Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

05.12.2012 16:09

lífsbaráttusaga langdælskrar kýr

       Sum orð eiga erfitt uppdráttar vegna þess hversu þversum þau eru í beygingarlegu tilliti. Gott dæmi um þetta er orðið "kýr" og hafa margir lærðir menn jafnt sem leikir fallið í þá gryfju að nota bara orðið "belja" í staðinn. Fyrir rúmum tuttugu árum skrifaði ég mjög áhrifamikla frétt um kúna Von frá Fremstagili sem lengdi líf sitt um sólarhring. Frétt þessi rataði meðal annars í "þjóðarsálina" þátt sem Stefán Jón Hafstein stjórnaði á sínum tíma á Rás 2 og var dráp kýrinnar harðlega gagnrýnt. Ég er lengi búinn að leita að þessari frétt í greinasafni Morgunblaðsins en finn hana bara ekki. Þykir mér það miður því fréttina má hiklaust nota sem kennsluefni  í íslensku hvernig  íslenska kýrin í eintölu beygist,  þó ég segi sjálfur frá. Vegna þess að ég held að þessi frétt sé að öllum líkindum horfin úr gagnasafni heimsins hef ég ákveðið að endurskrifa hana hér með:


"Blönduós

Kýr lengdi líf sitt um sólarhring

Einstæð lífsbaráttusaga langdælskrar kýr

Kýrin Von frá Fremstagili í Langadal gerði sér lítið fyrir sl. fimmtudag og hljóp frá gæslumönnum sínum við sláturhúdyrnar á Blönduósi og hélt heim á leið. Rétt tæpur sólarhringur leið áður en kýrin náðist á ný og þurfti þá að skjóta hana á færi þar sem hún jórtraði undir barði á bænum Blöndubakka skammt norðan við Blönduós. Á þessum tæpa sólarhring hafði Von lagt að minnsta kosti 30 kílómetra að baki, brotið niður nokkrar girðingar, synt yfir vatn og farið yfir ótal skurði.

Eftir að kýrin skildi við eiganda sinn og sláturhúsfólk í dyrum sláturhússins stefndi hún vestur fjöruna og í átt að ósi Blöndu. Í fjörunn skammt fyrir neðan áhaldahús Pósts og síma lá leið Vonar upp á aðalgötu (Húnabraut) og fór hún þar yfir tvær lóðir og voru girðingar engin hindrun þegar átti að króa hana þar af. Eftir atganginn á lóðunum fór kýrin aftur niður í fjöru en hafði stuttan "stans" og fór aftur til baka og þá upp á Skúlabrautina , upp Klaufina og linnti ekki ferðinni fyrr en í nágenni við vatnstank Blönduósinga sem stendur um 3 kílómetra austur af bænum. Þegar hér var komið ferðum Vonar íhuguðu menn að skjóta kúna og var kallað eftir vopni. Var eins og kýrin skynjaði hvað til stóð því nú skipti engum togum, Von lagði aftur af stað og stefndi nú til fjalls og leit lengi vel út fyrir að það áform hennar heppnaðist. Seint og um síðir tókst að komast í veg fyrir kúna og á leið sinni til baka synti kýrin dágóðan spöl í Grafarvatni sem er skammt vestan við bæinn Breiðavað í Langadal. Upp úr vatninu hélt kýrin ferðinni áfram og fór þá yfir þjóðveg 1 og niður að Blöndu og þegar hér var komið sögu var Von ekki svo fjarri heimafjósi sínu að tilraun var gerð til að reka hana heim að Fremstagili aftur. Við Baslhaga, en svo kallast skúrbygging ein á Blöndubökkum frammi í Langadal, neitaði kýrin að fara lengra fram dalinn en þess í stað sameinaðist hún hrossastóði á Björnólfsstaðatúninu en þá var komið myrkur og var ákveðið að freista þess að ná kúnni í birtingu daginn eftir. En rétt fyrir miðnætti er hringt í eiganda kýrinnar og honum tilkynnt að hún væri aftur komin á Blönduós, nánar tiltekið á lóð sláturhússins. Hófst nú eltingaleikur að nýju en honum lauk tveimur klukkutímum síðar er kýrin hvarf leitarmönnum út í myrkrið rétt austan Blönduóss í svokölluðum Ennishvammi. Leit hófst síðan strax aftur um leið og birti og um hádegisbil fannst kýrin undir barði á bænum Blöndubakka og var þá kölluð til þekkt grenjaskytta og skömmu síðar féll kýrin Von í valinn fyrir skoti skyttunar. Þykir lífsviljinn með ólíkindum í Von því leið sú sem kýrin lagði að baki var að minnsta kosti þrjátíu kílómetra, ekki alltaf greið leið og voru vötn, skurðir og girðinar engin hindrun."  Þannig fór um sjóferð þá og allt gerðist þetta á einum sólarhring í miðjum október árið 1991.


     Fréttir af Vesturbakkanum verða að bíða betri tíma en þess ber þó að geta að Ívar Snorri og fjölskylda eru farin að selja jólatré úr Hamarsskógi og Jónas Skafta liggur í skriftum og viðar að sér efni sem ætlunin er að nota í blaðaviðtal í DV. Svo er annað sem vert er að vekja athygli á en það er að niðamyrkur er í gömlu kirkjunni þegar aðventan er gengin í garð. Ég trúi ekki öðru en að Sveinn í Plúsfilm splæsi í eina 40 kerta ljósperu sem fengi að varpa daufri birtu út í svartasta skammdegið.


 Birtan á undir högg að sækja þessa síðustu daga. Horft til birtunnar með Borgarvirki fyrir miðri mynd

     Rúnar er kominn og þar með Glugginn og að venju fylgdi honum eldfjörugur polki úr dragspilum Strákbandsins. Það var meiri ró yfir veðrinu en Strákabandinu en hálkan er allt um liggjandi og einn og einn
vegfarandi. Það er allt annað að sjá Rúnar í dag en fyrir viku. Þá hafði hann
Glugga-Óla með sér í för því hann gatt lítið annað gert en stýra og stíga á
bensíngjöf Súkkunar vegna hálkumeiðsla sem hann hlaut. En Rúnar er allur að hressast og meira segja svo að hann er farinn að safna skeggi á efri vörina.
Ekki svona skeggi eins og ég ber heldur nær skegg hans aðeins á milli
nasaholana , svona næstum eins og Chaplin sálugi hafði.

     Glugginn er kominn og hann geta menn skoðað inni á huni.is og vísa vikunnar er að þessu sinni eftir Önnu Árnadóttur og fjallar um skammdegið og þá birtu sem kemur með blessuðum jólunum.

     En hér skal staðar numið og samhengið liggur í augum uppi þó von Vonar um líf hafi að engu orðið haustið 1991. En við lifum samt í voninni því brátt fer niðurgangi sólar að ljúka.

Ég varð þessa sögu að segja,

um skepnu sem stríð mátti heygja.
          Hún fjallar um Von
          sem átt´enga von
          um annað en þurfa að deyja

28.11.2012 15:48

myndin af Þórunni

           Í dag er 333. dagur ársins í 48. viku ársins, nánast þrí heilagur
dagur og ýlir er byrjaður. Sem sagt við eigum bara eftir að þreyja ýli, mörsug,þorra og góu, og
þeir sem sjá mánan á lofti í dag verðar þeirrar gæfu aðnjótandi að sjá hann fullann . Næstu 14 dagana eyðir hann tíma sínum í það að láta sig hverfa svo hægt sé að kveikja á jólatunglinu sem allir bíða spenntir eftir. Það hefur verið meiri ró yfir veðrinu undanfarið og eru flestir sem ég hitti nokkuð sáttir við það. Það er samdóma álit flestra sem eiga allt sitt undir veðri og vindum að tíðarfar fyrri hluta vetrar hafi verið á góðri íslensku einstaklega "hundleiðinlegt" án þess að  á nokkurn hund sé hallað.


 Blanda á lokaspretti sínum til sjávar


Auðnutittlingarnir þeytast þessa dagana á milli trjáa og háma í sig birkifræin sem norðanbálið náði ekki að blása í burtu í síðustu helgaráhlaupum. Þessir fuglar eru smáir en knáir og fara hratt yfir og virðast aldrei una sér hvíldar. Það var gaman að fylgjast með fuglunum í garðinum í hádeginu í dag. Svartþröstur hafði komið sér fyrir öspinni fyrir utan stofugluggan og var yfir honum stóísk ró.  Af og til tylltu sér hjá  honum örlyndir auðnutittlingar svona rétt til að skyggnast yfir birkitrén í garðinum og átta sig á hvar fræ væri að finna. Þetta minnir mig á að ég verð að fara að  gefa þröstunum epli til að maula. Það er allt í lagi að taka þátt í að létta þessum vængjuðu vinum lífsbaráttuna fyrst þeir leggja það á sig að vera með okkur yfir harðasta veturinn og stytta manni stundir ef svo ber undir.

