Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

03.11.2010 10:12

Það skelfur víðar en undir Blöndulóni

Það er kominn vetur. Um það getur engin villst lengur því nú er allt orðið hvítt og svolítið snúnara að fara á milli staða. En á þessu áttu menn von, sérstaklega þeir sem eiga í fórum sínum dagatal sem þeir horfa reglulega á. 
    Það skelfur víðar en undir Blöndulóni þessa dagana. Um helgina stóð Vesturbakkinn svo sannarlega undir nafni því samkvæmt áræðanlegum heimildum (Jónas sjálfur) bankaði lögreglan uppá hjá Ljóninu á laugardagskvöldið og bað gesti að yfirgefa svæðið. Samkvæmt Jónasi þá gaf lögreglan ekki upp neina ástæðu fyrir þessum gjörningi en hann hafði þó grun um að meintar ófullnægjandi brunavarnir væri ástæðan. Rýming hússins gekk vel að sögn Jónasar enda gestir sem voru hjá honum vanir rýmingu (
http://www.huni.is/index.php?pid=32&cid=6842)  . Jónas sagði að þeir sem hafi verið þarna hjá honum á þessu rýmingarkvöldi hafi aðallega verið menn sem hefðu verið á námskeiði í brunavörnum hjá slökkviliðstjóranum á Blönduósi. Reyndar sagði hinn margreyndi baráttumaður Jónas á Ljóninu að lögreglan hefði litið inn hjá honum á föstudagskvöldið en ekkert aðhafst. Er mjög líklegt að það hafi verið vegna þess að þeir fáu gestir sem þá heimsóttu Jónas væru ekki eins liprir í rýmingu og þeir sem komu kvöldið örlagaríka.  Sem sagt, það ríkti nánast stríðsástand á Vesturbakkanum og því skal ekki neitað að Jónasi var mikið niðri fyrir er hann sagði þessar fréttir og allsendis ósáttur við vinnubrögð yfirvalda í málinu. Verst þótti honum að lögreglan gaf enga skýringu á útrýmingu gesta ( hefði getað orðað þetta "rýmingu út af ....) af kaffihúsinu Ljóni norðursins og er næsta víst að síðasta orð í þessu stríði hefur ekki verið sagt.
    Á meðan lögregluaðgerðir á Ljóninu áttu sér stað var í svo til næsta húsi, nánar tiltekið á veitingahúsinu Kiljunni, haldin heljarinnar veisla  sem samkvæmt áræðanlegum heimildum stóð eitthvað fram eftir nóttu. Myndir frá herlegheitunum vorum komnar á " Feisbókina" nánast daginn eftir og á þeim má glöggt sjá að margir skemmtu sér konunglega. Það er engu logið að lífið fer hraðar yfir vestan við  ós Blöndu þó allt virðist fellt og slétt á yfirborðinu.

    Rúnar stígur núna út úr rauðu Súkkunni sinni með Gluggann undir hendinni. Rauða Súkkan  fer ákaflega vel við nýfallin snjóinn. Svona líkt og blóðdropi fallinnar rjúpu  í drifhvítri mjöllinni. Honum fylgja látlausir valshljómar frá Harmonikkudrengjunum margfrægu og lagið sem líður út í miðvikudaginn ber það frumlega nafn Laugardagsvalsinn. 
    Glugginn er þunnur að þessu sinni en innihaldsríkur. Það vekur athygli að Gluggamenn hafa komið með brennivínsvísu eftir Pál Ólafsson sem vísu vikunnar í framhaldi af því að Heilbrigðisstofnunin tekur núna einungis blóðsýni fyrstu þrjá daga vikunnar milli kl 8 og 9. Menn geta svo sem lesið hvað sem er út úr þessu og líka því að Domus gengið er aðalega í því að selja hesthús þessa dagana. 
    En hvað sem þessu líður þá þarf að reka endahnút á þessi skrif og koma þeim í rökkrétt samhengi líðandi stundar og það hefur okkur sárasjaldan mistekist.

Um Jónas á Ljóninu stendur oft styr.
Stundum menn setj´ ann  í hlekki.
 Og slökkviliðsmönnum er skutlað á dyr
Jah!, söm veður veröldin ekki.

27.10.2010 11:09

Hrópandinn í eyðimörkinni



    Ég held að þessi vísa sem hér fylgir sé eftir Lúðvík Kemp og fjallar um hvað veðurfar hefur mikil áhrif á geðsmuni manna og athafnir.  Hún gæti líka átt við hið pólitíska veður sem nú gengur yfir þjóðina:

Úti er hríð og algert bann
á öllu er þíðir geðið.
Skammir og níð um náungann
nú er víða kveðið.

    Það hefur verið grundvallarregla í þessum skrifum að halda hinu pólitíska dægurþrasi í sem mestri fjarlægð. Það hefur stundum verið ansi erfitt þegar mest hefur gengið á en með því að þvælast örlítið um bloggheima á hinum ýmsu netmiðlum þá verður manni ljóst að rödd úr þessum ranni væri lík rödd hrópandans í eyðimörkinni. Ef að einhver greinir pólitískan ilm úr þessum skrifum þá bið ég ykkur í guðanna bænum að tengja vin minn Rúnar Agnarsson ekki þar við því ópólitískari mann þekki ég vart. Hann hefur sínar skoðanir á lífinu og tilverunni og er sammála mér að Guðsorð og góðir siðir skaða ekki nokkurn mann og ef eitthvað er þá eru þeir til bóta.
    Lífið í mínun friðsæla bæ hefur einkennst töluvert af því undanfarna daga að bregðast við niðurskurði í velferðarkerfinu. Menn halda fundi, safnast saman, já og standa saman og láta í sér heyra. Baráttumenn eins og t.d. Jónas Skafta sem barið hafa á bæjarapparatinu, byggingafulltrúum og slökkviliðsstjórum árum saman eru víðsfjarri. Jónas hefur góða fjarvistarsönnun því hann þarf eins og flestir að hafa í sig og á og er því fjarri sínum heimahögum í þeim erindagjörðum.  
    
    Reyndar er það svo að það er svolítið einkennandi við þessi mótmæli sem nú ganga yfir landsbyggðina að mótmælendur eru flestir konur. Kannski hafa ráðamenn áttað sig á því að þörfin fyrir kynjagreind fjárlög sé bráðnauðsynleg í ljósi ofanritaðs.
    Það er gaman að geta þess fyrst minnst var á Jónas Skafta hér að framan þá mun hann koma norður um helgina og hafa opið á föstudag og laugardag og ætlar hann m.a.  að kynna fyrir gestum og gangandi starfsemina á Ljóninu næsta sumar og klikkir út með því að segja: "Ljónið með allt á hreinu". Nágranar hans í norðri á Kiljunni ætla líka að vera með húllumhæ og bjóða upp á andlegar sem veraldlegar veitingar. Tekið verður á móti matargestum með glasi af freyðivíni og léttri músik. Forréttur er tartalettu rækjukokteill.
Svo er boðið upp á tómatsúpu með núðlum og spæsí með rjómatopp. Puru svínasteik með kartöflum, salati, sósu og sultutaui er aðalrétturinn og Jollu vöfflur með ís, rjóma, ávöxtum, sósu og kaffi verður í eftirrétt.

    Á föstudaginn hefst rjúpnaveiðitímabilið. Ég veit það að þónokkrir hér á Blönduósi sem og brottfluttir bíða spenntir eftir því að komast til fjalla og veiða sér fugl í jólamatinn. Þetta gerði ég á sínum tíma og gekk á hin ýmsu fjöll í sýslunni. Oftast var ég einn á ferðinni og líkaði mér það vel. Það er eitthvað svo kyngimagnað að vera einn með sjálfum sér efst í hlíðum fjalla og setjast niður og hvíla lúin bein og fá sér samloku með þykkri sneið af lifrapylsu, kaffi í krús og horfa yfir byggðina og sjá hversu smáir við mennirnir erum í umhverfinu.
 
    Þá er Rúnar blessaður mættur enn og aftur með Gluggann á þrjúhundraðasta degi ársins og ljúfur vals hljómar um Aðalgötuna. Hvort sem þið trúið því eður ei þá var það hinn margfrægi Snevals með Harmonika Drengene sem var undir geislanum. Þetta er vel við eigandi því Rúnar hefur líkt og ég hlustað á veðurspánna og þar er gert ráð fyrir því að senn fari að snjóa.
    Hvað segir Glugginn blessaður í dag. Fyrir utan gleðina á börum gamla bæjarhlutans kennir ýmissa grasa. Má þar nefna að Domusgengið er að selja nánast öll hesthús í bænum og menn geta fengið sprautu við inflúensu á Heilsugæslustöðinni.
    Ekki má veiða rjúpur í Langadalsfjalli utanverðu og búgreinasamtökin eru farin að minna á uppskeruhátíð sína sem haldin verður eftir mánuð. 
    Vísa vikunnar er á sínum stað og þarf ekki lengur að segja frá því að hún er eftir hinn magnaða hagyrðing Rúnar frá Skagaströnd. Hann er við sama heygarðshornið og sendir hildarleik stjórnmálanna kveðjur og við Blönduós-Rúnar tökum bara undir og segjum eins og stórskáldið forðum " Ég bið að heilsa".
    En á þessum grámyglulega en heillt yfir ágæta miðvikudegi þarf að gera upp og koma auga á samhengið. Það gæti verið eitthvað á þessa leið:
   
Inn um gengur dyr með Gluggann
galvaskur Rúnar, árans kjóinn.
Varpar ljúfur  ljósi á skuggann
með líflegum valsi um vetrarsnjóinn.

