Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

07.05.2014 15:28

barist við ritstíflu


Ég er haldinn ritstíflu þessa daganna og finn enga löngun til að setja eitt né neitt niður á blað. Ég er meira að segja svo stíflaður að ég hef ekki nennu að segja frá því þegar ég varð fyrir runnaklippingaráfallinu á mánudaginn rétt fyrir leik Liverpool og Kristalshallarinnar. Sem sagt ég varð fyrir tveim "áföllum þennan mánudag og hef samt enga þörf til að skrifa mig frá þeim en ég hef haft þennan vettvang til þess að veita mér sjálfsáfallahjálp. Af þessu má sjá að ég er með stíflu á háu stigi og þyrfti svo sannarlega á því að halda að skrifa mig frá stíflunni. Til er fólk sem alfarið er á móti stíflum og gildir þá einu hvort um er að ræða stíflur í vatnsföllum eða nefstíflur. Ég er í eðli mínu á móti flestum stíflum hverrar gerðar sem þær eru en ég á til umburðarlyndi í nokkrum tilfellum og fer ég ekki nánar út í það. En ég stend frammi fyrir þessari gerð af stíflu og hugsa upp öll þau ráð sem að gagni geta komið til að rjúfa hana. Sumir hafa sprengt upp stíflur og aðrir hafa mótmælt þeim en ég reikna fastlega með því að fáir hafi áhuga á því að móttæla ritstíflu minni og telja það jafnvel til bóta að ég tjái mig sem allra minnst og jafnvel að ég þegi alfarið. Einn ágætur maður sagði einhverju sinni að betra væri að þegja og vera álitinn hálfviti heldur en að tala og taka af allan vafa um það. Það er langt síðan ég heyrði þessa speki en aldrei haft hvorki vit né þroska til að fara eftir henni og þannig er það bara.


Það er bölvað að vera ritstíflaður þá getur maður ekki minnst á stóra-skiltamálið sem mér sýnist að sé að verða að risastóra - skiltamálinu. Stíflaður getur maður ekki sagt frá því hversu þungu hlassi lítið skilti getur velt. Mér finnst þetta grábölvað en við þessu er eins og staðan er í dag, lítið að gera.  Það er heldur  ekki hægt að segja frá því að vorið hefur verið okkur hér um slóðir eistaklega hagfellt og svo mætti lengi telja.

Svo er eitt sem er mér mikið hjartans mál en það er grágæsin SLN sem komið hefur á Blönduós í a.m.k. 14 ár. Ég hef fylgst með henni nánast öll þessi ár og tekið þátt gleði hennar og sorgum. Séð hana stolta með myndarlegan unghóp og reffilegann karl sér við hlið og ég hef séð hana einmana og tætingslega. En frá þessu get ég ekkert sagt vegna þessarar bannsettu stíflu og hennar vegna get ég heldur  ekki sagt frá því að ég er farinn að hafa verulegar áhyggjur af því að hún skili sér ekki í vor því hún er vön að sjást við Héraðshælið á tímabilinu 15. - 21. apríl ár hvert. Og það sem meira er um vert og eru nokkuð alvarlegar fréttir að ekkert hefur spurst til þessara gæsar í Bretlandi sl. vetur samkvæmt upplýsingum frá Arnóri Þ. Sigfússyni fuglafræðingi. En þetta allt verður að liggja í þagnargildi vegna stíflunnar illvígu.


Ég myndi svo glaður segja frá því að Glugginn er kominn í hús væri ekki fyrir að fara þessari bévítans ritstíflu og að sjálfsögðu hefði ég líka sagt frá því að Rúnar skáld á Skagströnd er Gluggaskáld vikunnar og ekki hefði ég látið hjá líða að minnast á að brátt verða kartöflugarðarnir í Selvík tilbúnir að taka við útsæðinu. Það er svo margt sem hægt er að segja frá í hinu daglega lífi ef allt er í lagi. Vonandi, fyrir sálarheill mína losna ég fyrr en seinna við stífluna.


23.04.2014 15:39

sumarið kemur á morgun


Einstök birta fylgdi sólarlaginu í gærkvöldi

Þá er þessi vetur senn á enda runninn og  sumarið kemur á morgun. Íslensk þjóðtrú segir að ef sumar og vetur frjósi saman þá boðar það gott sumar. Það hreint með ólíkindum hvað mannskepnan er óútreiknanleg og mótsagnakennd. Menn eru í ofvæni búnir að bíða eftir sumrinu og bölva snjó og kulda þegar líða tekur á vorið en biðja svo um frost aðfaranótt sumardagsins fyrsta. En þessi síðasti miðvikudagur þessa vetrar er sólríkur, stilltur og hitinn kl 9 í morgun var 6 gráður yfir frostmarki. Húnaflóinn skartar sínu fegursta og Strandafjöllin í allri sinni dýrð ramma okkur inn í vestrinu. Í stuttu máli þá er dagurinn í dag fallegur vordagur, svona eins og þeir gerast bestir. Vetur sem hefur verið heldur leiðinlegur gerir hið eina rétta í stöðunni að kveðja með fegurð og birtu, vitandi það að við mennirnir erum ekki langminnugur og gætum álpast til að hugsa til hans með hlýju.


Mig langar miklu heldur að skrifa um vorið og fuglana en hinn kraumandi suðupott sem tengist hinu dularfulla og um leið furðulega "stóra- skiltamáli". Gæsirnar eru enn að skila sér og ég er þegar búin að sjá eina gæs sem merkt var sem ungi sumarið 2000 með fótamerki sem ber stafina AVP. Enn bíð ég eftir því að finna hina frægu gæs sem ber hálsmerkið SLN og var líka merkt sumarið 2000.  Ég er pínulítið farin að örvænta um örlög hennar því ég sá hana fyrst sl. vor þann 17. apríl þannig að hún er komin 6 daga fram yfir komutímann.  Ég veit að margir Blönduósingar munu koma til með að sakna hennar eftir 15 ára kynni, skili hún sér ekki frá Skotlandi í ár.


Þessi gæs AVP verður 15 ára í byrjun júní

Rúnar kom í sólskinsskapi og lék Bel Viso polka af hjartans list. Ég vatt mér að honum þar sem hann brosti mót komandi sumri og spurði hvort hann gæti ekki spilað fyrir mig "Fölungen Polka"  sem í lauslegri þýsingu er folaldapolki.  Með sama sólskinsbrosinu stilti hann geislaspilarann á lag nr. 17 og folaldið hljómaði út í sólbaðaða Aðalgötuna.

Það kraumar undir hér á Vesturbakkanum og stóra - skiltamálið er í miklum hnút. Gleggstu menn kunna enginn ráð í þessu máli svo sjá má að úr verulega vöndu er að ráða. Meðan málið er í þessum farveg þá er næsta víst að þeir sem um þjóðveginn fara  vita ekkert af Hótelinu eða Ljóni norðursins.  En samhengið þennan síðasta dag vetrar verður að finna og það gæti husanlega og allt eins verið með eftirfarandi hætti.

Hér er allt með kyrrum  kjörum

en kraumar undir.

En vandræðaskiltin á allra vörum

virðast um þessar mundir.

 

Um þetta viljum við alls ekki yrkja,

augunum  annað því beinum.

Lífsgleði og samheldni leitumst að styrkja

og losn´undan kvabbi og kveinum.

Gleðilegt sumar

16.04.2014 16:05

Ljónið mun klárlega krossfesta menn

Þessi miðvikudagur sem líka er Magnúsarmessa hin fyrri er grár yfir að líta. Fullt tungl var í gær og  sólin lyftir sér 34,6 gráður yfir sjóndeldarhringinn  og svipuð staða verður á sólinni þann 25 ágúst nk. Því nefni ég Magnúsarmessu hér, er vegna þess að Magnús mágur minn Sigsteinsson er sjötugur í dag og er hann líkt og Magnús Orkneyjajarl ( Magnús Erlendsson jarl af  Orkneyjum var höggvinn 1115 í átökum við bróðir sinn um  jarlsdæmið og lýstur helgur maður tveimur áratugum síðar. Hann virðist hafa verið dýrkaður á Íslandi þegar um 1200. Af lífshlaupi hans og jarteiknum segir í Orkneyinga sögu)   sem þessi dagur er kenndur við, kappi mikill og ekki síst drengur góður.


Nú líður að páskum, gæsunum fjölgar og enn glittir í veturinn þó sumarið sé handan við hornið. Dymbilvikan hálfnuð og Jónas á Ljóninu við það að renna í hlað á Blönduósi með alla sína útgerð. þ.e. leigubílinn og rútuna Sólu sem verið hefur á tjaldstæðinu í Laugardal í allan vetur. Já Jónas kemur í aðdraganda krossfestingarinnar og ef ég mér skjöplast ekki minnið þá stefnir Jónas einbeittur að því að krossfesta bæjaryfirvöld, sýslumann, lögregluna, 3 lögmenn, 2 tryggingafélög og 10 einstaklinga einhverja næstu daga. Grun hef ég um það þegar komið er að síðustu kvöldmáltíðinni þá verði Jónas búinn að skrúfa upp skiltin sín við þjóðveg 1 sem tekin voru niður fyrir nokkru og bæta að minnsta kosti einu við. Ég er nokkuð viss um að hann verður ekki búinn að þvo fætur þjóna sinna áður en óæskileg skilti verða tekin niður og hin nýju upp sett. Það er sem sagt tíðinda að vænta á vesturbakkanum og óvíst hvernig mál öll skipast þegar upp verður staðið.