Rjúpnaveiðitímabilinu er lokið þetta árið. Því lauk reyndar hjá mér fyrir 20 árum en minningarnar um gönguferðirnar um fjöll og fyrnindi í leit að þessum fallega, bragðgóða fugli lifa enn. Ég sá í gær á feisbókinni mynd sem einn vinur minn setti inn og var af dóttur hans sitjandi á steini að borða nestið sitt. Þau feðgin höfðu farið til rjúpna og ekkert veitt en voru engu að síður himinsæl. Þessi mynd kallaði fram í huga minn minningarbrot um liðna daga á fjöllum og sendi ég vini mínum það nánast ósjálfrátt ."Þegar ég sá Tótu litlu (Þórunn Erla Guðmundsdóttir) gæða sér á brauðinu úti blátærri náttúrinni þá birtist bara si svona dásamleg minning um það þegar ég eitt sinn, einn með Guði mínum á rjúpnaveiðum sat á steini í Litla-Skarði í Björnólfsstaðnúpnum og snæddi samloku  með dásamlegri lifrarpylsu á milli. Hellti kaffi í brúsalokið og horfði á hvítu fallegu fuglana allt í kringum mig og sá Blönduós sem litla mynd á landakorti. Þarna sá ég smæð okkar og stærð náttúrunnar. Það er gaman að vera einn örlítill dropi í heimsins hafi eina augnabliksmynd í veraldarsögunni."

Jónas vinur minn á Ljóninu á næstum örugglega eftir að segja við mig eftir að hafa lesið þennan pistil, "óttalegt væl og mærðarhjal er þetta og svo vita bitlaust að ekki er mönnum bjóðandi". Takið eftir því ég er að gera Jónasi þetta næstum því upp og er skýringin sú að ég hef bara ekkert heyrt í þessum langreynda baráttumanni í töluverða tíma svo þetta er eina leiðin til að koma honum að í þessum pistli. Af öðrum hér í gamla bæjarhlutanum er svo sem lítið að frétta annað en  að þeir fara reglulega í sund sér til heilsubótar og andlegrar upplyftingar. Reyndar kom Ívar Snorri og leit hér inn og er mikið að hugsa um að fara í smáskipanámið (gamla pungaprófið) svo hann geti siglt um höfin blá með próf upp á vasann.

Rúnar kom við annan mann með Gluggann að þessu sinni. Glugga-Óli var með honum í för og spiluðu þeir Strákabandið af miklum móð og hljómaði hið þekkta lag Rassmína um alla Aðalgötuna þegar þá bar að garði. Mér fannst þetta tíðindi mikil að það þyrfti tvo menn til að bera út Gluggann að þessu sinni og ekki var þykktinni fyrir að fara. Rúnar kom svo aftur skömmu síðar rétti mér blað með vísukorni sem kom upp í huga hans og ætlað mér eftir að hafa lesið síðasta pistil frá mér: Af því hef ég illan keim/ aldrei beitir vörnum. / Hann á út um allan heim/ hóp af merktum börnum.  Ég tók þessari vísu Rúnars af æðruleysi og karlmennsku og aldrei þessu vant svaraði ég nánast um hæl og skírskotaði til óhapps sem Rúnar varð fyrir í hálkunni um daginn og hefur tafið svolítið hans för (ekki að spyrja að kærleikanum hjá mér). Kallinn núna um kaupstað fer/krumpaður og lotinn./ Hann er núna í nóvember, /nánast samanbrotinn.


Svo það sé á hreinu þá eru þetta einu börnin sem merkt eru mér. Hjalti, Ásta Berglind og Einar Örn að skemmta föður sínum og gestum á afmæli mínu í febrúar.

Ingibjörg Eysteinsdóttir á Beinakeldu á vísu vikunnar í Glugganum og er hún að velta því fyrir sér hvernig það endar allt saman, þegar fara í hár saman skynvilla og þrjóska.

En hér skal settur punktur og þó fyrr hefði verið gæti einhverjum látið til hugar koma. Að þessu sinni verður amenið eftir efninu svona:

 

Nú gildir að glata ekki glórunni,

gleðinni og sjálfri líftórunni.

Því minnist ég þess

hve glaður og hress

ég varð við myndina af Þórunni.

 

 

21.11.2012 15:33

enginn órói í mér

Það kom upp sérstök staða á heimili mínu í gærkvöldi. Ég var í sakleysi mínu að horfa á meistaradeildina í knattspyrnu þegar eiginkonan sem sat þá stundina fyrir framan tölvuna með feisbókina opna, kallaði ákveðinni röddu. Nonni! Komdu hérna og sjáðu! Þar sem Tjélsí var í  vita vonlausri stöðu brást ég skjótt við kallinu  því líkast til myndi ég ekki missa af neinu merkilegu og eins var eitthvað í rödd konunnar . Ég stóð sem sagt upp úr hægindastólnum og rölti inn í tölvuherbergið og mætti þar strax torræðu augnaráði konu minnar. "Kannast þú við þetta barn" segir hún og sýnir mér mynd á skjánum af geðugri konu halda á litlu sveinbarni. Ég sá til þess að gera fljótt að konuna þekkti ég ekki en þar sem mörg lítil börn eru svo lík tók ég mér lengri tíma til að gaumgæfa barnað. "Nei" sagði ég. "Hversvegna spyrðu?". "Barnið er merkt þér" sagði mín umbúðalaust. Ég leit aftur á skjáinn og var engu nær. "Ég kannast ekkert við þetta gæfulega fólk" ítrekaði ég en það var rétt hjá konu minni að þetta barn var merkt (tagged) mér, um það var ekki að villast. Það tók mig til þess að gera ekki mjög langan tíma að sannfæra konu mína að ég væri ekkert viðriðinn þennan króga en það kitlaði samt svolítið hégómagirndina í mér að einhver úti í henni veröld, já og konan mín (smá stund) teldu að ég ætti hlut í litlu fallegu barni bara si svona. Síðast þegar ég vissi var ekki búið að leiðrétta þetta svo vinir mínir á feisbók geta séð þetta með eigin augum.


Listin stendur af sér öll veður

Í dag er nákvæmlega einn mánuður þar til sólin hættir að lækka á himinfestingunni og fer að birta upp norðurhvelið. Hugsið ykkur hvað tíminn er fljótur að líða, maður veit ekki fyrr til en allt í einu er komið vor. Ég hefði ef til vill átt að hafa þennan inngang eitthvað á þessa leið. Sólin er enn að lækka og maður þarf að bíða í heilan mánuð þar til þessum myrkraverkum lýkur. Og  núna er úti vetur og það býsna harður. Mikið andskoti er langt í birtuna og vorið. En þar sem þetta er ég sem stunda þessar ritæfingar þá varð inngangurinn ekki á þennan veg. Ég er nefnilega svolítill almanaksnörd og velti oft fyrir mér sólarhæð miðað við árstíma og yfirfæri sólarhæð frá einum tíma til annars. Til dæmis hvað sólin í dag er hátt á lofti og hvaða dag eftir áramót nær hún sambærilegri hæð. Ég held að þessi áráttuhegðun sé liður í því að stytta veturinn sem mest þó svo ég sé ákaflega elskur að þorranum og þá einkum og sér í lagi matnum sem honum fylgir. Ég hef trú á því að flestir finni sér einhverja leið til að komast sem notalegast í geng um skammdegið. Reyndar er það svo og kom fram í rannsókn að tíðni skammdegisþunglyndis var lægri hjá íslendingum en fólki búsettu á austurströnd Bandaríkjanna þrátt fyrir að Ísland liggi á norðlægari breiddargráðu. Þetta skýra menn helst með því að orðið hafi einhverskonar náttúruval gegnum 1000 ára einangrun þjóðarinnar.

Það er lítið að gerast á Vesturbakkanum það ég best veit annað en að bakað er á nóttinni og vín selt á daginn. Ég hef lítið séð af íbúunum nema svona í fjarlægð og í Jónasi á Ljóninu hef ég bara ekki heyrt í hart nær viku. Kannski skýrist þetta af tíðarfarinu, menn eru ekki eins mikið á ferli þegar færðin er eins og hún er. Hundarnir í gamla bænum eru lítið á ferli enda hundi vart út sigandi en þó bregður stundum fyrir þýska fjárhundinum sem tilheyrir bakaríinu.


Hrafninn þarf að hafa úti allar klær til að komast af

Glugginn er kominn og það var enginn Rúnar sem kom með hann. Það var enginn Óli sem kom með hann. Það var hann Héddi (Skarphéðinn Ragnarsson) sem kom með Gluggann og hygg ég að þetta hafi verið í fyrsta sinn sem hann hafi borið hann út a.m.k. hér um slóðir. Það var engin harmonikkutónlist sem fylgdi Hédda heldur gnauðið í norðausanáttinni sem mér finnst svolítið undarlegt því þessi mæti maður er lúnkinn harmonikkuleikari. Héddi sagði "sæll" þegar hann kom og örskömmu síðar þegar hann fór "bless". Hvað skyldi hafa komið upp á fyrst hvorki Rúnar eða Óli komu ekki með Gluggann. Ég velti vöngum í smástund yfir þessu og leit síðan út um gluggann og sá veðrið og þá blasti svarið við. Það er fokið í flest skjól.

Gluggann geta menn nálgast í verslunum og ýmsum fleiri stöðum sem og inni á huni.is , svo það er óþarfi að tíunda efni hans. Vísa vikunnar er líka á sínum stað og eftir Rúnar á Skagaströnd. Rúnar fjallar um ástina og líkir henni við höfin sjö, hyldjúp  bæði og mikil. Það er með ástina líkt og svo margt annað að hún hefur mörg andlit og birtingarform.

