Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

06.02.2013 15:15

gríp á stundum eina og eina gæs

"Þetta er meira og minna afmælismánuður vatnsbera og lífið er þeim gott. Nýtt tungl eftir 9. febrúar hjálpar (nýtt tungl kviknar reyndar 10.feb)  þeim að laða að sér ástina svo þetta lofar góðu. Allur mánuðurinn er þeirra , ekki síst 6. febrúar [sem er jú dagurinn í dag] og dagarnir eftir 9. dag mánaðarins".  Það er frekar notalegt að vera vatnsberi og tölta af stað út í tilveruna með svona huggulega spá í nestisboxinu og ekki skemmir að hún er ættuð úr Morgunblaðinu.  Þó ég segi sjálfur frá, þá er ég frekar fyrir ástina en hið gagnstæða í lífinu. Ég ber ekki ástina utan á mér segja mér kunnugir og mér er líka sagt að ég geti verið svolítill köggull sem mér finnst nú skrýtið en læt svo sem kyrrt liggja. Til dæmis er ég ekki mikill knúsari þó svo mér þyki vænt um mann og annan en það kemur fyrir að ég kyssi eina og eina konu við hátíðleg tækifæri en karla læt ég að mestu ósnerta utan hvað ég heilsa þeim oft með handabandi.  Þessu var allt öðru vísi farið fram til sveita hér áður. Þar var það alsiða að bændur kysstu hvern annan hvenær sem þeir hittust. Einhverjir töldu þennan sið vera tilkominn vegna þess að með þessum hætti var það ekki eins áberandi þegar þeir kysstu húsfreyjurnar en ekki skal ég fullyrða neitt hvort þetta sé rétt skýring. Ég man eftir því hvað mér fannst þetta sérkennilegt þegar ég sá bændur kyssast, menn sem áttu í harðvítugu landmerkjamáli eða deilum um veiðirétt eða bara eitthvað annað. Alltaf var byrjað á því að kyssast og svo var tekist á um málefni dagsins. Þetta held ég að sé mikið til hætt og knúskynslóð bænda þ.e eldri kynslóð bænda er á hröðu undanhaldi.


Vesturbakkinn eins og hann leggur sig með útsýn yfir Skagafjöll

"Fuglene flyver í flok når de er mange nok" sagði Benny Andersson á sínum tíma í "Svantes lykkelige dag" og hafði þó nokkuð til síns máls. Seinni partinn á mánudaginn hringdi síminn minn líkt og hann gerir oft á dag og á línunni var enginn annar en Jónas fórnarlamb  á Ljóninu. Ég  hélt að hann væri með eitthvað heitt mál á bæjarstjórann eða sýslumanninn en góðir hálsar, það var honum ekki efst í sinni. "Heyrðu Jón, fyrsta grágæsin var að koma í bæinn. Hún flaug yfir  húsið hans Hreins, þú veist sem hann átti og síðan yfir Blönduból  og sveif síðan hægt en af öryggi  og lenti á Blöndu". Þessi gæs flaug ekki í hóp þar sem hún var alein á ferðinni en ég segi nú eins og er að mér  fannst þetta frétt mikil og skemmtileg. Þannig hefur verið nokkur undangengin ár að nokkrar gæsir hafa haft hér vetursetu en í vetur hefur enginn fugl að þessari tegund verið til staðar. Það var eins og jörðin hefði gleypt allar Blönduósgæsirnar í haust þegar vonda veðrið gekk yfir í september eða kannski er réttara að segja að þær hafi allar fokið í burt. En ein gæs er hver ein og þessi er a.m.k 6 vikum á undan fyrstu grágæsunum sem dvelja á Bretlandseyjum yfir veturinn.  Ég hef gert nokkrar tilraunir til að koma auga á hana en án árangurs.


Horft úr menningarhjarta Vesturbakkans út í Bláfjallageim Langadalsins

Ég missti af honum Rúnari mínum þegar hann kom með Gluggann því ég tafðist svolítið á súpufundi með Einsa þingmanni og Halla bónda. Rúnar lét að því liggja að hann gæti hugsanlega litið inn hjá mér seinna í dag en ég get upplýst um það að hann hefur lagt sig í líma við að leika harmonikkulög með snillingnum Arnt Haugen upp á síðkastið. Til að mynda hitti ég hann bæði í gær og fyrradag og í bæði skiftin var hann með Arnt heitinn undir geislanum  og hvort sem það var  tilviljun eður ei þá var "Strekkbuksepolki"  lagið sem leikið var. Ég veit ekki hvort þið trúið mér eða ekki þá finnst mér "Strekkbuksepolki" einhvern veginn vera svo miðvikudagslegur þó svo ég hafi heyrt hann á mánu- og þriðjudegi í þessari viku.   En gaman er að geta þess að Rúnar kom í þann mund sem ég var að leggja lokahönd á þennan pistil og hann klikkaði ekki frekar en fyrr í vikunni. Hann leyfði "Strekkbuksepolka" að flæða yfir Aðalgötuna og þennan ljúfa miðvikudag. Guð býr ekki bara í garðslöngunni, hann býr líka í Strekkbuksepolka. 

Glugginn sá hinn fimmti á árinu er kominn fyrir almenningssjónir. Þar kennir líkt og svo oft áður ýmissa grasa. Kaffitería Sveitabakarísins  er upprisin,  björgunar- og hjálparlið munu aka um bæinn á 112 daginn og sýna gestum og gangandi tól sín og tæki svo og nýju klippurnar sínar og Blönduósbær auglýsir eftir fjármálastjóra. Gluggavísa vikunnar er að þessu sinni hin landsfleyga vísa eftir afmælisbarn dagsins hann Jón Karl Einarsson sem fjallar um vegablæðingarnar sem tröllriðu fréttum og vegfarendum fyrir skömmu.


Oft hlaðast upp ský af ýmsum toga en þessi éljaský skyggðu algjörlega á hin tignarlegu Strandafjöll 

En eins og alltaf þá þarf að þreifa sig af nærgætni eftir samhenginu í lífinu þennan jafnt sem aðra daga og það hlýtur að fjalla um gæsina sem ég greip hjá Jónasi svo og ástina sem er allt um liggjandi samkvæmt áræðanlegum stjörnuspám Morgunblaðsins.

Um fortíðina þarflaust er  að fást.

Á fagra hugsun alls ekki ég blæs.

Gleymi mér við Guðsorð, von og ást
          og gríp á stundum eina og eina gæs.

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 106
Gestir í dag: 90
Flettingar í gær: 107
Gestir í gær: 73
Samtals flettingar: 65201
Samtals gestir: 11754
Tölur uppfærðar: 7.5.2024 09:20:20