Einn vitlausasti fugl landsins er mættur og þar á ég að sjálfsögðu við stelkinn. Það sem gerir hann svona vitlausan er hversu heimskulega hann hagar sér við vegi landsins og hávaðinn í honum er ekki nokkrum til yndisauka. Hann er hávaðasöm slysagildra en þar sem ég hef  reynt að fremsta megni gegnum tíðina að hallmæla sem allra fæstum  og allra síst málleysingjum, þá má stelkurinn eiga það að þegar ég heyri í honum fyrst á vorin þá er hann enn ein vísbendingin um það að jörðin hún snýst líkt og hún hefur gert um aldir alda með okkur öll innanborðs.

Glugginn er kominn og má þar finna mörg aðalfundarboð frá hinum ýmsu félögum. Aðalfundir eru svona eins og farfuglarnir , nokkurs konar vorboði.  Karlakór Bólstaðarhlíðarhrepps ætlar að fagna sumri síðasta vetrardag og á þeirri samkomu munu nokkrir hagyrtir kórfélagar sýna hvað í þeim býr undir styrkri stjórn Gísla á Mosfelli. Ég rak augun í, að ég taldi uppfyllingarmynd í Glugganum sem sýnir annarsvegar öskrandi ljón og hins vegar ljónynju dröslast áfram með bráð sína. Þegar ég fór að hugleiða þessar myndir frekar þá rann upp fyrir mér ljós. Þetta eru auðvitað skilaboð frá Ljóni norðursins sem eins og áður hefur komið fram er við það að koma á Blönduós. Skilboðin eru auðvitað þessi: Ljónið er mætt og leitar uppi bráðina. Þetta liggur í augum uppi þegar þetta er skoðað í ljósi raunveruleikans.   Vísa vikunnar er eins og stundum áður eftir Rúnar skáld á Skagaströnd og  fjallar hann um mikilvægi hlutverks stígvélaða kattarins . Undir það get ég tekið með Rúnari að þessi magnaði köttur var eitursnjall og leysti tröllaukin vandamál á einfaldan hátt. Kattardýrin skipa stóran sess í Glugga dagsins.

Það var grátt í morgun en hin rísandi sól hefur með krafti sínum afmáð gráman og varpað skýru ljósi á að aftur kemur vor í dal. Ég hef ekkert orðið var við Rúnar vin minn Agnarsson og verð ég og Aðalgatan að sætta okkur við harmonikkulausan dag.

En samhengið núna þegar líður að páskum verður að finna og einhvern veginn finnst mér það liggja í pínu Krists og þrautargögnu Jónasar á Ljóninu:

Karlar og konur minnast þess senn

að kristur lenti í háska.

Og Ljónið mun klárlega krossfesta menn

af krafti rétt fyrir páska.

Gleðilega páskahátíð

09.04.2014 15:00

líklega mun þetta hefna sín


Þú magnaði miðvikudagur, mikil er fegurð þín var það fyrsta sem kom upp í huga minn þegar ég ók til vinnu í morgun eftir vel heppnaða klippingu hjá henni Bryndísi. Eins og svo oft áður þá gafst mér ekkert tækifæri til að rýna í tímaritið  "Fáséð og fáheyrt" og hef ég það á tilfinningunni að Bryndísi sé ekkert um það gefið að ég sé með nefið ofan í koppum fræga og fína fólksins. Ég held að hún hafi mína sálarheill að leiðarljósi og telji best að ég einbeiti mér að einhverju öðru heldur en þessum þáttum mannlífsins. Þetta hefur reyndar komið mér illa því á flestum öðrum biðstofum sem maður kemur á er yfirleitt 3-4 ára gömul blöð(sem ég reyndar hef nýlega uppgötvað) og hefur maður verið að upplýsa fólk um löngu liðna atburði og þá eru nú sum samböndin farin úr böndunum.  Svona er nú það en það er engu logið að það er mikill friður og ró yfir Húnaflóanum og hafaldan heldur niðri í sér andanum svo við fáum betur heyrt í sífjölbreyttari fuglaflórunni. Það er góður gangur á vorinu og má segja að hann sé svo góður að maður er farinn að óttast að þetta eigi eftir að hefna sín.

Eitt það merkilegasta sem hefur hent mig undanfarna 7 daga er að ég hef bara ekkert heyrt í Ljóni norðursins. Mönnum sem ég hef hitt og greint frá þessu ber ekki saman hvað þessi tíðindi bera með sér. Þeir sem gleggst þekkja til Ljónsins segja þetta góðs viti, ljónið hvílist, er mett m.ö.o er ekki að eltast við bráð. Aðir segja þetta sé bara lognið á undan storminum og stutt sé að í harðbakkann slái hver svo sem þessi harðbakki er. En hvað sem öllum vangaveltum um þetta líður þá hefur Jónas á Ljóninu hægt um sig á heimaslóðum svona á yfirborðinu.


Óli Werners hótelstjóri sem að öllum líkindum er að hætta sem slíkur hér á Blönduósi hefur verið að sýna sig á svæðinu undanfarið því hann starfar sem framhaldsskólakennari og verkfall hjá þeim hefur ekki farið framhjá neinum. Hann var staddur í nágrenni við mig þegar skrifað var undir samninga um daginn og þá fékk ég að kynnast ómenguðum íslenskum orðaforða sem helst er notaður þegar menn eiga orðastað við andskotann sjálfan.  Ég er ekki frá því að tíkinni hans henni Lukku hafði verið jafn brugðið og mér en ég hafði það þó fram yfir tíkina, að ég held, að ég bað bara Guð að hjálpa mér og tiltók Óla líka  í framhjáhlaupi og fannst það engin ofrausn.

Glugginn er kominn og kennir þar ýmissa grasa. Samtök hrossabænda heldur sinn aðalfund í Búnaðarsambandssalnum en fjárræktarfélag Sveinsstaðahrepps verður með sinn aðalfund í sama húsnæði en kallar það " í Bændahöllinni á Blönduósi" Anna Árna á vísu vikunnar að þessu sinni og kemst að því að ekki sé sama Jón og Jón og er ég ekki í nokkrum vafa um að hún hefur eitthvað til síns máls því ég kannast við nafnið. Ég get staðfest það að Jón Sigurðsson hundur er ekki það sama og ég svo einhver dæmi séu nefnd í þessu sambandi. Fyrst Jón hund ber á góma þá er gaman að geta þess að hann er við góða heilsu og starfar við grunn atvinnuveginn ferðaþjónustu í Ölfusinu.


Ég hef lítið séð til Rúnars vinar míns undanfarið en sé svona tilsýndar að við heimili hans er Jobban (lítil grafa) hans Stebba Páls (Kallinn) og það segir mér að þar sé unnið að einhverju viðhaldi. En það get ég sagt með sanni að Rúnar er í góðum verkmannshöndum þar sem Kallin er mættur á hans vettvang.

En mikilvægi samhengisins hverfur ekkert þó svo ég sitji einn uppi með að finna það.

Fuglarnir synga um mela og móa,

úr mold vakna blóm og sólin á jörðina skín.

En farðu nú varlega litla mín lóa

því líklega mun þetta hefna sín.

02.04.2014 15:13

ef kærleikurinn myndi vísa veginn

 

Víða er vegurinn grýttur en aldrei svo að ekki megi ryðja brautina

Það er hægur vindur úr suðvestri sem leikur um Húnaþing í dag og hitinn er rétt ofan við frostmarkið. Þokan umlykur allt þannig að maður neyðist til að líta sér nær. Maður þakkar fyrir hægviðrið og rekjuna því ella væri ástandið líkt og hjá Betu og Pusa, mengað loft og sandfok frá Sahara. Það er mikið talað um mengun og afleiðingar hennar fyrir hana Versu. Menn tala mikið og er mikið niðri fyrir en það er eins og svo oft áður að það vill enginn gefa neitt eftir af sínum lífsgæðum til að koma til móts við að draga úr mengun. Það er alltaf þannig að einhver annar en maður sjálfur sem á að ganga fram fyrir skjöldu og draga úr sinni neyslu og hræddur er ég um að svo verði áfram því hver er sjálfum sér næstur.


Þegar þessir kappar þeir Bjössi Þóris og Valli Valla birtast á brautinni þá má heita að vorið sé komið

Maður rekst stundum á ýmislegt merkilegt þegar vafrað er um veraldarvefinn. Um daginn var ég að leita uppi orðið "prúnkinn", hvort það væri notað í íslensku máli. Það kom mér á óvart að ég fann bara eina tilvitnun í þetta orð en hana var að finna í frétt í  Tímanum sáluga sem birtist rúmum mánuði áður en ég fæddist og er svona orðrétt: "Kona ein á Mön hefir fyllzt réttlátri reiði yfir því, að jafnrétti kynjanna sé lítilsvirt..Hún hefir sent "Möns Folkeblad" grein um þetta mál. Hún segir meðal annars: ,;Sem kona fyllist ég jafnan gremju, þegar ég sé hina stóru, gulu flutningavagna eggjasölunnar, þar sem prúnkinn og vígalegur hani hreykir sér í gullnu litaskrúði. Má ég spyrja: Hefir svona auglýsing við rök að styðjast? Er það haninn, sem verpir? Skyldi það ekki vera hænan, og ætli hugmyndin um auglýsinguna og skreytinguna á bílunum hafi ekki fæðzt í karlmannsheila? Þessa vegsömun á karlkyninu get ég ekki þolað. Þess vegna burt með hanann, og hænu á bílana í staðinn eða að minnsta kosti bæði hænu og hana.Við lifum á tímum, þegar barizt er fyrir jafnrétti kynjanna - það fylgir því engin blessun að spyrna þar við broddunum." Svo mörg voru þau orð og í sjálfu sér litlu við að bæta. Þessi frétt hefði allt eins getað birst í dag en mikið held ég að haninn hafi verið flottur á gula eggjaflutningabílnum.

