Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

05.02.2014 15:22

vangaveltur á Agötumessu



Þó lognið sé allt um liggjandi þá er þung undiralda við botn Húnafjarðar

Enn einn lognkyrr miðvikudagurinn er runninn upp og þungur niður berst frá hafinu.  Áttin er suðlæg og hitinn er tveimur gráðum undir frostmarki. Svellin eru viðvarandi og sést enginn maður á gangi nema hafa mannbrodda undir skósólum. Ég komst að því í gær að hægt væri að nálgast þessa bráðnauðsynlegu jarðtengingu á þremur stöðum í bænum og samkvæmt lauslegri verðkönnunn eru mannbroddar ódýrastir í Samkaupum.  Það er samt merkilegt að þrátt fyrir þessu miklu svell og hálku þá fréttir maður lítið af slysum þessu tengdu og skýrist það eflaust af því að hættan er augljós og því geta menn varast hana.


Lárus Blöndal við tamningar á Flúðabakkatúninu

Þá fer nú þorrinn að verða hálfnaður og hef ég ekki farið nema á tvö þorrablót.  Annað var í Skagafirði og hitt hér heima. Ekki ætla ég út í neinn samjöfnuð enda það nokkuð erfitt þar sem um tvo þjóðflokka er að ræða en maturinn og félagsskapurinn var góður á báðum stöðum.


Geitaból er enn uppistandandi en hér átti Ingibjörg Pálsdóttir sem margir kannast við undir gælunafninu Budda, sér skjól og athvarf. Blessuð sé minning hennar

Ég nefndi aðeins Louisu Mattíasdóttur listmálara í síðasta pistli og var  svona að þreifa eftir því hvort einhver vissi af tengslum listamannsins við Blönduós. Einn ágætur brottfluttur Blönduósingur hafði samband við mig og hafði það eftir móður sinni að Louisa hefði dvalið einhverja daga í Sæmundssenhúsinu sumar nokkuð fyrir margt löngu. Gaukaði hann að mér að þær systur Lullí og Silla (Þuríður og Sigurlaug Hermannsdætur)  vissu kannski eitthvað um þetta. Hef reyndar ekki haft við þær samband um þetta en eflaust kemur að því og verður fróðlegt að vita hvort eitthvað kemur út úr því.

Jónas á Ljóninu er enn að berjast í sínum málum og hyggur hann á greinarskrif í Fréttablaðið. Þetta er að verða orðin ansi hreint löng barátta hjá Jónasi við yfirvöld hverju nafni sem þau nefnast. Þegar ég lít yfir farinn baráttuveg Jónasar þá skýtur upp í kolli mínum mynd af manni sem er vel hálfur ofan í vök og sveiflar brandi sínum í allar áttir. Álengdar stendur yfirvaldið og aðhefst ekki neitt.  Og ekki þýðir að kasta til mannsins í vökinni snæri til að draga hann upp  því það er í sundur um leið og brandurinn bítur á því. Lífið er Brattabrekka fyrir mann sem á í vök að verjast. En kisan hans Jónasar  hún Bella saknar hans meðan hann hefst við í höfuðborginni og kallar ákaft til þeirra sem leið eiga fram hjá Ljóninu með einkennishljóði katta  "mjá".


Bella hans Jónasar Skafta kvartar við vegfarendur og segir óhikað að hún sakni eiganda síns

Glugginn er kominn og er svona heldur rýr í roðinu að þessu sinni þó þar megi finna margt gagnlegra upplýsinga. Einar Óli  (og fleiri) minnir á 112 daginn sem er eins og venjulega haldinn 11.2.   Domus gengið er á sínum stað sem og WC pappírinn hjá Hvöt. Og samkvæmt venju er vísa vikunnar líka á sínum stað og nánast samkvæmt venju eftir Rúnar Kristjánsson skáld á Skagaströnd. Yrkisefni hans er hinn nýji útvarpsstjóri og væntir Rúnar þess að hann muni reka fleiri frá RÚV.

Klukkan er farin að halla í seinni part dagsins og ekkert hef ég orðið Rúnars vinar míns var. Ekki veit ég hvar gostæknir Samkaupa heldur sig eða hefur fyrir stafni. Hann vær vís með að bregðast mér á Agötumessu en lengi má manninn reyna. Svona í framhjáhlaupi í lokinn þá má geta að í  Gottskálksannál árið 1339 segir: Hljóp skriða á bæ í Kjós er á Tindsstöðum heitir in festo Agate [Agötumessa er 5. febr.] og létust ix (9) menn. Í öðru framhjáhlaup má geta þess að einn bræðra minna bjó á þessum bæ til nokkura ára. Látum hér staðar numið og horfum til samhengisins sem hverjum manni er svo mikilvægt að koma auga á.


Í vökinni er krafa um krafta,

krafta sem ráða við rafta.

En í baráttugný,

bíður Bella svo hlý

eftir berserknum Jónasi Skafta.

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 144
Gestir í dag: 103
Flettingar í gær: 107
Gestir í gær: 73
Samtals flettingar: 65239
Samtals gestir: 11767
Tölur uppfærðar: 7.5.2024 13:39:31