Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

11.06.2014 15:23

sparðatíningur á Barnabasmessu


Töfrabirta á Húnaflóa í gær

Enn einn miðvikudagurinn er runninn upp og þessi hefur yfir sér rólyndisblæ. Áttin er norðlæg og vindhraðinn kl 9 náði 2 metrum á sekúndu og hitinn er kominn í 11 gráður.  Það er frekar hægt að segja um daginn í dag að það sé skýjað veður en að það sé þokuloft en það gildir einu því upphaf þessa dags er grátt. Það ríkir kyrrð og friður hér í gamla bænum og lítið fór fyrir Jónatan í Sýslumannsbrekkunni í morgun en þegar liðið hefur á daginn hefur hann gert sig heldur betur gildandi og má segja að jörðin skjálfi undan honum. Það má eiginlega segja líkt og Björn á Löngumýri sagði forðum daga er hann átti erindi í Vatnsdalinn.  "Nú skelfur Vatnsdalur allur" , nú skelfur Aðlagatan öll.


Stokkandarkolla með unga á Blöndu, Hófsóleyjarnar eru í blóma

Kristján Pálsson oft kenndur við Hvíteyrar í Lýtingsstaðahreppi í Skagafirði beið mín þegar ég kom til vinnu eftir hádegi. Þegar ég sá  eðalvagninn sem hann var í og  stóð  fyrir utan hjá mér hélt  ég í fyrstu að kominn væri sjálfur forsetinn að greina mér frá því að forsetaembættið væri laust eftir tvö ár. Fljótlega koma hið sanna í ljós en ég orðaði þetta við Kristján sem er reyndar aðalpersónan í lagi Magnúsar Eiríkssonar " Kiddi Kadílakk"  og vildi hann þá ólmur taka mynd af mér við bílinn og því honum fannst nafn mitt og bíll hæfa, "Jón Sigurðsson forseti við forsetabílinn, ekki ónýtt það". Af þessari myndatöku varð þó ekki af skiljanlegum ástæðum.


Kristján Pálsson við Lincolninn sinn H-2. Kristján sem kann því vel að vera kallaður Stjáni blái eins og Kristján Þ. Júlíusson, er fyrirmyndin í lagi Magnúsar Eiríkssonar "Kiddi Kadílakk".

Glugginn er kominn og  er þar ýmislegt að finna líkt og jafnan. Hátíðarhöld verða á Blönduósi 17. júní  eins og venja er og harmonikkuhátíð verður í Húnaveri Jónsmessuhelgina. Gluggavísu vikunnar á að þessu sinni skáldið undir Borginni hann Rúnar og kastar fram þessari byrjun: "Yfirljósa opin dýrð/ á sér stöðu sanna. " Þar sem ég er bæði einfaldur og hugmyndasnauður þá datt mér fyrst í hug hvort hér væri verið að yrkja um háu ljósin á bifreiðum.


Ljós á Bakkastíg

Rúnar vinur minn Agnarsson hefur ekkert látið sjá sig í dag en hann staldraði við hjá mér í gær þá nýkominn í heillangt sumarfrí. Hann kastaði fram einhverri vísu sem byrjaði eins og honum er tamt. "Margt er það sem miður fer" en þó ég ætti líf mitt að leysa þá get ég ekki rifjað hana upp.

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 7
Gestir í dag: 3
Flettingar í gær: 67
Gestir í gær: 9
Samtals flettingar: 64820
Samtals gestir: 11513
Tölur uppfærðar: 4.5.2024 01:46:30