20.10.2010 09:55

Hófstilltir í haustblíðunni

    Það hefur gránað aðeins í fjöll og veturinn farinn að minna á sig en vindurinn er til friðs. Hér gæti ég látið staðar numið því ég hef í sjálfu sér ekkert merkilegt að segja og þessi frásögn af veðrinu er upplýsandi og flestir hér um slóðir sammála mér um hana. Sumir gætu sjálfsagt sagt að fullmikið væri að segja gránað, þetta væri svona frekar hélugrátt eða þaðan af minna en það er nú bara eðlilegt að menn komi sér ekki alveg saman um mál sem engu máli skifta í samfélagsumræðunni. 
    Það gerist ekki margt hér í gamla bænum og á Brekkubrúninni fyrir ofan. Þó má geta þess að tveir hrafnar gerðu sér að leik um daginn að hrekkja hund einn svartan  með ljós í skotti. Þeir létu hann hlaupa og hoppa um alla Brekkubrúnina í dágóða stund og flugu svo á braut í stóískri ró þegar þeir voru búnir að gera hann að fífli, örþreyttan og kominn á rassinn í brekkunni fyrir ofan gömlu kirkjuna. Nonni hundur tók ekki þátt í þessum leik enda sýnist mér sá hundur orðinn nokkuð upplýstur og vel upp alinn.
    Það má til gamans geta þess að nú fyrir skömmu tókst loksins að ná stiganum á norðurhlið Stefánshúss alveg niður á jörð og þurfti ekki minni mann en Stefán Pálsson og Jobbuna hans til að svo mætti verða.  
    Húnaflóinn er fallegur í dag. Sólin skín á hann og einn og einn selur rekur upp kollinn svona til átta sig á veröldinni og einmana mávar flúga ýmist til austurs eða versturs með ströndinni svona eins og þeir hafi eitthvað sérstakt í huga. Æðarfuglinn vaggar sér á mildum öldum nærri flæðarmálinu og leitar eftir æti. Það er ekkert óeðlilegt við hina óbeisluðu náttúru hún rúllar svona áfram af gömlum og góðum vana og er í eðli sínu íhaldssöm. Hún lýtur sínum lögmálum og lætur okkur mannskepnunni eftir að streytast og þjást .


    Núna kemur Rúnar með Gluggann þennan bjarta og stillta októbermánuð og það heyrist ómur frá Súkkunni hans , einhver lagstúfur sem minnir töluvert á lagið sem Baldur og Konni fluttu um árið og var einhvern veginn á þessa leið. "Ha, ha, ha, hlustaðu á nú hef ég sögu að segja frá" Mig minnir að þetta hafi fjallað um einhverja þjóðþekkta Búkollu  og einhvern öskrandi bola en lagið er kunnuglegt.  
    Glugginn í dag er óvenju efnismikill og kennir þar margra grasa. Það er farið að minna okkur á að ekki megi skjóta rjúpur um allar koppagrundir án leyfis og allskonar námskeið eru í boði. Gospel-tónlist og bændafundir eru einnig á boðstólum og ekki má heldur gleyma hinu árlega styrktarsjóðsballi hvar hinn heimsfrægi Geiri frá Geirmundarstöðum í Sæmundarhlíð mun leika fyrir dansi.
    Vísa vikunnar er enn á sínum stað og enn er það Rúnar hinn hagmælti frá Skagaströnd sem segir okkur frá ógnarskepnunum, þeim ESB og AGS. Hvar skyldi Erlendur stórskáld frá Stóru-Giljá halda sig um þessar mundir. Maður er farinn að sakna vísnagerðar hans því úr þeim ranni veit maður aldrei hvar á mann stendur veðrið. Reyndar sagði sjúkrahús Valbjörn mér að hann ætti vísu eftir Erlend sem hann lofaði að senda mér eins fljótt og auðið væri. Fannst mér þetta hvalreki.
    
    En við Rúnar erum sem fyrr komnir upp að vegg með samhengi hlutanna í lausu lofti og nauðbeygðir til að hafa á þeim stjórn og koma á þá böndum og það gerum við best með eftirfarandi vísu:

Á Brekkunni hrafnarnir hundinum stríða,
hafið er fallegt og blátt.
Í haust hefur staðið hér stórbrotin blíða
sem nær bara alls engri átt.

13.10.2010 11:37

Móðir í mótlæti en óbugaðir

    Að minnsta kosti 300 manns komu saman við Héraðshælið á Blönduósi í gær og héldu fylktu liði í Félagsheimilið til að mótmæla niðurskurði ríkisstjórnarinnar á framlögum til heilbrigðismála í A-Húnavatnssýslu. Mikill einhugur ríkti meðal funadarmanna og var greinilegt á öllum að þeim var verulega brugðið. Það var samdóma álit fundarmanna að þessi niðurskurður væri algjört rothögg fyrir samfélagið. Fólkið væri svift örygginu og það þýddi bara að grafið væri undan grunnstoðunum  samfélags okkar. Ekkert samráð hefur verið haft við heimamenn um þennan niðurskurð og ef hann gengur eftir þýðir það einfaldlega að um 17 manns  missa atvinnuna á sjúkrahúsinu og það hefði síðan áhrif út í allt samfélagið og nefndu sumir að þetta þýddi að 70 - 80 manns hyrfu af atvinnumarkaði í héraðinu. Margir tóku til máls á fundinum og lýstu áhyggjum sínum og komu sumir fram með þá frómu ósk að fá að fæðast, lifa og deyja í sinni heimabyggð.
Pálmi Jónsson fyrrverandi ráðherra og reynslubolti í fjárlaganefnd lýsti því yfir að hann hefði aldrei orðið vitni að annarri eins aðför að að landsbyggðinni " Mér gjörsamlega blöskrar" sagði hann að lokum

    Samþykkt var samhljóða  svohljóðandi ályktun í lok fundar
    "Íbúafundur sem haldinn er á Blönduósi þann 12. okt. 2010 mótmælir harðlega boðuðum niðurskurði á Heilbrigðisstofnunni

á Blönduósi (HSB) og birtist í fjárlagafrumvarpi 2011. HSB hefur á undanförnum árum þurft að sæta miklum niðurskurði og er nú svo komið að vegið er illilega að lögboðinni grunnþjónustu og velferð íbúa A-Húnavatnssýslu. Við þetta verður ekki unað og skorað er á ríkisstjórnina að draga til baka þessa aðför að HSB."
    Þetta skrifaði ég í gær og er upplifun mín af fundinum. Ég leyfi mér að segja að sjaldan eða aldrei hef ég skynjað eins mikinn einhug meðal A-Húnvetninga og gott til þess að vita að menn geta staðið saman þegar á bjátar. 

    Rúnar er kominn með Gluggann  á mildum miðvikudegi og lag nr 16 af 13 laga diski hljómar út í daginn. Um er að ræða fjörugan mars sem við vitum ekkert hvað heitir enda er hann ekki nefndur á plötuumslagi sem einungis gefur upp nöfn á þrettán lögum. Kannski að Rúnar ætti að spyrja þann sem seldi honum hann, því eins og komið hefur fram hefur hann keypt fleiri lög en hann átti von á.
    Athyglisvert er að sjá að Domusgengið hefur breytt auglýsingunni um húsið góða á Urðarbrautinni og tekið út að sólpallur sunnan við húsið snúi móti sól en í staðinn er komið barnaleikhús sem teljast verður gott fyrir stóra barnafjölskyldu.
    Glugginn er að öðru leiti á eðlilegum nótum, þunnur en fullur af fróðleik. Fólk getur látið bólusetja sig fyrir flensu en mikið væri nú gott að geta fengið bólusetningu gegn leiðinlegum fréttum sem nú tröllríða samfélaginu.
    Nokkrar hryssur verða boðnar upp í Skrapatungurétt og nóg er um að vera á Textílsetrinu.
    Vísa vikunnar er eins og venjulega eftir Rúnar Kristjánsson á Skagaströnd og fjallar á hnitmiðaðan hátt um það sem ég fer nokkrum orðum um hér að framan í þessum pistli.

    En það er þetta sígilda verkefni okkar félaga að koma auga á hið gullvæga samhengi hlutanna. Þjappa tilverunni í hnitmiðað form þannig að veröldin sé eins og vel flakaður þorskur á vinnsluborði fiskverkandans.

Óánægja er í mörgum
enda ekki skrýtið.
Sama hversu þétt við þvörgum
það kemur fyrir lítið.

En áfram veginn einbeitt göngum
enda ekki skrýtið.
Því ef við bar´ á hökum höngum
harla gerist lítið.

