Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

03.04.2013 15:03

Haukur og kettirnir þrír


Það er kannski óviðeigandi að byrja á því að birta hér bardagamynd en þar sem ég er nú stríðsfréttaritari á Vesturbakkanum er þetta í lagi

"Ég sit hér einn og læt mig dreyma um allt ekki neitt. Ei veit það nokkur maður, til hvers það getur leitt". Svona byrjar þessi fallegi miðvikudagur í byrjun apríl  og ég held bara að það sé þó nokkuð til í þessum orðum "skáldsins" því ef maður leggur ekki af stað þá gerist ekki neitt. En er það svo? Um þetta má deila eins og svo margt annað. Maður sem leggur upp í fjallgöngu og eyðir bæði tíma og orku í það og kemur svo aftur um síðir til baka á sama stað. Hann er staddur nákvæmlega á sama stað og hann byrjaði. Hefur hann skilað einhverju? Að enda á upphafreit, er það eitthvað til að tala um?  Það er líkast til það sem gerðist þarna á milli sem málið snýst um geri ég ráð fyrir. Ætli þessi orð Snorra Hjartasonar sem hann lét falla í ljóðinu "Ferð" árið sem ég fæddist:  "Hver vegur að heiman er vegurinn heim" eigi bara ekki vel við í þessari einræðu minni um ferðalag mannsins í torræðum heimi.


Herkúles heiti þessi og er einn þriggja katta sem heldur kór skógarþrasta í skefjum

Ekki er hægt að halda áfram án þess að minnast aðeins á veðrið. Í dag er það í einu orði dásamlegt líkt og það hefur verið undanfarið. Fyrir svona ber að þakka. En eitt er það sem ég sakna svolítið en það er fuglasöngurinn a.m.k í minni heimagötu sem hefur allt til að bera til að laða til sín söngelska fugla. Undangengin ár hafa skógarþrestirnir um þetta leiti verið farnir að vekja mig á morgnana með ljúfum söng. Nú ber svo við að enginn söngur heyrist, hvað hefur breyst. Við svona aðstæður lætur maður hugann reika í leit að hugsanlegum skýringum. Haukur nágranni minn hefur látið fella tvö stæðileg grenitré fyrir framan hús sitt, tré sem voru afar vinsæll söngstaður skógarþrasta. En það er nóg af öðrum trjám sem fuglarnir geta sungið í,  þessvegna er kannski ósanngjarnt að skella allri skuldinni á Hauk sem var hættur að sjá sólina fyrir trjám. Annar umhverfisþáttur gæti líka verið drjúgur áhrifavaldur. Við sem við búum við Árbrautina höfum átt því láni að fagna að búa í mörg ár, aðeins við einn kött hann Guðbrand. Ég hef marg oft sagt það að við Guðbrandur höfum báðir mikinn áhuga á fuglum en af misjöfnum ástæðum. Nú ber svo við að tveir kettir hafa bæst í hópinn og veit ég fyrir víst að annar þeirra heitir Herkúles og er svipaður Guðbrandi í útliti en hinn er er al grábröndóttur og veit ég ekkert um hann og er lítið um hann gefinn. Þetta þríeyki er mikið á ferðinni og af einhverjum ástæðum velja þeir oft lóðina mína sem samkomustað.  Ég tel það afar skiljanlegt að hinir vængjuðu vinir mínir velji sér búsvæði  sem eru fjarri þessum kumpánum því sama myndi ég gera í þeirra sporum. Niðurstaða mín í þessu vandamáli má segja í fáum orðum; Haukur og kettirnir þrír. Haukur 10% og kettirnir 90% svo mörg voru þau orð.



Þær eru að mættar þessar elskur og eiga eftir að setja mark sitt á samfélagið í sumar, sérstaklega göngustíga

Það ríkir mikill friður á Vesturbakkanum þessa dagana þó svo ég viti að undir niðri leynist neisti sem ef vilji stendur til getur orðið að báli. Frikki á Kiljunni klauf 60 ára múrinn á annan dag páska en skömmu áður hafði hann flutt úr Aðalgötunni í Bíbíarhús við Blöndubyggðina. Óli hótelstjóri er kominn til starfa eftir dvöl syðra. Ég hef ekki séð hann í allri sinni dýrð en bíllinn hans er fyrir utan hótelið og einhverjir ókunnir bílar sem táknar bara það að komnir eru gestir á hótelið.  Lítið fer fyrir Ívari Snorra og hundunum hans þeim Mola og kynbótahundinum sem ég man nú ekki lengur hvað heitir. Svenna í Plúsfilm hef ég lítið séð en Jónas Skafta á Ljóninu sagði mér í óspurðum fréttum að Svenni væri búinn að fá sér páfagauk sem spjallaði við þá sem fram hjá húsi hans gengu. Jónas er á sínum stað á Ljóninu rétt við bugtina í Blöndu þar sem stokkendurnar hafa vetursetu.

Glugginn er kominn og var hann eins og of oft undanfarið, skilinn eftir einn og umkomulaus á hurðahúninum hjá mér. Enginn Rúnar með Carl Jularbo eða Arnt Haugen með sér. Sem sagt engir harmonikkutónar sem svo sannalega myndu falla vel að þessum fallega degi sem ber í sér dýrðina eina. En hvað sem öllu líður þá er Glugginn kominn og er hin árlega kúabændaferð fyrirferðamest í hinum örþunna Glugga. Vísa vikunnar er eftir fasteignasalann, flugkapteininn, lífskúnstnerinn og bóndann á Litlu-Sveinsstöðum Magnús Ólafsson. Fjallar hann á sinn einfalda og látlausa hátt um að sumar er ekki sumar nema sumar sé.

   Mikið er um æðarfugl við botn Húnafjarðar

Reyndar sá ég rétt fyrir hádegið hér í Aðalgötunni tvo skógarþresti og tvo starra (sumir segja stara) sem sungu alveg eins og skógarþrestirnir. Starrarnir völdu sér stjörnuna á Krúttstrompnum sem áningarstað en skógarþrestirnir köstuðu mæðinni í loftneti á Aðalgötu 7.

Samhengið getur ekki verið einfaldara  

 

Þessir dásemdar, dásemdar dagar,

dúkk´ upp hvern einasta dag.

Fyrst sannlega svona til hagar
          er sjálfsagt að yrkj´um þá brag.

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 42
Gestir í dag: 8
Flettingar í gær: 211
Gestir í gær: 46
Samtals flettingar: 64347
Samtals gestir: 11452
Tölur uppfærðar: 29.4.2024 07:54:09