Það hefur ýmislegt gerst á Vesturbakkanum undanfarna daga og má þar helst nefna að gámarnir tveir sem voru búnir að vera um skamma hríð á Krúttplaninu er horfnir og kunnugir segja mér að þeir séu núna komnir í Holt á Ásum. Eitthvað hefur maður heyrt um sölu á hótelinu en ekkert sem teljast má naglfast og því algjörlega út í bláinn að vera að "fabúlera" eitthvað um það. Jónas á Ljóninu er en í leigubílaharkinu fyrir sunnan en gefur sér samt tíma til að velta fyrir sér ýmsu sem ekki viðkemur væntanlegu annasömu sumri hjá honum í ferðaþjónustunni.


Vorið er komið hjá kirkjuhöfðingjanum Sveini í Plúsfilm

Af farfuglunum er það að segja að gæsunum smá fjölgar og straumöndin er farin að láta sjá sig í Blöndu. Skógarþrösturinn brást ekki og hóf að syngja fyrir mig morgunsönginn þann 30. mars. Ég er svona farinn að svipast eftir vinkonu minni, grágæsinni merktu henni SLN en ég á nú ekki von á henni fyrr en svona 12. - 24. apríl.  Ef hún verður ekki komin í lok apríl fer ég að verða áhyggjufullur um afdrif hennar en hún hefur skilað sér á Blönduós að minnsta kosti í 15 ár þannig að þessi gæs er tekin að gamlast. Reyndar veit ég ekki hve gamlar grágæsir geta orðið en hef þó heyrt að eitt æviár hunds samsvari 7 árum hjá okkur mönnunum.

Glugginn er kominn og þar má meðal annars sjá að gamli Vísir er auglýstur til sölu á lækkuðu verði. Það eru margir sem eiga góðar minningar tengdar þeirri verslun sem þá var. Svo má líka átta sig á því að sveitastjórnakosningar standa fyrir dyrum og hún Bebbý á vísu vikunnar hvar fram kemur ósk um að vetur fari nú senn.

Rúnar er kominn með "Blekkingarpolka" eftir Garðar Olgeirssson og í flutningi hans. Þessi polki hefði kannski betur átt við í gær þegar leyfilegt að láta menn hlaupa apríl með öllum tiltækum ráðum.  Þetta var bara hressilegur polki og full ástæða til að birta mynd af dansfuglunum Önnu Gunnu og Kristófer svona til að fá réttan takt í pistilinn.

                           Anna Gunna og Kristófer Sverris

Rúnar var eins og oftast áður bara hress og lét þokuna ekkert á sig fá. Talandi um blekkingarpolka þá iðaði ég í skinninu í gær að koma með skilaboð frá Ljóni norðursins og birta þau t.d. á Feisbókinni og þau hefðu litið einhvern veginn svona út: "Í tilefni af því að ég hef nú tekið bæði Guð og menn og sýslumanninn í sátt býð ég gestum og gangandi til kaffisamsætis á Ljóninu milli kl 16 og 18. Með kristilegri kærleikskveðju, Ljón norðursins" En þar sem ég er kjarklaus eins t.d. Lárus B. Jónsson hefur bent á þá lét ekkert af þessu verða og þessvegna verður þetta bara áfram ágætis hugmynd.

En nú er komið að samhengi hlutanna og fyrst ég hef nú Rúnar mér við hlið hlýtur það að vera lítið mál að koma auga á það. Það má láta sér detta í hug að kærleiksálfur hefði lostið Jónas á Ljóninu töfrasprota sínum

 

 

Ef kærleikurinn myndi vísa veginn

og vefja ljónið mildum friðaranda.

Margur maður yrði fjarska feginn

en margir létu sér á sama standa.

26.03.2014 15:48

stóra - skiltamálið


Hvassviðri var við Húnaflóa í morgun og hitinn fór í 8 gráður

Það syngur og hvín í öllu og sunnanvindurinn æðir á ógnarhraða um grundir. Það skefur af bárum hafsins og fuglarnir hafa hægt um sig. Þó finnst mér líklegt að með svona öflugri sunnanátt fjúki farfuglarnir hreinlega á heimaslóðirnar.  Í gær á boðunardegi Maríu var fallegt veður fram til kl 16:30 en þá dimmdi í lofti. Ég var búinn að hlakka til þess allan daginn að eiga góðan eftirmiðdag  í björtu veðri og hægum vindi með minni myndavél á bökkum Blöndu. En eins og allir vita þá skipast oft veður skjótt í lofti og datt mér helst í hug að skaparinn hafi ákveðið á þessum boðunardegi að draga fyrir himnatjöldin meðan hann væri að skapa. Og mikið rétt, ég sá í hádeginu grágæsir hrekjast undan vindi en ná landi í Hrútey. Kunnugur segja að fyrstu grágæsirnar hafi komið í gær og má það satt vera. Nú verður spennandi að fylgjast með því hvort hin þrautseiga grágæs SLN skili sér nú í vor  á Blönduós í a.m.k. 15. sinn.


Stundum valda lítil skilti miklum vanda

Þó vindar blási hressilega á þessum degi þá næða líka snarpir vindar í samfélagslegu tilliti. Stóra skiltamálið sem hér hefur áður verið minnst á hefur náð áður óþekktun hæðum. Fyrir nokkru þá fjarlægði Jónas vert á Ljóninu vegamerki við þjóðveg eitt við innkomuna í bæinn sem vísaði veginn að hótel Blönduós. Þetta brotthvarf vakti ekki ánægju í samfélaginu og má geta þess að eigandi hótelsins var var enn svartari í andliti en venjulega  þó svo erfitt sé að greina húðlit á andliti hans fyrir svörtu skegginu.  Þetta mál hefur fengið dágóðan sess á æðstu stöðum og hverjum steini hefur verið velt við til að sýna fram að það að fullyrðing Jónasar um að hann eigi þetta skiltastæði sé ekki á rökum reist. Samkvæmt nýjustu fréttum þá hefur komið í ljós að hótelið eigi þetta skiltastæði  og mun Sölufelag A-Hún (SAH) sem á sínum tíma rak hótelið hafa fengið leyfi fyrir því og greitt fyrir það. Með þetta að leiðarljósi hefur það svo gerst að nú eru það fleiri en Jónas sem skrúfa niður skilti því búið er að fjarlægja öll verksummerki um Jónas á Ljóninu og meki hótelsins er komið aftur á sinn stað. Ég hef nú ekkert heyrt í Jónasi á Ljóninu eftir nýjustu atburðarásina en á nú ekki von á því að létt verði yfir kalli þegar hann fær fréttirnar. Ég hef aftur á móti hitt Óla hótelstjóra og verður að segjast eins og er að hann er assskoti prúnkinn með sig og telur sig hafa unnið fullnaðarsigur í stóra skiltamálinu og eins er það að hann telur miklar líkur á því að hótelið muni skipta um eigendur fljótlega ef það tekst að hnýta alla lausa enda á farsælan hátt. Í stuttu máli þá held ég að stóra - skiltamálinu sé ekki lokið því ef að líkum lætur mun Jónas á Ljóninu verða eins og grenjandi ljón við yfirvöld og telja að stórlega hafi verið gengið á hans hlut. Lítil skilti geta orðið stór standi til þess vilji. Reyndar þegar ég var búinn að skrifa framanritað þá hringdi Jónas í mig úr höfuðborginni og ég sagði honum helstu tíðindi af vesturbakkanum. Það get ég sagt með sanni líkt og  í storminum syngur og hvín að Jónasi var brugðið. Ekki var ég viss hvernig hann ætlaði að bregðast við þessum nýjustu tíðindum en eitt skynjaði ég að lögfræðingar voru honum ofarlega í huga. En ég endurtek bara að stóra - skiltamálinu er hvergi nærri lokið.


Fyrstu grágæsirnar komu á boðunardegi Maríu

Glugginn er kominn og er þar ýmislegt að finna eins og það að leikfélagið frumsýnir á föstudaginn leikverkið "dagbókin hans Dadda" . Krakkarnir í dreifnáminu (nafn sem ég er ekki alveg að "fíla") taka mikin þátt í uppsetningu þessa verks og ég veit að þau munu ásamt öðrum skila sínu hlutverki vel. Fergusonfélagið og  Landbúnaðarsafn Íslands verða með fund í Dalsmynni 1. Apríl og  austur- húnventskir kúbændur ætla suður í Borgarfjörð þar sem botninn ku leynast. Vísa vikunnar er eins og svo oft áður eftir Rúnar Kristjánsson og ratast honum eins og stundum áður rétt orð á munn þegar hann segir: Djúpar lægðir landið plægja/ lognmolla er hvergi til.

En Rúnar vinur minn og harmonikkuunnandi er hvergi sjánlegur og allar líkur á því að ég verði án hressandi tóna frá harmonikku Arnt Haugen eða Familien Blix svo einhverjir séu nefndir. Auk þess sit ég einn uppi með samhengi hlutanna  sem eins allir vita er nauðsynlegt að koma auga á.

Lifa munum leiða tíð

og látlaust mundað stálið.

Ei mun standa um stutta hríð

stóra - skiltamálið.