05.10.2010 17:35

Undir suðurvegg mót suðri

    Haustið er komið, ég er kominn heim og Atli kirkjueigandi er farinn suður og heldur til Ameríku á föstudag. Menn eru alltaf að koma og fara, það er bara einhvern veginn þannig og líkast til verður því ekki breytt. Við komum í heiminn og við förum úr honum eftir mislangan tíma, þetta er bara gangur lífsins. En frá því við komum og þar til við förum gerist alltaf eitthvað, mismikið eins og gengur. Sumir fara syngjandi gegnum lífið en aðrir hafa óþægileg horn sem alltaf eru að rekast utan í ; eins og ég segi, þannig er þetta bara. 
    En ég er kominn heim eftir misvel heppnað ferðalag til Tenerife en góða dvöl með minni konu og yndislegu samferðafólki þeim Gróu mágkonu og Mumma svila. (kalla hann stundum svakasvila).  Það er óþarfi að segja ferðasöguna í smáatriðum þó svo ég hafi skráð hana í dagbók mína en tel svona mér til minnis að rifja upp síðasta daginn okkar á Tenerife. Við hjónin vöknuðum upp svona um kl. 8 miðvikudaginn 29.sept. Ég var seinni fram úr því ábyrgðartillfinning kvenna er víst meiri hvað varðar pökkun í ferðatöskur. Við áttum að skila íbúðinni kl. 12 og við vissum að ferð okkar heim hafði seinkað  töluvert vegna allsherjar verkfalls á Spáni. Upphaflega stóð til að við yfirgæfum hótelið kl 12:45 en það frestaðist til kl 19:20. Við vorum sátt við það því við græddum einn sólardag og enn var töluvert eftir af rauðvíni og mat á Tenerife. Við nutum dagsins í botn í stuttu máli. Önnur af tveimur flugvélum  Iceland Express lagði af stað um kl 22 og í þeirri vél vorum við sem að framan greinir. Fljótlega eftir flugtak er spurt í í hátalarakerfi flugvélar hvort læknir væri um borð. Svo reyndist vera og var hljótt í flugvélinni um stund en tilkynnt að flogið yrði styðstu leið til Íslands, yfir hafið og heim. Eftir tæplega tveggja tíma flug var tilkynnt að lenda þyrfti í Lissabon vegna þess að einn farþegi um borð væri alvarlega veikur. Þetta skyldu allir um borð og er hinn veiki farþegi hér með úr sögunni. Eftir mikla skriffinnsku og reglugerðaverk hélt förin áfram en okkur tilkynnt að lenda þyrfti í London Gatwick til að skipta um áhöfn því komið var fram yfir vinnutímareglur flugáhafna samkvæmt flugstöðlum. Flug 526 frá Tenerife til Keflavíkur kom til London um kl 6 morguninn 30. september og biðum við róleg eftir því að skipt yrði um áhöfn. Áður en við vorum beðin um að yfirgefa flugvélina þá var okkur tilkynnt að engin áhöfn væri til staðar í London og yrðum við að bíða í flughöfninni fram til kl 11:30 er okkur var skipað út í rútu sem flutti okkur að flugi nr eitthvað annað en flugið sem við lögðum uppí frá Tenerife. Þegar klukkan í Big Ben sló 12:30 hófst  áætlunarflugflug Iceland Express: London - Keflavík. Í Keflavík var lent um kl 15 samkvæmt Evrópskum tíma en við gátum fært klukkuna aftur um klukkutíma og grætt þar með tíma sem því nam. Til að vera jákvæður þá var boðið upp á hálft vatnsglas frá Lissbon til London og frá London til Keflavíkur var öllu áfengi haldið frá okkur og sjá allir að þar var forvarnarstarf í áfengismálum í hávegum haft. Þetta kom sér afar vel fyrir mig því ég átti eftir að keyra heim á Blönduós eftir þetta mikla ferðalag um ríki Evrópusambandsins. Þegar við hjónin komum heim á Blönduós um kl 19:15 í steikta lifur og nýjar kartöflur úr Selvíkurgarðinum sem hún tengdamóðir mín framreiddi voru liðnir um 35 klukkustundir frá því við vöknuðum í þessa miklu heimferð. Núna bíð ég bara eftir aukaareikningi frá Mattíasi Imsland fyrir aukalendingar hingað og þangað um Evrópu og vatnsglasið sem við þáðum milli Lissabon og Lundúna.


    Mig langar aðeins að undirstrika það að Atli Arason kirkjueigandi sem fyrr er hér nefndur hefur unnið gott starf við endurreisn gömlu kirkjunar í sumar og má segja að hún sé komin í það form að sómi er af. Hafðu þökk Atli fyrir þitt framlag, gamli bærinn er betri eftir veru þína þar. 
    Að öðru leiti fjalla ég lítið um lífið í gamla bænum því eins og lesendur sjá hef ég lítið verið þar undanfarnar vikur. Reyndar rak Ívar Snorri hér inn nefið og lofði að gefa skýrslu áður en mjög langt um liði.
    Núna kemur Rúnar í haustrigningu á nýju Súkkunni sinni og leikur líka þennan eldfjöruga polka sem Kristófer Sverris og Anna Gunna væru fullsæmd að dansa eftir. Rúnar var með Milan Koren undir geislanum og Meeresrauschen hét lagið sem þessir þýsku listamenn léku. Við Rúnar gældum við það að þetta lag héti upp á íslensku "merarrásin" eða bara "merarsprettur" en líkast til er þetta ekki rétt þýðing.

    Glugginn er kominn út. Þar kennir fárra en gamalla grasa. Reyndar ætlar Guðrún Pálma að hjálpa okkur til þess að hlú að okkur sjálfum og er það vísast hið þarfasta verk. Reyndar er mér sagt að ég geri það daglega og svíkist ekki undan svo neinu nemur. 
    Athygli vekur að gamla Sýslumannssetrið er til sölu, húsið á hæðinni sem blasir við öllum bæjarbúum og þar var alltaf hægt að sjá hvort einhver hefði dáið eða eitthvað mikið stæði til því það var alltaf flaggað á stóru flaggstönginni þegar eitthvað var að gerast.     
    Einnig kemst Domusgengið skemmtilega og upplýsandi að orði þegar þeir segja að sólpallur við eitt húsið sem þeir eru að selja sé sunnan við húsið mót suðri.
    Vísa vikunnar er á sínum stað og fjallar um það sem við Rúnar reynum að forðast.

    Samhengi hlutanna er einfallt þegar maður gleymir Mattíasi Imsland og Iceland Express.

Í þessum skrifum er lítið af snuðri
samt féllust okkur þó hendur.
Því sólpallur sem veit móti suðri
sunnan við húsið víst stendur.

Eitt svona lítið fagnaðarljóð sem Rúnar hefði hæglega getað sett saman ef hann hefði ekki þurft að þurft að fara skyndilega til að sinna brýnni erindum.

Nonna ég næstum var búinn að gleyma
en niður kinnarnar tárin nú streyma.
Því kallinn er mættur
úfinn og tættur.
Ótrúlegt hvað, getur gerst hérna heima.

01.09.2010 14:06

Ég er á förum til fjarlægra landa

    "Oh What A Beautiful Morning" skaust upp á yfirborð huga míns og það munaði svo litlu að ég hæfi upp raust mína og færi að syngja þetta fallega lag þegar ég fór út í morgun. Veðrið, himininn, loftið, veröldin var bara svo falleg að þetta gullfallega lag úr söngleiknum Oklahoma hefði átt vel við. Það eina sem aftraði mér, var hún Bebe sem býr í næsta húsi, yndisleg kona sem á allt gott skilið
    
    Annað fallegt lag "ég er á förum til til fjarlægra landa" eða saga farmannsins sem Óðinn Valdimarsson söng á sínum tíma fyrir hönd farmannsins er líka farið að láta á sér kræla . Ég raula þetta lag fyrir mína hönd og annara vandamanna því ég er á förum til fjarlægra landa og kem ekki heim fyrr en í lok mánaðarins. 

    Það er rólegt við Aðalgötuna þessa dagana. Ferðamönnum hefur fækkað og öll umsvif minnkað. Nonni Hundur er aftur orðinn einn því Skuggi er farinn úr vistinni og Jónas á Ljóninu er farinn suður á bóginn með skemmtisnekkjuna Skafta Fanndal í eftirdragi. Að sögn kunnugra mun hann ætla að gera út snekkju og leigubíl, syðra í vetur.



    Hópur stórmenna kom í óvænta heimsókn í Aðalgötuna í morgun og má úr þeim hópi nefna, Sýslumanninn Bjarna og hans aðstoðarmann sem er kona og ég man ekki hvað heitir enda ný í starfi og ég arfaslakur að muna nöfn. Stebba Ólafs hrl., Oddnýju bæjarfulltrúa,  og Stefán atvinnuráðgjafa. Ég hafði gaman af því að hitta þetta fólk og renna yfir grunnatriði lífsbaráttunnar í gamla bænum. Til dæmis var mjög mikilvægt að ég var til staðar því sýslumaður hafði sagt fulltrúa sínum á leiðinni að Nonni hundur væri eldsti hundur á Íslandi en sem betur fer gat ég leiðrétt þessa vitleysu og sagði þeim frá Fúsa hundi frá Aðalgötu 2 en hann er 24 ára og hunda elstur. Það er nefnilega nokkuð ljóst að ekki er sama Jón hundur og Fúsi hundur og mér finnst ég hafa gert gagn í dag.

    Glugginn er frekar lítið spennandi í dag en eitt var þó einsktakt við komu hans. Glugga-Óli sem bar mér hann að þessu sinni í fjarveru Rúnars var með lipra tónlist undir geislanum svona í anda Sven Ingvars eða sænsku Víkingana, lét tónlistina flæða um Aðalgötuna í haustblíðunni.  

