Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

23.06.2010 09:22

Eins og fyrri daginn

    Í morgun var þoka. Fuglarnir komu fljúgandi út úr henni og hurfu svo inn í hana aftur og maður vissi ekkert hvert þeir voru að fara eða hvaðan þeir komu. Þeir komu bara og fóru svona eins og lífið sjálft. Nonni hundur gelti eins og venjulega á hæðinni fyrir ofan og þar sem ekki var sól heldur þoka þá fengu menn sér ekki sæti á steinbekknum á Aðalgötunni til að baða sig í ljóma sólarinnar og láta ljós sitt skína. 
    Í dag er dagurinn fyrir Jónsmessu og um miðnætti er tækifærið til að baða sig upp úr dögginni sem féll úr þokunni. Jónsmessunæturdöggin á að vera heilnæm, hvort sem fólk veltir sér upp úr henni nakið eða lætur sér nægja að ganga í henni berfætt. Jónsmessunótt er einnig góður tími til að finna steina með ýmsar heilsusamlegar náttúrur og til að tína grös til lækninga - sú venja gæti átt sér vísindalega stoð því efnasamsetning jurta er auðvitað breytileg eftir árstíma .
    
    Ég má til með að koma með nærmynd af varðhundinum hans Ívars Snorra og er myndin tekin af bekknum sem fyrr er greint frá . Þessi litli varðhundur var uppsigað við mig í fyrstu en eftir að við höfðum kynnst persónutöfrum hvors annars gekk dæmið upp.

    
    Rúnar kom aldrei þessu vant fyrir hádegi með bílrúðuna gersamlega niðri og út um gluggann streymdu harmonikkutónar  í hressilegri kantinum. Það sem ég heyrði fyrst hljómaði líkt og lag með Baldri og Konna, lag sem ég heyrði, lítill drengur á Laugarnesveginum í gömlu Gufunni. Það var einhvernveginn svona: Hah, hah, ha, hlustið á nú hef ég skrítnu að segja frá og sv. frv. og strax á eftir hljómaði "ég er hinn glaði (eða káti) förusveinn". Það get ég með sanni sagt að það var rífandi fjör í Rúnari og og maður hreinlega lyftist í stólnum og það get ég svarið að þokunni létti. 
    
    Glugginn er heldur rýr í roðinu að þessu sinni. Ef ekki væri fyrir að fara auglýsingu frá Harmonikkufélögunum í Húnavatnssýslu og Skagafirði, áminningarlestur frá bæjarstjóra og heilsíðu leiðbeiningar frá Mumma í  sundlauginni hvernig maður fer í sund, væri lítill Gluggi enn minni. Þó ég minnist ekkert á Domus gengið og ódýra wc - pappírinn frá Hvöt þá er það ekki vegna þess að mér þyki ekki vænt um þessi fyribrigði, heldur vegna þess að ég nenni því ekki. Hvers eiga þá Meindýravarnir MVE, Heilbrigðisstofnunin, Bændaþjónustan og Heyrnartækni að gjalda ef farið væri að mismuna auglýsendum. 

    Vísa vikunnar er föðurlaus eins og svo oft áður :
Konurnar ég mikils met
og margar þekki.
Og heldur vil ég hafa ket
en hafa það ekki.
    Ef ég væri meðal öfgafullur femínisti þá myndi ég segja að þessi vísa væri karlrembuleg en þar sem ég er ekki meðal öfgafullur femínisti segi ég bara : Undir þessa vísu má taka en sá sem yrkir er nokkuð góður með sig.  Það er sagt í mörgum sjálfshjálparbókum að mikilvægt sé að vera góður með sig en ég er sammála þeim vitra manni sem sagði að á því þyrfti að vera nokkurt hóf.
    
    En Baldur og Konni og förusveinninn fóru svo vel í okkur og þá sérstaklega Rúnar að þetta hrökk út úr honum  til þess að gera í góðu samhengi við lífið og tilveruna:
Mjög nú lítið miður fer
margt oss snýst í haginn
Ég og Jón víst erum hér
eins og fyrri daginn.

16.06.2010 09:37

Stóri sundlaugardagurinn

    Dagurinn í dag er dagurinn sem margir hér um slóðir hafa beðið eftir. Í dag mun sundlaugin verða tekin í notkun og er næsta víst að ég fæ ekki að stinga mér til sunds fyrstur manna um það hef ég traustar heimildir. Stjörnuspáin sagði líka "  Einhver reynir að gera þér lífið leitt svo nú reynir verulega á þolinmæðina. Reyndu að skipuleggja þig betur. Passaðu þig á að láta minnimáttarkennd ekki ná tökum á þér. " Það skal engum takast að gera mér lífið leitt en þetta með skipulagninguna má alveg ræða og verður sú umræða aðeins einræða. Þetta með minnimáttarkenndina getur verið snúið en ég reyni að bera mig vel á nýju sundskýlunni minni í nýju lauginni.



Ég get bara ekki orðið bjánalegri heldur en Mummi meiriháttar yfir baðstjóri á Blönduósi þó ég sé ekki eins góður í skriðsundi og hann. Að minnsta kosti segir hann að hann sé betri án þess að hafa nokkurn tíma séð mig synda skriðsund. Ég er viss um að ég slæ honum við  í bringusundinu þó svo Mummi segi að það sé nú bara sund fyrir kellingar. Baksundið ætti ekki að há mér nema að Mummi standi á sundlaugarbakkanum og segi að ég syndi eins og dautt hornsíli sem hrekst undan straumi í litlum læk. Nei minnimáttarkenndin verður sko tekin í nefið því ég og nýja sundskýlan látum ekki slá okkur út af laginu.

    Núna kemur Rúnar við undirleik Grettirs Björnssonar og er Kænupolki undir geislanum. Hörku innkoma hjá Rúnari og með þessum orðum er ég rokinn í sundlaugina til að taka myndir af krökkunum sem fyrstir fá að stinga sér til sunds.



    Rúnar elti mig í laugina og gaukaði að mér þessari vísu í tilefni af því að á morgun verður enn og aftur haldið upp á þjóðhátíðardaginn, daginn sem hann nafni minn frá Hrafnseyri á svo stóran þátt í. 

    Á morgun ekkert miður fer
    meðal Íslendinga.
    Þá hátíð verður haldin hér
    að hætti Blönduósinga.

     Hef þetta ekki mikið lengra en leyfi myndum frá opnun sundlaugar að tala (sjá myndaalbúm) um leið og við Rúnar óskum öllum gleðilegar þjóðhátíðar. 

09.06.2010 14:16

Lopinn teygður

    Í dag verður lítið skrifað og við því lítið að gera. Lítið er betra en ekki neitt  nema lítið sé til lýta. Ástæða þessa er að það sem mér finnst vera saklaust mal út í bláinn hefur valdið óþægindum og það finnst mér alveg grábölvað.  Meðal annars vegna þessa þá verður bara fjallað um stóðhesta í þessum pistli og stuðst við Glugga dagsins í meginatriðum.

    Hryssur héraðsins eiga möguleika á að kynnast eftirtöldum stóðhestum í sumar.

    Sólon frá Skáney,  Pilti frá Hæli,  Þey frá Prestsbæ og Bjarti frá Sæfelli.  Allt saman úrvalshestar og með góða dóma nema Piltur frá Hæli sem er ódæmdur . En með Pilti fylgir þó sú trygging að fái Piltur ekki 1. einkunn í dómum á næsta ári þá verður folatollurinn endurgreiddur en hann er núna kr 25.000 kr á hverja hryssu.  Ég velti því fyrir mér ef hægt væri að fá svona eins og 100 hryssur undir Pilt hvort ekki væri snjallt að éta hann í haust því ólíklega má telja að kynbótadómur Lykla Péturs verði nokkurn tíma birtur. Ég segi nú bara svona

    Ekkert er sagt frá ætterni Sólons en þau afkvæmi sem undan honum eru og hafa komið til dóms lofa mjög góðu enda eins gott því einn skammtur úr Sólon kostar litlar 69.00 kr. Sólon frá Skáney verður  að finna á Torfalæk í sumar.

    Þeyr frá Prestsbæ er skrokkmjúkur hestur sem býr yfir fjaðurmögnuðum og

taktöruggum gangtegundum. Jafnvígur á allar gangtegundir, flugvakur og

efnilegur keppnishestur. Þoka móðir hans frá Hólum er að sanna sig sem gæðingamóðir. Þetta er fallega sagt.

    Bjartur frá Sæfelli er fimm vetra og hefur aðaleinkunn uppá 8,15. Hann  er leirljós, glófextur og sagður gullfallegur. Bjart verður að finna í Litladal í sumar. Það verður ekki ónýtt að hafa Bjart yfir hryssunum í sumar.

    Svona til að bjarga andlitinu þennan miðvikudaginn þá stal ég eftirfarandi sögu af  Fésbókinni frá Þórarni Sigvaldasyni ættuðum frá Marðarnúpi:  Kennarinn í fimmta bekk lét krakkana fá heimaverkefni. Þeir áttu að fá foreldra sína til að segja sér sögu með boðskap.
    Daginn eftir komu börnin í skólann og hvert á fætur öðru sögðu þau sína sögu.
    Kata litla byrjaði:- Pabbi minn er bóndi og við eigum fullt af hænum. Einu sinni vorum við á leið á markaðinn og höfðum sett öll eggin í eina stóra körfu í framsætinu, þegar pabbi keyrði ofan í holu brotnuðu öll eggin.
Og hver er boðskapur sögunnar ? sagði kennarinn.
Maður á ekki að setja öll eggin í sömu körfu, svaraði Kata.
Mjög gott, sagði kennarinn.
    Næst kom að Lárusi:- Pabbi sagði mér sanna sögu af Möggu frænku. Hún var flugvirki í Flóabardaganum hinum síðari og flugvélin hennar var skotin niður. Hún þurfti að forða sér í gegnum óvinasvæði og það eina sem hún hafði meðferðis var Whiskyflaska, vélbyssa og sveðja. Hún drakki Whiskyið svo það glataðist ekki ef flaskan brotnaði og æddi svo gegn 100 manna her. Hún drap 70 af þeim með vélbyssunni og þegar hún var búin með skotin drap hún 20 með sveðjunni og þegar blaðið brotnaði drap hún 10 síðustu með berum höndum.
Guð minn almáttugur, sagði kennarinn hneykslaður.- Og hverslags boðskap sagði pabbi þinn að væri að finna í þessari sögu ?
Maður á að halda sig frá Möggu frænku þegar hún er full.