20.03.2014 15:46

vindgangur og draumar

Það er stífur vindur  sem kemur úr norðaustri sem lemur á okkur á þessum degi þar sem dagur og nótt eru jafn löng. Það er ekki mikið úrfelli og skyggnið ágætt og hitinn eina til tvær gráður fyrir ofan frostmarkið.


Það hefur verið smá garg í dag en það er ekki allt grábölvað því sjá himins opnast hlið yfir Hnjúkum og Hauki á Röðli

Já, dagurinn hefur jafnað metin við nóttina og herðir tökin á henni fram til 21. júní. Þó svo nóttin sé farin að láta undan þá virðist veturinn ekkert vera að gefa sig og herðir tökin ef eitthvað er. Veturinn má þó eiga það að hann er heiðarlegur og gerir þetta með hækkandi sól svo sem flestir geti séð handbragð hans í dagsbirtu.

Það er gaman að rifja upp draum frá því um miðjan febrúar það herrans ár 2008. Þessi draumur var tilkominn vegna þess að ég lagði mig fram um að dreyma mig í grænum jakka því það er fyrir hlýnandi veðri segja mér reyndir draumaráðningamenn. Ég hafði nefnilega fyrr um þennan vetur dreymt að ég hefði verið við það að festa kaup á köflóttum jakka í S-Afríku og þótti það boða rysjótt tíðarfar sem svo gekk eftir. Lái mér hver sem vill að gera allt sem í mínu valdi stóð til að hafa áhrif á máttarvöldin  sem skömmtuðu okkur bara köflótt tíðarfar. En frásögnin af draumnum  sem ég ætla að rifja upp er á þessa leið: "Reyndar dreymdi mig fyrir ekki svo margt löngu að sonur minn og tilvonandi tengdadóttir hefðu eignast lítinn dreng, svona líka fallegan og ljúfan og fannst mér einhver segja "mikið er hann líkur afa Jóni á Blönduósi" og mér hlýnaði eitthvað svo innra með mér. Þetta indæla par á reyndar von á barni í lok mars og ég veit ekkert hvers kyns það er og hef óskað eftir því að vera ekkert upplýstur um það. Ég vil hafa eitthvað til að hlakka til. Það er svo spennandi þegar barnið kemur í heiminn og maður heyrir kannski. " Fæddur er lítill heilbrigður drengur 16 merkur og 54 cm alveg eins og afi á Blönduósi"" Það get ég sagt ykkur að þetta gekk eftir og er engu ofaukið nema þá helst samlíkingin við afa sinn og hugsanlega gæti fæðingarþyngd og lengd eitthvað verið önnur en hann Jóhann Ingvi Hjaltason verður 6 ára á laugardaginn.


Múkkinn (fýllinn) er mættur þrátt fyrir úfinn sjó

Þetta er svolítið stílbrot hjá mér að vera með skrif sem þessi á fimmtudegi en það stafar af því að ég þurfti að bregða mér af bæ í gær. Ég er mjög þakklátur fyrir það að hafa getað sinnt erindum í gær og þverað tvo fjallvegi án teljandi vandkvæða. Í dag er kolófært til höfuðstaðar Norðurlands og ef satt skal segja þá finnst mér alltaf betra að vera veðurtepptur heima hjá mér en að heiman. Þetta stílbrot er þess valdandi  að ég fæ líklega enga harmonikkutóna frá Rúnari og ég var líka víðsfjarri þegar Glugginn kom í hús með auglýsinu um laust húsnæði í Lönguvitleysu. Ekki kom fram hvort þetta húsnæði væri til leigu eða sölu eða hvort það þyrfti bara að festa það en Arnar Þór bæjarstjóri veitir allar upplýsingar um það.

En hvað sem öðru líður þá er dagurinn í dag, dagurinn sem mestu skiptir eins og ég hef margoft sagt og hann verður að höndla. Þó svo veðurspár geri ekki ráð fyrir því að vorið sé handan við hornið þá er sílamávurinn mættur  sem og múkkinn og sést hefur til álfta og samkvæmt öllu er ekki langt í fyrstu grágæsirnar frá Bretlandseyjum.


Sílamávurinn er einn af fyrstu vorboðunum

En best er að láta þessu jafndægrasproki lokið og vitna í vísu eftir Sigurjón Guðmundsson oft kenndur við Fossa í Svartádal en af hans vörum nam einhver þessa vísu þegar hann átti leið fram hjá brunarústunum á Blöndubyggð 13 á dögunum.

Á Einarsnesi áður stóð,

aldrað hús með sögu.

Horfið er í heitri glóð,

hver stjórnar svona lögu.

(Sigurjón Guðm)

12.03.2014 15:10

lífið það er sterkara en dauðinn


Þessi mynd var tekin fyrir nákvæmlega ári síðan en þá var straumöndin farin að sækja töluvert upp í ósinn en í vor hefur nánast ekkert borið á henni

Hann er meinlaus þessi miðvikuagur. Skýjað loft og hitinn þrjár gráður fyrir ofan frostmarkið og hægur suðlægur andvarinn leikur um vanga. Það er ekkert upp á þennan dag að klaga og það er fullkomlega í okkar valdi hvernig hann verður að öðru leiti. Á þessu eru undantekningar eins og gengur og er eftirfarandi saga bara lítið dæmi um það.

12. mars er í mínum huga einstakur dagur því þessi dagur hefur markað djúp för í mína sál. Fyrir 34 árum þá ól mín kona andvana tvíbura, sveinbörn á Landsspítalum í Reykjavík. Það þarf ekki að hafa mjög mörg orð um það hvernig slíkur atburður hefur áhrif á einstaklinga sem næst atburðinum standa. Á þessum tíma var lítið í boði sem hét áfallahjálp eða sálgæsla. Ég sá fyrir tilviljun þegar tveimur lífvana nýburum 8  og 10 merkur var ekið á litlum vagni út úr sjúkrastofunni sem konan mín ól þá.  Ég held að aldrei á minni lífsfæddri ævi hafi ég verið eins ráðalaus og hugstola og þá. Ég man bara að mér voru færð tíðindinn í biðstofu fyrir verðandi feður og ég ráfaði út í daginn upp á Skólavörðuholtið og hljóp niður allan Skólavörðustíginn og heim til foreldara minna sem þá bjuggu í danska sendiráðinu á Hverfisgötunni. Þetta var einsog gerst hefði í dag. En ég man líka jafnvel og þennan, annan atburð fyrir nákvæmlega 33 árum en þá fæddist okkur hjónum sonur á nákvæmlega á sama stað og í nákvæmlega sama rúmi. Þessi drengur er sem sagt 33 ára í dag og það merkilega er að líkast til hefur hann greint sálarháska föður síns því hann lagði fyrir sig sálfræðina og starfar við það í dag. Hjalti Jónsson tveggja barna faðir á Akureyri á afmæli í dag, dag sem kenndi mér það að lífið það er sterkari en dauðinn.

En aftur til nútímans, dagsins í dag sem eins og áður er getið er bara meinlaus hvað veður áhrærir. Hér á vesturbakkanum hefur verið til þess að gera tíðindalítið síðustu viku en ég efa það ekki að undir yfirborðinu kraumar eitthvað sem mun marka spor sín á söguna. Hótelið er til sölu og ég veit að einhverjir hafa sýnt því áhuga að eignast það. Það er til góð saga um Óla hótelstjóra þar sem hann á að hafa sagt við einn ágætan markaðsmann í ferðamálum og  það gersamlega í óspurðum fréttum. "Það er bara eitt sem ég þoli ekki en það eru þessir andskotans túristar".  Alveg get ég trúað því að Óli hafi látið þetta út úr sér bara til að stuða viðmælanda sinn því þeir sem þekkja til Óla vita að hann er "ólíkindatól".

Jónas á Ljóninu hefur haft hægt um sig upp á síðkastið en ég veit að ljónið vakir. Það fer nú að styttast í það að hann komi norður í hreiðrið líkt og hinir farfuglarnir því ég veit fyrir víst að Jónas hefur aldrei á sinni löngu ævi staðið frammi fyrir eins mörgum bókunum í gistingu þannig að hinn "elderly gray man" þarf að láta hendur standa fram úr ermum í sumar og einbeita sér eingöngu að því verkefni .


Aðalgatan í dag og gámarnir góðu við suðvestur gafl Aðalgötu 9. Myndin er frekar líflítil

Svo virðist að Aðalgatan sé orðin að einu helsta gámasvæði bæjarins. Athafnasvæðið fyrir framan Krútt-húsið hefur geymt tvo 40 feta gáma sl. 7 daga og hindrað alveg aðgengi að Aðalgötu 9.  Hvað skildi þetta ástand vara lengi?


Ívar Snorri í hlutverki gamals manns. Með honum á myndinni er Atli Einarsson (sonur Einars Kolbeins og Hafdísar Vilhjálms)

Að öðru leiti er allt í góðum farvegi og gaman að geta þess að sægreifinn Ívar Snorri er við æfingar á leikverki með leikfélagi Blönduóss. Reyndar hef ég lítið séð til Svenna í Plúsfilm og mér skilst að hann sé með hugmyndir að flytja sig aftur til höfuðborgarinnar.

Rúnar er kominn með harmonikkutónana og fylla þeir út í Aðalgötuna  þar sem gámar hafa ekki nú þegar fyllt. Það var góðvinur okkar hann Arnt Haugen sem lék af mikilli list polkann "yfir stokk og steina". Rúnar var glaður í bragði og ótrúlega létt yfir honum enda nýkominn úr klippingu.  Það hrökk svona út úr mér þegar ég sá þennan "margt er það sem miður fer" mann, hárléttan:


Af höfði Rúnars fokið er

hárið út í buskann.