    Engin hross eru  í óskilum; ekkert tilboð í gangi á Ljóninu á verði sem alþýðan ræður við. Vísa vikunnar er á sínum stað og ekki eftir Ella frá Stóru-Giljá. Hagyrðingingurinn Rúnar frá Skagaströnd á vísuna að þessu sinni og fjallar um það að enginn þarf að eltast við eilífðina. 
    Það var ansi góð skilgreining á mismuninum á skáldi og hagyrðingi sem Þórarinn Eldjárn kom með á Bragaþingi um daginn. Þórarinn ræddi um það að allt væri orðið svo faglegt í samfélaginu, a.m.k töluðu margir um að allt þyrfti að vera  svo faglegt svo mark væri á því takandi. Þórarinn benti á að skáldin væru fagleg en hagyrðingarnir meira svona í alþýðukveðskap og langt frá því faglegir. Hann lagði því til að skáldin væru eftirleiðis kölluð fagyrðingar til aðgreiningar frá hagyrðingum.
Rúnar kemur ekki enn og klukkan langt gengin í þrjú þannig að ég þarf að fara að slá botninn í þennan síðasta pistil fyrir sumarfrí.

Ég er á förum til fjarlægra landa
fegnir víst margir sem frétta af því.
Óþarfi að rjúk´upp til fóta og handa
því aftur til baka ég forhertur sný.

25.08.2010 13:00

Álagasteinn og varasamur maður

    Það hefur verið varað við mér hér á Vesturbakkanum. "Ja hérna hér" hugsaði ég með sjálfum mér þegar Jónas á Ljóninu tjáði mér þetta. Þegar Jónas ljóstraði því upp að hann sjáfur hefði verið varaður við þá greip ég til setningar úr safni Jónmundar frá Kambakoti sem hann notar aðeins þegar mikið liggur við. Fyrir þá sem ekki þekkja Jónmund þá er rétt að greina í örstuttu máli frá því þegar hann notaði þessa frægu setningu. Jónmundur var að hjálpa nágranna sínu að halda kú undir naut og nautið sýndi Jónmundi meiri áhuga en kúnni, meira en góðu hófi gengdi. Þegar þar var komið sögu að Jónmundi var bjargað undan nautinu svo miklu nær dauða en lífinu, þá var það fyrsta sem hann sagði: "Nú er ég svo aldeilis, aldeilis hissa. Nautið hefur meiri áhuga á mér en kúnni" Sem sagt, ég sagði stundar hátt "Nú er ég svo aldeilis, aldeilis hissa" og kannaði málavöxtu frekar hjá Jónasi. "Hverslags maður er ég eiginlega hugsaði ég mér eftir þetta allt saman. Maður sem sveitarstjórnarmenn, slökkviliðstjórar og byggingafulltrúar hafa verið varaðir við er varaður við mér. Ef satt skal segja þá brá mér smástund en fljótlega áttaði ég mig á því að þetta væri kannski ekki svo slæmt því núna væri ég líkast til orðinn maður með mönnum.
 Mér kom í hug þessi vísa eftir þessa miklu reynslu:

Allt var hér með kyrrum kjörum
nú kraumar undir þungur niður.
Nú verður það á margra vörum
að Vesturbakka rýr er friður.

    Það gengur mikið á í þjóðfélaginu í dag og með hreinum ólíkindum hve margir vitringar hafa spottið fram og vita hinn eina sannleik í flóknum málum. Það er þakkarvert að þessir vitringar eru lítið að þvælast fyrir á Vesturbakkanum því við erum fullkomlega sjálfbærir um lausn mála, líðandi stundar. Nægir bara að nefna þessi fleygu orð ónefnds listamanns af Vesturbakkanum sem tjáði sig um listaverkið "Laup" á Skagaströnd  en um þetta má lesa á skagastrond.is http://skagastrond.is/vita.asp?singleNews=1730   :"
Fljótlega eftir komu steinsins í Gamla bæinn við Blöndu fór að bera þar á allskonar óáran. Þessi þrjátíu húsa og friðsami bæjarkjarni hefur síðan verið að breytast í lítið Las't Vegas norðursins með þremur til fjórum börum, hóteli og fjórum gistihúsum, áfengisútsölu, félagsheimili AA og fleira." Svona svo sagnfræðinni sé til haga haldið þá er nokkuð víst að hótelið, áfengisútsalan og félagsheimili AA hafi verið til staðar þegar steinninn góði úr Höfðanum var fluttur á Blönduós fyrir tveimur árum. Einnig tel ég víst að Jónas á Ljóninu hafi verið búinn að koma sér fyrir áður en álagasteinninn kom þannig að líklegt er að það leynist mun eldri álagasteinn úr Höfðanum í gamla bænum.
    
Þessi síðasti miðvikudagur ágústmánaðar er með ljúfasta móti og gefur okkur fyrirheit um að haustið geti orðið gott og ekki er að sjá frost í veðurkortum allra næstu daga og því gráupplagt að fara til berja því nóg er af þeim. Ég veit fátt skemmtilegra en vita af konu minni í berjamó tínandi ber í rúmgott ílát og sjá hana koma heim berjum hlaðna, rjóða í kinnum og sællega. 

    Nú er enginn Rúnar og Óli kom með Gluggann á fína bílnum hans Skarphéðins. Ég spurði Óla hvað hann væri með undir geislanum í spilaranum og sagði hann stutt og laggott. "Ekkert, ég hlusta bara á Rás 1 en hún var á þegar ég fékk bílinn lánaðan og ég þori ekki fyrir mitt litla líf að breyta stillingunni á útvarpinu." "Það var og" hugsaði ég.
    Glugginn er rýr að þessu sinni en Ljón norðursins fagnar tveggja ára starfsafmæli með kjötsúpu og vöflum á viðráðanlegu verði fyrir alþýðuna. 
    Íþróttaálfurinn Mummi gerir vart við sig sem og félagsstarf aldraðra, sveitastjóri Húnavatnshrepps að ógleymdum oddvita Skagabyggðar og Hrafnhildi í Bæjarblóminu. 
    En hin blákalda staðreynd stendur enn fyrir framan mig og það liggur ljóst fyrir að ég fæ ekki að heyra ljúfa harmonikkutóna frá Rúnari og öllum hans félögum í plötusafninu. Hér stend  ég er einn og óstuddur frammi fyrir samhengi hlutanna og get engum kennt um nema sjálfum mér ef hinn þröngi vegur meðalmennskunnar verður ekki þræddur.

Ég hripa hér orð með fingrum annarar handar
heitur í vöngum með allar taugarnar þandar.
Mér senn ætti að létta
því ég var að frétta
að álagasteinninn er kominn til Skagastrandar.

18.08.2010 21:03

Allt á hvolfi

    Dagarnir líða einn af öðrum og sumarið er farið að halla undir flatt. Ljósin á pallinum eru farin að njóta sín og og jarðeplin og berin stækka og þroskast með hverjum deginum sem líður. 
    Lífið í gamla bænum er með rólegasta yfirbragði sem ég veit ekki alveg hvað táknar. Það er sumt sem ég skil en annað ekki í þessu sambandi. Ég veit afhverju það heyrist minna í kríunni núna en ég veit ekki af hverju heyrist minna í öllum hinum fuglunum. Rúnar er hálf vængbrotinn en að því kem ég síðar en aðrir hafa  í raun enga afsökun frambærilega fyrir værð og lítilli fyrirferð.
Eins og komið hefur fram þá er sumri farið að halla og einmitt á þessari stundu þegar þetta er skrifað heyrir maður vel niðinn í hafinu. Maður heyrir í áttinni sem berst lengst norðan úr höfum þaðan sem veturinn á upptök sín og veit að hann er á leiðinni. 
    En aftur að lífinu á Vesturbakkanum. Ég veit ekki hvort Jónas hefur átt fund með bæjarráði, ég veit ekki hvort Ívar Snorri ætlar að festa kaup á nýjum bát, Ég veit ekki hvort vel gengur á Kiljunni, ég veit ekki um neitt hneyksli eða gleðilegan atburð sem átt hefur sér stað. Í stuttu máli þá veit ég harla lítið og helgast það af því að ég tók mér tveggja daga sumarfrí og því fjarri æðarslætti Vesturbakkans.


Þessa mynd kalla ég "stigamaður á Vesturbakkanum. Jónas Skafta við nýja auglýsingaskiltið á Ljóninu.
    
    Eitt veit ég þó en það er að Rúnar vinur minn lenti utan vegar á Súkkunni sinni um helgina. Þessi rólyndi harmonikkuunandi ætlaði á Kántrýdaga á Skagaströnd og skellti Carli Jularbo undir geislann og ók sem leið liggur heiman frá sér í átt til Skagastrandar. Þar sem komið er að fjörugum polka á disknum hans Carls þá er Rúnar staddur í beygjunni á milli vatna í Vatnahverfi og missir skyndilega stjórn á bifreiðinni og lendir utan vegar skammt frá 8. flöt á golfvellinum. Hann skemmdi bílinn töluvert en sjálfur komst hann til þess að gera óskaddaður frá óhappinu með alla sína harmonikkudiska. Eins og gefur að skilja þá bognaði Rúnar við þetta allt saman en hann brotnaði ekki og stefnir að því að fá sér nýjan bíl utan um sig og alla harmonikkusnillingana. Vegna þessa atburðar í lífi Rúnars og útbreiðslu Gluggans þá varð þetta til:

Um mig allir tala hér
orðum mildum sönnum.
Margt er það sem miður fer 
hjá mikilsháttar mönnum.
 