    Þar sem nú liggur fyrir að Rúnar hefur ekki tíma til að sinna mér í dag og skilur bara eftir vísur á hurðarhúninum (Margt er það sem miður fer/ er menn hér fara í mat./ Einhver um þá ekur hér/ og gerir í þeim at.)  ásamt Glugganum auk þess sem ég hef ekkert meira að segja um graðhesta í bili er best að hætta. Þessi vísa hjá Rúnari er nú ekki sú dýrasta sem hann hefur ort en viðleitni samt. Ég hefði bara haft vísuna svona: Margt er það sem miður fer/ ef maður fer í mat./  Linur Rúnar  laumast hér/ og lýsir í mig frat(i).

    Þetta er svo samhengislaust og út í bláinn allt saman þannig að niðurstaðan verður bara þessi:

Ég lýsi því yfir og læt það flakka
ég lopann er að teygja.
Og þessvegna er sérstök ástæða að þakka
að þurfa ekki meira að segja.

02.06.2010 15:59

Við hús númer tvö

    "Betra er að vefjast tunga um tönn en tala of mikið" segir ókunnur höfundur í vísu vikunnar. Kannski er eitthvað til í því. En einhvern veginn hef ég það á tilfinningunni að þeim sem vefst tunga um tönn séu nú einmitt þeir sem tala of mikið. Sá sem þegir og hefur hljótt um sig vefst ekki tunga um tönn því hann er ekkert að nota hana.  Af þessu má einfaldlega draga þá ályktun að ég væri í áhættuhóp um að vefjast tunga um tönn. Og ef satt skal segja þá hefur það oft komið fyrir mig og er í sjálfu sér ekkert hættulegt fyrirbrigði. Það er svolítið pínlegt meðan á því stendur en gleymist til þess að gera fljótt. Einhver ágætur maður (konur eru líka menn) sagði einhverju sinni að betra væri að þegja og vera álitin bjáni en tala og taka þar með af allan vafa. Hann er vandrataður hinn gullni meðalvegur í þessum málum og ég verð að játa það að mér finnst það fara sumum mönnum afar vel að þegja. Jafnframt finnst mér að sumir mættu tala meira og leggja sitt af mörkum til gróandi mannlífs.

    Fyrst  farið er að tala um það hversu mikið á að segja og kunna sér hóf í því og einnig að skólarnir eru núna að ljúka vetrarstarfinu er tilvalið að rifja hér upp eina góða sögu af stúdentsefni við Menntaskólann á Akureyri.  Nemendurnir áttu einhverju sinni að skrifa ritgerð á prófi og voru ritgerðarefnin fjögur: Líkamsrækt, Hallgrímur Pétursson. Fiskar og Gróðurmold.  Vitaskuld átti hver nemandi bara að velja eitt af þessum viðfangsefnum, en einn þeirra kom þeim öllum fyrir í sinni ritgerðarsmíð og var hún svohljóðandi:"Líkamsrækt Hallgríms Péturssonar var aldrei upp á marga fiska enda er hann löngu orðinn að gróðurmold."



    Vesturbakkinn er á sínum stað og gæsirnar eru byrjaðar að skila ungum inn í tilveruna. Þetta hafa þær gert undangengin ár án tillits til yrti aðstæðna. Brölt mannanna hafa þar lítil áhrif. Kosningabarátta, kosningar og niðurstöður þeirra skipta engu.

    Jónas Skafta hélt almennan fund á Ljóninu daginn fyrir kosningar og fór yfir samskifti sín við Blönduósbæ. Að sögn Jónasar var hann afa ánægður með fundinn og sagðist  hann að hafa séð andlit á fundinum sem hefðu komið honum skemmtilega á óvart.  

    Þegar ég fór að heilsa upp á náttúruvænu garðslátturvélina með afkvæmi sitt, sem sagt hryssu með folaldi,  




rakst ég á Frikka vert á Aðalgötu 2. Hann bauð mér í heimsókn og sýndi mér Aðalgötu 2 frá kjallara og upp úr. Það skal bara sagt að þessi tunga sem ég nota stundum vafðist um tönn og rúmlega það. Það er búið að útbúa nokkur herbergi uppi í risi og á fyrstu hæðinni er kominn veitingasalur fyrir um 30 manns. Kjallarinn er ófrágenginn en það bíða hreinlætistæki eftir því að verða sett upp. Það er ýmislegt sem á enn eftir að ganga frá en það sem komið er lofar svo sannarlega góðu. Það er hreint ótrúlegt að sjá þykktina á veggjunum í kjallaranum og líkast því að maður sé kominn inn í kastala frá miðöldum . Ef þeir sem þarna ráða málum halda áfram og fullgera húsið er komin þarna frábær aðstaða til að taka á móti ferðamönnum á einum fallegasta stað á Blönduósi.

    Glugginn er uppfullur af  þakklæti frá frambóðendum  og Textílsetrið í Kvennskólanum auglýsir eftir "mubblum"  en miklar endurbætur hafa verið gerðar innandyra í skólanum að undanförnu. Þau sem sinna þessum skóla og starfinu sem þar fer fram finnst vera heldur tómlegt í herbergjum og óska eftir aðstoð við að gæða skólann lífi sem hæfir umgjörð hans.

    Rúnar kom en ég var ekki til staðar svo ég verð aleinn og yfirgefin að reka smiðshöggið á þessi skrif og grafa upp samengið í hlutunum.  En ég sakna þess að hafa ekki heyrt hvaða harmonikkuhljómar fylgdu Rúnari á þessum hversdagslega miðvikudegi þar sem norðaustan áttin hefur yfirhöndina. Reyndar var Rúnar svo elskulegur að skilja eftir vísu sem vafið var utan um Gluggann sem beið okkar umkokomulaus á hurðahúninum á Aðalgötu 8.

Ég hef núna ætlað mér
á Akureyri að keyra.
Margt hjá þér þá miður fer
með vísur, blogg og fleira.

    Það má kannski til sanns vegar færa að Rúnar hafi rétt fyrir sér en niðurstaðan er þessi. Þorvaldur Bö sem nefndur er í limrunni hér að neðan, er vegamálastjóri húnvetninga og það kom mynd af honum í Mogganum í morgun og fær hann að fljóta með rímsins vegna . Jónas á í stríði við bæjaryfirvöld og ég er búinn að skoða Aðalgötu 2.  

Í morgun var mynd  af vegmaster Þorvaldi Bö
í Mogga og Jónas á ekki sæla dagana sjö.
En sú saga er sönn
mér vafðist tunga um tönn
í Aðalgötunni minni við hús númer tvö.

 

26.05.2010 14:05

"Léttblúsaður vorfílingur"

    Ég nenni ekki að skrifa mjög langan pistil í dag. Ég er hreinlega ekki í stuði til þess. Jónas Skafta sagði að síðasti pistill hafi verið  heldur leiðinlegur en þegar ég las hann upphátt fyrir hann og skýrði með nokkrum hnitmiðuðum orðum var eins og blessuð skepnan skildi. Það er eingöngu fyrir þessa þrautseigju mína að ég renni fingrum yfir lyklaborðið og kem einhverju frá mér í dag.

    Það er rétt að skella hér inn einni sólarlagsmynd svo hin rétta stemning komist til skila í pistlinum. Sólarlagsstemningin þegar sólin hnígur til viðar að loknu dagsverki. Húmið og kyrrðin leggst yfir og friður sest að í sálinni. Þetta er sólarlagsblús. Ég er viss um það að ef "Harmonikadrengene" semja einhvern tíma lag um þessa mynd þá komi það til með að heita "solen går ned og fuglene flyver í flok"

 

    Það á að kjósa fólk á laugardaginn til að stjórna sveitarfélögunum næstu fjögur árin. Það sem að mér snýr þá hefur bara gengið þokkalega  að stýra okkar samfélagi síðastliðin fjögur ár. Auðvitað má tína eitthvað til en svona  heilt yfir þá held ég að hlutirnir séu í lagi nema umferðarmerkingar á Hnjúkabyggðinni, Sýslumannsbrekkan og skópörin tvö sem hanga á rafmagnslínu yfir Blöndubyggðina. Ég gæti svo sem haldið eitthvað áfram en ég nenni bara ekki að vera leiðinlegur því það hefur sannast að það er betra að vera skemmtilegur en leiðinlegur ætli maður sér að ná eitthvað út úr lífinu. En það væri nú déskoti flott ef núverandi bæjarstjórn léti það verða sitt síðasta verk að fjarlægja skópörin af rafmagnslínunni sem áður er getið og leggja skóna á hilluna. 

    Það er hestur á beit inni á einni lóðinni hér á bakkanum en ég bara má ekki segja frá því eða réttara sagt ég hef lofað að segja ekkert frá því.

    Jónas tók á móti hópi fuglaskoðunarmanna fyrir nokkrum dögum sem voru himimlifandi yfir því að sjá straumöndina á Blöndu. Jónas á von á fleiri áhugamönnum um fugla áður en mjög langt um líður.  Ívar Snorra hef ég bara séð tilsýndar, ekkert við hann talað, einungis veifað honum. Jóhannes og Sigrún eru búinn að slá lóðina á Blöndubyggð 6b aðminnsta kosti tvisvar og svona mætti lengi telja. Eftir að ég skrifaði þetta þá hitti ég Ívar Snorra með varðhundinn sinn og tjáði hann mér að hann ætli ekkert í útgerð að sinni en að öðru leiti væri hann bara hress.

    Rúnar er kominn með Gluggann og "nikkunar óm" en það eru lög eftir Bjarna Halldór Bjarnason. Það var ómþýður vals sem Tatu Kantomaa lék og ber nafnið við fjörðinn. Það eru rólegheit yfir þessari komu sem mér finnst bara gott því eins og fram hefur komið og á eftir að koma fram þá kann ég vel að meta umhverfi sem áreitir sem minnst.

    Glugginn er kominn með þeim einkennum  sem einkenna Glugga á svona tímum en það eru væntanlegar kosningar. Það sem vekur mesta athygli í þessu sambandi  er að það verður KOSTNINGAVAKA í félagsheimilinu á laugardagskvöldið.  Ekki er að efa að hér er um stórmerkan atburð að ræða. Þarna hljóta þeir sem farið hafa á kostum í vetur og vor, svokallaðir kostningar  hafðir til sýnis og vakað yfir hverri þeirra hreifingu. Þær geta verið hreint kostulegar þessar kostningavökur og ætti engin maður að láta þær framhjá sér fara. En E-Listinn í Húnavatnshreppi ætlar hinsvegar að vera með kosningavöku í Húnaveri á sama tíma þannig að það verður ekki á allt kosið á þessum kostulega  kjördegi.

    Vísa vikunnar er eftir Rúnar skáld á Skagaströnd og dregur þar upp mjög skýra mynd af því pólitíska samfélagi sem hann lifir í

Kosið er í kringum okkur,

kröfugerðin rík.