En nú skal samhengið fundið og komið í það form að vit sé í og alþýðan skilji. Og auðvitað liggur þetta allt í augum uppi og einkar gaman að koma því á framfæri eftir að hafa fengið fyrir þremur vikum þennan dóm frá Hjálmari Jónssyni:

"Illa Jón í frosti fer,
feyskinn, beygður, loppinn.
Verst mun þó hann ófrjór er
og allur samanskroppinn."

Því sendi ég þetta frá mér með ómældri gleði:

Í mér er enginn órói,
          yfir engu því að kveljast.
         Á  feisbók mér kenndur er krógi
          sem kostulegt verður að teljast.

 

14.11.2012 14:57

lífið gengur sinn gang

Er vatn vatnshelt? Mér datt þetta í hug í gær þegar ég hafði ekkert annað með hugann að gera en láta mér detta þetta í hug. Búinn að fara á 100 ára afmæli Kvennaskólans á Blönduósi og hitta þar fullt af fólki í hátíðarskapi. Hvað er þá eðlilegra heldur en að velta fyrir sér hvort að vatn sé vatnshelt. Mér finnst þessi spurning eiga fullkomnlega rétt á sér og allrar athygli verð. Því meira sem ég hugsa um þessa spurningu því minna hugsa ég um annað sem ég hefði kannski átt að gera og hafa meiri áhyggjur af .

  Fuglinn í fjörunni er líkast til vatnsheldur

Ég hef haft það fyrir sið að skrifa þessa pistla á miðvikudögum og þar sem ég er mikill aðdáandi Steins Steinars þá er kominn tími til að við sameinum krafta okkar . Ég með þessum skrifum og hann með því þar sem hann lýsir  afar vel í kvæðinu "miðvikudagur" hvernig þessir dagar ganga fyrir sig og hvernig lífið gengur fyrir sig. Þetta ljóð hefði getað verið ort í gær :

Miðvikudagur. ­- Og lífið gengur sinn gang,
eins og guð hefir sjálfur í öndverðu hugsað sér það.
Manni finnst þetta dálítið skrítið, en samt er það satt,
því svona hefir það verið og þannig er það.

Þér gangið hér um með sama svip og í gær,
þér sigrandi fullhugar dagsins, sem krónuna stífið.
Í morgun var haldið uppboð á eignum manns,
sem átti ekki nóg fyrir skuldum. ­ Þannig er lífið.

Og mennirnir græða og mennirnir tapa á víxl,

og mönnum er lánað, þó enginn skuld sína borgi.
Um malbikuð strætin berst múgsins háværa ös,
og Morgunblaðið fæst keypt niðr'á Lækjartorgi.

Miðvikudagur. ­- Og lífið gengur sinn gang,
og gangur þess verður víst hvorki aukinn né tafinn.
Dagbjartur múrari eignaðist dreng í gær,
í dag verður herra Petersen kaupmaður grafinn
.

 

Já, lífið hefur sinn gang og gangur þess verður víst hvorki aukinn né tafinn það er deginum ljósara. Þennan blessaða miðvikudag er veðrið stillt hér við botn Húnafjarðar og hitinn hangir rétt fyrir ofan frostmarkið. Þetta er svona dagur til að skapa ísingu á leiðum mannins um daginn og veginn og full ástæða til að hafa á sér allan vara í þessu tilliti. En hvað sem öllum hættum hinnar mögnuðu náttúru líður þá er full ástæða til að fara að orðum Halldóru Björnsdóttur og draga andann djúpt og anda hægt og rólega frá sér. Finna hinn máttuga loftstraum hríslast um loftvegi lungnana og fylla lungnablöðrurnar . Loft sem mettar blóðið súrefni og fær okkur til að gera allt sem okkur dettur hug. Fær okkur til að viðhalda gangi lífsins.


Að öllum líkindum Röðulshrossin á leiðinni heim eftir haustbeit á Björnólfsstöðum

 

Af Vesturbakkanum er til þess að gera lítið að frétta. Lífið hefur þar sinn gang eins og annarsstaðar. Það er bakað og maður sér Svein í +Film, Frikka vert og Óla hótelstjóra  annað slagið í mýflugumynd. Það er svolítið erfitt að skrifa mýflugumynd þegar þessir menn eru nefndir en ég læt mig nú hafa það að þessu sinni. Jónas hringir í mig endrum og eins svona til að segja mér helstu fréttir í baráttu sinni við lífið og tilveruna. Það gengur á ýmsu en eitt má þó segja að alltaf er Jónas sannfærður um sigur í þessari baráttu. En svona til þess að geta þess þá birtist Jónas hér aldeilis "óforvarendis" eftir að ég var búinn að rita þessi orð hér fyrir ofan og þurfti á loftlykli að halda sem hann og fékk lánaðan. Ívar Snorri kom hér líka fyrir hádegi með varðhundinn sinn smávaxna, Mola. Ég sagði honum að Moli gæti drepið hund bakaradrengsins. "Hvernig má það vera að smá hundur geti drepið stóran þýskan fjárhund" spurði Ívar forviða. "Jú Ívar minn, hann gæti staðið í honum".

 

Rúnar er kominn með Gluggann sem sannar bara það að lífið gengur sinn gang. Honum fylgdi eins og venjulega harmonikkutónar og nú eins og svo oft áður var það Strákabandið með fjörugan polka sem hljómaði vel í hæglætis veðrinu sem umlykur okkur í Aðalgötunni þessa stundina. Rúnar, sem kannski er óþarfi að segja frá var bara í góðu jafnvægi og spurði þær Brynju og Möggu hvernig þeim hefði liðið eftir kossinn frá sér síðasta miðvikudag. Þær báru sig vel og sögðust hafa komist frá honum (kossinum) að mestu óskaddaðar.

 

Eins og þeir vita sem lesa þessi skrif á kemur Glugginn, auglýsingablað okkar A-Húnvetninga ætíð út á miðvikudegi og Glugginn er kominn. Þar er margt að finna eins og það að hægt er að kaupa jólaseríur í heimabyggð, fá bílinn sinn þrifinn og síðast en ekki síst þá er von á Gísla Einarssyni (Landa-Gísli) a.m.k í þriðja skiptið í mánuðinum til mannamótsstýringar.

 

Gluggavísa vikunnar er nú sem svo oft áður eftir Rúnar Kristjánsson á Skagatrönd og fjallar um þá sem fallnir eru frá og hvernig minningin um þá lifir í hugum okkar eða eins og skáldið undir Borginni orðar það: Fólkið sem lifði og farið er/finn ég í hjartans málum./Það er í brjósti þér og mér,/það er í okkar sálum.

 

Nú skal settur punktur og samhengið leitað uppi

 

Þeir, sem mun þekkja á litla og stóra,

þykir skrýtið og kalla víst óra.

Og telja það synd

að mýflugumynd

sé til af Ólafi (hótel)stjóra.

 

En Samhengið gæti líka verið þetta:

 

Hálfnaður núna er nóvember

og nóttin  dagsbirtu malar.

Kyssand' um búðina kappinn nú fer

og kátur við stelpurnar hjalar.

07.11.2012 16:22

Heiðursmaðurinn Rúnar

Obama er víst maður dagsins um það er ekki að villast. En það er miðvikudagur engu að síður og dagurinn hefur sinn gang hvað sem öllu líður. Þetta er rólegur, þungbúinn dagur með frostúða sem gerir allar leiðir flughálar og um leið, kröfur til okkar að stíga varlega til jarðar og feta slóðina af festu og öryggi.


Verk Guðjóns Samúelssonar eftir veðuráhlaup síðustu helgar

Síðastliðnir dagar hafa ekki verið neitt sérstaklega spennandi til útivistir og ræður þar að mestu, færðin. Vegna þessa þá veit ég lítið um ástand fugla himinsins á mínum slóðum en ég sá hann Guðbrand nágranakött í gærkvöldi í garðinum mínum. Ég bankaði laust í stofugluggann til að vekja athygli hans á mér. Guðbrandur stöðvaði för sína og leit upp. Þá opnaði ég dyrnar út á pall og spjallaði lítilega við kappann. "Jæja Guðbrandur minn, ertu að svipast um eftir fuglunum mínum eða eru mýsnar verkefni kvöldsins" sagði ég si svona við köttinn. Guðbrandur settist, starði á mig og velti vöngum sitt á hvað en sagði ekki neitt. "Það er hrollkalt úti, þú ættir bara að fara heim og fá hita í kroppinn" bætti ég við og enn hélt Guðbrandur áfram að velta vöngum. "Kannski ætti ég að rifja upp söguna með kettinum Guðbrandi þegar hann kom um miðja nótt með lifandi önd inn um gluggann á heimili sínu fyrir nokkru, þá kannski hætti hann að velta vöngum" hugsaði ég með mér en bætti svo við í huganum, "það er líkast til tilgangslaust".  En hvað um það þá eru fyrir því nokkuð áræðanlegar heimildir að Guðbrandur köttur hafi komið með lifandi önd til síns heima um miðja nótt og valdi slíku fjaðrafoki að Árni Þorgilsson (Árni ekkert mál) er ekki enn búinn að jafna sig og er þá til þess að gera mikið sagt. Sagan af Árna og öndinni er svo efni í annan pistil.