    Ég sá það í fréttum að Árni Þorgilsson (ekkert mál) hefði veitt mest af þorski á strandveiðunum í sumar á Nonna HU. Þetta gælunafn "Nonni" er gæfulegt og nægir að nefna Nonna HUnd í því sambandi. Stundum er ég kallaður Nonni HUgprúði þannig að dæmin eru mörg. Nonni HU ætti í framhaldi af þessu að vekja jákvæð hugrenningatengsl.

    Ég þurfti aðeins að "skreppa" frá í morgun og þegar ég var að skella í lás á eftir mér þá sá ég fálka á flugi. Fallegur fugl fálkinn en hann vekur ugg hjá smáfuglunum en ekki meiri en svo að þeir gera árás á hann til að reyna að flæma hann í burt. 


    Rúnar er kominn í hús á tveimur jafnfljótum og gersamlega Gluggalaus og engir harmonikkutónar. Nú voru góð ráð dýr. Rifjaðist nú líkast til upp með Guðhjálp að ég hafði afritað einn af harmonikkudiskunum hans Rúnars og renndum við laginu " Ég er hinn frjálsi förusveinn" (Þökk sé Kollu) í tölvuna og komum okkur í gírinn.
    Núna rennir Óli í hlað með Gluggann sem Rúnar er vanur að koma með. "Hvaða lag er í bílnum hjá þér" spyr Rúnar Óla umbúðalaust og Óli svarar að bragði. "Það var eitthvað lag á Rás 2" og var þetta ekki rætt frekar.
    Glugginn er bústnari í dag en fyrir viku og munar þar miklu um vísu vikunnar sem er eftir snillinginn Erlend frá Stóru-Giljá. Í vísunni veltir hann því fyrir sér hvernig það væri að vera ber sem byltist bragðgott á vörum þínum. Hann byrjar vísuna svona. "Hvernig væri að vera ber/ að vera alveg ber." Þetta túlkum við Rúnar með þeim hætti að með því að tvítaka orðið ber þá á hann við fyrirbrigðið aðabláber. Ber er bara krækiber en að vera alveg ber er það sama og að vera aðalbláber. Við stöldruðum aðeins við þriðju línuna í ljóðinu þar sem segir "að vera ber og bylta sér" og skaut upp í kollinn, en aðeins örlitla stund, eitthvað dónalegt. En þarna á Elli auðvitað við að maður veltir aðalbláberinu blíðlega milli efri og neðri varar áður en maður sprengir það og nýtur þess í botn. Að öðru leiti vísum við bara  í Gluggann sjálfan á huni.is og vindum okkur að samhengi hlutanna sem eins og flestum ætti að vera orðið kunnugt að er mjög mikilvægt.

Oft sveiflast lífið upp eða niður,
aldrei gefst neinn stundlegur friður.
Sumir eru í golfi
og Rúnar á hvolfi.
Sinn er í landinu misgóður siður

11.08.2010 09:24

Sumri hallar

    Sumri hallar hausta fer. Þetta er víst staðreynd sem ekki verður frá okkur tekin og sést aðalega á því að það er tekið að dimma fyrr á kvöldin og kertaljósin njóta sín betur.  Sumarið hefur verið viðburðarríkt til þessa og nægir að nefna þessu til staðfestingar, nýja sundlaug og nýja veitingastaðinn Kiljuna á Vesturbakkanum.  
Jónas á Ljóninu býður enn eftir fundi með bæjarráði og senn líður að því að krían hverfi aftur suður um höf eftir sumardvöl. Hversvegna er er ég að blanda saman kríum og Jónasi gæti einhverjum dottið í hug að velta vöngum yfir. Svarið er einfalt því hvorutveggja eru herská og fara suður á bóginn á veturna. Reyndar fer Jónas mun seinna en kríurnar og á það til að koma norður á bóginn á vetrum.
    Sumarið hefur verið viðburðarríkt , það hefur komið fram. Hinn nýji veitingastaður Kiljan á Aðalgötu 2 sem gefur sig út fyrir að vera svokallaður sportbar, auglýsti í byrjun sumars grænmetisfæði sem grunnrétt en sú auglýsing vék fljótlega og við tók auglýsing á safaríkum hamborgurum. Fyrir nokkrum dögum þá rakst ég á Frikka vert þar sem hann sat í sólskininu fyrir utan Kiljuna og var að útbúa auglýsingaskilti hvar fram koma að til viðbótar á matseðli verði bæði steinbítur og ýsa.  Ég spurði hvort með þessum nýju réttum væru ekki nýjar íslenskar kartöflur? "Auðvitað!" svaraði Frikki vert og bætti við,    " það verða engar andskotans franskar með svona góðgæti". Ég spurði hvort ég gæti í vetur komið á sportbarinn og fylgst með þegar Liverpool leikur áhugaverða leiki í enska boltanum. "Að sjálfsögðu" sagði Frikki og enn bætti hann við "Það verður hægt að fylgjast með öllum fótboltaleikjum sem í boði verða." Svona í framhjáhlaupi þá er vert að geta þess að þegar sólin skín á Aðalgötu 2 þá finnst mér skemmtilegra að horfa á konuna sem vinnur þar en Frikka þegar þau sleikja sólina. Líklega hefur þetta eitthvað með mig að gera, þau eru eitthvað svo ólík en elska bæði sólina eins og ég. 
    Með þetta veganesti hélt ég ferð minni áfram og var von bráðar staddur fyrir utan Ljón norðursins og viti menn, sat ekki Jónas sjálfur á stól utan dyra og við hlið hans hinn grandvari og rólyndi Hilmar Snorrason. Það var eins og við manninn mælt, Jónas bauð upp á kaffi og tókum við spjall saman. "Ég missti viðskipti í gær yfir á Kiljuna" sagði Jónas og sagði nánar frá því hvernig tvær stúlkur ættaðar frá Norðurlöndum hefðu horfið á braut. "Þetta gerðist vegna þess að ég býð ekki upp á morgunmat með gistingunni" sagði Jónas og var á honum að heyra að úr þessu ætlaði hann að bæta. Við vorum sammála því allir þrír að þarna hefðum við lært svolítið í markaðsfræðum. Við ræddum líka eitthvað um húsbyggingar byggingafulltrúans, fegurð sólarlagsins við Húnaflóa og Fiskidaginn mikla á Dalvík. Við vorum truflaðir af gestum sem komu meðan við vorum í djúpum samræðum þannig að þessi samkoma leystist upp. Jónas fór að sinna gestum, ég hélt heim á leið á tveimur jafnfljótum en Himmi Snorra settist upp á vespuna sína og rann Blöndubyggðina til norðurs í átt að Kiljunni.


    
Rúnar að koma með Gluggann í Aðalgötu 8 séður í gegnum bílrúðu með þýska harmonikkuleikara undir geislanum. Ávörðunarstaðurinn speglast í bílrúðunni.
    
    Það er aldrei á vísan að róa. Rúnar þessi trausti íhaldsmaður sem haldið hefur tryggð við Arnt Haugen, Famelien Brix í harmonikkulegu tilliti braut upp mynstrið og ruddist inn í Aðalgötuna með harmonikkukór frá Þýskalandi sem kallaður er Milan. Milan kórinn þandi nikkuna þannig að blærin í laufum trjánna á Aðalgötu 5 til 7 þagnaði meðan Seemannsträume fyllti út í hlustir íbúanna, vals sem átakalítið viðheldur sumrinu í sálinni. Þessi inngangur þýðir einfaldlega að Glugginn er kominn út og þar má finna auglýsingu sem ber órækt vitni um að haustið er í nánd. "Blönduskóli, skólasetning" um þetta þarf ekki að hafa fleiri orð nema þau að mér finnst börnin tekin allt of snemma á hús og haldið þar allt of lengi. Grunnskólar og Alþingi eiga að laga sig að búskaparháttum sauðfjárbóndans. Byrja þegar göngum og réttum er lokið og ljúka þegar sauðburður hefst. Þetta gekk ágætlega hér áður þegar Pálmi á Akri og Páll Pétursson sátu á þingi og ég var í grunnskóla.
    Glugginn er að mörgu leiti fullur af nauðsynlegum og mikilvægum aulýsingum og nægir að nefna að rauðskjótt mertryppi er í óskilum og verður selt á uppboði gefi eigandi sig ekki fram.
    Tvær auglýsingar vekja sérstakan áhuga en þar er verið að auglýsa annarsvegar stuttmynd þar sem fjallað er um minningar fólks við Húnaflóa af hafísnum og hinsvegar  kynning á því hvernig bændur geta sjálfir unnið afurðir heima á búi og komið þeim á markað. Það er fyrirbrigði sem kallast Matarvirkið á Hvammstanga sem býður upp á kynningarfund um þetta.
    Vísa vikunnar er á sínum stað og að þessu sinni eftir hinn landskunna hagyrðing Rúnar Kristjánsson frá Skagaströnd.

Ljós er yfir lífsins slóð,
leiðir opnast kynna.
Fæðist hver sem frumort ljóð
foreldranna sinna.