Margt er það sem miður fer

og misjöfn undin tuskan.

En við þurfum að komast að samhengi hlutanna þennan miðvikudaginn sem er enn einn bautasteinn í veraldarsögunni og hverfur líkt og annað í aldanna skaut svo munið þetta á lifsgöngunni.

Margt er það sem miður  gæti talist,

margan má hér líta breyskan sauðinn.

Á lífsleiðinni margir hafa kvalist,

en lífið það er sterkara en dauðinn.

05.03.2014 16:24

Bakaríið, skiltið og húsið sem hvarf


Það er ýmislegt sem er að gerast hér á vesturbakkanum þessa daganna. Augýsingaskilti við þjóðveg 1 hafa verið fjarlægð, Sveitabakarí er hætt starfsemi í gamla Krúttbakaríinu og síðast en ekki síst þá var Blöndubyggð 13 brennd til kaldra kola í gærkvöldi. En hvað sem öllu líður þá er veðrið þennan miðvikudag bara sæmilegt. Vindur svona 5 - 6 metrar á sekúndu og kemur úr suðaustri. Skýjað en skyggni mjög gott og hitinn einni gráðu fyrir neðan frostmarkið. Og það sem er fyrir hvað mestu að töluvert hefur gengið á klakann.


Eins og fyrr segir þá er og hefur ýmislegt verið að gerast á vesturbakkanum að undanförnu og einmitt þessa stundina þá stendur yfir flutningur á tækjum úr bakaríinu. Menn rogast með stóra gáma og fylla þá af allskyns tækjum og tólum. Í stuttu máli þá er sögu Sveitabakarís lokið að minnsta kosti fyrst um sinn í Krútthúsinu.  Um ástæður þessa veit ég næsta lítið en þó það að leigusamningar milli eiganda Krútts og bakarís gengu ekki eftir.




Eins og þeir sem þessa síðu skoða vita þá kom Jónas á Ljóninu í heimsókn fyrir viku og lét hann það verða sitt síðasta verk áður en hann hélt suður að fjarlægja leiðbeiningarmerki við þjóðveg eitt hvar á stóð "Hótel Blönduós". Þetta merki var á sama standi  og fyrir voru merki sem vísuðu á Ljón Norðursins. Jónas fjarlægði Hótelmerkið á nokkurrar sektarkenndar því hann taldi sig eiga þennan stað sem merkin eru á og væri því í fullum rétti. Ég veit að margir hafa rekið upp stór augu yfir þessu öllu saman og sýnist sitt hverjum um þennan gjörning en enga hef ég heyrt niðurstöðu í máli þessu.


Flygildi með myndavél sveimaði yfir eldhafið og allt um kring

Svo gerðist það í gær að það fór að hitna vel undir  Jónasi á Ljóni norðursins því slökkviliðið kveikti í næsta húsi við hann, nánar tiltekið Blöndubyggð 13.  Það hefur lengi staðið til að fjarlægja þetta hús og hafði slökkvilið fengið leyfi til að kveikja í því og nota til æfinga. Það var eiginlega ekki fyrr en í gær að vindátt varð hagstæð til verksins og þá var blysum brugðið á loft. Reyndar gekk slökkviliðinu brösuglega  kveikja í og sögðu kunnugir að það stafaði af því að slökkviliðið væri ekki brunalið. Í morgun var svo Kristján Kristófers mættur til að fjarlægja brunarústirnar og skyndilega er komið þetta fína byggingasvæði fyrir Jónas á Ljóninu til að fjölga sumarhýsum. Vonandi ber honum gæfa til að ná samningum við bæjaryfirvöld um þessi mál. Og svo mun vonandi í vor þegar farfuglarnir fara að streyma til landsins  rísa þarna á Einarsnesinu rétt sunnan við, fuglaskoðunarhús hvar menn geta fylgst með hinu fjölskrúðuga fuglalífi á Blöndu.


Blöndubyggð 13 rjúkandi rúst

Í dag er öskudagur sem ég stundum kalla sníkjudýradaginn. Það er nú meira svona  í gamni sagt því krakkarnar ganga misskrautleg milli fyrirtækja og stofnana og syngja fyrir gjafar sem í lang flestum tilfellum er sælgæti. Sem sagt litlu "dýrin" ganga um og "sníkja" en þau lífga upp á tilveruna og mér þykir bara vænt um þessi "sníkjudýr".




Rúnar vinur minn Agnarsson hefur ekki enn komið til að létta mér miðvikudagstilveruna en Himmi Snorra kom og tjáði mér að skiltahreinsarinn hann Jónas á Ljóninu hafi tilkynnt komu sína á Blönduós á morgun. Ætli hann ætli ekki að setja nýtt skilti upp þar sem áður var hótelskiltið og upplýsa vegfarendur um að það séu um 600 metrar í gistihúsin hans sem opin eru frá 1. maí fram í byrjun október.


Já það gengur á ýmsu og í mörg horn að líta. Í gær  fékk ég  sendann diskling frá mínum góða vin á Akureyri honum Jóni Inga Einarssyni. Diskurinn hafði að geyma viðtöl við frambjóðendur í bæjarstjórnarkosningum á Blönduósi árið 1990. Við hjónin horfðum á þennan disk og það sem hann hafði að geyma okkur til mikillar ánægju og kann ég nafna mínum bestu þakkir fyrir sendinguna. Það kom mér skemmtilega á óvart að kona mín þekkti mig ekki og satt best að segja átti ég í mesta basli að bera kennsl á sjálfan mig en eins og fyrr greinir þá skemmtum við okkur konunglega yfir þessum mynddisk. Takk Jón Ingi!

En mál er að linni og hingað og ekki lengra.

26.02.2014 16:05

dæmalaust helvíti slysinn

" Þú ert ekki til stórræðanna fyrri part dags en munt bæta það upp seinnipartinn. Láttu því slag standa áður en þú bognar undan álaginu". Svona hljóðaði stjörnuspáin mín í Mogganum í dag. Ég er ekki frá því að stjörnuspámaður Morgunblaðsins sé forvitur því ég var varla mættur til vinnu í morgun þegar tveir félagar mínir komu í heimsókn. Fyrst kom  höfðinginn Hilmar Snorrason (Himmi) , unglingur á tíræðisaldri  og skömmu seinna afmælisbarn dagsins og stríðsmaðurinn Jónas á Ljóninu. Við Himmi voru ekki nærri búnir að skipuleggja afmælisdaginn hjá Jónasi þegar hann birtist glaður í bragði í dyrunum nýkominn úr höfuðborginni.  Já, Jónas er kominn til stuttrar dvalar og hann á líka 73 ára afmæli. Ég get svo svarið það að kallinn gæti verið á aldur við mig. Hann tjáði okkur Himma að hann hefði verið að endurnýja atvinnuskírteinið sitt og fékk staðfestingu á því að hann hefði góða sjón. Sagði hann okkur að hann geti lesið gleraugnalaust í miðlungs birtu. Það hrökk nú út úr mér eftir þessa sjónræðu að líkast til væri þetta hans helsta vandamál því hann sæi meira heldur en góðu hófu gengdi. Hann kímdi og sagði að bragði, "helvískur". Þeir voru nokkuð þaulsetnir félagarnir og drjúgir í brjóstsykurskálinni, þannig að stjörnuspáin hefur ræst hvað fyrri part dags snertir.  Nú er bara að sjá hvernig seinni partur spár gengur fram.

 

Afmælisbarnið og stríðsmaðurinn Jónas Skaftason að taka á móti afmælisóskum.

En veðrið þennan miðvikudaginn er svona skítsæmlegt.  Vindur er norðanstæður og bíður upp á svona 7 - 9 metra vindhraða á sekúndu og hitinn nálgast 3 gráðurnar fyrir ofan frostmarkið. Sólin vakir í suðrinu en þykkur dökkur skýjabakki hylur norðrið af mikilli kostgæfni. Maður tekur eftir því að sólin sem núna nær 15,8 gráður yfir sjóndeildarhringinn er farin að setja mark sitt á lífið og leggur sitt af mörkum til að létta á klakaböndunum.

Rúnar er kominn og með honum í för var hinn ástsæli norski harmonikkuleikari Arnt Haugen og lék af sinni alkunnu snilld "strekkebuksepolke" sem að öllum líkindum heitir upp á íslensku "Teygjubuxnapolki" Reyndar munar bara einum staf þ.e. I, að þessi hressilegi polki héti því ágæta nafni prjónabrókapolki. Rúnar var líkt og Jónas og Himmi bara nokkuð hress og taldi hann vel við hæfi að spila strekkebuksepolka í svona strekkingi sem utandyra er.

Glugginn er líka kominn og líkt og síðustu miðvikudaga kom Skarphéðinn Ragnarsson með hann.  Ýmislegt er að finna í Glugganum  sem menn geta séð inni á huni.is og Gluggavísu vikunnar á nú sem fyrr vísnasmiðurinn kunni Rúnar á Skagaströnd. Hann yrkir jafnan dýrt og koðnum við Rúnar oft niður þegar við erum búnir að berja saman vísu og lesum síðan dýrt kveðna hringhendu eftir Skagastrandarskáldið. En við erum bara samt svo assskoti forhertir að við látum ekkert stöðva okkur í vísnasmíðum þó komi fyrir að við séum nokkuð stuðlagrænir.