Í síðasti mánuði var algjör sprenging í heimsóknum á heimasíðu mína. Að meðaltali voru um 110 tölvur á dag sem heimsóttu síðuna. Þetta hefur ekki gerst fyrr og ég var svona að velta því fyrir mér hvað olli þessu. En ég hætti mjög fljótt að velta vöngum og eyða tíma í þessar skyndilegu vinsældir þegar ég skoða heimsóknartölur í þessum mánuði. Það rétt slefar yfir 50 tölvur (IP-tölur) á dag og er það mikið fall frá síðasta mánuði. Ég hélt fyrst að vinsældir mínar hefðu vaxið við það að Jónas Skafta fór suður eða að mér hefði tekist svona vel upp í almennum skemmtilegheitum. Þetta er vissulega sterk rök en einhvern veginn hef ég ekki trú á því að ástæðan liggi þarna. En hver sem ástæðan er þá hlýtur líka að vera ástæða fyrir algjöru hruni í heimsóknum á síðuna mína í byrjun nóvember. Ég læt mér nægja að álykta út frá þessu að lífið sé bara svona upp og niður eins og gengur til hjá okkur flestum.

Seint koma sumir en koma þó. Þetta má segja um Rúnar sem kom með Gluggann langt gengin í þrjú.  Hann var svo himinsæll og hamingjusamur, það sáu allir sem urðu á vegi hans hér í Aðalgötunni. Hart var gengið að honum til að útskýra alla þessi gleði sem með honum bjó og fyrir rest kom svarið. Hann var að taka við viðurkenningu fyrir 25 ára farsæl störf hjá Samkaupum og Kaupfélaginu. Honum var umsvifalaust fyrirgefið  og hlóðum við á hann hamingjuóskum sem hann tók við af einlægni. Ég veit ekki hvort þið trúið því að það er eitthvað svo gefandi að hitta mann með sanna gleði í hjarta.  Þess ber þó að geta að harmonikkuhljómar streymdu úr Súkkunni hans en það fórst fyrir að spyrja hverjir stæðu á bak við þá. Grun hef ég þó um að enn einu sinni hafi Strákabandið ratað undir geislann. Rúnar hafði lítin tíma til að sinna mér að þessu sinni og bað mig vel að lifa og var stokkinn út þegar hann var búinn að kyssa Möggu og Brynju vel og rækilega. Ég komst frá þessum atburðum ókysstur en ég náði þó að smella af kappanum mynd með viðurkenningarskjalið.


Glugginn er kominn út í 40. sinn á þessu ári. Eins og venjulega er þar ýmsar upplýsingar að finna sem of langt mál væri upp að telja. Vert er þó að geta fjölskylduskemmtunar sem verður haldin í félagsheimilinu á laugardaginn til styrktar Guðjóni Óla og fjölskyldu hans.

Vísa vikunnar er eftir og haldið ykkur fast,  Rúnar Kristjánsson á Skagaströnd og fjallar um Kötu sem einhver mætti um kvöld eitt og bauð af sér góðan þokka og piltinn Þránd í Götu sem fáir hafa í hávegum (hér er ekki átt við hinn færeyska Þránd).

En nú er kominn tími á að koma auga á samhengið í hlutunum og það er svona að þessu sinni:

 

Hrærður með hlátrasköllum

hann kom eins og ofan af fjöllum.

Um strákinn Obama

mér stendur á sama,
          en samgleðst  Rúnari öllum.

31.10.2012 16:10

loppinn og ófrjór í vindinum

"Sköpunargáfa þín og ímyndunarafl eru einstaklega frjó. Hlustaðu á það sem aðrir hafa fram að færa og mundu að það er enginn sem vill eyðileggja þig." Svo segir mín stjörnuspá í Morgunblaðinu í dag. Satt best að segja fannst mér þessi spá svolítið mótsagnakennd.  Ef sköpunargáfa mín og ímyndunarafl eru einstaklega frjó hversvegna ætti ég að hlusta á það sem aðrir hafa fram að færa. Hinn frjói á að uppfræða hinn hugmyndasnauða, sem sagt fræða og upplýsa og gera allt til að bæta heiminn. Þetta finnst mér liggja alveg í augum uppi nema fyrir það eitt að sköpunargáfa mín og ímyndunarafl er einstaklega ófrjó í dag og ég hef mikla þörf fyrir að fá hugmyndir frá einhverjum sem hefur eitthvað uppbyggjandi fram að færa. Niðurstaða mín er einföld í þessu stjörnspármáli að spáin er bara góð. Bara að sjóða saman torræða spá og hafa hana að minnsta kosti tvíþætta þannig að ef hluti hennar er vitlaus þá geti seinni hlutinn verið réttur eða öfugt.  Svo skaðar ekki að hafa í spánni eitthvað fallegt um mann og ekki skemmir að von sé á því að maður auðgist eitthvað í náinni framtíð og ekki skaðar að ástin komi eitthvað við sögu.


Það er hvasst í dag og það er kominn smá snjór og spáin er slæm. Heita vatnið var tekið af okkur í gær og verkefni dagsins í dag er að koma hita aftur á ofnana og það gengur hægt. Hitinn hér á Aðalgötu 8 er ekki ásættanlegur eins og er en það stendur til bóta þegar maður er búinn að böggla þessum pistli frá sér krókloppinn á fingrum.

Rúnar er kominn með Gluggann og var hann heldur seinna á ferðinni en venjulega. Ástæðan er einföld því hann ekur enn um á sumardekkjum á splunkunýrri Súkkunni og hálkan er fljúgandi út um allt. Strákabandið var enn og aftur undir geislanum hjá honum og lék af fingrum fram polka sem hæfir vindhraðunum allt um kring. Það er verst að Rúnar veit ekkert hvað lögin heita á disknum því hann er þrælstolinn svo ég hef kosið að kalla þennan polka "Illa fenginn"

Glugginn hefur að geyma ýmsar upplýsingar eins og til dæmis það að Höddi Rikk er að fara í framboð  og myndarlegur rauðstjörnóttur hestur er í óskilum hjá fjallskilanefnd Bólstaðarhlíðarhrepps hins forna. Lionsmenn auglýsa herrakvöld sem venjulegast gengur undir nafninu Sviðamessa um miðjan  nóvember. Þar er eins og nafnið bendir til boðið upp á svið en að þessu sinni verður kjötsúpa einnig á boðstólum. Þetta er gert til að koma til móts við yngri karlmenn sem geta ekki borðað svið. Það verður eflaust ekki langt að bíða að á Sviðamessu Lions verði boðið upp á hamborgara og franskar svo æskumenn geti borðað sér til gagns (gikkir).

Vísa vikunnar er að þessu sinni eftir Skagastrandarskáldið Rúnar Kristjánsson, Hjartarsonar.  Rúnar er að þessu sinni að rýna í samfélagið og greina vandann. Hann sér rottur ráfa um í siðleysi,  rótopnar af friðleysi. Það er annað en ég sem ráfa á milli ofna og reyni að koma í þá hita úr nýju hitaveitulögninni sem m.a. er ætlað að koma heitu út á Skagaströnd.

Rúnar var fljótur til þegar ég bað hann um vísu. Hann leit út um gluggann og sá að veður er farið að vernsa og þegar hann leit fram í búð sá hann þær Möggu og Brynju að störfum í vínúðinni og því liggur þetta í augum uppi:

Veður fer að versna hér,

veðurskeytin telja.

Brynja og Magga báðar hér

"blessað" vínið selja.

 

Samhengið er ekkert flóknara en þetta á þessum vindasama miðvikudegi þó svo hér og hér sé nú hér og hvar en hverju skiptir það.

24.10.2012 15:19

vandinn er ærin(n)

Við Rútsstaða Sigurjón erum búnir að innbyrða eitthvað á annað tonn af öli og brenndum drykkjum í morgun. Sigurjón var óvenju snemma á ferðinni þannig að ég rétt náði  að skrá mig inn á hin margvíslegu kerfi í tölvunni sem ég þarf á að halda yfir daginn áður en við fórum í ölföngin. Sigurjón var á frekar mikilli hraðferð þannig að ég hafði af honum til þess að gera lítið gagn í sagnfræðilegu tilliti en hann var samt nokkuð líkur sjálfum sér. Hann náði þó að segja mér að hann hafi séð hvíta tófu í morgun rétt á móts við Beinakeldu og hefur sú hvíta örugglega verið á leið í Sauðadalinn í leit að fenntu fé.


Veturinn er að hreiðra um sig í héraðinu. Stokkendurnar víkja sér fimlega undan fyrsta íshrönglinu í Blöndu á þessu hausti 

Talandi um hvíta tófu þá tók skaparinn upp á því í morgun að breiða hvíta slæðu á yfirborð jarðarinnar svo rétt til að minna okkur á að senn kemur vetur. Ég hef áður minnst á það að síðasti sumardagur er ekki hafður í eins miklum hávegum og síðasti dagur vetrar. Og vetradagurinn fyrsti er ekki sá dagur sem skátar arka um víðan völl und blaktandi fánum bláir af kulda líkt og á sumardaginn fyrsta. Hvað skyldi standa í veginum. Hitaveitur hafa fulla ástæðu til að halda upp á þessi tímamót sem og rafveitur, 66 gráður norður sem og félag umfelgunarmanna. Enski boltinn er allan veturinn og veit ég ekki betur en margir hlakki til að fylgjast með honum. Kvenfélög, kórar og ég veit ekki hvað og hvað hefja starfsemi sína af fullu. Jól, áramót og þorrablót eru yfirleitt á vetrum að minnsta kosti hér um slóðir. Hversvegna er ekki haldið upp á vetrardaginn fyrsta? Spyr sá sem ekki veit en ástæðan er ærinn.  Hér verður að vanda sig í stafsetningu og nægir að nefna í því sambandi  ályktun húsnæðisnefndar á þingi ASÍ fyrr í mánuðinum en þar hófst önnur málsgrein svona: "Vandi íslenskra heimila er ærin". Í þessu tilfelli skiptir eitt lítið ENN miklu máli nema að ASÍ hafi verið á sömu nótum og Herdís Þorvaldsdóttir í "heimildarmynd"  sinni um árásir sauðkindarinnar á Fjallkonuna.  En Ágúst Marinósson (Morgunblaðið 24/10 2012)  yrkir af þessu tilefni:

Skuldavandann skelfist ég

og skjálfa á mér lærin.

