Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

12.03.2014 15:10

lífið það er sterkara en dauðinn


Þessi mynd var tekin fyrir nákvæmlega ári síðan en þá var straumöndin farin að sækja töluvert upp í ósinn en í vor hefur nánast ekkert borið á henni

Hann er meinlaus þessi miðvikuagur. Skýjað loft og hitinn þrjár gráður fyrir ofan frostmarkið og hægur suðlægur andvarinn leikur um vanga. Það er ekkert upp á þennan dag að klaga og það er fullkomlega í okkar valdi hvernig hann verður að öðru leiti. Á þessu eru undantekningar eins og gengur og er eftirfarandi saga bara lítið dæmi um það.

12. mars er í mínum huga einstakur dagur því þessi dagur hefur markað djúp för í mína sál. Fyrir 34 árum þá ól mín kona andvana tvíbura, sveinbörn á Landsspítalum í Reykjavík. Það þarf ekki að hafa mjög mörg orð um það hvernig slíkur atburður hefur áhrif á einstaklinga sem næst atburðinum standa. Á þessum tíma var lítið í boði sem hét áfallahjálp eða sálgæsla. Ég sá fyrir tilviljun þegar tveimur lífvana nýburum 8  og 10 merkur var ekið á litlum vagni út úr sjúkrastofunni sem konan mín ól þá.  Ég held að aldrei á minni lífsfæddri ævi hafi ég verið eins ráðalaus og hugstola og þá. Ég man bara að mér voru færð tíðindinn í biðstofu fyrir verðandi feður og ég ráfaði út í daginn upp á Skólavörðuholtið og hljóp niður allan Skólavörðustíginn og heim til foreldara minna sem þá bjuggu í danska sendiráðinu á Hverfisgötunni. Þetta var einsog gerst hefði í dag. En ég man líka jafnvel og þennan, annan atburð fyrir nákvæmlega 33 árum en þá fæddist okkur hjónum sonur á nákvæmlega á sama stað og í nákvæmlega sama rúmi. Þessi drengur er sem sagt 33 ára í dag og það merkilega er að líkast til hefur hann greint sálarháska föður síns því hann lagði fyrir sig sálfræðina og starfar við það í dag. Hjalti Jónsson tveggja barna faðir á Akureyri á afmæli í dag, dag sem kenndi mér það að lífið það er sterkari en dauðinn.

En aftur til nútímans, dagsins í dag sem eins og áður er getið er bara meinlaus hvað veður áhrærir. Hér á vesturbakkanum hefur verið til þess að gera tíðindalítið síðustu viku en ég efa það ekki að undir yfirborðinu kraumar eitthvað sem mun marka spor sín á söguna. Hótelið er til sölu og ég veit að einhverjir hafa sýnt því áhuga að eignast það. Það er til góð saga um Óla hótelstjóra þar sem hann á að hafa sagt við einn ágætan markaðsmann í ferðamálum og  það gersamlega í óspurðum fréttum. "Það er bara eitt sem ég þoli ekki en það eru þessir andskotans túristar".  Alveg get ég trúað því að Óli hafi látið þetta út úr sér bara til að stuða viðmælanda sinn því þeir sem þekkja til Óla vita að hann er "ólíkindatól".

Jónas á Ljóninu hefur haft hægt um sig upp á síðkastið en ég veit að ljónið vakir. Það fer nú að styttast í það að hann komi norður í hreiðrið líkt og hinir farfuglarnir því ég veit fyrir víst að Jónas hefur aldrei á sinni löngu ævi staðið frammi fyrir eins mörgum bókunum í gistingu þannig að hinn "elderly gray man" þarf að láta hendur standa fram úr ermum í sumar og einbeita sér eingöngu að því verkefni .


Aðalgatan í dag og gámarnir góðu við suðvestur gafl Aðalgötu 9. Myndin er frekar líflítil

Svo virðist að Aðalgatan sé orðin að einu helsta gámasvæði bæjarins. Athafnasvæðið fyrir framan Krútt-húsið hefur geymt tvo 40 feta gáma sl. 7 daga og hindrað alveg aðgengi að Aðalgötu 9.  Hvað skildi þetta ástand vara lengi?


Ívar Snorri í hlutverki gamals manns. Með honum á myndinni er Atli Einarsson (sonur Einars Kolbeins og Hafdísar Vilhjálms)

Að öðru leiti er allt í góðum farvegi og gaman að geta þess að sægreifinn Ívar Snorri er við æfingar á leikverki með leikfélagi Blönduóss. Reyndar hef ég lítið séð til Svenna í Plúsfilm og mér skilst að hann sé með hugmyndir að flytja sig aftur til höfuðborgarinnar.

Rúnar er kominn með harmonikkutónana og fylla þeir út í Aðalgötuna  þar sem gámar hafa ekki nú þegar fyllt. Það var góðvinur okkar hann Arnt Haugen sem lék af mikilli list polkann "yfir stokk og steina". Rúnar var glaður í bragði og ótrúlega létt yfir honum enda nýkominn úr klippingu.  Það hrökk svona út úr mér þegar ég sá þennan "margt er það sem miður fer" mann, hárléttan:


Af höfði Rúnars fokið er

hárið út í buskann.

Margt er það sem miður fer

og misjöfn undin tuskan.

En við þurfum að komast að samhengi hlutanna þennan miðvikudaginn sem er enn einn bautasteinn í veraldarsögunni og hverfur líkt og annað í aldanna skaut svo munið þetta á lifsgöngunni.

Margt er það sem miður  gæti talist,

margan má hér líta breyskan sauðinn.

Á lífsleiðinni margir hafa kvalist,

en lífið það er sterkara en dauðinn.

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 12
Gestir í dag: 10
Flettingar í gær: 100
Gestir í gær: 64
Samtals flettingar: 65000
Samtals gestir: 11601
Tölur uppfærðar: 6.5.2024 02:46:28