Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

24.04.2013 15:45

síðustu andartök vetrar


Toppendur í toppformi til að næla sér í seiði

Ritæfingar þær sem ég hef haldið svona að mestu í heiðri á miðvikudögum  sl. 7 ár eru misjafnar eins og gefur auga leið og mótast svolítið eftir því hvernig andinn er hverju sinni. Eitt hefur verið nokkuð fastur liður en það er að böggla saman að minnsta kosti einni vísu í hverjum pistli. Ég hef ekki litið á mig sem hagyrðing heldur svona orðahnoðara sem hefur það að leiðarljósi að betra sé illt að gera en ekki neitt. Einu sinni  að ég held í september 2007 sýndi ég af mér töluverðan hroka og kallaði sjálfan mig hagyrðing. Hér á eftir fylgir frásögn af því hverjar afleiðingar þessa hroka urðu:

"Þeir koma miðvikudagarnir einn af öðrum og enginn er eins. Eftir morgunandakt, þá er ég hafði litið til himins, bauð ég sjálfum mér góðan dag. Það var eitthvað innan í mér sem þurfti að komast út og eftir þó nokkrar vangaveltur þá komst ég að því að það væri hagyrðingurinn í mér:

Hver er í sjálfu sér, sjálfum sér líkur
það segir sig sjálft eins og hver einn fær séð.
Ég eins og þú, mun víst vera einn slíkur
einstakur sauður innan um féð
.

Ég var bara déskoti ánægður með mig og þar sem ég er sjálfum mér líkur þá leyfði ég Rúnari Agnarssyni að heyra vísuna þegar hann kom með Gluggann. Honum varð á orði:

Þú ert með eina vísu hér
með einstæðum sauðabrag.
Svo enga vísu ætla ég mér
að yrkja um þig í dag
."

 

Á vegamótum í ýmsum skilningi. Veturinn hörfar undan sumrinu fram Langadalinn

Síðasta vetrardag 2008 var ástandið í sálartetrinu þetta sem hér má lesa :

"Lífið finnur sér ætíð farveg og er sá farvegur mótaður af lífsviðhorfum og reynslu hvers og eins. Við Rúnar höfum í vetur alltaf reynt að hafa hið góðlátlega í lífinu sem farveg fyrir okkur með svona hæfilegum "skepnuskap"  í bland. "Þeir einir eru barðir sem nógu eru harðir" hefur verið kjörorðið því ljúkum við þessum síðasta miðvikudagspistli þessa vetrar á mildu nótunum:

Við samtímann fært höfum saman í letur
sem sjálfsagt einhverjir gert hefðu betur.
En í auðmýkt við beygjum
okkar höfuð og segjum.
Eigið gleðilegt sumar og takk fyrir vetur."

 

Þessi færsla á alveg eins við í dag og fyrir 5 árum nema fyrir það að þá var þoka en nú er kaldi og kastar éljum svona af og til. En Rúnar er kominn með Gluggann og hitinn hangir eina gráðu fyrir ofan frostmarkið. En Rúnar má þó eiga það að hann gerði sitt til að bæta daginn með því að spila Ofärne valsen með Carl Jularbo. Við Rúnar vitum ekki alveg hvað þetta lag myndi heita upp á íslensku en datt helst í hug að þetta væri ófarni valsinn svona eins og ófarni veturinn. Til vara skýrðum við þennan vals bara ófærðar valsinn því þennan miðvikudag hristir vetur af sér snjóinn svona eins og hundur sem kemur upp úr vatni.


Heiðurgæsin hún SLN lætur ekki hraglanda vetrarloka trufla sig og horfir í stóískri ró til komandi sumars

Glugginn er óvenju þykkur þennan síðasta dag vetrar. Má m.a. þakka því að kosningar eru á laugardaginn. Á annað má benda eins og það að nokkrir galvaskir krakkar ætla að frumsýna kvikmynd sem ber nafnið Svart og hvítt í Blönduósbíói.  Myndin er bönnuð börnum yngri en 12 ára en þó mega 10 ára krakkar koma í fylgd með fullorðnum. Þetta er hasarmynd og geta áhugasamir kíkt á sýnishorn úr myndinni inni á YouTube. Þau eru ekki af baki dottin þessi ungmenni og verður  spennandi að sjá útkomuna.

Kárdalstungubóndinn hann Hjálmar kom aðeins í hornið til okkar Rúnars og var með ýmsar meiningar  sem að sjálfsögðu  var svarað af fullkominni einbeitni. Fékk hann meðal annars þær leiðbeiningar að lesa ævisögu Guðna Ágústssonar og baka nokkrar kökur fyrir verkalýðskaffið á 1. maí. Það hnussaði í Hjálmari um ævisögulesturinn en til var hann í að baka fyrir verkalýðinn.  Rúnar sat býsna hljóður meðan við tókumst á með orðum ég og Kárdalstungubóndinn. Sem betur fer notaði Hjálmar ekkert af þeim brögðum sem hann hefur tileinkað sér í júdóinu sem hann stundar núna af miklu kappi því þá hefði ég fljótlega orðið undir. Það vakti athygli mína þegar hann kvaddi okkur þá leit hann til Rúnars og sagði "sé þig fljólega berann í sturtu". Það tók Rúnar nokkrar mínútur til að skýra þetta fyrir mér og liggur skýringin í því að þeir Hjálmar og Rúnar hittast stundum í sundi en .................?

En vetri lýkur og sama gildir um þennan pistil og ekkert eftir nema skima eftir samhenginu sem getur verið hvað sem er.

 

Í vetrarlok viðruðu frelsi og höft,

vitringar, Hjálmar og Jón.

"Kústar þeir svínvirka ef hafa þeir sköft"

sagði Jón í sáttfúsum tón.

Og svona í lokin sjálfstyrkingarvísa:

Ég æðislega báða okkur tel

en erum hvorki verri eða betri.

Kostulegt hvað komum fjandi vel

kátir undan þessum langa vetri.

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 202
Gestir í dag: 44
Flettingar í gær: 180
Gestir í gær: 54
Samtals flettingar: 64296
Samtals gestir: 11442
Tölur uppfærðar: 28.4.2024 21:09:46