En hér er auðvitað enginn flokkur

og engin pólitík !!

Um þetta þarf ekki að hafa fleiri orð.

    Samhengi hlutanna er stundum svo kostulegt en kvefpest, nefstíflur og annað  smálegt hefur truflað mig nokkuð að undanförnu og fara þeir sem næstir eru mér ekki varhluta af því. Ég er stuttur í spuna og á margan hátt ólíkur sjálfum mér og langt í frá að vera kostulegur en mér finnst ég eiga fárra kosta völ í bágindum mínum og bið menn sjá aumur á mér meðan þetta gengur yfir.

Særindi í hálsinum  stöðug nú hef.
Slen, hósta og hæsi og heilmikið kvef.
Í hendinni bólga
í iðrunum  ólga,
á nóttinni lítið sem ekkert ég sef.

    Rúnari þótti miður að gengi I-listans sem settur var saman hér á þessari síðu skildi ekki fá meira brautargengi í kosningabaráttunni og ortum við í sameiningu kveðju- , saknaðar og sorgarljóð um þetta framboð sem átti skilið að ná flugi en gerði það bara ekki. Hér kemur þessi lokahnykkur  frá okkur í blússtíl eins og þessi pistill allur er. Rúnar heldur að þið farið öll að gráta.

Margt er það sem miður fer
og mætti fara betur.
I - listann hér engin sér
því engin listann metur.

19.05.2010 16:11

Það segir fátt af einum

    Dagarnir eru misjafnir, mennirnir eru misjafnir og þegar saman fer misjafn dagur og misjafn maður er ómögulegt að átta sig á því hver útkoman verður. Það er ekki sama hvað sagt er við hvern og á hvaða tíma. Það sem einum þykir  græskulaust gaman, örlítítið gáleysis hjal út í loftið getur öðrum þótt þungbært að lesa og umbera. Það fylgir því mikil ábyrgð að skrifa orð á blað sem fer víða. Það gildir hið fornkveðna að aðgát skal höfð í nærveru sálar. En það er nú samt svoleiðis að það er sama hvað reynt er í þessu tilliti því það er alltaf ein og ein sál sem finnst hún hafa fengið einhvern þann skammt sem ekki sé sæmandi eða  sanngjarn.   Það skal fúslega játað að ég hef gert töluvert af því að byggja mín skrif upp á lífinu í gamla bæjarhlutanum hér á Blönduósi og hef í gamni kallað mig stríðsfréttaritara á V(v)esturbakkanum.  En lífið er einfallt í flóknum heimi. Við fæðumst og deyjum og það gerist eitthvað þarna á milli og við ráðum ekki öllu hvað það er en alltaf komum við þar við sögu og ráðum pínulitlu hvað  það verður.

    Eftir þessa hugleiðingu sem að sjálfsögðu á sér ástæðu fór ég að velta því fyrir mér hvort ég ætti ekki bara að skrifa um fuglana, hunangsflugurnar , blómin, trén  og hið þjóðlega umræðuefni, tíðarfarið. Eftir mikla umhugsun taldi ég það vera besta kostinn en það varð mér til happs að ég er einn af þessum "örfáu" sem fæ Moggann flesta morgna og les hann og það réð úrslitum . Ég ætla að halda áfram á sömu braut og skrifa um alla þá sem ég hef skrifað um og bæta fleirum í safnið en einum mun ég algjörlega sleppa.     
    Það sem réði úrslitum að ég held mínu striki er stjörnuspáin mín fyrir daginn í dag:  VATNSBERI  Vertu ekki með stöðugar áhyggjur af því hvað öðrum kann að finnast um þig. Með góðri skipulagningu tekst þér að komast yfir verkefnin. Af litlu verður Vöggur feginn myndi einhver segja en það gleðilega er að mér er alveg sama.

    Það segir fátt af einum en núna breytist þetta hjá mér og verður einfaldlega "það segir "ekkert" af einum"  en allir hinir eru bara nokkuð  hressir það best ég veit og halda áfram sinni lífsins göngu. Stærsta fréttin héðan af Vesturbakkanum er sú að Nonni hundur er ekki lengur eini hundurinn á Aðalgötu 8 því kominn er til hans í fóstur um einhvern tíma, hvolpur svartskjöldóttur sem gálausir menn eru farnir að kalla Margréti. Þeir segja að það hljómi svo fallega þegar fólk segir hvert við annað á góðviðrisdegi þegar Stefán fer út að ganga með hundana sína. " Þarna er er hann Stefán að viðra hundana sína þau Margréti og Jón."

    Það er eitt sem er farið að bögglast svolítið fyrir brjóstinu á mér, að Rúnar er farinn að þvælast um með Gluggann undir glaðværri harmonikkutónlist sem leikin er af diski sem enginn veit hvaða nafn hefur eða hver það er sem leikur þessa léttu tónlist. Hann skondrast um með stolin lög og er bara góður með sig. Þetta leiðir bara til þess að Harmonikkadrengene, Arnt Haugen og og Familien Brix falla í gleymsku. 
    
    En Rúnar er mættur með stolnu harmonikkutónana og Gluggann og þar eru sem fyrr meindýraeyðarnir sem engu smálífi eira og vilja flugurnar feigar. Þeir hefðu átt að heyra í henni Guðríði á ÍNN í gær þar sem hún sagði frá mikilvægi flugna í þroskun jarðarberja.

    Kartöflugarðarnir í Selvík eru að verða klárir líkt og Heimilisiðnaðarsafnið. Þetta tengjum við saman því þarna fer fram mikil ræktun, annarsvegar hins veraldlega fóðurs og hinsvegar hinnar skapandi hönnunar og ræktun og alúð við hinn gamla þjóðararf.

    Golfararnir eru að hefja sumarstarfið og er það vinsamleg ábending til þeirra sem leið eiga framhjá  golfvellinum að hafa framrúðutrygginguna í lagi því stundum eiga menn það til að slá kúlurnar sínar út á Skagastrandarveg á nokkrum brautum .

    Vísa vikunnar er eins og oftast áður á sínum stað og nokkuð ljóst að Guðmundur Valtýsson löngum kenndur við sína föðurarfleið Bröttuhlíð er höfundur hennar.  Hann líkur vísu sinni á rómantískan hátt en það finnst okkur Rúnari svo sætt: "Ef ég mætti höfði halla/ hjartaslætti þínum að"  Gvendur Bratti klikkar ekki í sínum angurværa "vorfíling".

    Hestamenn og frambjóðendur láta líka til sín heyra og ekki má lengur gleyma Domusgenginu sem auglýsir að þessu sinni húseignina Austurhlíð II ásamt 7 hektara lóð.

    Það skemmtilega við þessi skrif er að stundum koma einhverjir í hornið til okkar meðan við veltum vöngum og setja jafnvel svip sinn á þau. Það eiga nefnilega ýmsir erindi í Aðalgötu 8. Að þessu sinni var tekin ein passamynd og Gerður Hallgríms heilsaði upp á okkur Rúnar og kastaði þessu út í loftið:

Rúnar er að rembast við
að rétta Jóni Gluggann

Við sátum yfir þessu smá stund og böggluðum þessu frá okkur ekkert allt of ánægðir með okkur.

Þennan hafa þróað sið,
þráfellt sama tuggan.

    En nú er komið að því sem ekki verður flúið og engin sér betur en við Rúnar en það er einmitt samengi hlutanna. Einn hefur óskað eftir því að vera ekki með þannig að hann verður ekki í samhenginu

Rúnar vildi yrkja öfugmælavísu

Margt er það sem miður fer,
mörgu er breytt með trega.
Engin vísa ort nú er
eins og venjulega.

    En þar sem ég er nú seinþreyttur til vandræða og þekktur þverhaus vildi ég ekki láta hér staðar numið því samengið er svolítið samhengislaust í þessari vísu. Þess vegna yrkjum við saknaðarljóð þar sem ein af persónum okkar hefur sjálfviljug og af fúsum og frjálsum vilja óskað eftir því að koma hvergi nærri þessum skrifum.

Fuglar himins syngja á grænum greinum.
Geltir hundur, ástin er í meinum.
En við segjum það satt
við einn höfum kvatt,
það segir fátt að einum.

12.05.2010 14:48

Hin blátæra kurteisi

    Hvernig skrifar maður þegar rignt hefur alla nóttina, komin suðvestan átt og skin er milli skúra. Loftið er hreint og það sem vakti sérstaka athygli mína þegar ég kom til vinnu í morgun að allar gæsirnar eru nánast horfnar. Líkt og jörðin hafi hreinlega gleypt þær eða þær skolast burt með rigningarvatninu. Nú, maður fer að velta vöngum yfir þessu öllu saman; hvað varð um rigninguna, gæsirnar? Það fer svo sem ekki langur tími í það að hugsa hvað varð um gæsirnar því þær hverfa alltaf á þessum tíma því þær eru byrjaðar að verpa og eru því ekkert á almanna færi. Þetta með rigninguna er snúnara viðfangsefni því hún kemur og fer og er misjafnlega þokkuð og fer það nokkuð eftir því hverra hagsmuna maður hefur að gæta. Mér fannst rigningin góð sem féll síðasta sólarhringin því hún kom áburðinum sem ég bar á blettinn minn og trén, betur  að rótarkerfinu.  Einnig hreinsaði hún loftið og síðast en ekki síst þá þvingaði hún ánamaðkana ofar í jarðveginn og fyrir það eru þrestirnir ákaflega þakklátir.  Það er víst einhvern veginn svona sem maður skrifar þegar rignt hefur alla nóttina. 
    Áður er lengra er haldið er rétt að birta hér mynd af henni Erlu Evensen og Alex. Á myndina vantar Mumma meiriháttar


    
    Það er mikill friður sem ríkir á Vesturbakkanum nú um stundir.  Samt er alltaf eitthvað að gerast á svæðinu.


    Jóhannes á Blöndubyggðinni er byrjaður að slá og held ég að ég geti fullyrt að hann sé fyrstur til að hefja þessa iðju á þessu ári.


    Svenni kirkjueigandi kom hér fyrir skömmu með hundinn sinn til að líta eftir gömlu kirkjunni.


    Erlendur Magnússon vinnur  af til að sinni skúlptúragerð bakatil á Brimslóðinni. Erlendur er ekki svo ólíkur Hrafni Gunnlaugssyni um margt. Til að mynda þá eru lóðamörk engin hindrun fyrir útbreiðslu listarinnar og svo eru skúptúrar ekki hefbundnar höggmyndir heldur eru hugmyndir sumar hverjar sóttar til Skagastrandar í formi samanpressaðs brotajárns. Erlendur fer ekki hefðbundnar leiðir í listsköpun sinni og  teldi ég það ekki vitlausa hugmynd að skella sér niður fyrir húsin á fjörukambinum og skoða herlegheitin. Ég veit að auðnutitlingarnir elska þessi verk og ég hef það á tilfinningunni að fleiri gætu fetað slóð hinna smæstu fugla himinsins.