Þjóðin fetar vondan veg
          því veldur bannsett ærin.


Ró og friður er yfir hrossunum hans Kristjáns í Vatnsdalshólum, Jörunarfellið eitt af hæstu fjöllum A-Húnavatnssýslu gnæfir yfir

Bara svo Jónasi sé haldið til haga í pistli dagsins þá er von á honum í bæinn á morgun og mun eins og oft áður koma með strætó. Dvöl hans verður stutt nú sem fyrr og ekki líklegt að hann nái að hrella yfirvöld sem neinu nemur á þessum stutta tíma.

Mér er bæði ljúft og skylt að greina frá því þó ekki væri fyrir annað en það að greina ríkisendurskoðanda frá,  að ég fékk í gærkvöldi  að gjöf stein einn lítinn og fallegan, fólgin í skjóðu í fánalitunum. Þessi steinn ber í sér töframátt að sögn gefanda sem eru engar aðrar en Töfrakonunar  í Blöndudalnum þær Birgitta Hrönn,  Jóhanna Helga og svo Þuríður sem í nokkur ár bjó í Hvammi í Vatnsdal. Töfrakonunnar kalla þennan stein heilunarstein og fylgir honum vísa sem byrjar svona: "Nú heilunarsteini þú heldur á / og hugsar um draumana rætast þá." Steinnin er silkimjúkur og honum fylgja góðar óskir , þetta góður steinn, gefin af góðum hug og fer vel í lófa. Takk

Þá er Rúnar blessaður mættur með Gluggann.  Maður skynjaði komu hans inn á Aðalgötuna í gegnum þungan bassatakt Strákabandsins sem lék eldfjörugan polka í nýju Súkkunni hans. Og sem fyrr þá sáum við í huganum helstu samkvæmisdansara héraðsins snúast um í hamslausri gleði í takt við tónlistina. Rúnari fylgdi úrkoma sem ekki var búin að ákveða sig hvort heldur ætti að vera snjókoma eða regn en vindurinn hafði hægt um sig.


Ólafur Blómkvist og kona hans hún Jóna Stefánsdóttir á tali við einn af starfsmönnum sláturhússins en sá er frá Nýja Sjálandi. Þegar Ólafur áttaði sig á því að maðurinn væri af kynstofni Maóría frumbyggja Nýja-Sjálands sagði Óli að það væri fallegt fólk sem glögglega má greina á látbragðinu

Glugginn er með öðrum orðum kominn í hús og má þar detta um ýmsar auglýsingar. Má þar m.a. nefna að um miðjan nóvember er hugmyndin að menn fari að kveða og syngja kvæða og tvísöngslög í gömlu kirkjunni á Blönduósi  sem tengjast Vatnsdalnum.  Þar verður örugglega sungið "Farðu vel með Vatnsdæling" og svo framvegis og aðrar merkar stemmur.

Vísa vikunnar er á sínum stað og Rúnar á Skagaströnd opinberar uppgötvun sína  sem okkur Rúnari á Blönduósi hafði lengi grunað að heimskingjar finnast líka hér á meðal okkar í Húnaþingi en sannast sagna eru þeir afar fáir.

En nú er mál að linni og komið að því að finna hið snúna samhengi hlutanna og er okkur Rúnari ærinn vandi á höndum.

Sumar er farið og sést ekki meir,

senn gengur vetur í garð.

Vandinn er ærin(n) segja víst þeir 
          sem vit' ekki hvað af því varð.

 

 

17.10.2012 15:57

úti að aka


                                                     Sjaldan er ein báran stök

    Upp er runninn miðvikudagur, fallegur dagur sem bar í sér mildi og birtu í morgun en heldur hefur hann kólnað þegar liðið hefur á daginn.  Í raun og veru gæti ég látið hér staðar numið því það er í rauninni ekkert við þessi upphafsorð að bæta en ég hef bara ekki vit á því.
 

Jónas Skafta á Ljóninu er alltaf að skreppa úr Reykjavík á Blönduós og notar til þess "strætó". Kemur að morgni og fer að kvöldi. Í síðustu ferð sinni þá sagði hann mér að hann væri gersamlega búinn að skipta um "kúrs" í lífinu. Hann sagði við mig fyrr í haust að hann hyggðist koma aftur norður 1. maí og bæta þá matargerð í ferðaþjónustu sína. En núna er ætlunin að koma um áramótin og hefja starfsemina.  Svona geta hlutirnir breyst hratt.  Ég held að hann hafi fyllst svo mikilli bjartsýni og eldmóði þegar að Valdimar Trausti í Sveitabakaríinu hóf  bakstur  í gamla Krútt bakaríinu við Aðalgötuna.

                                 Béin þrjú;  Bleiki bærinn Blönduós
        
    Það er fleira en þetta að frétta af athafnamönnum á Vesturbakkanum.  Bátur nokkur sem um allnokkuð skeið hefur staðið á þurru á hafnarsvæðinu og ber hið fallega nafn Jón forseti hefur fengið smá aðhlynningu. Eigendur bátsins sem eru Jónas Skafta og nokkrir bræðra hans ásamt Óla hótelstjóra tóku vélina úr bátnum fyrir skömmu og fóru með hana til Reykjavíkur til yfirhalningar. Vélin var í góðu lagi þannig að þeir félagr geta væntanlega gert hann út næsta sumar. Ég sé vel fyrir mér að Óli hótelstjóri verði kapteinn á Jón forseta því hann er ekki ósvipaður Kolbeini kapteini sem þekktur er úr Tinna bókunum.

Rúnar er ekki bara kominn, hann er kominn á splunkunýjan bíl , steingráa súkku. " Það er rosa gott að keyra hann" sagði Rúnar og ljómaði af gleði. "Ég hef aldrei átt nýjan bíl fyrr" bætti hann við um leið og hann lækkaði tónin í þeim Therése og Peter sænskum harmonikkutónlistarmönnum sem voru að flytja "Fingerklådan" af geisladisknum "Marsch pannkaka".

Glugginn er kominn út og kennir þar margra grasa eins og venjulega.  Styrktarsjóðsballið nálgast sem og þjóðaratkvæðagreiðslan. Kórarnir í héraðinu óska eftir röddum og ræða framtíð sína. Og síðast en ekki síst þá er svartur köttur í óskilum á Fornastöðum. Einnig er vísa vikunnar á sínum stað og sem oft áður er Rúnar á Skagaströnd höfundur vísu. Fjallar hún um stríðshörmungar úti í hinum stóra heimi.

En samhengið verður að vera á sínum stað og það getur ekki verið öðruvísi en svona: 

          Með strætó ferðast hann fram og til baka,

          frömuður Jónas og Trausti er að baka.

          Svo segir frá því

          Að Rúnar er í

          spánýrri súkku,  úti að aka.

10.10.2012 14:19

Nú verður hver að bjarga sér

"Það þýðir ekkert að spara og spara og spara svo ekki neitt" sagði Steingrímur heitin Davíðsson á sínum tíma. Þetta hefur skólastjórinn eflaust sagt þegar honum fannst ekki fara saman orð og efndir á hreppsnefndarfundi á Blönduósi fyrir margt löngu. Þessum orðum hef ég stundum velt fyrir mér hin síðari ár vegna þess að mér var innprentað í æsku að græddur væri geymdur eyrir (sjá myndir af sparimerkjabók).


Þessi merka bók var við lýði þegar ég var 7 ára og síðan eru liðin 53 ár

Þessi innræting frá æskuárunum hefur verið býsna lífseig í huga mínum og jaðrar á tíðum við flónsku. Þessi sparimerkjabók sem hér má sjá var sögð verðtryggð en var það bara alls ekki þegar á reyndi og þessi sparnaður æskunnar á árunum kringum 1960 var brenndur upp í verðbólgu og afhentur þeim sem tóku óverðtryggð lán á þeim sama tíma. Margir sem byggðu á sjöunda áratug síðustu aldar horfðu á lánin sín gufa upp í bankakerfinu og sparnaður okkar var notaður í það. Í dag eru í gangi svipuð vinnubrögð nema nú er bæði gengið á þá sem skulda og þá sem eiga inni sparnað þannig að niðurstaðan hlýtur að verða sú að það verður bráðum ekkert eftir inni í bönkunum til að lána út og hvað gerist þá? Reyndar er gengið harðar að þeim sem lagt hafa fyrir í gegnum tíðina og þeir rændir purkunarlaust allan sólarhringinn.  En þessi inngangur er svolítið stílbrot á þessum pistlum og læt ég honum lokið en ég er ekki sáttur við þróun mála.