    Þessi vísa fékk okkur Rúnar til að hugsa sem mörgum finnst hið besta mál og fara okkur  vel. "Fæðist hver sem frumort ljóð, foreldranna sinna". Marga vísuna höfum við SamkaupsRúnar sett saman og misjafnar eru þær segja menn og líkast til gildir hið sama um blessuð börnin en eitt eigum við sameiginlegt með foreldrum að hverjum þykir sinn fugl fagur og það er það sem skiptir máli.
Mál er að linni og samhengið höndlað og komið á það böndum og svona lítur það út þessa vikuna:

Við yrkjum bara ágæt ljóð
sem óþarf´er að kynna.
Okkur finnst þau ætíð góð
og á okkur þau minna.

04.08.2010 10:15

Hlutdeildin í eilífðinni

    Lífið á Vesturbakkanum er óðum að færast í eðlilegt horf. Jonni flugkapteinn og Atli kirkjueigandi eru komnir eftir langa útiveru. Gullmerki setur mark sitt á Aðalgötu 2 og dregur athygli frá búslóðinni við enda Aðalgötunnar sem býður eftir því að eignast hús. Verslunarmannahelgin er liðin sem og einmuna blíðan sem henni fylgdi. Það var gaman að koma í Aðalgötuna snemma á sunnudagsmorgni og sjá fólk og heyra raddir. Þetta var lágvær kliður sem hljómaði vel í bland við rödd kríunar sem með kröftugum flugtökum bar síli í unga sína. Ég tek eftir því núna að ég tók ekki eftir rödd Nonna hunds þessa morgunstund en hvort það merki eitthvað veit ég ekkert um.
    Þokan hefur komið í heimsókn og dvalið í tvo daga. Hún dempar tilveruna svolítið og minnkar sjóndeildarhringinn en það er eins og henni sé svolítið að létta og ég er nokkuð viss um að þegar Rúnar kemur með fyrsta Glugga eftir sumfrí þá muni henni létta og sólin skína í takt við harmonikkutóna frá Familien Brix.
    Jónas vert á Ljóninu leit hér aðeins inn og sagði mér að hann hefði að mestu setið á friðarstóli þessa dagana en undir niðri kraumaði baráttuandinn því hann sagðist vera að bíða eftir fundi með bæjarráði. Ég sagði við Jónas að ég hefði lítið séð til Ívars Snorra og varðhundsins hans síðustu daga. "Ég þarf að heimsækja hann" sagði þá Jónas og ég bað hann í Guð bænum að segja honum að ég gæti ekkert skrifað um hann að þessu sinni af þeirru einföldu ástæðu að ég hefði ekkert um hann að segja.
    Dagurinn í dag er töluvert merkilegur í lífi mínu því liðin eru tuttugu ár síðan yngsta barnið mitt hún Ásta Berglind fæddist.  Ég man eftir því þegar hún kom í heiminn þá var hún búinn að þvæla naflastrengnum um hálsinn á sér en Anna heitin Andrésdóttir ljósmóðir leysti fljótt og vel úr flækjunni. Þetta var nú upphafið af okkar kynnum og má segja það að mín elskulega dóttir hafi oft tekist að hreyfa við ýmsum strengjum í föður sínum frá þessum degi. Nú er hún orðin tvítug og getur núna verslað í verslun móður sinnar í Aðalgötu 8 og gert svo ótal margt annað sem hún mátti ekki áður. Núna er hún frjáls kona og pabbi hennar orðinn valdalaus heimilisfaðir. Þetta er víst kallað þróun, hluti af eilífðinni, eitthvað sem ekki verður undan vikist eða eitthvað mun gáfulegra. En niðurstaðan er þessi: Einkadóttirin er tvítug, yndisleg með öllum sínum göllum og Guð gefi henni góðan dag og bjarta framtíð.
        
    Þá eru Rúnar og Glugginn komnir að afloknu sumarfríi og með þeim í för er ættfaðir famelien Brix, sjálfur Sören Brix og leikandi hinn heillandi skottís, Hej Sveijs. Ég sá það á Rúnari að eitthvað mikið lá á hans hjarta og hann vöðlaði litlum bréfmiða  milli þumals og annara fingra vinstri handar. Það lá því beint við að klára þetta mál áður en við leggðumst yfir hinn næfurþunna Glugga og þegar ég náði af honum blaðsnifsinu þá las ég þetta:
Mjög fátt hjá okkur miður fer
í mörgu hér við unum.
Og báðir alltaf brosum hér
með báðum munnvikjunum.

    Já Glugginn er rýr í roðinu en þau örfáu skilboð sem hann flytur eru mikilvæg. Rotþrær í Húnavatnshreppi, Domus gengið snýr aftur og ódýri WC pappírinn frá Hvöt er hryggjarstykkið í Glugganum ásamt auglýsingu frá Barnabæ og vísu vikunnar. Vísa vikunnar er eftir einhvern sem kallar sig Vélina og kunnum við Rúnar ekki frekari skil á því skáldi. En ljóst er að Vélin er karl því hann mígur standandi sé eitthvað að marka vísuna og auk þess kvartar hann sáran undan konunni sinni sem stundum tekur köst.

Hann kunni hér áður tónin að teygja
og tókst á við marga í kórunum peyja
Hann leit hérna inn
hann Kiddi í Kinn
og kunni frá mörgu að segja.

Þetta varð nú til þegar hinn margreyndi kórstjóri, bóndi, félagsmálatröll og gleðigjafi Kristófer Kristjánsson í Köldukinn leit hér inn í hornið til okkar Rúnars á meðan við létum andann leika lausum hala í horninu mínu.

    En er ekki mikilvægt í ljósi þessa alls að tengja þetta allt saman þ.e.a.s. setja hlutina í samhengi.

    Það hrökk út úr mér fyrir hönd Rúnars þegar Þorsteinn Sigurðsson skaust allt í einu inn til okkar þegar við ætluðum að setja punktinn yfir i-ið og sagði upp úr þurru. " Hva! ertu eitthvað daufur Rúnar minn, ertu þreyttur eftir tveggja mánaða sumar frí."
   
Hann kom hér úr algjöru leyni
andskotans kallinn hann Steini.
En fá einhver köst
við teljum það löst 
nóg verður oss samt að meini.

28.07.2010 09:34

Stríðsfréttir og almennt snakk

    "Helvíti eru pistlarnir að verða leiðinlegir hjá þér" sagði vertinn á Ljóninu við mig í gær. Ég svaraði af minni alkunnu hógværð "Ha, hvað meinarðu? " "Þú ert hættur að segja stríðsfréttir af Vesturbakkanum. Þetta er bara svona almennt snakk sem kemur frá þér núna" sagði Jónas til að skýra sitt mál betur. Ég reyndi að gera honum grein fyrir því að reyndum stríðsmönnum á vesturbakkanum hefði nú mislíkað skrif mín og hraunað yfir mig og þess vegna væri ég gætnari í skrifunum núna. Jónas átti ekki til eitt einasta orð og sagði að stríðfréttaritarar létu nú ekki valta yfir sig og segðu frá tíðindum meðan báðir fætur væru jafn langir. Eiginlega varð ég nú kjaftstopp við þessi snörpu orð hins marg reynda bardagamanns Jónasar á Ljóninu og get ég þakkað mínu einstaka jafnaðargeði og innri ró að ekki sáust nein merkjanleg ytri einkenni á mér.
    Eftir svona lífsreynslu neyðist maður til þess að leggja heilann í bleyti og reyna að kryfja málin á hlutlausan og yfirvegaðan hátt. "Er eitthvað til í því sem Jónas  lét frá sér fara" hugsaði ég með mér?  Síðast skrifaði ég um ruslagáma og Draugagilið, þar áður um stöðu mína innan veggja heimilisins og þar á undan um sundlaugina og Mumma meiriháttar. Í þessum síðustu pistlum er hvergi minnst á Jónas á Ljóninu, manninn sem ekki má nefna, Ívar Snorra, Frikka vert á Kiljunni, Stefán og Nonna hund svo einhverjir séu nefndir. Þetta er líkast til rétt hjá Jónasi því þar sem þessir einstaklingar koma ekki fyrir, er friður, dalalíf í sinni tærustu mynd.
    Ég gæti núna farið að skrifa stríðsfréttir af Vesturbakkanum og látið þar með undan þrýstingi aðgerðarsinna en það væri of einfaldur flótti frá stöðugleikasáttmála við sjálfan mig sem ég gerði fyrr í sumar. Ég gæti sagt frá samskiptum Jónasar við nýja slökkviliðsstjórann, bréfaskrifum hans til bæjarstjórnar og árás ferðamanna á Ljónið eldsnemma morguns fyrir nokkrum dögum sem og viðbrögðum lögreglu við þessari árás. Ekkert af þessu ætla ég að skrifa um að þessu sinni en það er ekki þar með sagt að ég renni ekki yfir þessi mál þegar fer að hausta. Sný ég mér nú á hina hliðina að hinu almenna snakki sem verður því miður með minna móti einfaldlega vegna þess að vertinn á Ljóninu hefur fengið svo mikið pláss í þessum skrifum.
    Raunar fékk ég um daginn til mín í heimsókn, mann sem hefur verið á hinum raunverulega Vesturbakka þar sem mun harðvítugri átök hafa átt sér stað. Hér á ég við Sigurð Hermannsson gæðadreng sem fæddur er á Aðalgötu 2 en býr nú í borginni Tyr í Líbanon og unir þar hag sínum vel. Hann sagði mér margar sögur frá sínum æskudögum fyrir innan á (Vesturbakkinn) og fór með nokkrar vísur eftir Ólaf í Forsæludal. Það er líkt með Sigga Hermanns og Jónasi vert að þeir hafa báðir gaman af stríðsfréttum af vesturbakka Blöndu en þeim verður ekki að ósk sinni að þessu sinni því nú ætla ég að tala lítilega um Carl Jularbo og Carnival Polka.
    