    Það er í sjálfu sér óþarfi að minnast á Jónas á Ljóninu því hann er kominn og svo sjálfsagður hluti í veruleika Vesturbakkans og jafnvel þó víðar væri leitað. Það er þó eitt sem leitar á huga minn, því enn eru merkingar við þjóðveg nr 1 sem gefa til kynna að á Vesturbakkanum sé að finna tjaldsvæði . Ég veit núna að það er ekki neitt viðurkennt tjaldsvæði að finna á Vesturbakkanum þó svo reka megi niður tjaldhæla "hist og her". Hvað á ég að segja við erlenda ferðmenn sem álpast í gamla bæinn og spyrja um kaffi og tjaldsvæði.  Þetta rifjar upp ársgamla hugleiðingu um þetta  stórmerka mál en þá lenti ég í stökustu vandræðum sem ég leysti á eftirfarandi hátt "You have to cross the river" eða " find the elderly grey man witch could be the grandfather of the Beatles". Það er svo sannarlega úr vöndu að ráða eða eins og "skáldið" sagði á svo undur ljúfan hátt:

Whatever you are, poor or rich,
elderly grey or smiling kids.
Speculation the same old which?
Should I stay or cross the bridge

    Nú er Rúnar mættur með harmonikkutóna í gamla bæinn en svo illa vill til að þeir eru af disk sem hann hefur sjálfur brennt inn á efni og veit ekkert um lögin annað en að þau eru harmonikkulög. Lagið sem hljómaði um gamlabæinn að þessu sinni var eldfjörugur polki, svo fjörugur að þreyttir fætur tóku ósjálfrátt viðbragð og gátu vart sig hamið.

    Hvað segir Glugginn í dag, það er hin stóra spurning?  Framboðslistarnir sem ætla að bjóða fram hér í sýslu eru farnir að kynna sig. Það er skemmtileg tilviljun að Glugginn er þannig uppsettur að auglýsingar frá meindýraeyðum eru aldrei víðsfjarri. Hjalti meindýraeyðir er á bakinu á framboðslistum í Húnavatnshreppi en Árni meindýraeyðir er andspænis L- listanum á Blönduósi.

    Það vekur athygli okkar Rúnars að Hjalti spyr í auglýsingu sinni hvort allir vilji ekki eiga flugulaust sumar. Við félagarnir erum nokkuð vissir um að mættu fuglarnir og blómin mæla þá tækju þau ekki undir þessa spurningu Hjalta og myndu hiklaust svara neitandi.

    Vísa vikunnar er að þessu sinni eftir Rúnar Kristjánsson á Skagaströnd og er ekki sökum að spyrja, handbragðið er snoturt.  Málin leysast af sjálfu sér með því að gera ekki nokkurn skapaðan hlut því  með því móti deyja sjúklinarnir og engann þarf að lækna.

    Samhengi hlutana er eins og allir vita afar mikilvægt. Og við Rúnar erum einstaklega næmir á það. Þess vegna fær þetta sem á eftir fylgir að líða áreynslulaust út í ómælt djúp netsins. Reyndar kom Jónas, vertinn á Ljóninu inn í horn til okkar meðan á pistlaskrifum stóð og reyndi að hafa áhrif á gerðir okkar og hafði meira að segja í frammi þessa vísu:

"Seinna ég skáldabekkinn kannski vermi,
en þangað til fer með hægð.
Baða mig síðan í frægðarljóssins skermi
og öðlast allt í einu heimsfrægð."

    Og lét þau orð falla að ólíkir værum við Magnúsi frá Sveinsstöðum, því hann gerði alltaf athugasemdir við bragfræði sína.  Ekki hvarflar að okkur Rúnari að gera neitt slíkt enda eru menn frjálsir og óháðir í andanum og mikið talað um það þessa dagana " að hugsa út fyrir rammann" . Því segjum við  einfaldlega þetta:

Hann kom hérna og reyndi að beita okkur brögðum.
Af blátærri kurteisi báðir við sögðum.
"Þú mátt yrkja að vild
og telja það snilld"
Að þessu loknu báðir við þögðum.

PS. Það munaði engu að limran hefði endað "Að þessu loknu á flótta við lögðum"

06.05.2010 16:12

X - I

    Rúnar var að detta í þessum skrifuðum orðum  inn um dyrnarnar hjá mér með Gluggann sem ekki kom út. Lagið "Vals" sem er að finna á disknum "Við nikkunar óm"  og hefur að geyma lög eftir Bjarna Halldór Bjarnason hljómaði í vorblíðunni á Aðalgötunni . "Ég elska þig ástin mín" var síðasta setninginn í texta lagsins og vel við hæfi. Prufið bara að setja ykkur í valstakt og syngja þennan texta með eigin nefi og lífið verður strax betra.

    Glugginn er kominn og kennir þar margra grasa. Hjalti meindýraeyðir er kominn á kreik um svipað leiti og framboðslistarnir birtast almenningi.  Og það fór sem mig grunaði að það var vísa vikunnar sem hefur staðið í Gluggaprentvélinni því hún er dýr og ættuð út Torfalækjarhreppi hinum forna.  Fjallar hún um útrás andskotans sem kemur úr undirdjúpum landsins okkar.

    Ég átti von á því að nýtt framboð á Blönduósi kæmi fram á síðum Gluggans til að takast á við Ásynjuna Oddnýju hina einhömu og skjaldmeyjar hennar.  En fyrst að listinn kom ekki fram í hinum seinútgefna Glugga er ekki úr vegi að að stilla upp harðgerðum karlalista sem mögulega gæti staðið Oddnýju hinni einhömu snúning. Hvernig væri að hafa Mumma meinhorn í fyrsta sæti. Alltaf á hann orð sem hæfa tilefninu og hefur þar að auki nýlega fengið yfirráð yfir risasveppum og kallst því með réttu æðsti sveppur. Í öðru sæti sé ég fyrir mér Jónas Skafta , grásprengdan og hokin af reynslu í bæjarmálum og þá einkum og sér í lagi að fást við bæjarstjóra og byggingafulltrúa.  Ívar Snorri myndi sóma sér vel í þriðja sæti þjakaður af sjávarlofti og seltu. Gjörkunnugur sjávarútvegi og uppeldi varðhunda og taktviss með afbrigðum.  Fjórða frambjóðandann skal telja sem hiklaust er maðurinn í baráttusætinu og kemur þar enginn annar en undirritaður  til greina því hjá mér er margbrotinn reynsla í því að þurka út heilu stjórnamálaöflin. Nægir þar að nefna að vorið 1986 var undirritaður næstum búinn að ganga af Sjálfstæðisflokknum dauðum og því vel við hæfi og jafnvel táknrænt þegar Sjálfstæðisflokkurinn er hættur að bjóða fram lista í bæjarstjórnakosningum á Blönduósi . Af þessu má sjá að hér fer saman mikill mannauður og  reynsla sem spannar öll helstu svið hins mannlega samfélags. Nafnið á þessum lista verður "Öxin"  því víða verður höggvið og listabókstafurinn verður I , sem sagt X-I

Nóg er af pólitík, rexi og pexi,
pínd erum við af  pexi og rexi
Snúum bökunum saman
Brátt verður hér gaman
Því bæinn við vinnum með X - I

05.05.2010 14:27

Strikið í reikningnum

    Þegar litið er til sögunnar þá endurtekur sagan sig alltaf, það er víst segin saga. Þetta segir mér nú bara skógarþrösturinn sem er búinn að koma sér upp hreiðri á gerfihnattardisknum sem hangir utan á hótelinu. Þessi ágæti fugl gerir sér ekki hreiður á þessum stað vegna tryggrar afkomu sinnar heldur vegna þess að staðurinn er svo góður með í varnarlegu tilliti gagnvart náttúrulegum óvinum. Og þegar talað er um náttúrulega óvini þá er átt við ketti, hrafna og því um líkt en þröstur minn góði gleymir alltaf sínum versta óvini í náttúrulegu tilliti en það er vindurinn. Sumar eftir sumar höfum við sem störfum á Aðalgötu 8 horft upp á það að hreiðrið fjúki af stalli sínum og varpið misferst. Við horfum í angist og með tárum á þrastarfjölskylduna fljúga um í algjörri örvæntingu í leit að heimili sínu en án árangurs. En það má segja þessum ágætu þrastarhjónum til hróss að þau jafna sig til þess að gera fljótt og koma upp hreiðri í rennunni á húsinu nr  9 við Aðalgötuna.


    Krían er komin í ósinn og í mínum huga er það stór áfangi í að endurheimta vorið. "Hún var nú komin fyrir viku, ég hefði getað sagt þér það" sagði einn ágætur vinur minn sem ég hitti á röltinu í fyrradag þegar ég sá kríurnar fyrst. "En þú sagðir mér það ekki Mummi minn" sagði ég si svona án þess að meina neitt illt með því og bætti svo við einhverju inn í umræðuna  um að sumir gætu ekki greint í sundur kríu og hettumáv. Þessari umræðu lauk á kærleiksnótunum eins og alltaf þegar við Mummi ræðumst við vegna þess að ég þekki Mumma og Mummi heldur að hann þekki mig. Þetta segir manni bara það hvað það er mikilvægt að þekkja viðfangsefnin í lífinu og takast á við þau í samræmi við það.  Ef maður þekkir þau ekki er mikilvægt að viðurkenna það strax og horfast í augu við vanmátt sinn af æðruleysi og auðmýkt. 

    Ég læt hér fylgja með tvær gæsamyndir sem sýna annarsvegar hvernig þær lenda sínum málum sem og hversu mikla virðingu gæsamamma ber fyrir gæsapabba.




   
     Reyndar er ekki svo langt síðan ég stóð í þeim sporum að vita ekki hvað snéri upp eða niður þegar ég hlustaði á viðtal Svavars Halldórssonar fréttamanns við Má Guðmundsson seðlabankastjóra  í kastljósi um daginn. Í því viðtali breyttist launahækkun í launalækkun og niðurstaða viðtalsins varð sú a.m.k. hjá mér að ég var fjær sannleika málsins auk þess að skilja ekki nokkurn skapaðan hlut sem talað var um. Í kjölfarið kom svo viðtal við Jón Gnarr sem ég skildi ekki betur en viðtalið sem á undan fór. Jóhann Már söngvari frá Keflavík  söng svo yfir heila "klabbinu" í lokin og var að öðrum ólöstuðum hápunktur Kastjóssins þetta ágæta að ég held mánudagskvölds.