Októbersólin hverfur ofan í gamla bæinn á Vesturbakkanum

Það gerðist hér á dögunum að Sigurður Ingi á S-Löngumýri setti dráttarvél sína á kaf í Blöndu og komst hvorki lönd né strönd. Með honum í vélinni voru hundurinn hans Glókollur og Sigurvaldi Sigurjónsson stundum kenndur við Kárastaði. Þegar þeir áttuðu sig á stöðu sinni, kölluðu þeir eftir hjálp úr landi, biðu í vélinni og var bjargað. Fyrir nokkrum árum lenti Björn bóndi í Ytri-Löngumýri líka í Blöndu á dráttarvél sinni. Hann hugðist stytta sér leið með því að fara Blöndu á ís en ísinn brotnaði undan vélinni. Með honum í för var hundurinn hans Lubbi, húsbóndaholl og vitur skepna. Þegar vatn nam við sæti dráttavélar áttar Björn bóndi  sig á alvarleika málsins  og lítur djúpt í augu hundsins og segir: "Jæja Lubbi minn nú verður hver að bjarga sér" og kastaði sér út í klakaruðninginn í ánni. Komst hann við illan leik heim að Ártúnum og fékk þar góða umönnun. Af hundinum Lubba er það að segja að hann horfði á eftir húsbónda sínum yfirgefa vélina og hverfa með jökulfljótinu. Hundurinn hugsaði með sér að best væri bara að bíða því vafalítið myndi Björn eða einhver annar koma  til bjarga vélinni. Þar reyndist Lubbi hafa rétt fyrir sér og sat hann rólegur í dráttarvélarsætinu þegar björgun barst. Björn sagði síðar að Lubba hefði orðið svo kalt á pungnum að hann hafi verið ófær að fara á milli bæja í nokkra daga. Þannig var nú það.


Lítil fjóla grær við fótspor mín. Þessar fjólur dafna vel við tröppurnar fyrir framan útidyrnar á heimili mínu

Það var suðaustan  hvassviðri með 8 stiga hita sem mætti manni í morgun. Ég varð samt ekkert var við stólbakið græna sem var staðsett langt fram eftir vikunni austast í Aðalgötunni. Ég sagði frá því í síðasta pistli og lét svona að því liggja að það væri ættað frá Kiljunni og að Friðrik vert hefði tekið bakföll í stólnum og skilið bak frá botni. Friðrik kom til mín í gær og bar af sér allar  sakir og sagði þetta vera verk Ný-Sjálendinga sem búa í Aðalgötunni meðan sláturtíð stendur. Ég tók Friðrik trúanlegan og hér með er stólbakið græna úr sögunni.

Rúnar kom ekki með Gluggann að þessu sinni heldur var það Óli Þorsteins sem birtist með aulýsingablaðið. Óli sagði mér að Rúnar lægi veikur heima og væri einhver flensa að hrjá hann. Sem sagt engir harmonikkutónar sem þenja sig mót sunnan vindinum þennan miðvikudaginn en ég sendi Rúnari mínar bestu batakveðjur. Já Glugginn er kominn og þeir sem ekki geta séð hann með eigin augum geta nálgast hann á huni.is.

Rúnar á Skagaströnd sendir hroka heimsins tóninn í vísu vikunnar og eitt er víst að hroki er leiðinda fyrirbrigði sem fer mönnum illa og getur komið óþægilega við þá sem ekki sjá í gegn um hann.

En samhengið verður að finna á þessum vindasama miðvikudegi og er nærtækast að sækja það í Guðslánið sem fylgir þeim Löngumýrar bændum. Það sem einnig réttlætir þá í þessum pistili er að þeir búa sömu megin við Blöndu og íbúar á Vesturbakkanum við ósinn.

Langt í frá hundurinn Lubbi var móður.
          Í lífháska lenti og varð ekki óður.
         Við Björn heyrðist klifa 
         "Mig langar að lifa,
         legg þú á djúpið, húsbóndi góður".

 

03.10.2012 14:30

að draga andann

Hún bregst ekki hún Halldóra Björnsdóttir landsþjálfari í leikfimi. Ég var búinn að sitja lengi í þungum þönkum og reyna að finna upp á einhverju til að fjalla um í ritæfingu dagsins þegar þess heilsubætandi kona kallaði til mín gegnum útvarpstækið. "Dragðu andann djúpt og andaðu hægt frá þér". Ég hlýddi og viti menn, það opnuðust allar gáttir hugans og ég fór að hamast á lyklaborðinu.  Þegar Halldóra benti mér og landsmönnum öllum á að rétta vel úr sér og vera bein í baki og snúa höfðinu til hægri og svo til vinstri var ekki hægt að komast hjá því að sjá að það var hryssingslegt veður utandyra. Hægra meginn við mig er glugginn og vinstra meginn eru útidyrnar.  Og hvað er þar fyrir utan? Nú veðrið auðvitað og ég segi nú eins og íþróttafréttamaðurinn sagði einhverju sinni þegar íslendingar voru að tapa leik en ekki svo að til háðungar væri: "Þetta lítur ekki allt of illa út"  Það sama má segja um veðrið í dag, það lítur ekki allt of illa út.


Það er komið haust í Húnaþing. Horft yfir til Þingeyra

Það er svo sem ekki frá svo miklu að segja af vesturbakkanum þessa vikuna. Um leið og ég sló þessi orð inn á skjáinn fyrir framan mig þá spratt upp fyrir framan mig mynd af hræringum í gamla bakarínu Krútt. Þar er allt komið á fullt og stefnir í það að Sveitabakaríð flytji þar inn með Valdimar Trausta í fararbroddi. Trésmíðavélarnar sem voru í húsnæðinu eru farnar og inn streyma tæki sem ætlað er að baka ofan í okkur góðgæti hverskonar. Það er sem sagt að færast enn meira líf í Aðalgötuna og spennandi tímar virðast vera framundan.

Þegar ég var á ferðinni áðan og beygði af (án þess að beygja af)  Hnjúkabyggðinni inn á Aðalgötuna varð á vegi mínum Sveinn M. Sveinsson kappklæddur með hundana sína þrjá. Þá uppgötvaði ég strax að það var hundi út sigandi í norðan rigningakaldann. Það er góð regla þegar maður stöðvar bifreið sína á gatnamótum að líta til beggja hliða og það gerði ég og eins og fyrr greinir þá sá ég Svein á vinstri hönd en brotið garðstólbak, líklega ættað frá Kiljunni á þeirri hægri. Þetta stólbak kallaði fram ýmis hugrenningatengsl og datt mér fyrst í hug að Frikki vert hefði hallað sér helst til harklega á þennan græna garðstól sem svo sem vel gæti hafa gerst en bara alls ekki víst. Grænt garðstólbak á götunni getur valdið heilbrotum og gráupplagt að taka það inn í söguna.


Það næðir um menn og málleysingja en þessi mávur heldur ótrauður áfram mót norðaustanáttinni

Jónas á Ljóninu kom hér um daginn með "strætó" að morgni og fór með "strætó að kveldi. Hann var að sækja bókhaldið  sitt. Hann sagði mér að senn færu "sprengjur" að falla og átti hann við málsókn gegn yfirvöldum bæjarins og sýslumanni.  Hann sagði mér líka í óspurðum fréttum að hann ætlaði að opna Ljónið 1. maí og þá verður auk fyrri þjónustu, matur í boði. Mig minnir að hann ætli að hafa kjörorð ljónsins á vori komandi "Matur, kaffi, gisting" Hugsanlega gæti uppröðun orðana verið öðruvísi en það kemur út á eitt.

Rúnar er kominn með Gluggann og enn spilar hann Rangæingana út í eitt. Nú hljómaði úr Súkkunni hans lag sem ber það hlýlega nafn "trimmað á góunni" og veitti ekki af til að mæta norðannepjunni af fullri hörku. Þetta lag er af hljómdisk sem Harmonikkufélag Rangæinga gaf út árið 1999 og hefur að geyma 16 lög eftir ýmsa höfunda bæði íslenska og erlenda.

Glugginn er þunnur í októberbyrjun en ber þó með sér ýmsar haldgóðar upplýsingar til alþýðunnar. Má þar sérstaklega nefna auglýsingu frá búð Sölufélagsins en þar má gera góð kaup á innmat og öðrum kjötvörum. Enn og aftur hvet ég fólk til að skoða þessi kjarakaup og undirbúa sig með ódýran mat fyrir veturinn. Sjálfur keypti ég 7 kíló af eistum í morgun og fór með þau til tengdamóður minnar sem sér um að koma þeim í girnilegan þorrablótsbúning.

Samhengið á þessum miðvikudegi sem lítur ekki allt of illa út, liggur ekki í augum uppi en það er hverjum manni hollt að leita og eins og segir einhversstaðar: "leitið og þér munið finna"

Nú er kominn október

sem allan fjandann í sér ber.

En mikilvægast ætíð er,
          andann draga vel að sér

 

Hleypa síðan anda út,

eyða þar með eymd og sút.

Binda á sorgarsekkinn hnút
          og súpa vel á gleðikút.

