Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

20.03.2014 15:46

vindgangur og draumar

Það er stífur vindur  sem kemur úr norðaustri sem lemur á okkur á þessum degi þar sem dagur og nótt eru jafn löng. Það er ekki mikið úrfelli og skyggnið ágætt og hitinn eina til tvær gráður fyrir ofan frostmarkið.


Það hefur verið smá garg í dag en það er ekki allt grábölvað því sjá himins opnast hlið yfir Hnjúkum og Hauki á Röðli

Já, dagurinn hefur jafnað metin við nóttina og herðir tökin á henni fram til 21. júní. Þó svo nóttin sé farin að láta undan þá virðist veturinn ekkert vera að gefa sig og herðir tökin ef eitthvað er. Veturinn má þó eiga það að hann er heiðarlegur og gerir þetta með hækkandi sól svo sem flestir geti séð handbragð hans í dagsbirtu.

Það er gaman að rifja upp draum frá því um miðjan febrúar það herrans ár 2008. Þessi draumur var tilkominn vegna þess að ég lagði mig fram um að dreyma mig í grænum jakka því það er fyrir hlýnandi veðri segja mér reyndir draumaráðningamenn. Ég hafði nefnilega fyrr um þennan vetur dreymt að ég hefði verið við það að festa kaup á köflóttum jakka í S-Afríku og þótti það boða rysjótt tíðarfar sem svo gekk eftir. Lái mér hver sem vill að gera allt sem í mínu valdi stóð til að hafa áhrif á máttarvöldin  sem skömmtuðu okkur bara köflótt tíðarfar. En frásögnin af draumnum  sem ég ætla að rifja upp er á þessa leið: "Reyndar dreymdi mig fyrir ekki svo margt löngu að sonur minn og tilvonandi tengdadóttir hefðu eignast lítinn dreng, svona líka fallegan og ljúfan og fannst mér einhver segja "mikið er hann líkur afa Jóni á Blönduósi" og mér hlýnaði eitthvað svo innra með mér. Þetta indæla par á reyndar von á barni í lok mars og ég veit ekkert hvers kyns það er og hef óskað eftir því að vera ekkert upplýstur um það. Ég vil hafa eitthvað til að hlakka til. Það er svo spennandi þegar barnið kemur í heiminn og maður heyrir kannski. " Fæddur er lítill heilbrigður drengur 16 merkur og 54 cm alveg eins og afi á Blönduósi"" Það get ég sagt ykkur að þetta gekk eftir og er engu ofaukið nema þá helst samlíkingin við afa sinn og hugsanlega gæti fæðingarþyngd og lengd eitthvað verið önnur en hann Jóhann Ingvi Hjaltason verður 6 ára á laugardaginn.


Múkkinn (fýllinn) er mættur þrátt fyrir úfinn sjó

Þetta er svolítið stílbrot hjá mér að vera með skrif sem þessi á fimmtudegi en það stafar af því að ég þurfti að bregða mér af bæ í gær. Ég er mjög þakklátur fyrir það að hafa getað sinnt erindum í gær og þverað tvo fjallvegi án teljandi vandkvæða. Í dag er kolófært til höfuðstaðar Norðurlands og ef satt skal segja þá finnst mér alltaf betra að vera veðurtepptur heima hjá mér en að heiman. Þetta stílbrot er þess valdandi  að ég fæ líklega enga harmonikkutóna frá Rúnari og ég var líka víðsfjarri þegar Glugginn kom í hús með auglýsinu um laust húsnæði í Lönguvitleysu. Ekki kom fram hvort þetta húsnæði væri til leigu eða sölu eða hvort það þyrfti bara að festa það en Arnar Þór bæjarstjóri veitir allar upplýsingar um það.

En hvað sem öðru líður þá er dagurinn í dag, dagurinn sem mestu skiptir eins og ég hef margoft sagt og hann verður að höndla. Þó svo veðurspár geri ekki ráð fyrir því að vorið sé handan við hornið þá er sílamávurinn mættur  sem og múkkinn og sést hefur til álfta og samkvæmt öllu er ekki langt í fyrstu grágæsirnar frá Bretlandseyjum.


Sílamávurinn er einn af fyrstu vorboðunum

En best er að láta þessu jafndægrasproki lokið og vitna í vísu eftir Sigurjón Guðmundsson oft kenndur við Fossa í Svartádal en af hans vörum nam einhver þessa vísu þegar hann átti leið fram hjá brunarústunum á Blöndubyggð 13 á dögunum.

Á Einarsnesi áður stóð,

aldrað hús með sögu.

Horfið er í heitri glóð,

hver stjórnar svona lögu.

(Sigurjón Guðm)

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 92
Gestir í dag: 57
Flettingar í gær: 75
Gestir í gær: 17
Samtals flettingar: 64980
Samtals gestir: 11584
Tölur uppfærðar: 5.5.2024 23:16:41