Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

30.01.2013 14:17

Gúggúl rekinn á gat

Lífsbókin ljót er hjá sumum,

Lánlausir  vaða þeir elg.
          Sjaldgæft hjá svona gumum,
         Sannleika að leggja í belg.

Ég fór að velta því fyrir mér hvernig það væri að leggja af stað inn í daginn með svona vísu í farteskinu. Er hjálp í svona byrjun?  Er þessi vísa líkleg til að vísa manni veginn að ánægjulegri kvöldstund. Ég bar þetta undir Jónas á Ljóninu sem sat hjá mér þegar þessari vísu skaut upp í kollinum hjá mér og spurði hann um leið hvort það væri ekki miklu sniðugra og betra veganesti að byrja bara á leiðara Morgunblaðsins til fara með inn í daginn. Ég lýg því ekki að þessi fánaberi réttlætis og alþýðuástar missti næstum því andlitið við þessar vangaveltur mínar.  Og svo var af honum dregið við þetta allt að hann kom varla upp orði til að tjá sig um þetta. Eina sem hann gat sagt að viti var "Æji Jón! Þú ert ekki með fullu viti". Svona geta menn haft ólíka sýn á það hvernig maður á að byrja daginn svo líkurnar á ánægjulegri kvöldstund aukist.


Hafið bláa hafið hugann dregur í lok janúar við botn Húnafjarðar það Herrans ár 2013

Sem dæmi um ánægjulega byrjun á degi þá kemst ég vart hjá að greina frá eftirfarandi. Í gær fékk ég sem svo oft áður ánægjulegt símtal og að þessu sinni frá henni Sigríði Höskuldsdóttur á Kagaðarhóli.  Við ræddum margt og komum víða við. Eitt var þó ofarlega í huga Sigríðar en það var vísa eða réttara sagt hver væri höfundur hennar. Hún var búin að leita svara  víða og nefndi marga þekkta vísnamenn og þar á meðal Árna Jónsson umsjónamann vísnahorns Bændablaðsins sem hún hefði leitað til án árangurs. Ég var svolítið upp með mér þegar hún spurði mig líka hvort ég kannaðist við eftirfarandi vísu og eftir hvern hún væri:

Samleik eru systurnar,
          sorg og gleði háðar.
          Ef þú leitar annarar,
          oft þú finnur báðar.

Ég sagði nú eins og var að ég kannaðist ekki við þessa vísu né vissi eftir hvern hún er. En meðan ég spjallaði við við Sigríði sló ég vísuna inn í hinn margrómaða leitarheila sem kallaður er Gúggúl. Og það get ég staðfest að Gúggúl var ekkert betri en við Árni og átti heldur ekkert svar. Ég tjáði Sigríði að það væri ekki nema von að við kynnum ekki við þessu svar þegar Gúggúl sjálfur vissi það ekki. Ég sagði henni að það væri ekki á hverjum degi sem Gúggúl gæti ekki svarað og fannst mikið til koma að húsfreyjur í Torfalækjarhreppi hinum forna gætu rekið Gúggúl á gat.  Nú er spurningin hvort einhver af dyggum lesendum þessarar síðu vita betur heldur en Gúggúl og við hin sem nefnd eru til þessarar sögu.


Feðginin þau Ívar Snorri og Dagbjört Henný með Mola og kynbótagripinn hann Bósa

Það sem svona helst er að frétta af Vesturbakkanum er að Ívar Snorri er kominn með kynbótagrip sem heitir Bósi og er austan af landi. Bósi er gulur smáhundur af sama kyni og varðhundurinn hans, hann Moli.   Ívar Snorri og dóttir hans hún Dagbjört Henný komu með nýja Vesturbakkabúann og kynntu hann fyrir mér. Bósi kynbótagripur var allur miklu rýrari  heldur en Moli og auk þess klæddur í hettupeysu líkt og sumir íbúar Vesturbakkans.  Mér finnst það svolítið svalt að eiga kynbótagrip og nefna hann Bósa. Reyndar sögðu þau feðgin að hann héti í höfuðið á teiknimyndapersónunni Bósa Ljósári en það má einu gilda. Það verður spennandi að sjá þegar Sveinn í plúsfilm og Ívar Snorri hittast á förnum vegi með alla smáhundana sína. Þá verður hægt að segja með sanni að þá hittast snillingar í hundaþvögu.

Rúnar er kominn og klukkan farin að halla verulega í  í tvö. Veðrið var orðið ljúft eins og það gerist best á miðvikudegi á miðjum vetri. Loksins, loksins hugsaði ég með mér þegar harmonikkutónarnir helltust yfir Aðalgötuna. Rúnar er búinn að finna Arnt Haugen og lék hann af fingrum fram bráðskemmtilegan ræl sem heitir því undursamlega nafni "over stokk og sten" . Yfir stokk og steina komu þeir Rúnar og Arnt og höfðu með sér Glugga dagsins. Veri þeir velkomnir.

Rúnar er farinn að hressast eftir fallið um daginn en það hvíldi þó dálítið þungt á honum vísnaskuld við tvær konur , þær Önnu Gunnu frá Skinnastöðum og Sigríði Svavarsdóttur frá Öxl. Sem sannur vinur lagði ég vini mínum Rúnari lið til að hann mætti eiga afslappaðan og gleðilegan dag og því koma þessar vísur sem afborgun á vísnaskuldinni.

           Fim á hnakka snýst og hæl,
                     heiðurkonan Anna G.    
                    Við karlinn Kristó dansar ræl,
                    kokhraust eins og ekkert sé.

Og svo þessi:

          Siggu ennþá skulda ég
                    sykusæta stöku.
                    Hún ætti að vera hugguleg
                    og hríf´ana í vöku.


Þorramáninn varð fullur á sunnudaginn en nú er hann farinn að ganga úr sér

Fjórða tölublað Gluggans er komið út og auglýsir allt það sem er efst á baugi í héraðinu næstu 7 daga eða svo. Ber þar hæst að hreppaþorrablótið er að bresta á þó ekki um næstu helgi. Það vekur athygli að Domusgengið birtir engar myndir af fasteignum sem eru til sölu á þeirra vegum heldur eru menn á þeim bæ farnir að yrkja. Þetta ætti svo sem ekki að koma á óvart því vísa vikunnar er að þessu sinni sama vísan og var fyrir viku og er höfundur hennar, skáldið undir Borginni enn fast úti í geimi, hitt og þetta í friði að gera. En aftur að vísnasmíð þeirra Domus manna. Þar er engan bilbug að finna og mönnum blásinn baráttuandi í brjóst og lofa þeira að selja aðra fasteign bráðum og telja að gagnaver gæti komið sér vel núna á þessum síðustu og verstu. Vonandi gengur allt þetta eftir, Guð láti gott á vita.

En hvað sem öðru líður þá verður að finna samhengið á þessum blessaða miðvikudegi sem sendir okkur úrkomulausan hressandi norðaustan andvara sem ber í sér hita rétt yfir frostmarki.

Alvitur situr við spurningahlið,

svarandi gátum á róli.

En Gúggúl sjálfur sá ekki við,
          Sigríði á Kagaðarhóli.
 

 

PS. Fór rangt með vísuna frá Sigríði en nú er hún orðin rétt. Auðmjúkur biðst ég velvirðingar


Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 63
Gestir í dag: 9
Flettingar í gær: 88
Gestir í gær: 21
Samtals flettingar: 64809
Samtals gestir: 11510
Tölur uppfærðar: 3.5.2024 20:18:42