Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

26.02.2014 16:05

dæmalaust helvíti slysinn

" Þú ert ekki til stórræðanna fyrri part dags en munt bæta það upp seinnipartinn. Láttu því slag standa áður en þú bognar undan álaginu". Svona hljóðaði stjörnuspáin mín í Mogganum í dag. Ég er ekki frá því að stjörnuspámaður Morgunblaðsins sé forvitur því ég var varla mættur til vinnu í morgun þegar tveir félagar mínir komu í heimsókn. Fyrst kom  höfðinginn Hilmar Snorrason (Himmi) , unglingur á tíræðisaldri  og skömmu seinna afmælisbarn dagsins og stríðsmaðurinn Jónas á Ljóninu. Við Himmi voru ekki nærri búnir að skipuleggja afmælisdaginn hjá Jónasi þegar hann birtist glaður í bragði í dyrunum nýkominn úr höfuðborginni.  Já, Jónas er kominn til stuttrar dvalar og hann á líka 73 ára afmæli. Ég get svo svarið það að kallinn gæti verið á aldur við mig. Hann tjáði okkur Himma að hann hefði verið að endurnýja atvinnuskírteinið sitt og fékk staðfestingu á því að hann hefði góða sjón. Sagði hann okkur að hann geti lesið gleraugnalaust í miðlungs birtu. Það hrökk nú út úr mér eftir þessa sjónræðu að líkast til væri þetta hans helsta vandamál því hann sæi meira heldur en góðu hófu gengdi. Hann kímdi og sagði að bragði, "helvískur". Þeir voru nokkuð þaulsetnir félagarnir og drjúgir í brjóstsykurskálinni, þannig að stjörnuspáin hefur ræst hvað fyrri part dags snertir.  Nú er bara að sjá hvernig seinni partur spár gengur fram.

 

Afmælisbarnið og stríðsmaðurinn Jónas Skaftason að taka á móti afmælisóskum.

En veðrið þennan miðvikudaginn er svona skítsæmlegt.  Vindur er norðanstæður og bíður upp á svona 7 - 9 metra vindhraða á sekúndu og hitinn nálgast 3 gráðurnar fyrir ofan frostmarkið. Sólin vakir í suðrinu en þykkur dökkur skýjabakki hylur norðrið af mikilli kostgæfni. Maður tekur eftir því að sólin sem núna nær 15,8 gráður yfir sjóndeildarhringinn er farin að setja mark sitt á lífið og leggur sitt af mörkum til að létta á klakaböndunum.

Rúnar er kominn og með honum í för var hinn ástsæli norski harmonikkuleikari Arnt Haugen og lék af sinni alkunnu snilld "strekkebuksepolke" sem að öllum líkindum heitir upp á íslensku "Teygjubuxnapolki" Reyndar munar bara einum staf þ.e. I, að þessi hressilegi polki héti því ágæta nafni prjónabrókapolki. Rúnar var líkt og Jónas og Himmi bara nokkuð hress og taldi hann vel við hæfi að spila strekkebuksepolka í svona strekkingi sem utandyra er.

Glugginn er líka kominn og líkt og síðustu miðvikudaga kom Skarphéðinn Ragnarsson með hann.  Ýmislegt er að finna í Glugganum  sem menn geta séð inni á huni.is og Gluggavísu vikunnar á nú sem fyrr vísnasmiðurinn kunni Rúnar á Skagaströnd. Hann yrkir jafnan dýrt og koðnum við Rúnar oft niður þegar við erum búnir að berja saman vísu og lesum síðan dýrt kveðna hringhendu eftir Skagastrandarskáldið. En við erum bara samt svo assskoti forhertir að við látum ekkert stöðva okkur í vísnasmíðum þó komi fyrir að við séum nokkuð stuðlagrænir.


"Nostalgía" Jón Sigurðsson áður en svo margt gerðist

Við duttum um þessa vísu sem líklega er eftir Lúðvík Kemp og fannst hún passa við undirritaðan sem undanfara daga hefur verið að lýsa fyrir Birgittu skáldkonu á S-Löngumýri hremmingum sínum á lífsleiðinni en sú lýsing mun birtast almenningi áður en mjög langt líður:

Maðurinn allur er magur og rýr,

en montinn og andskoti visinn.

Svo er hann óhappa djöfulsins dýr

og dæmalaust helvíti slysinn.

 

Meðan við duttum um ofangreinda vísu þá átti vínbúðarstjórinn hún Margrét leið hjá með vatnsflösku í hendi og hrökk þá "margt er það sem miður fer" maðurinn í gang, þ.e.a.s hann Rúnar og mælti af munni fram:

Margt er það sem miður fer

í minni lífsins tösku.

Magga núna mætt er hér

með óáfengt í flösku.

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 119
Gestir í dag: 56
Flettingar í gær: 719
Gestir í gær: 392
Samtals flettingar: 65933
Samtals gestir: 12112
Tölur uppfærðar: 8.5.2024 04:47:22