Í fjörunn skammt fyrir neðan áhaldahús Pósts og síma lá leið Vonar upp á aðalgötu (Húnabraut) og fór hún þar yfir tvær lóðir og voru girðingar engin hindrun þegar átti að króa hana þar af. Eftir atganginn á lóðunum fór kýrin aftur niður í fjöru en hafði stuttan "stans" og fór aftur til baka og þá upp á Skúlabrautina , upp Klaufina og linnti ekki ferðinni fyrr en í nágenni við vatnstank Blönduósinga sem stendur um 3 kílómetra austur af bænum. Þegar hér var komið ferðum Vonar íhuguðu menn að skjóta kúna og var kallað eftir vopni. Var eins og kýrin skynjaði hvað til stóð því nú skipti engum togum, Von lagði aftur af stað og stefndi nú til fjalls og leit lengi vel út fyrir að það áform hennar heppnaðist. Seint og um síðir tókst að komast í veg fyrir kúna og á leið sinni til baka synti kýrin dágóðan spöl í Grafarvatni sem er skammt vestan við bæinn Breiðavað í Langadal. Upp úr vatninu hélt kýrin ferðinni áfram og fór þá yfir þjóðveg 1 og niður að Blöndu og þegar hér var komið sögu var Von ekki svo fjarri heimafjósi sínu að tilraun var gerð til að reka hana heim að Fremstagili aftur. Við Baslhaga, en svo kallast skúrbygging ein á Blöndubökkum frammi í Langadal, neitaði kýrin að fara lengra fram dalinn en þess í stað sameinaðist hún hrossastóði á Björnólfsstaðatúninu en þá var komið myrkur og var ákveðið að freista þess að ná kúnni í birtingu daginn eftir. En rétt fyrir miðnætti er hringt í eiganda kýrinnar og honum tilkynnt að hún væri aftur komin á Blönduós, nánar tiltekið á lóð sláturhússins. Hófst nú eltingaleikur að nýju en honum lauk tveimur klukkutímum síðar er kýrin hvarf leitarmönnum út í myrkrið rétt austan Blönduóss í svokölluðum Ennishvammi. Leit hófst síðan strax aftur um leið og birti og um hádegisbil fannst kýrin undir barði á bænum Blöndubakka og var þá kölluð til þekkt grenjaskytta og skömmu síðar féll kýrin Von í valinn fyrir skoti skyttunar. Þykir lífsviljinn með ólíkindum í Von því leið sú sem kýrin lagði að baki var að minnsta kosti þrjátíu kílómetra, ekki alltaf greið leið og voru vötn, skurðir og girðinar engin hindrun."  Þannig fór um sjóferð þá og allt gerðist þetta á einum sólarhring í miðjum október árið 1991.


     Fréttir af Vesturbakkanum verða að bíða betri tíma en þess ber þó að geta að Ívar Snorri og fjölskylda eru farin að selja jólatré úr Hamarsskógi og Jónas Skafta liggur í skriftum og viðar að sér efni sem ætlunin er að nota í blaðaviðtal í DV. Svo er annað sem vert er að vekja athygli á en það er að niðamyrkur er í gömlu kirkjunni þegar aðventan er gengin í garð. Ég trúi ekki öðru en að Sveinn í Plúsfilm splæsi í eina 40 kerta ljósperu sem fengi að varpa daufri birtu út í svartasta skammdegið.


 Birtan á undir högg að sækja þessa síðustu daga. Horft til birtunnar með Borgarvirki fyrir miðri mynd

     Rúnar er kominn og þar með Glugginn og að venju fylgdi honum eldfjörugur polki úr dragspilum Strákbandsins. Það var meiri ró yfir veðrinu en Strákabandinu en hálkan er allt um liggjandi og einn og einn
vegfarandi. Það er allt annað að sjá Rúnar í dag en fyrir viku. Þá hafði hann
Glugga-Óla með sér í för því hann gatt lítið annað gert en stýra og stíga á
bensíngjöf Súkkunar vegna hálkumeiðsla sem hann hlaut. En Rúnar er allur að hressast og meira segja svo að hann er farinn að safna skeggi á efri vörina.
Ekki svona skeggi eins og ég ber heldur nær skegg hans aðeins á milli
nasaholana , svona næstum eins og Chaplin sálugi hafði.

     Glugginn er kominn og hann geta menn skoðað inni á huni.is og vísa vikunnar er að þessu sinni eftir Önnu Árnadóttur og fjallar um skammdegið og þá birtu sem kemur með blessuðum jólunum.

     En hér skal staðar numið og samhengið liggur í augum uppi þó von Vonar um líf hafi að engu orðið haustið 1991. En við lifum samt í voninni því brátt fer niðurgangi sólar að ljúka.

Ég varð þessa sögu að segja,

um skepnu sem stríð mátti heygja.
          Hún fjallar um Von
          sem átt´enga von
          um annað en þurfa að deyja

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 64
Gestir í dag: 46
Flettingar í gær: 100
Gestir í gær: 64
Samtals flettingar: 65052
Samtals gestir: 11637
Tölur uppfærðar: 6.5.2024 11:10:30