"Nostalgía" Jón Sigurðsson áður en svo margt gerðist

Við duttum um þessa vísu sem líklega er eftir Lúðvík Kemp og fannst hún passa við undirritaðan sem undanfara daga hefur verið að lýsa fyrir Birgittu skáldkonu á S-Löngumýri hremmingum sínum á lífsleiðinni en sú lýsing mun birtast almenningi áður en mjög langt líður:

Maðurinn allur er magur og rýr,

en montinn og andskoti visinn.

Svo er hann óhappa djöfulsins dýr

og dæmalaust helvíti slysinn.

 

Meðan við duttum um ofangreinda vísu þá átti vínbúðarstjórinn hún Margrét leið hjá með vatnsflösku í hendi og hrökk þá "margt er það sem miður fer" maðurinn í gang, þ.e.a.s hann Rúnar og mælti af munni fram:

Margt er það sem miður fer

í minni lífsins tösku.

Magga núna mætt er hér

með óáfengt í flösku.

19.02.2014 14:59

vorboðinn ljúfi er óútreiknanlegur.


Húsapuntur við hafið

Dagurinn í dag er bjartur og kaldur. Áttin er austlæg og vindur fór hægt yfir í morgun en fór að herða á sér þegar kom fram á morguninn.

Það var í fréttum um daginn að lóan væri komin og hefði sést á Seltjarnarnesinu. Þótti lóan vera óvenju snemma á ferðinni en seinna kom í ljós að þessar lóur höfðu bara aldrei farið af landi brott því það þykir víst gott að búa á Seltjarnarnesi þó svo það sé lítið og lágt.

      Ég sagði smá dæmisögu fyrir nokkrum árum sem átti að undirstrika það að fari menn ekki eftir gangi himintunglana, hitanum frá eldinum og umhverfi sínu þá getur farið illa.

    Heiðlóa ein sem hafði þvælst í mörg ár fram og til baka vor og haust til landsins í misjöfnum veðrum og árum, ákvað það að vera um kyrrt á landinu þegar aðrar lóur tóku sig upp og flugu suður á bóginn. Hún sagði við sjálfa sig að þetta hlyti að blessast því vetur á Íslandi væru ekki svo slæmir. Þetta gekk ágætlega fram eftir hausti því tíðarfar var gott. En svo kom fyrsta alvöru hausthretið og lóu litlu varð kalt og lítið var til að borða. "Æi" hugsaði hún með sér. " Mér hefði kannski verið nær að fylgja ættingjum mínum suður á bóginn fyrr í haust. Það er ef til vill ekki orðið of seint" hugsaði hún með sér og hóf sig til flugs af túninu við Hérðashælið. Hún var ekki búinn að fljúga lengi þegar ísing gerði vart við sig á vængjum hennar og hún varð að nauðlenda á túninu í Sauðanesi. Það varð henni til happs að Palli var enn með kýrnar í fóðurkálinu og lóan lenti rétt hjá þeim. Huppa gamla jórtraði spekinglega lyfti hala og skeit á umkomulausa lóuna sem var beint fyrir aftan hana. Eins og gefur að skilja þá hlýnaði lóunni skyndilega við þessa himnasendingu og hóf hún upp söng mikin " dýrðin, dýrðin, dýrðin" söng hún hástöfum. Þessi óvænti gleðisöngur lóunnar barst Brandi, ketti Páls í Sauðanesi til eyrna og var hann satt best segja undrandi í fyrstu, því hann hafði ekki heyrt lóusöng í langan tíma eins og gefur að skilja. Brandur gerði meira heldur en að sperra eyrun því hann lagði leið sína suður fyrir fjós og fór að huga að því af hvaða toga þessi söngur væri. Ekki var hann lengi búinn að ganga þegar hann kom að lóunni fastri í kúadellunni. Það verður bara að segjast eins og er að þau urðu bæði mjög hissa á því að sjá hvort annað og Brandur gerði það sem hann kann best í samskiptum við fugla. Hann dró lóuna þar sem hún sat föst upp úr skítnum og gerði sér hana að góðu.

    Þessi saga kennir okkur það í fyrsta lagi að hlutirnir lúta ákveðnum lögmálum og það þýðir ekkert að berja höfðinu við stein gagnvart staðreyndum lífsins. Lóur fara suður á bóginn á haustin. Í öðru lagi segir þessi saga okkur það að vera ekki að blása það út um allt þó manni líði vel og hafi það gott um stundarsakir heldur lifa lífinu sáttur og af hógværð því ýmsir sem þú kærir þig ekki um geta heyrt í þér. Ennfremur er það nokkuð ljóst að það eru ekki alltaf óvinir þínir sem skíta þig út. Og síðast en ekki síst þá eru það ekki endilega vinir þínir sem draga þig upp úr skítnum og koma þér til hjálpar þegar mest á reynir. Svo mörg voru þau orð. Það er hreint með ólíkindum að sex lóur á Seltjarnarnesi geti eyðilagt góða dæmisögu en svona er lífið og vorboðinn ljúfi óútreiknanlegur.


Spákonufellið í greipum gröfu

Rúnar vinur minn Agnarsson kom hér í gær með sína harmonikkutóna og lagði bílnum eins og venjulega úti á miðri götu. Undir geislanum hjá honum var sænskur polki sem heitir því einfalda nafni "Fölungen" og þýðir samkvæmt "google translate"  folaldið. Það er ekki svo fráleitt að nefna lag í polkatakti eftir folaldi því það minnir svolítið á folald að leik á fallegum vordegi.  Þegar ég var búinn að lóðsa Rúnar með bílinn nær gangstéttarbrúninni gekk hann í hús þar sem ég tilkynnti honum að ég ætti afmæli og þyrfti að fá afmælisvísu í "Margt er það sem miður fer" stíl. Rúnar hugsaði sig um í smá stund og dembdi þessu yfir mig

Margt er það sem miður fer

Hjá mörgum körlum hrjáðum.

Jón nú ári eldri er

Og eflaust nær mér bráðum.


 Framkvæmdir í ósnum. Strandafjöll standa tignarleg og marka Húnaflóann að vestanverðu. Reykjaneshyrna er lengst til hægri og er hún miðja vegu milli  Gjögurs og Árness. Undir Reykjaneshyrnu vestanverðri kúrir Litla-Ávík þaðan sem við fáum veðurfregnir daglega. (vona að ég sé ekki að klikka í landafræðinni)

Rúnar kom svo aftur í dag og fór minna fyrir harmonikkutónum hjá honum að þessu sinni því Stefán Hafsteinsson sat í horninu hjá mér. Hefur Rúnar talið að Stefán væri ekki eins taktfastur og Kristófer Sverris mjólkurfræðingur. En hvað sem öllu líður þá áttum við félagarnir gott spjall en þurftum að hækka róminn vegna skruðninganna í gaddaskóm Stefáns. Það hrökk svona út úr mér alveg hugsunarlaust:

Á skaflajárnum Stefán fer

skröltandi um bæinn.

Rúnar botnaði á örskotsstundu og kom sér vel yfirburða þekking hans á "Margt er það sem miður fer:

Margt er það sem miður fer

sem margan fyrri daginn.

Glugginn er kominn og er þar sitt lítið að finna og Gluggavísa vikunnar er eftir hinn kunna hagyrðing Rúnar Kristjánsson á Skagaströnd og flögrar hann títt við tálsins stuð hvað svo sem það nú þýðir en það skiptir einu því menning mín er malbikuð. Best að hafa þetta bara samhengi þessarar viku.

12.02.2014 14:51

dagurinn í dag er dagurinn

Dagurinn í dag er dagurinn sem skiptir máli sagði einhver vitringurinn. Gærdagurinn er liðinn og þú færð engu breytt og morgundagurinn er óskrifað blað. Það er heilmikið til í þessu en hvernig höndlar maður svona mikinn sannleik og visku?  Þegar stórt er spurt er oft fátt um svör en alltaf eru til einhverjir sem eiga svör við öllu saman hversu vel eða illa stendur á. Núna eru að renna upp dagar sem tengja mig við lífið og dauðann. Þann 14. febrúar árið 1992 var ég fluttur fársjúkur með hjartaáfall á Borgarspítalann. Þetta var Valentínusardagurinn, dagur elskenda og ég víðsfjarri minni heittelskuðu. Mín ágæta kona fékk hringingu af Borgarspítalanum að ef hún vildi sjá mig á lífi þá skyldi hún drífa sig suður hvað og hún gerði. Annar dagur sem tengir mig við dauðann og lífið er minn fæðingardagur sem er 18. þessa mánaðar árið 1952. Samkvæmt þessu hef ég "þraukað" í gegnum lífið með hálft hjarta í næstum  22 ár og hef bara haft það déskoti gott. Reyndar hefur ýmislegt gerst í millitíðinni sem telja má minniháttar mál og eru þau hér með úr sögunni og ég er á sæmilegu lífi.

Þetta er svolítið þunglyndisleg byrjun á pistli en febrúar er bara minn tilfinningamánuður, mánuður sálarhreinsunar og á einhverju verður maður að byrja og er þá ekki best að byrja á sjálfum sér.


Það er hryssingslegt við botn Húnafjarðar þessa stundina og dimmt í norðrinu. Tilraun sómir sér vel undir brekkunni.