    Jónas Skafta er komin heim líkt óg krían og stendur núna vaktina á Ljóninu. Ég hef ekki hitt hann en séð hann úr fjarlægð. Hann er ekkert ósvipaður því eins og hann var í fyrra. Gráleitur eldri maður sem ber sig vel og sýnist klár í kaffið, kleinurnar og einn kaldann. Stefán og Nonni hundur er líka á ferðinni en mér finnst fara minna fyrir þeim en oft áður og getur það skýrst af því að Jón Sigurðsson hundur er orðin eldri og þroskaðri og gengur um dyr gleðinnar af meiri festu og agi er kominn í hans grófustu hreyfingar og raddbönd.

    Það er alltaf eitthvað um að vera á Aðalgötu 2 sem hér áður fyrr meir var kallað Sæmundsenhús. En hvað það er sem þar er að gerast veit ég lítið um. Lengi hefur verið talað um að þar ætti að opna einhverskonar sportbar og gistiaðstöðu en enn hefur ekkert verið upplýst hvenær það verður eða hvort nokkuð verði af því. Þannig er það nú bara.

    "Vegna bilunar í tækjabúnaði er óvíst að Glugginn komi út fyrir helgi. Unnið er að viðgerð og nánari upplýsingar koma síðar."  Þetta voru skilaboðin á huni.is núna í þessum skrifuðum orðum. Skyldi þetta leiða til þess að Rúnar komi ekki í heimsókn í dag. Verður þessi bilun til þess að Aðalgatan missi af hressilegum harmonikkutónum úr Súkkunni hans Rúnars. Skyldi þessi bilun verða til þess að ómögulegt verði að koma auga á samhengi hlutana. Verður þessi miðvikudagur bara miðvikudagur sem líður í aldana skaut eins og allir hinu dagarnir.

    Rúnar hringdi og sagði það sem ég óttaðist mest. "Glugginn er bilaður og ég kem ekki, sjáumst seinna." Þar höfum við það.  Bara svona skýjaður miðvikudagur og ég einn með mínum hugsunum. Enginn polki eða vals, engin vitleysisgangur út í bláinn. Núna heyri ég geltið í Nonna hundi og finn fyrir rakanum í þungbúnu miðvikudagsvorblíðunni. Núna finn ég að þetta er ekki eins og það á að vera.

    Núna veltir maður fyrir sér hverju maður hefur misst af. Ætli Jónas á Ljóninu hafi verið að auglýsa með áhrifaríkum hætti sumaropnun  og vélarnar hjá Hédda og Óla ekki þolað álagið. Nú eða vísa vikunnar verið svo dýrt kveðin að tölvukerfi Gluggans hafi hrunið. Hver veit svona lagað. Kannski hefur E-listinn verið að senda inn framboðslista sem er svo frumlegur að kerfi þeirra Gluggamanna  hafi ekki ráðið við hann. Það er svo margt sem getur sett þetta margfræga strik í reikninginn.



     Þessir ágætu menn sem báðir eru bæjarfulltrúar hvor fyrir sinn lista en samherjar í lífinu gætu hugsanlega verið með listann góða sem hugsanlega hefði átt að birta í Glugganum sem ekki kom út. Hér eru þeir heiðursmenn Jón Aðalsteinn Sæbjörnsson (Alli) og Ágúst Þór Bragason

    Svona getur maður lengi haldið áfram án þess að fá neinn botn í þetta. Kannski hefur Óli bara hlustað á viðtalið við seðlabankastjóra og tapað öllum áttum, það þarf ekki að vera flóknara.
    En lífið heldur áfram með eða án Glugga, með eða án Rúnars, það bara heldur áfram og það sem heldur hlutunum saman er hið gamla og góða samhengi sem að þessu sinni er ekki flóknara en þetta:


Í sál minni  hleypur nú gleðin í  hnút.
Hugurinn fyllist af trega og sút.
Því allt sem ég veit
og ei augunum leit
er í Glugganum góða sem ekki kom út.

28.04.2010 14:34

Ekki lýgur spegillinn

    Það er svo margt að gerast í náttúrunni þessa dagana. Að rölta meðfram Blöndu og fylgjast með fuglalífinu á ánni er skemmtileg afþreying og maður fær alltaf besta sætið til að fylgjast með á leiksviði lífsins.  Það er hægt að hafa um það mörg orð hvernig fuglarnir helga sér svæði, verja sinn maka nú eða stíga í vænginn. Það er mikil umferð upp og niður ánna og eru straumendurnar þar fremstar í flokki. Það er stórbrotið að sjá til þeirra hvernig þær sleikja vatnsyfirborðið á miklum hraða með hröðum vængjaslætti, ýmist í átt til sjávar eða upp með ánni.  Þegar fer að líða á maímánuð þá er eins og allt líf hverfi af þessu svæði og upp úr 1. júní þá er eins og náttúran verði fyrir sprengingu því þá streyma gæsirnar með unga sína út á ánna og allt fyllist lífi á ný.
 

    En fyrst maður er að ræða um náttúruna á annað borð þá er vert að geta þess að samkvæmt áræðanlegum fréttum frá traustum heimildarmönnum á Brimslóðinni þá er krían komin í Ósinn. En ég segi nú eins og bóndinn sem sá hanann breytast í hænu (sjá síðar í pistli) " Ég trúi þessu nú varla" en ég fer núna fljótlega út úr húsi til að rannsaka þetta mál með eigin augum



    Apríl er mánuður átaka og ásta í lífríki fuglanna jafnframt því að vera mánuður aðalfunda, tónleika og fleira því um líku. Í dýraríkinu er grunninn lagður að en hjá mannfólkinu er skorið upp eftir margslungið vetrarstarf.

    Það hefur mikið verið hamrað á því þessa síðustu mánuði að menn eigi að vera heiðarlegir í allri framkomu og allt skuli vera uppi á náttborðinu. Vissulega er þetta allt saman góðra gjalda  og eftirbreytni vert svo langt sem það nær. En þegar maður sest niður í góðu næði og lætur hugan reika um lendur sannleikans þá verða á vegi manns ýmis álitaefni sem fá mann til að staldra við. Einhverju sinni þegar ég var einn með sjálfum mér að velta lífinu og tilverunni  fyrir mér var mér hugsað til þessara hjóna sem áttu þessi orðaskipti rétt fyrir svefnin.  Atburðarásin er einhvern veginn svona:  Kona á miðjum aldri stendur léttklædd fyrir framan spegilinn í svefnherberginu og dæsir til þess að gera mikið.
Eiginmaður hennar liggur uppi  í rúmi og er að lesa "alltaf sama sagan" eftir Þórarinn Eldjárn.
"-Almáttugur að sjá hvernig ég er orðin" segir hún, "brjóstin komin niður á maga, rassinn ofan í gólf, allt í appelsínuhúð og keppum! Æ Magnús minn segðu eitthvað jákvætt til að hressa mig við."-"Ja, þú ert allavega með góða sjón", segir hann.

    Vesturbakkinn er á sínum stað og vertinn á Ljóninu hefur látið þau boð út ganga að hann muni verða kominn norður þann 1. maí og hefja sumarstarfið að fullu. Ég veit að grágæsirnar eru byrjaðar á fullu í sínu sumarstarfi á Einarsnesinu, stað sem einu sinni var næstum því tjaldsvæði á vegum Ljónsins. Það er óskandi að vel gangi hjá vertinum í sumar og gestir og gangandi geti notið einstakrar náttúrufegurðar annaðhvort úr heita pottinum nú eða bara af pallinum hjá Jónasi vert.

    En núna fer að styttast í það að Rúnar komi með Gluggann til mín og upplýsi mig um helstu málefni líðandi stundar. Og sem ég segi þetta þá birtist hann með þróttmikinn karlakórsöng í farteskinu. "Fagra blóm" hljómaði úr fjölda karlmannsbarka og ef satt skal segja þá hafði Rúnar ekki hugmynd um það hverjir voru þarna að verki. Málið er nefnilega það að hann hefur halað þessum söng niður með einhvejum þeim hætti sem STEF kann lítt að meta og brennt hann á disk hjá sér.

    Við viljum vinna er yfirskrift 1. maí  hátíðarhalda hjá stéttarfélaginu Samstöðu. Þetta hef ég marg oft sagt á laugardögum þegar dregið er í lottóinu og leikjunum sem ég hef tippað á er lokið. En mér og mínum nánustu er farið að verða það ljóst að fyrir okkur á ekki að liggja að auðgast í gegnum happdrættisvélar heimsins heldur verðum við að vinna fyrir okkar. Við þökkum fyrir að hafa vinnuna sem það verkfæri til að komast af og veit ég að það er nákvæmlega þetta sem Samstaða á við í sinni yfirskrift.

    "Vorið góða vaknar brátt/vefur skjólið stráin" segir í vísu vikunnar sem er eins og svo oft áður eftir spurningarmerkið margfræga.  Þessi vísubyrjun kallar fram í huganum eilífðarspurninguna hvort kemur á undan eggið eða hænan.  En förum ekki nánar út í það hér, því ekki rímar spáin á móti skjólið, svo einfallt er það.

    Safnaðarfundir í sveitum héraðsins standa fyrir dyrum og kjörstjórnir eru farnar að auglýsa eftir framboðslistum  til sveitarstjórnarkosninga  sem verða þann 29. maí n.k ef það skildi nú hafa farið fram hjá einhverjum. Það hefur verið reyfað hér á þessum vettvangi að lítið framboð hafi verið á framboðum hér á Blönduósi í vor. Á þessu er orðin veruleg breyting því Samfylkingin hefur auglýst að hún muni leggja fram framboðslista í kvöld í sal Samstöðu.  Kjörorðin að þessu sinni eru : Félagshyggja - jöfnuður  - réttlæti og ef þau standa undir nafni þá þarf nú ekki fleiri lista í framboð.

    Jónas Travel Group á eigin styrk í 25 ár segir vertinn á Ljóninu óhræddur við heiminn og kemur því til skila með auglýsingu í Glugganum og bætir síðan við:  Hlægileg tilboð á barnum. Getur þetta nokkuð orðið skemmtilegra.

    En enginn stöðvar tímans þunga nið og því er mikilvægt að koma reglu á hlutina,  koma þeim í hið gullna samhengi. Samhengið er svo mikilvægt svo maður viti hvert eigi að stefna og hvað maður hefur lært af samtíma sínum. Þessvegna er bæði ljúft og skylt að láta þetta líða út í loftið

Flötinn þrífur þvegillinn,
þekur gólfið dregillinn.
Er þú háttar á kvöldin,
tekur sannleikur völdin,
því ekki lýgur spegillinn.