    Rúnar vinur minn ók um Aðalgötuna í gær og vildi svo skemmtilega til að dyrnar á Aðalgötu 8 stóðu upp á gátt og rúðan í Súkkunni hans Rúnars var líka niðri. Undir geislanum hjá Rúnari var enginn annar en Carl Jularbo og lék eldfjörugan polka sem eins og áður er getið heitir "Carnivals polka". Það er liðin nokkuð langur tími sem ég hef ekki heyrt hressilega harmonikkutóna hljóma úr geislaspilara Rúnars og það get ég sagt með sanni að þetta gladdi mig bara þó nokkuð. Þetta minnir mig bara á að það fer að styttast í það að Glugginn fari að koma aftur út eftir sumarfrí með sínar upplýsingar til alþýðunnar. 
    Reyndar var það annað sem ég tók eftir þegar ég fór yfir pistla (ekki písla) sögu mína sl. þrjár vikur en það er að ég hef ekki borið það við að yrkja. Trúlega skiptast þar menn (enn og aftur: konur eru líka menn) í tvo flokka líkt og með stríðsfréttaflutninginn, hvort það sé gott eða slæmt. En hvernig væri að enda þessi skrif á þessum nótum svona til þess að varðveita samhengi hlutanna:

Nú á mér dynja þau áhrínisorð
að upplýsa lýðin og bera á borð.
Átakasögur
og allskonar klögur
um ástir, örlög og mannorðsmorð.

    Rétt er að geta þess að eftir að ég lauk við að skrifa pistilinn þá komu þeir Rúnar og Carl Jularbo og léku af hjartans list Muckarpolka og ég lýg því ekki að þokan lét undan og sólin braust fram og skein á okkur og  Gullmerkið á Aðalgötu 2

22.07.2010 09:37

Minning um gil

    Allt er í heiminum hverfult, það er ekkert eilíft undir sólinni. Þetta sannaðist svo rækilega í gær þegar Draugagilið missti forræði sitt yfir ruslagámum bæjarins. Frá og með gærdeginum verður hægt að losa sig við sorp þrisvar í viku við Efstubrautina norðanverða. 
    Það er með örlitlum söknuði sem ég kveð Draugagilið því það á svo stóran sess í hjörtum okkar Blönduósinga. Í þessu gili sem kennt er við drauga hefur verið svo lengi sem ég man og menn mér eldri, verið hent sorpi bæjarbúa. Þarna hvílir gríðarlega mikil saga þéttbýlisins við botn Húnafjarðar. Þetta gil hefur verið uppspretta mikillar og frjórrar umræðu um allt milli himins og jarðar. Þetta gil hefur gleypt í sig allt sem við dauðlegir mennirnir höfum ekki viljað en það sem einn vill ekki, getur verið að öðrum gagnlegt. Draugagilið hefur verið gegn um tíðina, hinn stjórn- og stéttlausi skiftimarkaður. Veit ég til þess að margur maðurinn hefur eignast sitt fyrsta reiðhjól á þessum markaði. Eldhúsinnréttingar, barnavagnar, ísskápar, svo eitthvað sé nefnt hefur skipt um eigendur án nokkura afskifta eins né neins. Hinn frjálsi markaður í sinni fullkomnustu mynd heyrir nú sögunni til. 
  

    Þessir menn ásamt mörgum öðrum bera ábyrgð á því að Draugagilið hefur misst yfirráðin yfir ruslagámunum. Frá vinstri Ágúst Þór Bragason forseti bæjarstjórnar, Vilhelm Harðarson forstjóri sorpmála í A-Hún og bæjarstjórinn Arnar Þór Sævarsson. Litla stúlkan sem situr í fangi föðurs síns á hér engan hlut að máli
 

 Draugagilið geymir margar sögur um að menn hafi verið hætt komnir við öflun nytja úr gámum. Legið hefur nærri að margreyndir sorpstarfsmenn hafi hvolft almúgafólki sem var við leit í gámum inn í sorphirðubíl og hefði þá ekki þurft að spyrja að leikslokum. 
    Í árdaga sorpsins í Draugagili geysuðu oft miklir eldar og ef vindar voru vestlægir fundu bæjarbúar reykinn af réttunum. 
    Draugagilið hefur verið þeim sem búa á Brekkunni eilíf uppspretta umræðu og hugmynda og má til gaman geta þess að þetta ágæta fólk á sinn eigin fána sem lýsti vel lífinu við rætur Draugagilsins. Núna er fánin ekki lengur tákn um misjafna tíma heldur minning um daga sem voru til muna frjálslegri, daga sem örvuðu öll skynfærin og komu íbúum í nánara samband við sveitarstjórnarmenn. Núna eru þeir dagar liðnir þegar allskonar efnisbútar skreyttu girðingar í nágreninu og núna skiptir vindáttin engu máli hvað lykt og skyggni varðar. 
    Það er ljóst að hér er stiklað á mjög stóru um sögu Draugagilsins en mér fannst full ástæða og raunar kurteisi að minnast þessa staðar sem líkast til hefur verið eitt mesta sameingartákn bæjarbúa í gegn um tíðina. 
    Við þessa breytingu á sorpmálum bæjarbúa verða mikil umskifti á lífi þeirra. Hér áður gat maður hvenær sem var farið með draslið úr bílskúrnum eða garðaúrganginn upp í Draugagil. Nú eru þeir dagar liðnir og þarf fólk frá og með gærdeginum að lúta stjórnvaldi Villa Harðar hvað þessi mál varðar. Nú þurfa menn að hugsa og muna að það er einungis þrisvar í viku sem maður ferðast með sorp og það bara síðdegis. 
    Blessuð sé minning Draugagilsins þar sem hrafnar, mávar og útsjónasamir einstaklingar áttu athvarf. En þar munu áfram vaxa bláber og hvergi er útsýnið yfir Húnaflóann og Strandir fegurra.

14.07.2010 13:56

Heimurinn á eftir að breytast

    Hann klikkar ekki hann Rúnar þó enginn sé Glugginn. Hann renndi hérna fram hjá  rétt áðan og "Söngfuglar svífa" hljómaði í flutningi karlakórsins Heimis út úr Súkkunni hans. Fuglar himinsins þögnuðu smá stund meðan kórinn söng og síðan var Rúnar horfinn og  söngfuglar götunnar hófu óðara upp raust sína. 
    Það styttist í Húnavökuna og mikil og góð stemning er að skapast í bænum. Menn eru hífðir upp í körfubílum til að festa upp veifur og borða í þeim litum sem einkenna hvert hverfi. Margir eru farnir að rifja upp gítargripin og heyrst hefur að H hljómurinn þvælist fyrir einhverjum og hyggjast margir grípa til þvergripsins neðarlega á gítarhálsinum til að kljúfa vandamálið.
    Íbúar eru hvattir til að setja upp skilti við hús sín með lagaheitum sem fræg voru á árunum 1980 - 1990. Ég stakk upp á því að lagatitillinn " sendu nú gullvagninn að sækja mig" yrði settur upp heima en varð í minnihluta. Þá stakk ég upp á "Braggablús" og var líka ofurliði borinn. Ætli " Jesú bróðir besti" verði ekki fyrir valinu því það lag er óháð tíma og rúmi og mjög umhverfisvænt.
    Við hjónin eigum von á öllum börnunum og barnabörnum um helgina þannig að sofið verður í hverju skoti og snætt af hverjum diski. Það er nokkuð ljóst að í mörg horn verður að líta og óvíst hvort mér auðnist að lesa Morgunblaðið mitt í ró og næði við morgunverðarborðið og líklega verða barnabörnin sest í húsbóndastólinn og yfirtekið sjóvarpið til að horfa á Bubbi byggir eða Spidermann. Já heimurinn á eftir að breytast mikið þessa helgi og þá kemur sér vel að vera margreyndur í geðprýði og gætilegu orðavali sem og mun hógværð mín og lítilæti koma sér einkar vel. 
    Það sjá það allir sem sjá vilja að það á eftir að reyna mikið á mig þessa helgi og ofan á allt þetta bætist ein brúðkaupsveisla og vígsla nýju sundlaugarinnar. Ég vona bara að börnin mín og þau barnabörn sem læs eru orðin reki augun í þetta og gefi mér þó ekki væri nema séns á Morgunblaðinu með morgunkaffinu. 
    Á sunnudaginn mun aftur færast ró yfir hið friðsæla heimili okkar hjóna og við munum veifa blessuðum börnunum , þakka þeim fyrir komuna og óska sem góðrar ferðar heim. Þetta minnir mig á sögu sem ég heyrði einu sinni og er um miðaldra finnsk hjón sem spurð voru hvaða jólaljós þeim þættu fallegust. "Það eru afturljósin á bílum barnanna þegar þau halda til síns heima eftir jólafrí" svöruðu þau án þess að hika. 
    Að þessu loknu get ég eiginlega ekkert annað sagt en að ég hlakka mikið til að fá allt mitt fólk í heimsókn um helgina og þakka Guði fyrir alla daga og eru sunnudagar þar ekki undanskildir. 
    Og svona að lokum þá get ég ekki annað en hrósað barnabörnunum mínum fyrir frammistöðuna í útvarpsauglýsinguni um Húnavöku. Þetta er bara snilld.