En veðurlýsing þessa morguns er eftir en hún er í stuttu máli þessi. Norðan ellefu metrar á sekúndu og hitinn 2 gráður yfir frostmarki klukkan níu í morgun en vindurinn sótti heldur í sig veðrið eftir því sem á daginn hefur liðið. Það er þungskýjað og má segja að skýjin norður við sjóndeildarhring séu svört af vonsku. Grun hef ég um að þau inniberi líka heilmikið af hvítri mjöll þrát fyrir sinn dökka lit. En svellin eru alltumlykjandi og láta engan bilbug á sér finna. Þegar Rúnar kom hér rétt eftir hádegið með "Muckarpolkan"  í flutningi sænskra listamanna í farteskinu hrökk út úr honum bara si svona.:

Margt er það sem miður fer,

má þó stundum laga.

Vernsnandi nú veður fer

og verður næstu daga.

Já! Svo mörg voru þau orð og er það sem ég segi, "margt er það sem miður fer" fer Rúnar vini mínum afar vel og er gott upphaf.


Það skóf af ölduföldum í hvassri norðanáttinni í morgun

Af vesturbakkanum er tíðindin ekki mikil eða fara í það minnsta ekki mjög hátt. Síðast er ég heyrði í manninum sem verst í vökinni honum Jónasi á Ljóninu þá lá ekki allt of vel á honum. Honum var mikið niðri fyrir og kom ástæðan til þess að gera fljótt í ljós.  Nöldri, sem er dulnefni pistlahöfundar á huni.is hafði gert Jónasi gramt í geði með eftirfarandi ummælum. "Þegar ekinn er þjóðvegur 1 inn í bæinn okkar hvort sem er að norðan eða sunnan blasa við auglýsingar um alls konar þjónustu sem er alls ekki í boði yfir vetrarmánuðina. Þarna auglýsir Hótel Blönduós veitingar og gistingu, Blönduból/Ljón norðursins café-bar og á miða á hurðinni er auglýst að  þar sé upplýsingaþjónusta fyrir ferðamenn!  Árbakkinn auglýsir kaffi og veitingar og  Sveitabakarí kaffi og meðlæti. Við heimamenn vitum kannski að þessi veitinga- og gistihús eru lokuð allan veturinn en það geta ferðamenn sem hér eiga leið í gegn ekki vitað. Þó umferðin sé ekki eins mikil að vetrinum eins og sumrinu fara margir hér um og þetta eru villandi upplýsingar fyrir ferðamenn. Það ætti að vera eigendum þessara staða í lófa lagið annaðhvort að taka þessi skilti niður, eða ganga þannig frá þeim þegar lokað er að hausti að þau séu ekki að beina ferðamönnum að læstum dyrum." Ég spurði Jónas hvort þetta væri ekki satt og taldi hann það af og frá. Hann taldi þetta bara hreina og klára árás á sig og benti á að allir í heiminum vissu að hjá honum væri lokað frá 1. okt og fram í byrjun maí og benti á bókunarkerfið Booking.com því til staðfestu. Ég benti honum á að merki sem víða væri að finna við sveitabæi og upplýstu að kýr gætu átt leið um veginn væru yfirleitt hulin yfir veturinn svo þeir sem um veginn fara geti ekið áhyggjulaust um. Ég spurði hvort það væri nokkuð til of mikils mælt að þessir aðilar gerðu slíkt hið sama. Honum fannst ég ekkert fyndinn og sagðist myndi hafa samband við þá Húnahornsmenn og leggja fram kvörtun eða jafnvel skrifa pistil sér til varnar.


Menn verjast ekki eingöngu yfirvöldum heldur þarf að verjast þungum öldum sem skella á ströndinni. Unnið að styrkingu grjótvarnar í ósi Blöndu

Það er alveg merkilegt að um leið og Rúnar var búinn að fara með veðurvísu sína þá datt hann á með hægviðri og maður sá að það birti í suðrinu.

Margt er það sem miður fer

 í mörgum Rúnars brögum.

Hans spádómsgáfa slitrótt er

því spáð er góðum dögum .

05.02.2014 15:22

vangaveltur á Agötumessu



Þó lognið sé allt um liggjandi þá er þung undiralda við botn Húnafjarðar

Enn einn lognkyrr miðvikudagurinn er runninn upp og þungur niður berst frá hafinu.  Áttin er suðlæg og hitinn er tveimur gráðum undir frostmarki. Svellin eru viðvarandi og sést enginn maður á gangi nema hafa mannbrodda undir skósólum. Ég komst að því í gær að hægt væri að nálgast þessa bráðnauðsynlegu jarðtengingu á þremur stöðum í bænum og samkvæmt lauslegri verðkönnunn eru mannbroddar ódýrastir í Samkaupum.  Það er samt merkilegt að þrátt fyrir þessu miklu svell og hálku þá fréttir maður lítið af slysum þessu tengdu og skýrist það eflaust af því að hættan er augljós og því geta menn varast hana.


Lárus Blöndal við tamningar á Flúðabakkatúninu

Þá fer nú þorrinn að verða hálfnaður og hef ég ekki farið nema á tvö þorrablót.  Annað var í Skagafirði og hitt hér heima. Ekki ætla ég út í neinn samjöfnuð enda það nokkuð erfitt þar sem um tvo þjóðflokka er að ræða en maturinn og félagsskapurinn var góður á báðum stöðum.


Geitaból er enn uppistandandi en hér átti Ingibjörg Pálsdóttir sem margir kannast við undir gælunafninu Budda, sér skjól og athvarf. Blessuð sé minning hennar

Ég nefndi aðeins Louisu Mattíasdóttur listmálara í síðasta pistli og var  svona að þreifa eftir því hvort einhver vissi af tengslum listamannsins við Blönduós. Einn ágætur brottfluttur Blönduósingur hafði samband við mig og hafði það eftir móður sinni að Louisa hefði dvalið einhverja daga í Sæmundssenhúsinu sumar nokkuð fyrir margt löngu. Gaukaði hann að mér að þær systur Lullí og Silla (Þuríður og Sigurlaug Hermannsdætur)  vissu kannski eitthvað um þetta. Hef reyndar ekki haft við þær samband um þetta en eflaust kemur að því og verður fróðlegt að vita hvort eitthvað kemur út úr því.

Jónas á Ljóninu er enn að berjast í sínum málum og hyggur hann á greinarskrif í Fréttablaðið. Þetta er að verða orðin ansi hreint löng barátta hjá Jónasi við yfirvöld hverju nafni sem þau nefnast. Þegar ég lít yfir farinn baráttuveg Jónasar þá skýtur upp í kolli mínum mynd af manni sem er vel hálfur ofan í vök og sveiflar brandi sínum í allar áttir. Álengdar stendur yfirvaldið og aðhefst ekki neitt.  Og ekki þýðir að kasta til mannsins í vökinni snæri til að draga hann upp  því það er í sundur um leið og brandurinn bítur á því. Lífið er Brattabrekka fyrir mann sem á í vök að verjast. En kisan hans Jónasar  hún Bella saknar hans meðan hann hefst við í höfuðborginni og kallar ákaft til þeirra sem leið eiga fram hjá Ljóninu með einkennishljóði katta  "mjá".


Bella hans Jónasar Skafta kvartar við vegfarendur og segir óhikað að hún sakni eiganda síns

Glugginn er kominn og er svona heldur rýr í roðinu að þessu sinni þó þar megi finna margt gagnlegra upplýsinga. Einar Óli  (og fleiri) minnir á 112 daginn sem er eins og venjulega haldinn 11.2.   Domus gengið er á sínum stað sem og WC pappírinn hjá Hvöt. Og samkvæmt venju er vísa vikunnar líka á sínum stað og nánast samkvæmt venju eftir Rúnar Kristjánsson skáld á Skagaströnd. Yrkisefni hans er hinn nýji útvarpsstjóri og væntir Rúnar þess að hann muni reka fleiri frá RÚV.

Klukkan er farin að halla í seinni part dagsins og ekkert hef ég orðið Rúnars vinar míns var. Ekki veit ég hvar gostæknir Samkaupa heldur sig eða hefur fyrir stafni. Hann vær vís með að bregðast mér á Agötumessu en lengi má manninn reyna. Svona í framhjáhlaupi í lokinn þá má geta að í  Gottskálksannál árið 1339 segir: Hljóp skriða á bæ í Kjós er á Tindsstöðum heitir in festo Agate [Agötumessa er 5. febr.] og létust ix (9) menn. Í öðru framhjáhlaup má geta þess að einn bræðra minna bjó á þessum bæ til nokkura ára. Látum hér staðar numið og horfum til samhengisins sem hverjum manni er svo mikilvægt að koma auga á.


Í vökinni er krafa um krafta,

krafta sem ráða við rafta.

En í baráttugný,

bíður Bella svo hlý

eftir berserknum Jónasi Skafta.

29.01.2014 15:49

af Jónum, Louisu og ýmsu öðru


Héraðshælið og Strandir

Enn einn lognkyrr dagurinn runninn upp en nú er hitinn kominn niður frostmarkið og svellin láta ekkert undan. Sól skín í heiði og fer hæst í dag um 6,6 gráður yfir sjóndeildarhringinn.  Það fer að verða bagalegt fyrir eldri borgara og jafnvel þá sem yngri eru að komast lítið  út til að viðra sig vegna svellbunka og hálku og óþarfi að fara út í það nánar. Svo er rétt að geta þess að nýtt tungl kvinar í norðvestri á morgun og sloknar á síðast degi febrúarmánaðar. 