    Rúnar heyrði í "víðu og breiðu" á Rás1  í gær að refur hefði komist í hænsnabú og drepið þar  allar hænunar. Bóndinn sem átti búið sagði að haninn hefði lifað af og þegar honum hafi verið farið að leiðast þá hafi hann breyst í hænu og farið að verpa og legið á eggjum. Bóndinn sagði að vísu í lokin  " Ég trúi þessu nú varla" en svona er lífið og haninn segir okkur að leggja ekki árar í bát þegar öll sund virðast lokuð og leysa bara málin sjálfur.

Á lífsleiðinni  leynast margar sprænurnar
og ljúfar eru meðvitaðar  rænurnar.
Svo  er það víst vanin
breytist hænu í, haninn
Ef refurinn étur  hænurnar

21.04.2010 14:18

Á síðasta vetrardegi

    Hún er undarleg mannskepnan svo ekki sé meira sagt. Núna heyrir maður ekki annað en hve gott sé að hafa norðanáttina  og menn finna varla nægilega falleg orð til að lýsa henni.  Ég man ekki hvort það var í fyrra eða hitteðfyrra þegar fólk bölvaði þessari sömu átt sem fyrr er greint frá. "Helv.... þurrakuldinn ætlar allt að drepa" og mörg fleiri álika orð hafði fólk uppi um hina hrollköldu norðanátt. Þessi sinnaskipti hjá okkur, fávísu mannskepnunni koma fram í fleiri myndum en hvað varðar veðrið. Núna getur maður sagt án þess að allt fari á hvolf  "Ótrúlegt hversu margir Baugfingur eru á einu og sömu hendinni". Svona geta hlutirnir breyst hratt og ræður þar mestu hvaðan vindar blása og hvað fylgir þeim.

    Það sem merkast hefur gerst hér á Vesturbakkanum  þessa síðustu daga er að grágæsin SLN er komin heim frá Skotlandi. Fyrir þá sem ekki vita þá var hún merkt hér á Blönduósi fyrir utan lögreglustöðina í júlí 2000. Hún hefur skilað sér heim á æskustöðvarnar í það minnsta síðast liðin 11 ár. Hún er vorboði, hún er sönnun þess að lífið heldur áfram sama hvað á dynur. Hún er tákn um þolgæði því líklega hefur hún flogið um 22. yfir hafið og heim. Hún hefur að öllum líkindum lifað þrennar sveitastjórnarkosningar, margar skotárásir  og svo mætti lengi telja.


    En í dag er síðasti vetrardagur samkvæmt dagatalinu og hann ber nafn með rentu. Úti er svalt og snjór yfir en veðurstofan lofar okkur að vorið komi um helgina og ekki síðar en á mánudaginn og að það verði horfið aftur á þriðjudaginn.  Það væri því við hæfi að Rúnar kæmi núna á eftir með Gluggann og "Snevalsen" og saman getum við síðan sest inn í horn  hjá mér og lokað vetrinum.

    Eftir að kólnaði þá höfum við hjónin fært þröstunum epli út í garð sem þeir hafa þegið með þökkum. Það er eftirtektarvert að fylgjast með þeim þegar þeir éta eplið.  Maður hefði haldið, eftir að "Skýrslan" kom út þá væru allir svo meðvitaðir um Guðsorð og góða siði, en það er greinilegt að þrestirnir hafa ekkert kynnt sér þau mál. 
    Það fer ekki mikið fyrir kærleikanum og hugtakið að skipta jafnt á milli þekkist ekki í orðabókum þrastana. Þeir eru eins og Mikki refur fyrir siðbót: "Ég ætla að fá allt eplið" og engin afsláttur gefin af því. Þessi hegðun getur komið sér vel fyrir Höskuld nágrannakött minn sem hefur áhuga á fuglum eins og ég. Ekkert veit hann skemmtilegra en sitja um bústinn skógarþröst þó svo hann hafi í sjálfu sér ekki neitt með hann að gera í næringarfræðilegu tilliti. Hann bara veiðir fuglinn af því að hann er þarna og er ekkert að flækja málið neitt frekar. Það virðist vera sama hvort þú sért skógarþröstur, Höskuldur köttur eða Hannes Smára, þú gleypir allt sem er bitastætt og kemur sér vel fyrir þig. Þannig er þetta nú allt saman þegar öllu er á botninn  hvolft.

    Núna birtist Rúnar í Aðalgötunni í sólskinsskapi en með algjöra nýjung undir geislanum í spilaranum á Súkkunni. Ég átti von á Snevalsen eða på gyngende gulv meðArnt Haugen, en nei! Kallinn kom á klassískum nótum og "Lækurinn"  í  flutningi Rökkurkórsins mætti hlákulæknum sem streymdi niður Sýslumannsbrekkuna  í sólbráðinni. Það er sem ég segi, Rúnar er óútreiknanlegur og er það hans helsti styrkleiki ef satt best skal segja.

    Glugginn er sem sagt kominn og þar kennir nokkura grasa . Má þar helst nefna að fermingar verða á Blönduósi um helgina sem og sumarskemmtun sem nemendur í 1. -7. bekk grunnskólans hafa haldið á sumardaginn fyrsta frá því ég man eftir.

    Gummi Línu auglýsir ljósmynda- og ljóðasýningu á hótelinu og hið nýstofnaða fræðasetur Háskóla Íslands á Skagaströnd verður með opið málþing sem nefnist "Ísland í Evrópusambandið?". Á þessu málþingi verða flutt mörg erindi um samskipti Íslands við erlend ríki. Að loknu málþingi verður farið um Skaga vestanverðan og ýmsir staðir skoðaðir. Athygli vekur að að byrjað verður á Árbakka hjá Jakobi Guðmundssyni. Viss er ég um að þar verður töluð íslenska með stóru Í-i og þeir sem eru óákveðnir hvort inn skuli ganga í ESB eður ei taka þarna sína lokaákvörðun.  Þá verður farið í Hof á Skaga en þaðan er sá ágæti maður Jón Árnason sem safnaði saman þjóðsögunum á sínum tíma. Utar verður farið á Skaga og hið stórbrotna Króksbjarg og sögufræga og fallega Kálfhamarsvík verða skoðuð.

    Vísa vikunnar er á sínum stað og þar fagnar Anna Árnadóttir komu gæsana. "Góðan morgun maddama gæs/ mikið er gaman að sjá þig" segir Anna og bara létt yfir henni.  Það er svo gott að vita til þess að það eru fleiri en ég sem hafa ánægju af komu þeirra. Kunnir Blönduósingar hafa látið þau orð falla að nú væru þær komar " þessir gangandi skítadreifarar". Það má til sanns vegar færa að töluvert skíta þær á göngustíga og jafnvel svo mikið að ástæða væri fyrir bæjaryfirvöld að vara við hálku þegar líður á sumarið. En þær setja svip á bæinn líkt og Blönduóslöggan og svo mætti líka hanna einhverskonar kúst sem hægt væri að fara með um göngustígana endrum og eins. Ég er viss um að Stebbi Páls gæti hannað einn slíkan.

    En nú eins og alltaf þarf að greina kjarnan frá hisminu, finna samhengi hlutanna sem er svo mikilvægt í nútíma samfélagi þar sem upplýsingaflæðið er slíkt að enginn veit hvað snýr upp eða niður nema fuglar himinsins og Höskuldur köttur.

Úti er sólskin en svalt.
Söngfuglum öllum er kalt.
En í sig mun hakka
hann Jakob á Bakka,*
Evrópusambandið allt
*Jakob Guðmundsson Árbakka

    Rúnar ruglaði mig svolítið í ríminu þegar hann bar mér Gluggann áðan í fylgd með Rökkurkórnum. Þetta er töluvert stílbrot og hægir mann töluvert niður þannig að maður fer ósjálfrátt að raula "hjá lygnri móðu" eða eitthvað því um líkt.

Með vorsöng að vopni hann kom hérna  snar
vitlaus,  það sannlega segi.
Nú  skorðaðir erum í sumarsins far,
á síðasta vetrardegi

Við höldum samt að vísan sé betri svona  a.m.k rökfræðilega séð:

Með kórsöng að vopni hann kom hérna snar
kátur,  það sannlega segi
Nú  skorðaðir erum í sumarsins far
á síðasta vetrardegi.

Að þessum vísum loknum hvarf Rúnar út í sólbjartan síðasta vetrardaginn, sprellandi kátur og lék í kveðjuskyni "på gyngende gulv" með Arnt Haugen.

13.04.2010 16:27

Hress og kátur á þriðjudegi

    Það er ótrúlegt hvað mannskepnan er íhaldsöm og vanaföst. Þessu hef ég komist að með því að fara í ferðalag með kúabændum síðastliðinn miðvikudag. Þessi bændaferð sem tókst í alla staði mjög vel varð þess valdandi að ég skrifaði ekki minn vikulega miðvikudagspistil.  Og það að skila ekki því andlega fóðri til minna traustu 100 lesenda á miðvikudegi leiðir til þess að þeir fara að draga ályktanir. Þeir hugsa með sér: " Jón skrifar ekki á miðvikudegi, þá er eitthvað að".  Farið er að kanna hvað sé að og fær maður senda tölvupósta og þá sem maður hittir á förnum vegi spyrja hvað valdi þessu . Fyrst í stað fór ég að velta því fyrir mér hversu merkilegur og ómissandi ég væri en hef verið að komast að því að þetta snýst ekkert um mína persónu heldur það að fiktað hefur verið við  fastan  punkt í tilverunni hjá traustum lesendum  og það hreyfir við kjölfestunni. Vænt þykir mér um þá umhyggju sem mér er sýnd og ég get fullvissað mína eitthundrað lesendur um að þetta er fyrst og fremst kúabændum í A-Húnavatnssýslu að kenna og þá einkum og sér í lagi Magga á Hnjúki og Jóhannesi á Torfalæk.

    Nú vill svo til að á morgun verð ég ekki heldur heima og missi fyrir bragðið af harmonikkutónum frá Famelien Brix eða Harmonikadrengene úr geislaspilaranum í Súkkunni hans Rúnars. Ég gæti best trúað því að hann muni spila  Snevalsen á morgun því hann er slíkt ólíkindatól að vart verður orðum að því komið.  En því get ég lofað, svo framarlega sem Guð lofar, að síðasta vetrardag munum við Rúnar skoppa um í pistli í takt við Snevalsinn því sumarið er handan við hornið og bíður í allri sinn dýrð  eftir því að komast að.

