Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

12.02.2014 14:51

dagurinn í dag er dagurinn

Dagurinn í dag er dagurinn sem skiptir máli sagði einhver vitringurinn. Gærdagurinn er liðinn og þú færð engu breytt og morgundagurinn er óskrifað blað. Það er heilmikið til í þessu en hvernig höndlar maður svona mikinn sannleik og visku?  Þegar stórt er spurt er oft fátt um svör en alltaf eru til einhverjir sem eiga svör við öllu saman hversu vel eða illa stendur á. Núna eru að renna upp dagar sem tengja mig við lífið og dauðann. Þann 14. febrúar árið 1992 var ég fluttur fársjúkur með hjartaáfall á Borgarspítalann. Þetta var Valentínusardagurinn, dagur elskenda og ég víðsfjarri minni heittelskuðu. Mín ágæta kona fékk hringingu af Borgarspítalanum að ef hún vildi sjá mig á lífi þá skyldi hún drífa sig suður hvað og hún gerði. Annar dagur sem tengir mig við dauðann og lífið er minn fæðingardagur sem er 18. þessa mánaðar árið 1952. Samkvæmt þessu hef ég "þraukað" í gegnum lífið með hálft hjarta í næstum  22 ár og hef bara haft það déskoti gott. Reyndar hefur ýmislegt gerst í millitíðinni sem telja má minniháttar mál og eru þau hér með úr sögunni og ég er á sæmilegu lífi.

Þetta er svolítið þunglyndisleg byrjun á pistli en febrúar er bara minn tilfinningamánuður, mánuður sálarhreinsunar og á einhverju verður maður að byrja og er þá ekki best að byrja á sjálfum sér.


Það er hryssingslegt við botn Húnafjarðar þessa stundina og dimmt í norðrinu. Tilraun sómir sér vel undir brekkunni.

En veðurlýsing þessa morguns er eftir en hún er í stuttu máli þessi. Norðan ellefu metrar á sekúndu og hitinn 2 gráður yfir frostmarki klukkan níu í morgun en vindurinn sótti heldur í sig veðrið eftir því sem á daginn hefur liðið. Það er þungskýjað og má segja að skýjin norður við sjóndeildarhring séu svört af vonsku. Grun hef ég um að þau inniberi líka heilmikið af hvítri mjöll þrát fyrir sinn dökka lit. En svellin eru alltumlykjandi og láta engan bilbug á sér finna. Þegar Rúnar kom hér rétt eftir hádegið með "Muckarpolkan"  í flutningi sænskra listamanna í farteskinu hrökk út úr honum bara si svona.:

Margt er það sem miður fer,

má þó stundum laga.

Vernsnandi nú veður fer

og verður næstu daga.

Já! Svo mörg voru þau orð og er það sem ég segi, "margt er það sem miður fer" fer Rúnar vini mínum afar vel og er gott upphaf.


Það skóf af ölduföldum í hvassri norðanáttinni í morgun

Af vesturbakkanum er tíðindin ekki mikil eða fara í það minnsta ekki mjög hátt. Síðast er ég heyrði í manninum sem verst í vökinni honum Jónasi á Ljóninu þá lá ekki allt of vel á honum. Honum var mikið niðri fyrir og kom ástæðan til þess að gera fljótt í ljós.  Nöldri, sem er dulnefni pistlahöfundar á huni.is hafði gert Jónasi gramt í geði með eftirfarandi ummælum. "Þegar ekinn er þjóðvegur 1 inn í bæinn okkar hvort sem er að norðan eða sunnan blasa við auglýsingar um alls konar þjónustu sem er alls ekki í boði yfir vetrarmánuðina. Þarna auglýsir Hótel Blönduós veitingar og gistingu, Blönduból/Ljón norðursins café-bar og á miða á hurðinni er auglýst að  þar sé upplýsingaþjónusta fyrir ferðamenn!  Árbakkinn auglýsir kaffi og veitingar og  Sveitabakarí kaffi og meðlæti. Við heimamenn vitum kannski að þessi veitinga- og gistihús eru lokuð allan veturinn en það geta ferðamenn sem hér eiga leið í gegn ekki vitað. Þó umferðin sé ekki eins mikil að vetrinum eins og sumrinu fara margir hér um og þetta eru villandi upplýsingar fyrir ferðamenn. Það ætti að vera eigendum þessara staða í lófa lagið annaðhvort að taka þessi skilti niður, eða ganga þannig frá þeim þegar lokað er að hausti að þau séu ekki að beina ferðamönnum að læstum dyrum." Ég spurði Jónas hvort þetta væri ekki satt og taldi hann það af og frá. Hann taldi þetta bara hreina og klára árás á sig og benti á að allir í heiminum vissu að hjá honum væri lokað frá 1. okt og fram í byrjun maí og benti á bókunarkerfið Booking.com því til staðfestu. Ég benti honum á að merki sem víða væri að finna við sveitabæi og upplýstu að kýr gætu átt leið um veginn væru yfirleitt hulin yfir veturinn svo þeir sem um veginn fara geti ekið áhyggjulaust um. Ég spurði hvort það væri nokkuð til of mikils mælt að þessir aðilar gerðu slíkt hið sama. Honum fannst ég ekkert fyndinn og sagðist myndi hafa samband við þá Húnahornsmenn og leggja fram kvörtun eða jafnvel skrifa pistil sér til varnar.


Menn verjast ekki eingöngu yfirvöldum heldur þarf að verjast þungum öldum sem skella á ströndinni. Unnið að styrkingu grjótvarnar í ósi Blöndu

Það er alveg merkilegt að um leið og Rúnar var búinn að fara með veðurvísu sína þá datt hann á með hægviðri og maður sá að það birti í suðrinu.

Margt er það sem miður fer

 í mörgum Rúnars brögum.

Hans spádómsgáfa slitrótt er

því spáð er góðum dögum .

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 710
Gestir í dag: 386
Flettingar í gær: 107
Gestir í gær: 73
Samtals flettingar: 65805
Samtals gestir: 12050
Tölur uppfærðar: 7.5.2024 23:02:17