Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

22.04.2015 16:22

síðustu andartök vetrar




Húsin í norðausturhluta gamla bæjarhlutans

Þá er síðasti vetrardagur runninn upp og framundan er sumarið 2015. Mér fannst þessi vetur sem er að líða leiðinlegur í veðurfarslegu tilliti og kveð hann með takmörkuðum söknuði. Þó svo þessi vetur hafi verið svona eins og hann var þá var hann bara þannig og bætist við enn einn veturinn sem ég hef lifað, hann er kominn í minningana sjóð.

 Sumardagurinn fyrsti, einnig kallaður Yngismeyjardagur, er fyrsti dagur Hörpu, sem er fyrstur af sex sumarmánuðum í gamla norræna tímatalinu. Íslensk þjóðtrú segir að ef sumar og vetur frjósi saman boði það gott sumar, en með því er átt við að hiti fari niður fyrir frostmark aðfararnótt sumardagsins fyrsta. Hvergi hef ég séð neina úttekt á því hvort eitthvað sé hæft í þessari þjóðtrú og gæti hún verið álíka gáfuleg og speki skagfirðings nokkurs sem sagði að frysi saman Jónsmessa og Verslunarmannahelgi þá yrði gott í Laufskálarétt.


Gæsin AVP er komin í heimahagana en hún var merkt sem ungi árið 2000

Eins og ég hef einhversstaðar sagt frá þá hafa grágæsirnar hópast í heimahagana síðustu daga og í þeim hópi er ein gæs sem merkt er með fótamerki sem ber stafina AVP. Þessi gæs er líkast til sú síðasta af gæsunum sem merktar voru við Sýsluskrifstofuna í júlí árið 2000 en gæs sem bar hálsmerki með einkennisstöfunum SLN er líkast til öll. Samkvæmt áræðanlegum heimildum frá Skotlandi þá er AVP með elstu merktu gæsum sem vitað er um en hún verður 15 ára í byrjun júní. Elsta gæsin sem ber merki hefur náð 20 ára aldri þannig að nú þarf AVP að tóra aðeins lengur til að komast í metabækur.


Vonandi lendir sumarið jafn mjúklega og þessar gæsir á Blöndu

Það hefur komið fram á þessum vettvangi að margir hafa af mér "þungar" áhyggjur vegna einsemdar minnar eftir að vínbúðin var frá mér tekin.  Af þeim sökum koma ýmsir í heimsókn til að bera mér heillaóskir og berja mér baráttuanda í brjóst. Yfirleitt átta menn sig fljótt á því að á mér hefur orðið til þess að gera lítil breyting þannig að hægt er að hefja allar umræður á æðra plan. Til dæmis bara í dag hafa þó nokkrir komið til þess eins að gleðja mig og halda að mér veröldinni. Sem dæmi má nefna að hingað leit inn Vignir Einarsson fyrrum kennari svo og vinirnir Hilmar Snorra og Jónas vert á Ljóninu. Rifjaðar voru upp sögur af hinu og þessu úr fortíðinni og stiklað á stóru. Gamlar sögur úr Vélsmiðjunni og sögur af veislum höfðingja í Vatnsdal voru rifjaðar upp svo eitthvað sé nefnt. Jónas á Ljóninu sagði okkur samtímasögu frá Ljóninu sem fjallaði um rafvirkja sem tengdi hjá honum pizzaofn í morgun. Tjáði Jónas að um mánaðrmótin gæti hann farið að framleiða pizzur og og jafnvel að senda vöruna heim.  Jafnframt kom fram að Jónas og a.m.k Jóhann Viðar "kjölfestufjárfestir" ætla í kvöld í Húnaver að fagna 90 ára afmæli hjá  Bólstaðarhlíðarkórnum.


Það þarf líka að þrífa vængjakrikann

Þegar ég leit yfir Glugga dagsins þá rak ég augu í vísu vikunnar sem að þessu sinni er eftir hana Önnu Árnadóttur á Blönduósi. Vísan er látlaus og einföld og alls ekki til þess fallin að flækja veröldina:

"Þegar lífinu líkur

legst maður niður og deyr.

Glóran og veröldin víkur

- svo vitum við ekki meir."

 

Þessi vísa minnti mig sem snöggvast á lífsspekivísu eftir Valgarð Ásgeirsson heitinn  sem var eiginmaður Önnu Árna. Valli Ásgeirs var einstakur á margan hátt og kom oft auga á hið einfalda og skemmtilega í lífinu en þessi vísa er svona:

 

Uppí Hæli voru tveir,

Jón og Tolli heita þeir.

Ef að annar þeirra deyr,

Þá eru þeir ekki lengur tveir.

 

Lífið er einfallt þrátt fyrir allt. Gleðilegt sumar  


Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 25
Gestir í dag: 3
Flettingar í gær: 78
Gestir í gær: 46
Samtals flettingar: 68600
Samtals gestir: 12456
Tölur uppfærðar: 17.5.2024 03:41:21