    Það verður að játast að það var nokkur ábyrgðarhluti að skrifa ekki pistil síðasta miðvikudag því mikið var um að vera á Vesturbakkanum yfir páskana. Nægir að nefna að Jónas á Ljóninu kom heim og blés til sóknar í útvarpi og héraðaðsupplýsingamiðlum. Ekki stóð á viðbrögðum þó svo "Ekkertmálbandið"  kæmist ekki samkvæmt auglýstri dagskrá því hljómsveitarstjórinn Árni Þorgilsson var víst vestur á fjörðum þegar hann átti að vera að leika létta dansmúsik á Ljóninu. Samkvæmt áræðanlegum heimildum kom þetta ekki að sök því Viðar oft kallaður kjölfestufjárfestir, lék af mikilli innlifun við  undirleik frá Jónasi sjálfum. Mér er sagt að þessi tónlistarflutningur hafi vakið mikla hrifningu þannig að viðkvæmustu sálir fundu fyrir nettum hrolli niður eftir hryggsúlunni. Sömu heimildir segja að Ívar Snorri útgerðarmaður hafi ekki sést á Ljóninu þessa síðustu daga Dymbilviku því hann hafi verið við söng og hljóðfæraslátt eigi víðsfjarri og herma sögur að þar hafi takturinn verið sleginn með miklum  þunga svo eftir var tekið.

    En hvað sem öðru líður þá er það staðreynd að ég verð ekki heima á morgun því ég legg upp í bítið í fyrramálið til Reykjavíkur til að sitja þar fund með fólki sem sýslar við svipaða hluti og ég. Í Hvalfjarðargöngin mun ég greiða sem og minn hlut í bensíngjaldinu og hugsa hlýlega til Steingríms Joð fyrir að innheimta ekki fleiri vegagjöld að sinni. Það er hugsanlegt að ég stoppi smástund í Borgarnesi og greiði minn 25,5% virðisaukaskatt  fyrir kaffi og rúnstykki með osti en að öðru leyti mun ég ekki trufla vístölu neysluverðs umfram þetta.

    Sendi ykkur smá skammt af vorinu sem farið er að laumast inn í sálina og umhverfið hér á Ósnum. Svanirnir stefna fram í heiðanna ró og og straumandarsteggirnir eru gríðarlega spenntir fyrir kollunum og lái þeim hver sem vill.





    En ég verð ekki heima á morgun og þegar þetta er skrifað er ég við góða heilsu. En lifið heil og hittumst að viku liðinni, þá verður kannski 100.000. gesturinn búinn að líta inn á síðuna til mín.

Álitinn dauður ef aðeins ég þegi,
og ekkert  gaspra  á miðvikudegi.
En ég tóri þó samt
og sendi smá skammt
til ykkar sem verða á mínum vegi.

 

30.03.2010 15:30

Vorboðinn ljúfi og lille sommerfuglen

    Fréttir úr gamla bænum eru af skornum skammti að þessu sinni, einfaldlega vegna þess að lítið er að frétta. Jónas vert er reyndar nýkominn norður sem og Erlendur Magg  þannig að nú fara hlutirnir að gerast.
 

    Ívar Snorri útgerðarmaður er enn bátlaus eða eins og segir í vísunni okkar, kænusnauður. Þessi margreyndi sægreifi er kominn í hundana eins og glöggt má sjá á þessari mynd sem hér fylgir. Þeir félagar hafa ekki enn náð að smala gráa kettinum hans Einars Ara og má ólíklegt teljast að það takist í bráð því varðhundur sægreifans þarf að stækka tölvert svo af því geti orðið

    Lille sommerfugl með harmonikka drengene var það eina sem ég heyrði þegar ég tók beygjuna af Hnjúkabyggðinni inn á Aðalgötuna. Var ekki Rúnar mættur með Gluggann á þriðjudegi og ég gersamlega óundirbúinn með ritningu vikunnar. En spila lille sommerfugl og jörð alhvít og og vetur í kortunum. Það er enginn nema Rúnar sem lætur sér svona lagað til hugar koma og það er einmitt þessvegna sem hann getur umborið mig. Aðspurður um þessa hegðun þá sagðist hann hafa heyrt að lóan væri komin til landsins og örfáar gæsir eru farnar að sjást.

    En hvað segir Glugginn sem er degi fyrr á ferðinni en venjulega. "dagur húnvetnskrar náttúru" er kynntur til sögunnar og er ekki vafi á að margir muna þar hafa af bæði gagn og gaman því fátt er leiðinlegra en náttúrulaus húnvetningur.

    Sonur minn og nokkrir piltar í svörtum fötum ætla að leika fyrir dansi í félagsheimilinu á laugardaginn og efumst við Rúnar ekki um að þeir félagar munu taka eitthvað af uppáhalslögunum okkar með Harmonikka drengene og Familien Brix.

    Maggi á Hnjúki ætlar að leggja í enn eina ferðina með kúabændur út fyrir sýslumörkin. Nú er ferðinni heitið í Dalina og er engin efi í okkar Rúnars huga að lagið undir dalanna sól verður sungið að minnsta kosti tvisvar og mjög líklegt að Magnús muni að minnsta kosti einu sinni syngja einsöng í laginu með sinni hreinu og björtu fjallatenórsrödd.  Ekki er ólíklegt að hann muni ennfremur segja eina til tuttugu sögur af bændum og búaliði sem búa við veginn sem rútan fer um.

    "Á svið" verður sýnt um páskana og er enginn svikin af því verki og hvetjum við alla sem vettlingi geta valdið til að sjá krakkana skila prýðisgóðum farsa til áhorfenda.


    Vísa vikunnar er á sínum stað og núna er það einhver E.A. sem yrkir. Við Rúnar gengum á Bebbí sem reyndar ber skammstöfunina E.Á. og spurðum hana. "Nei, ég vil ekki eiga hana" sagði hún og er hér með úr sögunni. Kannski er þessi vísa eftir Einar Arason í Aðalgötunni  en hann ber millinafnið Sigurbergur en látum það liggja milli hluta í bili. En E.A.  leggur fyrir hönd þjóðarinnar brauð í greipar lýðsins. Okkur datt nú bara Einar í hug því í vísunni er lagt út frá fiskum og brauði og um þetta er fjallað þegar Jesú mettaði 5.000.

    Og sjá! Þegar við lítum yfir baksíðuna þá trónir ljónið þar efst á síðu undir sæmdarheitinu "Vorboðinn ljúfi" . Um Jónas á Ljóninu er endalaust hægt að fjalla og datt okkur Rúnari í hug þegar við sáum að Blönduósbær auglýsir eftir starfsmanni til sumarafleysinga hvort  ekki væri tilvalið fyrir Jónas vert að sækja um. Þetta mundi hafa í för með sér mikið hagræði að minnsta kosti fyrir Jónas því stutt væri í bæjarstjórann og byggingafulltrúann og hann gæti þar að auki  skrifað bréf til bæjarins og vistað þau innan húss.

    En nú skal á að ósi stemma og koma böndum á samhengið sem að þessu sinni gæti orðið nokkuð snúið.  Kemur þar margt til og geta þeir sem nenna að lesa þetta skilið það og þann mikla vanda sem við stöndum frammi fyrir. En kjarkmenn eins og við Rúnar erum, ríðum á vaðið alls óhræddir.

    Við Rúnar horfum fram á veginn  en tökum mjög alvarlegt tillit til vísu vikunnar þegar við yrkjum þetta í limruformi :

        Landið  er skorið af sænum,
        og sægreifinn snauður af kænum.
        En frið fær í sál
        og það leysast  öll mál
        er Jónas fær vinnu hjá bænum

    Gleðilega páskahátíð óskum við ykkur öllum.

24.03.2010 14:39

Súsanna, Sigríður og Berlína

    Núna er það staðreynd að dagurinn er lengri en nóttin og einmánuður er byrjaður. Við erum sem sagt búin að þreyja þorrann og góuna. Í gær var heitdagur sem mun vera áheitsdagur í vetrarlok þegar erfiðlega áraði. Þessi dagur var afnuminn með tilskipun árið 1744 sem ég held að hafi verið mistök því ég er viss um að gott hefði verið að eiga svona dag inni til þess að eygja einhverja von þegar stöðugleikasáttmálinn lekur út í buskann í skötuselslíki.

    En einmánuður er byrjaður og það þýðir bara eitt að sumarið nálgast og Jónas Skafta kemur norður með grágæsunum. Jónas vert á Ljóninu er á leiðinni og það er ávísun á stanslaust fjör á Ljóninu yfir páskana. Ég sá Jónas í skötulíki á mánudaginn og harmaði hann mjög fyrir hönd bæjarstjóra að þeir hefðu ekki hittst en það það koma víst aðrir dagar eftir þennan mánudag sagði minn maður.  Jónas bað mig sérstaklega að koma því á framfæri að hann yrði heima yfir páskana og gleðin og þjóðlegir siðir yrðu við völd  á Ljóninu á meðan dvöl hans stæði. Nefndi hann meðal annars að "Ekkert málbandið" myndi standa fyrir uppákomu á miðvikudagskvöldið fyrir skírdag. Ég spurði Jónas hvort Ívar Snorri væri í bandinu en hann sagði svo ekki vera því Ívar væri ekki enn kominn með bongótrommur og því væri ekkert pláss fyrir hann á Ljóninu með trommusettið.  Þannig að nú liggur ljóst fyrir að Ívar Snorri þarf að fara að fjárfesta í litlum trommum svo hann verði gjaldgengur skemmtikraftur á Ljóninu.

    Talandi um skemmtanir í gamla bænum þá flaug í gegnum hugann eina augnabliksstund hvort baðkarið sem stendur fyrir utan hjá Siggu Gríms eigi að gegna einhverju skemmtana hlutverki. Það var í gamla daga þegar við vorum ekki orðin eins meðvituð um hversu alvarlegar afleiðingar það getur haft að sjá berrassaða konu og þá einkum og sér í lagi fyrir konur sem aldrei hafa séð karla horfa á berrassaðar konur. Mér kemur út af þessu í hug ein ágæt kona sem fór fáklædd um landið og baðaði sig. Mig minnir að hún hafi borið nafnið Súsanna og gert það bara nokkuð gott. 
    Já það er baðker fyrir utan hjá Siggu Gríms og þar sem fara núna í hönd miklir gleðidagar í gamla bænum í tengslum við viðveru Jónasar Skafta á Blönduósi yfir páskana er ekki ólíklegt að af þessu tilefni muni Sigríður baða sig á Brimslóðinni líkt og Súsanna forðum . Mér finnst nú allt í lagi að hugsa þetta upphátt því ég veit að þetta mundi vekja örlitla athygli en þegar maður fer að hugsa þetta lengra þá gæti þetta haft þær afleiðingar að Ejólfi bónda yrði stungið inn fyrir mansal því það er víst búið að banna allt svona með lögum.