 

 

26.09.2012 15:11

litla barn

Miðvikudagarnir renna upp hver af öðrum og eiga ekkert sameiginlegt nema nafnið og það að þeir hverfa. Í dag heilsaði okkur hér við botn Húnafjarðar norðansúld með sex gráðu hita en heldur hefur birt í lofti eftir því sem liðið hefur á morguninn. Það er ekki hægt að neita því að haustið hefur heilsað og er farið að setja mark sitt á náttúruna alla. Gróðurinn hefur skipt litum og fuglunum fækkar líkt og laufblöðunum á trjánum. Það er eitt sem vakið hefur sérstaka athygli mína en það er hvað grágæsunum hefur fækkað á túnum bæjarins. Það er eins og norðanáhlaupið illræmda hafi feykt þeim í burtu. Það er aðeins eftir ein gæs sem ég rekst iðulega á þegar ég rölti heim eftir vinnu. Þegar ég sé þessa einmana gæs þá fæ ég alltaf smá sting í hjartað því það getur ekki verið gott að vera einmana gæs.  Það var alls ekki óalgengt að sjá þó nokkuð af gæs vel fram í október en nú virðist öldin önnur. Kannski eru þær búnar að uppgötva nýuppskorna kornakrana í nágreni bæjarins, hver veit.


Haustið er komið í Hrútey en Héraðshælið fölnar aldrei

Jónas Skaftason vert á Ljóninu er farinn líkt og gæsirnar en á veiðilendur höfuðborgarinnar vopnaður sinni Benz leigubifreið. Já haustið er komið og veturinn handan við hornið um það villist ekki nokkurt mannsbarn. Nóttin er orðin lengri en dagurinn og mun sá munur aukast allt fram til 21. desember. Svona er nú það, þetta er víst gangur lífsins og fáum við engu um það breytt.

Óli hótelstjóri er búinn að hafa nokkuð langa samfellda viðveru í Aðalgötunni í haust og hefu hýst margan ferðalanginn og eldað ofan í hann þjóðlegan og hollan mömmumat sem að uppistöðu er lambalæri með brúnni sósu, kartöflum sultu og grænum baunum og ís í eftirrétt með niðursoðnum ávöxtum í útáhelling. Þetta er gott hjá Óla það hef ég reynt og myndi ég flokka hann sem vin íslenska lambakjötsins.


Jóhann Ingvi Hjaltason

Börn eru ótrúlega hugmyndarík og einlæg í óþvinguðu umhverfi. Ég get ekki látið hjá líða að segja litla sögu af honum Jóhanni Ingva (Jói) sonarsyni mínum. Hann er á fimmta ári og frétti það nýverið hjá foreldrum sínum að hann ætti von á systkini. Jóa litla fannst mikið til koma en fann strax til ríkrar ábyrgðartilfinningar því nú yrði hann stóri bróðir. Þessari nýju frétt velti hann fyrir sér í nokkra daga og sýndi mikið æðruleysi. En það kom að því að hann þurfti að fá frekari upplýsingar um þetta allt saman. Einn daginn fyrir nokkru þegar hann og móðir hans áttu notalega stund saman þá segir Jói mjög ákveðinn við móður sína. "Mamma, opnaðu munninn", "Hvað meinarðu Jói minn?" sagði mamma hans en hann áréttaði bara spurninguna enn einbeittari en fyrr. "Mamma opnaðu munninn" og móðir hans varð við þessari einbeittu ósk drengsins. Það var sem við manninn mælt, Jói hallaði sér yfir móður sína og kallaði hárri röddu ofan í opinn munninn. "Litla barn!, litla barn! þetta er Jói, stóri bróðir þinn!" Eftir þetta ákall til litla ófædda barnsins kallaði Jói á föður sinn og spurði hann hvort hann vildi ekki líka ræða við litla barnið. Hvað er eðlilegra en hrópa ofan í móður sína sem er með barn í maganum til að ná sambandi. Maturinn fer jú sömu leið ofan í magann.

Rúnar er kominn með Gluggann. Reyndar þurfti hann að gera tvær tilraunir til að ná tengslum við mig því ég var í djúpum viðræðum í símanum við íbúa á Hvammstanga þegar hann kom fyrst. Í seinna skiptið þegar hann kom þá var ég kominn til míns sjálfs og þá heyrði ég Hérðasvökupolka hljóma um alla Aðalgötuna í flutningi harmonikkufélags Rangæinga. Rúnar sagðist hafa reynt í fyrra skiptið þegar hann kom að vekja athygli mína á komu sinni með að minnsta kosti þremur lögum en ég hafði verið gjörsamlega týndur. Þetta gerði í raun lítið til því þetta varð þess valdandi að par eitt frá útlöndum og einn bílstjóri frá Vörumiðlum dönsuðu af mikilli innlifun og gleði eftir tónum frá Rangæingunum.


Stararnir hópa sig saman og ræða málin í laufléttum trjám bæjarbúa

Já Glugginn er kominn með mynd á forsíðu af kaupélagsfólki að gera samning við Samkaup um afslátt fyrir félagsmenn kaupfélagsins. Glugginn segir frá ýmsu sem lesa má inni á huni.is og hún Bebbý (Elísabet Árnadóttir) á vísu vikunnar. Fjallar hún um beinar brautir Norðurárdals og ljómandi brekkur hans sem og ágætis fólk sem tengist dalnum.

En samhengi þessa dags hlýtur að fjalla um sakleysi barnsins og hve mikilvægt er að varðveita barnið í sér sem allra lengst.

Barnssál er hreinlynd og heið

og hugurinn leitar víða.

Um vélindað liggur leið
          að litla barninu blíða.

 

 

19.09.2012 13:56

tilræði við geðvonskuna


Í gær fór sólin á skína og hamingjustuðullinn hækkaði til mikilla muna

Haustið hefur hafið innreið sína og hleypt kálfinum lausum svo eftir var tekið. Veðrið í september hefur farið í skapið á mér og rænt mig orku. Þetta er ekki ásættanlegt ástand og það fer í taugarnar á mér að láta ástand sem ég hef ekkert með að gera, stjórna geðslagi mínu. Ég hef reynt að spyrna við fótum svo þessi sálarógn nái ekki yfirhöndinni. Ég held að ég hafi náð hvað bestum árangri þegar ég gekk heim eftir vinnu í fyrradag í grenjandi norðanhraglanda. Þegar ég stóð í dyrunum heima blautur ytra en heitur og sæll innra fannst mér ég hafa unnið pínulítin sigur. Undir venjulegum kringumstæðum hefði ég beðið einhvern að sækja mig en ákvað í þetta skiptið að setja undir mig hausinn og takast á við leiðinda veðrið. Þegar upp var staðið og heim var komið var það í sjálfu sér ekkert svo mikið mál. Mér var á þessari stundu hugsað til góða dátans Sveiks sem sagði á örlagastundu þessu dásamlegu orð   "Hvort sem það hefur nú verið eins og það var eða var ekki, á einhvern hátt hefur það verið. Og aldrei hefur það verið þannig að það væri ekki á einhvern hátt." Þessi orð eru svo sönn án þess að segja nokkurn skapaðan hlut og hægt að grípa til þeirra nánast við hvaða tækifæri.


Tvær stúlkur úr gamla bænum nutu lífsins í blíðunni í gær og byggðu kastala úr fjörusandinum

Svo maður haldi sig áfram við veðrið þá fór sólin loksins að skína í gær í fyrsta sinn í þessum mánuði og þessi miðvikudagur lofar svo sannarlega góðu. Sólinni fylgdi líka hægur vindur og manni fór allt í einu að líða svo miklu betur í sálinni. Ég festi ekki yndi innan dyra í gær og rölti því niður í fjöru í leit að yndinu. Sjávarilmurinn fyllti upp í vitin og æðarungarnir frá í vor vögguðu á undiröldunni og létu sér fátt um finnast þó ég rölti í fjörunni. Ekki var ég búin að rölta lengi þegar á vegi mínum urðu tvær gæfulegar ungar stúlkur, berfættar í sandinum að byggja sandkastala. Þarna fann ég yndið; fann hvað sakleysið og áhyggjuleysið er dýrmætt. Að geta legið á hnjánum í sandinum, berfættur, byggja upp og leiða hugan langt fram hjá veraldarvafstri hinna fullorðnu. Þetta er í mínum huga bein tenging við almættið.

Af vesturbakkanum er allt gott að frétta. Ég er búinn að hitta Jónas á Ljóninu, Frikka vert á Kiljunni , Ívar Snorra og Óla Werners hótelstjóra. Þetta er ekki svo lítið og höfðu þessir menn frá ýmsu að segja. Jónas er senn á förum suður yfir heiðar með rútuna sína og ætlar að gista í henni í Laugardalnum í vetur. Kiljan er ekkert að fara að sögn og Óli hótelstjóri kemur og fer eins og hann hefur gert í gegn um tíðina. Óli er að fá hóp kínverja í heimsókn í hádeginu og ætlar að elda eitthvað ljúfengt fyrir þá. Ég spurði Óla hvort kínverjarnir ætluðu að kaupa af honum hótelið svona í leiðinni í golf á Grímsstöðum. Óli hvað svo ekki vera.


