Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

18.02.2015 14:44

hugsað upphátt á "sníkjudýradegi"


Þreytist seint á að setja inn myndir af Kvennaskólanum á Blönduósi því fáar stofnanir hafa gegnt jafn miklu hlutverki í húnvetnsku samfélagi

Eitt er víst í henni veröld að við eldumst og nálgumst endalokin sem engin veit nákvæmlega hvar eru. Ef þetta er ekki að gerast hjá manni þá er maður einfaldlega dauður svo einfalt er það. Ferðalagið í gegnum lífið sem svo margir hafa ort um er æði misjafnt hjá hverjum og einum og líka hjá manni sjálfum og ekkert er sjálfgefið. Við erum ólík og förum misjafnar leiðir á þessu tímabili og smíðavinna gæfunnar er misjöfn. Sumir dansa gegnum lífið með bros á vör og aðrir böðlast áfram með hornin í allt og öllu. Tilbrigði lífsins eru svo mörg að eyjarnar í Breiðafirði og Vatnsdalshólarnir þó ótaldir séu blikna í tölfræðilegum samanburði. Í stuttu máli, lífið er óútreiknanlegt þó margt sé fyrirsjáanlegt hjá flestum. Hér áður fyrr meir (Guðmundur Jónsson skólastjóri) hélt ég að ég væri einstakur þverhaus og kynjakvistur hinn mesti því margt sem mínir nánustu töldu að venjulegur eiginmaður, faðir,  hefði gaman að eða ætti að gera hafði ég bara alls enga ánægju og jafnvel ama af. Með árunum hefur mér lærst að ég er ekki einn um mína sérvisku þegar ég heyri eiginkonur annar karla lýsa mönnum sínum og viðbrögðum þeirra nákvæmlega eins og ég hef gengið í gegnum. Ekki ætla ég að tiltaka nein dæmi en ég veit að flestir kynbræður mínir hafa skynjað hið sama með auknum þroska. Já ég er að eldast og ég verð ríkari og ríkari með hverju árinu sem líður og fyrir það þakka ég. Hvað er betra en vera ríkur og geta baðað sig upp úr auðæfunum dag eftir dag. Reyndar liggja ekki auðæfi mín öll inni á bankareikningi eða í hlutabréfum heldur er ég að tala um eilífðina sem er fólgin í börnum og barnabörnum. Fyrir rúmri viku bætist í minn ættarauð lítið barnabarn það sjöunda í röðinni. Litla barnið mitt hún Ásta (24 ára) eignaðist sitt fyrsta barn , stúlku sem vó 16 merkur og náði fæðingarlengd afa síns, 52 cm. Þarna liggur minn auður, ágætlega gerð börn og barnabörn, heilbrigð og þroskavænleg. Ég er ekkert að gleyma tengdabörnunum því með þeim hafa börnin mín aukið verðmætið.


 Set inn nokkrar myndir af sælgætissöngvurunum sem urðu jafnframt söngnum að greina frá ætt og uppruna

Til mín í morgun komu tveir Skarphéðnar sem báðir eru skírðir í höfuðið á Skarphéðni Einarssyni (Andréssonar frá Bólu) frá Ytra Tungukoti. Erindi þeirra voru misjöfn en ánægju hafði ég af heimsókn þeirra nafna því þeir kunna frá mörgu að segja. Ég spurði Skarphéðinn Ragnarsson að því hvort afi hans og nafni, þekkt skytta á sínum tíma, hafi skotið með riffli botnin úr glerflösku sem þeytt hefði verið upp í loft með þeim hætti að skotið hefði farið í gegnum stútinn og tekið botnin úr. Ekki kannaðist Skarphéðin R við það en sagði sögu af afa sínum þegar hann skaut af löngu færi hunangsflugu á húsvegg. Þessu get ég alveg trúað því þeir Skarphéðnar sem frá Skarphéðni skyttu frá Ytri-Tungukoti eru komnir og ég þekki eru slík ólíkindatól að sannleikurinn verður lyginni líkastur.


Ekki er hægt að skilja við þessi skrif án þess að nefna vertinn í Ljóninu hann Jónas Skafta. Hann bað mig á mánudaginn að kanna fyrir sig hvort kisan hans hún Bella væri ekki örugglega á sínum stað á Ljóninu. Hann hafði heyrt það annarsstaðar frá að kötturinn væri týndur og hafði af því nokkrar áhyggjur, staddur víðsfjarri í höfuðborginni. Ég lofaði að líta eftir Bellu þegar ég færi heim eftir vinnu. Ég lagðist á gluggann þar sem Bella dvelur jafnan fyrir innan og kallaði nafn hennar. Ekki leið á löngu áður en hin grábröndótta kisa sem að mörgu leiti er ólík húsbónda sínum svaraði mér og það ákaflega með hinu auðþekkjanlega kattarmáli "Mjáááá" og færðist í aukana eftir því sem samtali okkar vatt fram. Bella stökk út um gluggann og heilsaði mér og vildi vísa mér leið inn um aðaldyrnar en ég sagði henni að inn um þær dyr gæti ég ekki farið því engin hefði ég lyklavöldin. Sagði ég Bellu að það væri nú bara réttast fyrir hana að fara bara aftur í sitt fyrra fleti í kjallaranu. Það voru mörg mjáin sem ég fékk frá Bellu áður ég hélt mína leið og verð ég að viðurkenna að ég fann svolítið til með hinni geðþekku en einmanna Bellu. Bráðum verð ég einn eftir í kjallara líkt og Bella því vínbúðin er að flytja frá mér út fyrir á.


Glugginn er kominn og hinn landsþekkti hagyrðingur Magnús Ólafsson frá Sveinsstöðum á Gluggavísu vikunnar sem fjallar að sjálfsögðu um frægasta Húnvetninginn þessa dagana, hana Maríu Ólafsdóttur (dóttir Ólafs Baldurs frá Kringlu)  Júróvisionfara.

En hvað sem öðru líður þá er suðaustan kaldi utandyra með 4 gráðu hita og skýjuðu veðri og þetta er afmælisdagurinn minn. Ég hef verið kysstur af tveimur konum, mátt þola smá hnjóð en ekkert sem getur spillt deginum. Að auki er þetta stóri "sníkjudýradagurinn" þegar börnin fara á milli fyrirtækja og syngja í von um góðgæti.

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 62
Gestir í dag: 14
Flettingar í gær: 78
Gestir í gær: 46
Samtals flettingar: 68637
Samtals gestir: 12467
Tölur uppfærðar: 17.5.2024 07:19:11