Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

08.04.2015 15:49

"kulnar eldur nema kyntur sé"


Svona dagar voru fátíðir í vetur en velþegnir. Brekkan og Spákonufellið

Nú eru páskar að baki, sólin hækkar stöðugt á lofti  en skógarþrestirnir láta ekki sjá sig. Þröstur minn góði, hvar heldur þú þig í þessu landi lægðanna? Það hefur mátt ganga að því vísu að þrestirnir hafi byrjað  sinn morgunsöng fyrir okkur hjónin  þann 31. mars ár hvert en ekki núna. Það er rúm vika frá mánaðarmótum og ekkert bólar á þessum ágæta fugli sem Jónas, fæddur á Hrauni í Öxnadal gerði ódauðlegan á sínum tíma. Mér stendur ekki á sama, það er hökkt í náttúrunni. Grágæsirnar sem venjulega eru farnar að streyma í stórum stíl í heimahagana á Blönduósi eru hikandi og það er hægt að telja þær sem komnar eru á fingrum beggja handa og tám hægri fótar. Já það er hik á vorinu en eins og svo oft áður þá hefur maður orðið vitni á því að það kemur og fer oft  á vordögum og jafnvel fram á sumar.


Fyrstu gæsirnar komu 26. mars en þeim hefur lítið fjölgað síðan þá

Þó hik sé á einstaka farfuglum þá er ekkert hik á Jónasi vert á Ljóninu. Hann kom eins og svo oft áður 1. apríl. Það er semsagt búið er að aftengja Sólu rútu rafmagninu í Laugardalnum og vaggar hún núna blíðlega í suðvestan bálinu fyrir utan Ljón norðursins. Blái leigubíllinn hans Jónasar setur líka svip sinn á umhverfið því hann er eins og akandi auglýsing fyrir skyndibita og annað góðgæti en falleg er myndin af afstelpum hans og Bellu sem einnig prýðir bílinn bláa. Enn einn bíl á Jónas en það er gamall Bens trukkur með "boddýi" sem ætlað er að gegna hlutverki eldhúss fyrir ferðamenn sem gista. Einn ljóður er á trukknum að lofthæðin í "boddýinu" er ekki nema 180 cm og því eiga hávaxnari ferðamenn en þessari lofthæð nemur á hættu að verða fyrir höfuðáverkum við morgunverkin í eldhúsbílnum. En það er svo með þetta eins og svo margt annað sem Jónas kemur nærri að vandamálin má leysa með einföldum hætti. Jónas hefur í hyggju að taka mál af ferðmönnunum við komu og skipa þeim í viðeigandi eldhús til matseldar, þ.e.a.s. þeir sem ekki ná 180 cm verða sendir í "boddýið" en hinnir hærri í eldhús í kjallara Ljónsins. Hlutirnir þurfa ekki að vera flóknir ef gengið er skipulega til verks.


Eldhúsbifreið Ljónsins fyrir alla þá sem eru lægri en 1,8 metrar

Nú er liðinn meira en mánuður síðan "Ríkið" yfirgaf mig og hef ég fundið fyrir mikilli samkennd samborgaranna. Þeim finnst ég yfirgefinn og umkomlaus, einn í 100 fermetra húsnæði og hafa sumir haft á orði að hin mikla þögn sem nú ríkir á bloggsíðu minni megi rekja til þessara aðstæðna. Vel getur það verið að einhverju leiti því óneitanlega er til muna minni umferð í kringum mig eftir þessar umbreytingar og færri samborgarar sem kveikja undir frásagnargleðinni því það er aldrei svo að einstaka maður kallar stundum fram myndir í huganum. Hingað kom maður í dag og spurði mig hreinlega hvort ekki væri allt í lagi með mig og var farinn að undrast þess gafarþögn á heimasíðunni. Hann gekk meira að segja svo langt að tala um að hann væri farinn að finna fyrir fráhvarfseinkennum vegna ekkiskrifa minna. Ég komst nú hálfpartinn við er hann sagði þetta því satt best að segja þá hélt ég að fáir hefðu af þessu gaman. Ég fór ósjálfrátt að leita að góðum málshætti sem mætti tengja við þessi orð þessa einstæða manns sem saknar skrifa minna til að réttlæta áframhaldandi skrif. Ef ég á að vera hreinskilinn þá lenti ég bara í bölvuðum vanda því þegar ég var búinn að finna málshátt þá rifjaðist nánast samstundis upp annar sem lagði til að ég léti hér staðar numið. Mér datt svona í hug að málshátturinn "á misjöfnu þrífast börnin best" og jafnvel "betri eru fimmtán ær aldar en tuttugu kvaldar" gætu átt við. Þessi síðasti olli mér svolitlu hugarangri því hann er tvíbentur en hughreysti mig svo með  "kulnar eldur nema kyntur sé" en komst svo að því að  "ræðan er silfur en þögnin gull". Að þessu skrifuðu er niðurstaðan sú ein  að framritaðir málshættir eru ekki síðri en þeir sem ég heyrði af vörum ættingja og vina þegar þeir lásu máshætti þá er í páskaeggjunum þeirra leyndust.

Æðarfuglinn og skarfurinn hafa dvalið hér við flóann í allan vetur en þrestir og gæsir láta bíða eftir sér

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 71
Gestir í dag: 16
Flettingar í gær: 78
Gestir í gær: 46
Samtals flettingar: 68646
Samtals gestir: 12469
Tölur uppfærðar: 17.5.2024 08:09:06