07.07.2010 10:22

Vindgangur á miðvikudegi

    Um oss næða vindar þessa dagana en það gerir bara ekkert til því góður blástur er eins og góð gróðraskúr, hreinsar andrúmsloftið. 
    Það verður ekki mikið ritað í dag því það er enginn Gluggi og að líkindum enginn Rúnar. Ég get þó alveg reiknað með því að hann aki hér fram hjá með rúðuna á Súkkunni niðurskrúfaða og láti Snevalsen með Harmonikkadrengene hljóma út yfir Aðalgötuna þrátt fyrir 12 metra vindhraða úr norðaustri.
    Það er til þess að gera lítið að frétta af Vesturbakkanum það ég veit en það veit hver maður að ég veit ekki allt. 
    Ég hef það á tilfinningunni að allt sé að gerast á Austurbakkanum eftir að sundlaugin var tekin í gagnið. Mummi yfir baðvörður segir að 7.000 manns hafi farið í sundlaugina þessar þrjár vikur sem hún hefur verið opin. Til gamans má geta þess að um 12.000 mans voru að heimsækja gömlu laugina á ári og eru þá taldir með nemendur í skólasundi. Það má með sanni segja að laugin hafi slegið í gegn. 
    Fyrst ég er farin að ræða um nýju laugina þá er gaman að geta þess að Mummi meiriháttar sem ég stundum kalla yfir baðvörð eða meinhorn er að standa sig í baðvarðarskýlinu, sundlaugarbakkanum og jafnvel ofan í lauginni. Það hefði verið hægt að spara mörg mælitæki í lauginni því Mummi er eins og syndandi sjálfvirkur sýru- og klórmælir og rándýrt hátalarakerfi hefði mátt spara að ósekju. Í stuttu máli: Mummi er meiriháttar.
    Eitt er það sem ástæða er til að minnast á en það er merking við Norðurlandsveg sem gefur til kynna að tjaldsvæði sé hér fyrir innan á eða á Vesturbakkanum eins og ég kýs stundum að kalla þetta svæði vestan Blöndu. Þetta merki veldur töluverðum ruglingi hjá ferðamönnum og þá sérstaklega erlendum en eins og þeir sem til þekkja þá er ekkert opinbert tjaldsvæði á Vesturbakkanum og þeir sem stjórna þessum málum hér í þessu bæjarfélagi ættu að sjá sóma sinn í því að koma þessum málum í lag. 
    En hvernig væri að róa sig aðeins niður í bæjarmálalegu tilliti og sjá hlutina í réttu samhengi og leyfa vindinum að halda sína leið suður á bóginn og undirbúa sig undir spennuþrunginn knattspyrnuleik milli Spánverja og Þjóðverja seinna í dag.

Seinna í dag mun ég stara á skjáinn
á sparkandi menn sem stíga á stráin.
En á þessarri stundu
léttur í lundu
sit ég hér einn og stari´ út í bláinn
.

30.06.2010 10:03

Einn hommi og enginn lax

    Það er farinn að laumast að mér smá ótti. Þessi nagandi ótti um að "þetta eigi eftir að hefna sín". Nú erum við búin að hafa svo gott veður í langan tíma að eitthvað hlýtur að fara að gerast. Við getum bara ekki átt þetta skilið. Þetta á eftir að hefna sín annað getur bara ekki verið. 
    Reyndar hefur þetta hefnt sín á mér að hluta til því engan fékk ég laxinn í Blöndu á föstudaginn og það sem meira er þá var mér vísað af veiðisvæðinu eftir tæplega 15 mínútna veiðar. Þeir ágætu félagar, Árni í Lax-Á og hans hjarðsveinar höfðu víst selt sömu stöngina tvisvar og þar sem við félagarnir frá Blönduósi sem mættir vorum til veiða á svæði III vorum álitnir geðbetri en veiðimennirnir sem fengu að halda áfram veiðum á umræddu svæði. Við þurftum að fara á svæði II fram að hádegishléi til að leysa vandann.     
    Þessi nýja lífsreynsla að vera vísað á bug er svolítið sérstök. Ég hugsaði með mér " Hvernig gat Laxár Árni gert mér þetta. Ég veit ekki til þess að hann hafi vísað Eric Clapton burt af veiðisvæði. Þvert á móti þá veit ég til þess að hann gerði allt sem í valdi hans stóð til að halda Clapton kjurrum á veiðisvæði eftir að Gísli Einarsson féttamaður hafði styggt hann lítillega.  Þessi lífsreynsla hefur í það minnsta kennt mér að ekki er sama Jón og sir Clapton.
    Ekki er öll sagan sögð úr þessari annars ágætu veiðiferð . Þannig var að hann Guðmundur svili minn (sem ég kalla stundum Mumma svakasvila) bauðst til að keyra og freistaðist ég til að taka með mér eina litla bjórdós ( 33 cl ) svona til að svala þorstanum í lok veiðiferðar. Þar sem sem við sitjum í rólegheitunum á árbakkanum neðan við Ártún að kveldi dags, kemur þá ekki aðvífandi N1 Kristján nokkur Jónsson en hann var með með okkur Mumma í holli og sagði án nokkura vífillengja " Ertu bara með homma". Ég hváði að sjálfsögðu því ég sá ekki nokkurn homma í næsta nágreni. "Homma" segi ég. "Já! Veistu ekki að lítill bjór er kallaður hommi" sagði hann. "Hvað er þá hálfs líters bjór kallaður?" spurði ég. "Station" (lesist steisíjón) svaraði Kristján að bragði. Ég fékk það á tilfinninguna að ég hafi þennan ágæta dag verið algjör bjálfi. Hafa bílstjóra í veiðiferð og klára bara einn homma, það er frammistaða sem einungis aular segja frá.

    Nú er ég búinn að fara í nýju laugina! Hvílík pardís sem komin er í bæinn. Ég hafði líkt og ég lýsti áðan haft af því örlitlar áhyggjur að Mummi yfirbaðvörður myndi gera einhverja kúnstir þegar ég kæmi í fyrsta sinn. Hann hafði í það minnsta heitið því að gera mikið úr því þegar ég kæmi. Nú, ég kem í miðasöluna og borga mínar 400 kr og spyr eftir Mumma yfirbaðstjóra. Engin vissi hvar hann var svo ég fór mína hefðbundnu leið í gegnum búningsklefa og sturtur og renndi mér hljóðlega út í laug. Synti ég um stund, sólin brosti og veröldin var yndisleg. Þegar ég er búinn að synda í dágóða stund þá mæti ég manni í miðri laug sem beitti fyrir sig skriðsundtökum og mér fannst ég eiga að þekkja hann. "Þetta er Mummi" hugsa ég og ákveð að bíða eftir honum á bakkanum og taka á móti "kauða". Í stuttu máli þá sá ég það á gleraugnalausu andliti Guðmundar Haraldssonar að hann fannst hann vera svikinn og misst af tækifærinu til að gera mér smá hrekk við fyrstu heimsókn mína í sundlaugina hans. Hvort þetta eigi eftir að hefna sín veit ég ekki en eftir stendur að það var ég sem tók á móti Mumma í sundlauginni en ekki öfugt.

    Kemur ekki Rúnar Gluggaútburður með síðustu lesningu fyrir sumarfrí. Og ekki nóg með það. Hann var með í pússi sínu spánýjan disk með þeim harmonikkufélögum Kristian og Jens Peter. Lagið sem var undir geislanum var eldfjörugur polki sem heitir einfaldlega Coquette polka. Ég skammaði Rúnar fyrir nafnið á polkanum en áttaði mig fljótlega að það er ekki honum að kenna en polkinn var góður og þeir félagar fóru á kostum.
    Hvað skyldi nú Glugginn segja á þessum Drottins dýrðar degi. Heimilisiðnaðarsafnið er með forsíðuna og sáum við Rúnar strax að meinlega villu var þar að finna hvað varðar dagsetningu en að öðru leiti er auglýsingin áhugaverð. Á baksíðunni gerir USAH vart við sig og þau mót sem verða á þess vegum í sumar.
    Hún er nokkuð sein á ferðinni auglýsingin frá Hvöt hvað varðar pylsuboðið í leik Hvatar og KV sem var víst í gær en það er aldrei of seint að þakka. Við Rúnar teljum að þeim sem að Smábæjarleikunum stóðu verði seint fullþakkað fyrir frábært framtak.
    Rúnar á Skagaströnd á vísu vikunnar að þessu sinni og er hún svo sannarlega okkur að skapi og í okkar anda.: Lifðu í sátt við land og þjóð/ léttu önn með gríni./ Syngdu fram þitt sólarljóð/ svo að öðrum hlýni.

    Þá er komið að því óumflýjanlega en það er samhengið sjálft.

Hjá okkur er alltaf sá siður
að yrkja okkur ljúflega niður.
Nú verður smá hlé
ekkert spjátur né spé
Fylgi´ ykkur eilífur friður
.


 

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 7
Gestir í dag: 3
Flettingar í gær: 246
Gestir í gær: 12
Samtals flettingar: 64665
Samtals gestir: 11483
Tölur uppfærðar: 2.5.2024 01:50:47