Louisa Mattíasdóttir  (1917 - 2000) var þekktur listmálari og starfaði lengst af í Bandaríkjunum. Hún naut mikillar virðingar fyrir listsköpun sína og hlaut margar viðurkenningar gegn um tíðina.  Þeir sem sjá myndverk eftir hana einu sinna vita upp frá því hver höfundurinn er. Það sem vekur sérstaka athygli mína er að hún hefur hrifist af gamla bæjarhlutanum hér á Blönduósi því ég hef séð að minnsta kosti tvö verk eftir hana sem eru óumdeilanlega frá Blönduósi.  Ég hef ekki kannað neitt sérstaklega hvað hefur tengt hana við Blönduós  en það er greinilega eitthvað og væri gaman ef einhver sem þessar línur les gæti lokið upp leyndarmálinu.

Aðalgatan. Tilraun, kirkjan, Aðalgata 8, Verslunarmannafélagshúsið (Valur) og Þorsteinshús.



Óli Þorsteins og Skarhéðinn (Héddi)  komu báðir með Gluggann að þessu sinni og veitti ekki af því bæði var vísa vikunnar þung sem og fasteignagjöldin sem á okkur verða lögð og er að finna í Glugganum. En þeir félagar höfðu þó vit á því að létta sér störfin og spiluðu sænska harmonikkutónlist við Gluggaútburðinn. Eitthvað barst í tal hjá okkur þegar ég fór að ræða við þá um harmonikkutónlist hvort ég ætti harmonikku. Kvað ég já við og spurði Héddi mig hvort hún væri 120 bassa. Ég sagði svo ekki vera. " Hvað! er hún fyrir krakka"  spurði Héddi með forundran en ég sagði si svona að hún væri fyrir hálfvaxna. "Fyrir hálfvita" skaut Héddi inn í og ók góður með sig í burt með Óla sér við hlið og harmonikkutónlist sænskra  bræðra. Eftir stóð ég einn í Aðalgötunni, hálfvitinn með litlu harmonikkuna. Þeir eru margbreytilegir þessir miðvikudagar og skiftir þá miklu að höndla þá með bros á vör.

En aftur að innihaldi Gluggans. Álagning fasteignagjalda er þar kynnt og sýnist mér að venjulegur Blönduósingur sem á fasteign  greiði húsverð einu sinni á öld upp í þau gjöld sem á hann eru lögð en það vill manni til happs að maður lifir nú ekki nema um það bil hálfa öld með húseign í eftirdragi.

Jónas á Ljóninu kom við hjá mér áðan. Hann var í skyndiheimsókn og fer hann aftur suður í dag. Ég sagði honum frá því að hann hefði leikið stórt hlutverk á þorrablótinu um helgini og lék honum forvitni á því að vita hvað hefði nú verið tekið fyrir.  "Það er nú allt of langt mál að telja upp" sagði ég og bætti við. "Farðu bara yfir lífshlaup þitt síðastliðið ár þá veist svona nokkurn veginn um hvað málið snýst.". Hann sagði mér að hún Bella hefði verið ákaflega glöð á sjá sig sem og Himmi Snorra og ég er ekki frá því að ég hafi líka haft svolítið gaman af því að sjá hann.


Kleifar og Kambarnir í Langadalsfjalli

Samankomnir voru hér í horninu hjá mér rétt áðan þrír Jónar og var einn þeirra frá Hofi, annar frá Beinakeldu og ég að sjálfsögðu hinn þriðji. Sögðum við margt viturlegt eins og gefur að skilja og kom þar umræðu að við veltum fyrir okkur að lítið væri um það að sveinbörn nú til dags væru skírð Jón. Mun algengara er að drengir séu skýrðir Andri, Aron  og með millinöfnunum Freyr eða Þór. Fannst okkur þetta miður því nafnið Jón er afar einfallt, þjóðlegt og lætur vel í eyrum. Jóni frá Hofi varð að orði þegar heyrði harmonikkutónanna frá vísnagerðamanninum Rúnari Agnarsyni sem bar að á miðjum Jónafundi  og er þekktur fyrir bragháttinn "margt er það sem miður fer."

Margt er það sem miður fer,

mun það valda tjóni.

Núna enginn nennir hér

að nefna eftir Jóni.

Jónar fóru og Rúnar kom og líkt og Héddi og Óli, þá var hann með sænska harmonikkutóna í Súkku sinni. Lítið varð úr spjalli okkar að þessu sinni því kona framan úr sveit hringdi í öngum sínum og slíkum tilvikum verður að bregðast við af ábyrgð og festu og fyrir þeim aðstæðum varð Rúnar að lúta í lægra haldi.  Af þessum sökum verður samhengið að ráfa um stjórnlítið enn um sinn.

22.01.2014 15:40

hver gerði Gerði grikk?

Þeir eru hreint út sagt einstaklega rólegir þessir síðustu dagar og þessi miðvikudagur engin undantekning. Logn um allar koppagrundir og hitinn hangir yfir frostmarkinu. Það er gríðarleg hálka í dag því loftið er rakt og því  mikil ísing. Í dag eru aðstæður þannig að mörgæsagangur er eina rétta göngulagið vilji menn á gangi komast frá því óskaddaðir.


Þoka í grennd. Það er ró yfir Húnaflóanum en þokan skyggir á sýn okkar til Stranda

Það er eitthvað svo lítið um að vera þessa dagana fyrir utan hið daglega amstur. Þó svo ég hafi verið að gæta tveggja barnabarna  í fjóra daga (1árs - fimm ára) og þar að auki fárveika ömmu í einn sólarhring, telst það ekki til mikilla tíðinda sem eiga erindi við alþýðuna og þó svo ég hafi að auki farið um flughálan fjallveg til tannlænins gæti það alveg legið í þagnargildi.  Já það er kominn miðvikudagur, dagur em sagður er sá versti af öllum dögum vikunnar og ég stend frammi fyrir sjálfum mér og verð að skrifa eitthvað.


Vatnsnesið í vestri. Horft yfir Húnafjörðinn

Jónas vert á Ljóninu ætlar að koma eftir viku og ætlar að dvelja eitthvað, kannski get ég gert eitthvað úr þeirri heimsókn. Það er á svona dögum sem ég sakna Nonna hunds því af honun var alltaf hægt að segja sögur og maður var nokkuð viss um að það var óhætt því ekki móðgaðist hann neitt við mig þó svo hann hefði farið í misheppnaðar heimsóknir til eðaltíka í bænum eða verið handsamaður fyrir utan kosningafundi. Ekki grunaði hann mig um samsæri gegn sér og þakka ég það fyrst og fremst því að Nonni hundur gat ekki lesið sér til gagns.

En stundum koma óvæntir gestir í heimsókn sem geta bjargað fyrir manni degi sem hafði lítið fram að færa. Haldið ekki að hún Gerður Hallgríms hafi birst hérna hjá okkur Rúnari sem nýlega var kominn inn úr dyrunum með sænska polka í farteskinu. Hún átti við mig faglegt erindi og það í bölvaðri hálkunni og var það erindi afgreitt á afar skjótan hátt og snúið sér að alvarlegri málum. Lífinu sjálfu. Gerður "skammaði" auðvitað Rúnar fyrir að leggja bíl sínum beint fyrir utan dyrnar hjá mér og torvelda aðgengi sitt að mér. Og mig "skammaði" hún fyrir að vera ekki við eftir hádegið í gær.  Við vorum svona mátulega skömmustulegir yfir þessu fyrst hún hafði komist ósködduð til okkar en lofuðum að færa Rúnars bíl og sækja hennar og leggja honum beint fyrir utan dyrnar á hálkufríum bletti. Til þess kom þó ekki og vitum við ekki annað en Gerður hafi komist klakklaust frá okkur. En eftir ánægjulegt spall við þessa ágætu konu varð þetta til:

Hún er vel úr garði gerð,

gæðakonan Gerður.

Hér er  því enginn hætta á ferð,

happadagur verður.

Eins og áður er getið kom Rúnar í heimsókn þó svo hann hefði engann Glugga í fórum sínum og eins og venjulega fylgdu honum harmonikkutónar. Eins og komið hefur fram þá lék hann á geislaspilarann hinn geisifjöruga polka " Fölungen"  sem mun vera sænskt að uppruna. Ekki vitum við hvað það þýðir og var vita vonlaust að fá það upp úr "translate google" en svona út frá orðunum föl og ungen þá dettur okkur helst í hug orðið fölleitt barn, barn sem horfir ekki til sólar vegna "æpaddsins".


Undir Borginni býr skáldið Rúnar Kristjánsson sem yrkir í þessari viku um undur Furðufjarðar

En Glugginn er kominn og er hann í bak og fyrir þorrablót. Á forsíðu er minnt á þorrblót Vökukvenna á Blönduósi nú um helgina en á baksíðu er hreppa þorrablótið auglýst sem að þessu sinni verður haldið á Húnavöllum. Vísa vikunnar er að þessu sinni eftir skáldið undir Borginni hann Rúnar Kristjánsson og fjallar um ferð í Furðufjörð  þar sem allt má finna milli himins og jarðar.

En nú skal staðar numið  og er vel við hæfi að brag-háttur Rúnars Agnarssonar (margt er það sem miður fer)  fái að njóta sín þar sem hann reynir að koma orðum að því að maður kunni við öllu ráð og eigi svör við öllu þegar hlutirnir hafi gerst.

Margt  á þorra  miður  fer,

það margir  hafa reynt.

Bestu ráðin birtast hér

en bara allt of seint.

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 59
Gestir í dag: 9
Flettingar í gær: 246
Gestir í gær: 12
Samtals flettingar: 64717
Samtals gestir: 11489
Tölur uppfærðar: 2.5.2024 09:27:16