    Þetta minnir mig á það að fyrir lifandis löngu þá kom hér fljóð sem kallaði sig Berlínu og fór að dansa léttklædd fyrir mig, Ella frá Giljá og þó nokkuð fleiri á hótelinu.  Einhverra hluta vegna voru nú eiginkonurnar ekki með og getur það stafað af því félgsstarfi sem við vorum viðriðnir. Berlína dansaði og fékk hún einn og einn út á gólfið til að dansa við sig. Sérstaklega man ég eftir einum sem dansaði af  slíkum fimleika að jafnvel Berlínu þótti nóg um, þá varð einum áhorfanda að orði:

Hún Berlína oss berlega kenndi
er blíðlega hendinni renndi
um malir og hupp
og allt lauslegt fór upp,
að gott væri að taka til hendi.

    En ekki meira um skemmtanahald í gamla bænum að sinni heldur er rétt að fara að snúa sér að alvöru lífsins því það er nú hún sem gefur gleðinni gildi.

    Þegar þessar línur eru ritaðar fer ég að velta því fyrir mér hverjir skyldu nú vera undir geislanum hjá Rúnari þegar hann kemur með Gluggann eftir hádegi. Harmonikka drengene,  Familien Brix eða einhverjir aðrir stórbrotnir listamenn? Þegar ég velti þessu fyrir mér þá er ég ekki frá því að fyrrnefndir harmonikkuleikarar hafi nær einokað geislaspilarann í Súkkunni hjá Rúnari undanfarna mánuði. Það verður spennandi að hlusta á eftir hvort kallinn bryddi upp á einhverri nýjung, hvort hann hafi fundið nýja listamenn til að auðga gleðina í gamla bænum. 
    Og viti menn, detta ekki allar dauðar lýs úr höfði mér. Hér er Rúnar mættur  með
"allra meina bót" eftir Bjarka Árnason í flutningi Bátsmansstríósins frá Siglufirði. Þetta kom virkilega skemmtilega á á óvart og og tengist því líklega að Rúnar er nýbúinn að eiga afmæli. Ég færði þetta í tal við hann og svaraði hann að bragði

Margt er það sem miður fer
og margir ættu að vita.
Einstakur ég alltaf er,
ég segi það og rita.

    En hvað segir Glugginn í dag? Tónleikar verða í kirkjunni á laugardaginn til styrktar orgelinu og leikfélagið verður þá búið að frumsýna leikritið "Á svið" Vísa vikunnar er á sínum stað og fjallar um meyjuna fríðu sem er farin full af blíðu og trega. Við Rúnar veltum því fyrir okkur hvort þetta tengist eitthvað baðinu hjá Siggu og nýsettum lögum um að ekki megi lengur dansa nakin.  En hvað vitum við um það aum karlrembusvínin sem ekkert sjáum nema naflan á okkur sjálfum. En hver er þessi T.S sem yrkir, það vitum við ekki með vissu en það má svo sem giska út í loftið. Við vörpum því svona fyrst í stað út að þetta sé vísa ættuð úr Svartárdal og Torfi sé höfundur hennar.

    En samhengið hangir  yfir okkur eins og hvolpafull tík svo ekki verður undan því komist. Samhengið að þessu sinni hlýtur að vera eitthvað á þessa leið um leið og við rennum niður gómsætri pítsunni frá honum Vigni í ríkinu.

Jónas er þannig úr garði gerður,
grár og fullur af allskonar gátum.
Í Ljóninu fögnuður vegna þess verður
að viðstöddu fjölmenni í gleðilátum.

 

17.03.2010 14:29

Þegar stórt er spurt er oft fátt um svör

    Vorið er að koma á því leikur engin vafi. Þetta sést m.a. af því  að straumöndin er farin að leita úr brimrótinu  upp í Blöndu og farin að sjást í hópum við flúðirnar þar sem Kastionklöppin er mitt á milli austur- og vesturbakkans.  Annað merki þess að vorið er í nánd  er að álftirnar eru farnar að koma og það sem meira er þá er skógarþrösturinn farinn að syngja. Þetta finnst mér nú vera helst til of snemmt fyrir minn smekk því við hjónin erum vön því að skógarþrösturinn fari að syngja þann 31. mars ár hvert. Eitt er þó gott við þetta allt saman en það er að jörðin hún snýst og vorið kemur aftur í dal með öllum sínum fjölbreytileika  þrátt fyrir misgáfulegt veraldarbrölt okkar mannanna.

    "Yfirskegg eru eins og druslulegar mottur framan í andliti hins dæmigerða íslenska karlmanns. Hann verður fremur ófrýnilegur á að sjá og konur forðast að horfa lengi á andlit hans. Skyndilega verður ljóst að skegglausir karlmenn eru hin sönnu karlmenni. Það sést í andlit þeirra, sem skiptir óneitanlega máli. Og þetta eru yfirleitt fremur greindarleg og snotur andlit, ekki sauðarleg eins og andlit mottumannanna."  Þetta las ég í laugardagsmogganum mínum og ef satt skal segja fannst mér þetta ekki sérstaklega skemmtileg byrjun á annars meinlausum degi. Ekki bætti úr skák að konan hafði nýlega spurt mig hvort hún mætti ekki henda náttbuxunum mínum sem ég hef átt í 15 ár. Jánkaði ég því eftir töluverða eftirgangsmuni en þá sagði minn betri helmingur alveg upp úr þurru. "Það má nota buxurnar í klúta til að bóna bílinn. Þú ert svo gasalega duglegur við það". Ég átti víst að skilja sneiðina en ákvað að snúa mér alfarið að brauðsneiðinni sem ég var að borða með morgunteinu og skammast við Kolbrúnu Bergþórsdóttur  út af viðhorfum hennar til skeggvaxtar á efri vör karlmanna. 
    Það er með hreinum ólíkindum hvernig hægt er að leika einn sára saklausan karlmann á sextugsaldri við morgunverðarborðið, grátt og það á laugardegi.  Í stuttu máli stóð ég frammi fyrir því að vera álitinn fremur ófrýnilegur maður sem konur forðast að horfa lengi á og þar að auki slaklegur bónmaður. Látum það liggja milli hluta að vera talinn slakur með bóntuskuna en sauðarlegur og ófrýnilegur sem konur forðast að horfa á það er eitthvað sem þungbært má teljast. Ég hef borið mitt yfirskegg svo lengi sem ég man og alltaf talið mig vera augnayndi. Það sama hefur konan að mig minnir einhvern tíma sagt og gott ef dóttir mín ekki líka. En það verður ekki sagt um mig að ég láti erfiðleikana slá mig út af laginu og þennan laugardagsmorgun komst ég í gegnum eins og alla hina með Guðs og góðra manna hjálp en það skyldi Kolbrún hafa í huga þegar ég horfi á Kiljuna í kvöld að það er einn þarna úti með snotra mottu sem tautar fyrir munni sér. "Assskoti myndi Kolla fríkka ef hún safnaði skeggi".

    Í fundargerð bæjarstjórnar fyrir skömmu mátti lesa að Þórhalli Barðasyni var þakkað sérstaklega fyrir Húnahátíð.  Bókunin var svona "Bæjarstjórn þakkar Þórhalli Barðasyni gott starf við skipulagningu Húnahátíðar sumarið 2009. Samþykkt 7:0" Þeir sem eitthvað fylgjast með bæjarlífinu, já svona lífinu yfirleitt ráku í þetta augun og fóru að velta þessu fyrir sér. Hér hefur verið haldin Húnavaka undanfarin sumur en enginn sem ég þekki kannast við fyrirbrigðið Húnahátíð. Þetta gekk svo langt að rata í nokkra héraðsfréttamiðla og að minnsta kosti einn Baugsmiðil.  En það skemmtilega við þetta allt var það að þessi uppákoma varð til þess að Ágúst Þór Bragason bæjarfulltrúi fór að yrkja og sendi Auðni Húnahorni (huni.is) eftirfarandi vísu.

Villan þín ratar um víðan völl,
aðrir miðlar eftir taka.
Losum nú Húnahornið við þann hroll,
að vera úti að aka.

    Eigi skal vísu dæma heldur virða viljan fyrir verkið og er Ágúst hér með boðinn velkominn í hóp okkar sem látum allt flakka í þágu fögnuðar og frelsis.


    Núna rennir Rúnar í hlað á rennilegum jeppa og hefur í hendi fréttablað hvar í er engin kreppa. En Rúnar var samur við sig og úr bifreið hans hljómaði sem fyrr tónar frá Harmonikka drengene og spiluðu þeir aldrei þessu vant lagið "Snart er du mer end 17 år" sem er eldfjörugur polki sem Kristófer og Anna Gunna gætu hæglega snúist eftir og ef í harðbakkan mundi slá þá væri hægt að marsera eftir laginu.

    Fundir og kórsöngur eru farnir að setja svip sinn á allt mannlíf, enda vorboðar líkt og hækkandi sól og vaxandi fuglalíf. Um þetta má lesa í nýjasta Glugganum sem nú er kominn í hús eins og fyrr greinir.

    Vísa vikunnar er á sínum stað og fjallar í stuttu máli um þá sem slöfruðu í sig gróða af mikilli fíkn og er þeim líkt við gufugleypa. Reyndar kemur Rúnar á Skagaströnd þessu fyrir í orðum á mun smekklegri hátt  í dýrt kveðinni vísu.

    Við Rúnar erum menn ábyrgðarinnar og festum ávallt hönd á samhengi hlutanna og í hlutarins eðli hlýtur það að felast að þessu sinni í skegginu á efri vörinni. En spurningar lífsins eru margar og er mörgum þeirra erfitt að svara eins og Ari komst að á sínum tíma.

Kunn er sú spurning er kraumar á vör,    
kemur hænan á undan egginu.
Þegar stórt er spurt er oft fátt  um svör,
sagði Jón og strauk eftir skegginu.

    En eins og flestir vita þá felst hamingjan í því að vita hvert skal halda og stjórna sinni för að mestu án þess að hlaupa eftir skoðunum og tískustraumum  misviturra manna. Hver er sinnar gæfu smiður og sá sem hefur sálarþrek að fara sína leið með sjálfsvirðingu og bjartsýni að leiðarljósi getur ráfað um meðal alþýðunnar með skegg á efri vör.

Það sannast og sýnist oft best,
að stýra sjálfur förinni.
Og vita að þinn styrkleiki sést
í skeggvexti á efri vörinni.

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 59
Gestir í dag: 9
Flettingar í gær: 246
Gestir í gær: 12
Samtals flettingar: 64717
Samtals gestir: 11489
Tölur uppfærðar: 2.5.2024 09:27:16