Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

26.03.2014 15:48

stóra - skiltamálið


Hvassviðri var við Húnaflóa í morgun og hitinn fór í 8 gráður

Það syngur og hvín í öllu og sunnanvindurinn æðir á ógnarhraða um grundir. Það skefur af bárum hafsins og fuglarnir hafa hægt um sig. Þó finnst mér líklegt að með svona öflugri sunnanátt fjúki farfuglarnir hreinlega á heimaslóðirnar.  Í gær á boðunardegi Maríu var fallegt veður fram til kl 16:30 en þá dimmdi í lofti. Ég var búinn að hlakka til þess allan daginn að eiga góðan eftirmiðdag  í björtu veðri og hægum vindi með minni myndavél á bökkum Blöndu. En eins og allir vita þá skipast oft veður skjótt í lofti og datt mér helst í hug að skaparinn hafi ákveðið á þessum boðunardegi að draga fyrir himnatjöldin meðan hann væri að skapa. Og mikið rétt, ég sá í hádeginu grágæsir hrekjast undan vindi en ná landi í Hrútey. Kunnugur segja að fyrstu grágæsirnar hafi komið í gær og má það satt vera. Nú verður spennandi að fylgjast með því hvort hin þrautseiga grágæs SLN skili sér nú í vor  á Blönduós í a.m.k. 15. sinn.


Stundum valda lítil skilti miklum vanda

Þó vindar blási hressilega á þessum degi þá næða líka snarpir vindar í samfélagslegu tilliti. Stóra skiltamálið sem hér hefur áður verið minnst á hefur náð áður óþekktun hæðum. Fyrir nokkru þá fjarlægði Jónas vert á Ljóninu vegamerki við þjóðveg eitt við innkomuna í bæinn sem vísaði veginn að hótel Blönduós. Þetta brotthvarf vakti ekki ánægju í samfélaginu og má geta þess að eigandi hótelsins var var enn svartari í andliti en venjulega  þó svo erfitt sé að greina húðlit á andliti hans fyrir svörtu skegginu.  Þetta mál hefur fengið dágóðan sess á æðstu stöðum og hverjum steini hefur verið velt við til að sýna fram að það að fullyrðing Jónasar um að hann eigi þetta skiltastæði sé ekki á rökum reist. Samkvæmt nýjustu fréttum þá hefur komið í ljós að hótelið eigi þetta skiltastæði  og mun Sölufelag A-Hún (SAH) sem á sínum tíma rak hótelið hafa fengið leyfi fyrir því og greitt fyrir það. Með þetta að leiðarljósi hefur það svo gerst að nú eru það fleiri en Jónas sem skrúfa niður skilti því búið er að fjarlægja öll verksummerki um Jónas á Ljóninu og meki hótelsins er komið aftur á sinn stað. Ég hef nú ekkert heyrt í Jónasi á Ljóninu eftir nýjustu atburðarásina en á nú ekki von á því að létt verði yfir kalli þegar hann fær fréttirnar. Ég hef aftur á móti hitt Óla hótelstjóra og verður að segjast eins og er að hann er assskoti prúnkinn með sig og telur sig hafa unnið fullnaðarsigur í stóra skiltamálinu og eins er það að hann telur miklar líkur á því að hótelið muni skipta um eigendur fljótlega ef það tekst að hnýta alla lausa enda á farsælan hátt. Í stuttu máli þá held ég að stóra - skiltamálinu sé ekki lokið því ef að líkum lætur mun Jónas á Ljóninu verða eins og grenjandi ljón við yfirvöld og telja að stórlega hafi verið gengið á hans hlut. Lítil skilti geta orðið stór standi til þess vilji. Reyndar þegar ég var búinn að skrifa framanritað þá hringdi Jónas í mig úr höfuðborginni og ég sagði honum helstu tíðindi af vesturbakkanum. Það get ég sagt með sanni líkt og  í storminum syngur og hvín að Jónasi var brugðið. Ekki var ég viss hvernig hann ætlaði að bregðast við þessum nýjustu tíðindum en eitt skynjaði ég að lögfræðingar voru honum ofarlega í huga. En ég endurtek bara að stóra - skiltamálinu er hvergi nærri lokið.


Fyrstu grágæsirnar komu á boðunardegi Maríu

Glugginn er kominn og er þar ýmislegt að finna eins og það að leikfélagið frumsýnir á föstudaginn leikverkið "dagbókin hans Dadda" . Krakkarnir í dreifnáminu (nafn sem ég er ekki alveg að "fíla") taka mikin þátt í uppsetningu þessa verks og ég veit að þau munu ásamt öðrum skila sínu hlutverki vel. Fergusonfélagið og  Landbúnaðarsafn Íslands verða með fund í Dalsmynni 1. Apríl og  austur- húnventskir kúbændur ætla suður í Borgarfjörð þar sem botninn ku leynast. Vísa vikunnar er eins og svo oft áður eftir Rúnar Kristjánsson og ratast honum eins og stundum áður rétt orð á munn þegar hann segir: Djúpar lægðir landið plægja/ lognmolla er hvergi til.

En Rúnar vinur minn og harmonikkuunnandi er hvergi sjánlegur og allar líkur á því að ég verði án hressandi tóna frá harmonikku Arnt Haugen eða Familien Blix svo einhverjir séu nefndir. Auk þess sit ég einn uppi með samhengi hlutanna  sem eins allir vita er nauðsynlegt að koma auga á.

Lifa munum leiða tíð

og látlaust mundað stálið.

Ei mun standa um stutta hríð

stóra - skiltamálið.

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 74
Gestir í dag: 52
Flettingar í gær: 100
Gestir í gær: 64
Samtals flettingar: 65062
Samtals gestir: 11643
Tölur uppfærðar: 6.5.2024 11:54:28