Sólin hefur töframátt og náði að töfra þá Ívar Snorra og Friðrik vert út á gangstétt til fundar við sig

Rúnar er kominn með Gluggann í glampandi sól og blíðu og honum fylgja að sjálfsögðu harmonikkutónar. Í dag bregður Rúnar verulega út af vananum og heldur til hlés öllum helstu listamönnum norðurlanda en dregur fram í dagsljósið Harmonikufélag Rangæinga. Lagið "Beint í æð" fyllir út í fallegt haustveðrið í Aðalgötunni, hressilegur polki sem Kristófer og Gunna væru fullsæmd af að dansa eftir

Glugginn er kominn með sínar auglýsingar. Það er alltaf hægt að lesa svolítið í sýslusálina með því að fletta Glugganum. Það kemur alltaf upp skrýtin tilfinning í huganum þegar maður sér að það er verið loka einhverri verslun eða hætta einhverri starfsemi. Ég held að þessi tilfinning eigi eitthvað skylt við söknuð. Það myndast tóm þegar eitthvað hverfur á braut og ekkert kemur í staðinn. Grunnstoðir samfélagsins veikjast og það er ekki gott. Líklega er þessi tilfinning spottinn af eigingirni en mér er bara alveg sama. Ef til vill segja svona hugleiðingar manni bara það að þörf er á hugsun og atferli barns sem getur legið berfætt á hnjánum í sandinum og byggt kastala.

Vísa vikunnar er eftir Rúnar Skagastrandarskáld og fjallar um hina miskunarlausu baráttu sem fram fer í hinni villtu náttúru.

Samhengið þessa vikunna er nokkuð augljóst og liggur í því að öll él birtir upp um síðir og aftur kemur vor í dal . Eitthvað sem við höfum ekki stjórn á má ekki raska ró okkar svo að til vandræða horfi því er við hæfi að vera svolítið viðkvæmur (væminn) og kasta fram þessari stöku sem kalla mætti "tilræði við geðvonskuna":

Himininn sólargeislunum  skartar,

sár undan veðrinu engin nú kvartar.

Þennan látlausa dag

alveg einstakt er lag,
          að líta til framtíðar bjartrar.

 

Ps: Þessi vísa er ekki tileinkuð neinu stjórnmálaafli

 

 

 

12.09.2012 14:39

illskeyttur haustkálfur

Þá er haustkálfurinn genginn hjá og hvílíkur kraftur í skepnunni. Það er engu logið að elstu menn í Húnaþingi muna ekki annað eins veðuráhlaup jafn snemma hausts. Bændur urðu fyrir barðinu á þessum kálfi og eru öll kurl ekki enn komin til grafar. Ekki er meiningin að fjalla meira um þessar náttúruhamfarir því um þær hefur verið fjallað í fjölmiðlum undanfarið og verður en um sinn en vil aðeins koma því til skila að ég hugsa til þeirra sem barist hafa undanfarna daga við að grafa fé úr fönn. Og það sem verra er og sagt hafa mér grandvarir menn að tófan grafi sig niður á fenntar kindur og éti þær lifandi og séu um þetta nokkur dæmi á Sauðadalnum í gær. Líklegt má telja eftir þessar hamfarir að til sé nægur fæðuforði fyrir tófur norðan heiða í vetur.


Eylendið var eins og fjörður á að líta á mánudaginn en heldur var vatnið farið að sjatna þegar þessi mynd var tekin

Ég fjallaði fyrir skömmu um manninn sem dvalið hefur við skriftir í gömlu kirkjunni og kallaði hann ranglega Robertson. Þessi maður heitir réttu nafni Robinson Savary og er Argentínumaður búsettur í París. Hann hefur eins og komið hefur fram, dvalið hér í nágreni við mig í tvo mánuði og skrifað kvikmyndahandrit um gullgrafara í S-Ameríku seint á 18. öld. Gullgrafara ættaða frá Rúmeníu sem meðal annars höfðu sér dundurs að drepa indíána meðfram gullleitinni. Nú er þessi ágæti maður sem bjó við frekar frumstæðar aðstæður í gömlu kirkjunni, farinn suður á bóginn en þó ekki úr landi. Hann sagði mér ýmislegt rétt áður en hann fór og nefndi meðal annars að gott hefði verið að vera í kirkjunni en hún þarfnaðist viðhalds. Hann leyfði mér að taka af sér mynd fyrir framan kirkjuna og ég sagði svona í framhjáhlaupi hvort ég væri að taka mynd af frægum handritshöfundi. Hann svaraði því til að svo væri ekki enn, en það gæti komið að því.


Mr. Robinsson fyrir framan kirkjudyrnar daginn áður en hann hélt suður á bóginn

Robinson er farinn suður og ég tel víst að Jónas Skafta vert á Ljóninu sé líka floginn. Ég sá hann í mýflugumynd á föstudaginn var en síðan hef ég ekki séð hann og kann því ekkert frá honum að segja annað en það að þegar hann sá mig eftir hálfsmánaðar Spánardvöl hrökk út úr honum: "Hvað er þetta! Lágstu undir segli allan tímann." Þar sem ég er þroskaður maður og öllu vanur þá lét ég mér fátt um finnast um þessa athugasemd.

Glugginn er kominn og þar kennir nokkura grasa. Það var ekki Rúnar sem kom með Gluggann heldur hann Óli Þorsteins, maðurinn sem gifti sig sama dag og ég í sömu kirkju fyrir 36 árum og einum degi. Óli sagði Rúnar í fríi þannig að miðvikudags harmonikkutónar hans verða að bíða um sinn, eins og þeir eru nærandi og uppbyggjandi fyrir sálina.

Sölufélagið hefur opnað slátursöluna þetta haustið. Ég þreytist seint á því að benda fólki á að hægt er að gera kjarakaup í slátursölu Sölufélagsins. Bara til þess að nefna eitt dæmi þá kostar eitt kíló af lifur 182 krónur. Steikt lifur í brúnni sósu með kartöflum úr Selvíkinni er herramannsmatur. Svo er náttúrulega gráupplagt að taka slátur svo ekki sé nú talað um sviðin. Þetta er rétti tíminn til að afla ódýrra matvæla og eiga í kistunni. Svo er rétt að huga að því að koma pungunum og sviðasultunni í súr svo maður höndli þorrann með viðeigandi og gleðilegum hætti. Það er að mörgu að huga og margt í mörgu þegar kemur að hagkvæmum rekstri heimilisins. Hin hagsýna húsmóðir er gulls í gildi, hefur verið það og mun verða það meðan land byggist.


Geitaskarð og Holtastaðir í Langadal meðan Blanda sjávar leitar

Vísa vikunnar er á sínum stað og er eins og svo oft áður eftir Rúnar Kristjánsson á Skagaströnd. Nú kveður við nýjan tón hjá skáldinu út við ysta sæ. Hann er farinn að yrkja á ensku svo líklegt má telja að hann hyggi á útflutning á ljóðum sínum, með öðrum orðum, skáldið er komið í útrás. Þegar ég las vísu vikunnar rifjaðist upp fyrir mér að 12.05 2010 (pistill 12/5 2010)  orti ég þessa vísu þegar ég stóð frammi fyrir því hvort ég ætti að vísa erlendum ferðamönnum á tjaldsvæði Jónasar eða bæjarins; setti mig í spor ferðamannsins.

Whatever you are, poor or rich,
elderly grey or smiling kids.
Speculation the same old which?
Should I stay or cross the bridge

Þannig er nú það, þau þreifa víða "skáldin" í Húnaþingi.

En samhengið er vandfundið í þessari viku því vissulega má leggja út frá hamförum liðinna daga en lífið heldur áfram þrátt fyrir hrakfarir og áföll. Já lífið heldur áfram og því langar mig svona í lokin að rifja upp eina augnabliksmynd:

Í lífinu skiptast á skúrir og skin,

skammgóður vermir og trú.

Í mörkinni miklu er einstaka vin,

en miðdepill heimsins ert þú.

 

05.09.2012 16:20

Hver vegur að heiman

"Hver vegur að heiman er vegurinn heim" var einhverju sinni sagt og Magnús Eiríksson söng svo eftirminnilega um. Þetta er rétt! Ég er kominn heim eftir hálfs mánaðar dvöl í erlendu landi sem er ríkt af sól og skuldum. Ég kaus að byrja þennan pistil svona því ég er búinn að umgangast Guðna Ágústsson  fyrrverandi landbúnaðarráðherra daglega í hálfan mánuð og það fer ekki hjá því að maður "ruglist" eitthvað undir þessum kringumstæðum. En svo það sé  á hreinu þá kynntumst við hjón þeim Guðna og hans konu Margréti Hauksdóttur í þessari Spánarferð og voru þau kynni afar góð og ánægjuleg og það er ljóst að eftir þessi kynni hef ég mikinn sjóð til að ausa úr. Öllu verður þó í hóf stillt og gripið til sjóðsins þegar ástæða er til.

Í dag verð ég stuttorður og gagnorður og er er ástæðan einfaldlega sú að ég hef ekkert fylgst með mannlífunu fyrir norðan í  hálfan mánuð og það sem meira er, ég tók mér algjört frí frá internetinu meðan á fríi stóð. Í stuttu máli veit ég ekkert og því frá litlu að segja (Reyndar er þetta ekki satt en letinginn finnur sér oftast afsökun til að komast hjá hlutunum) .

Glugginn er kominn en ég veit bara ekkert hvað í honum stendur því ég kemst ekki inn á tengilinn á huni.is. Glugginn er kominn og ég veit ekki hvort Rúnar vinur minn kom með hann eða ekki því hann hékk einmana og hrakinn (Glugginn) í rigningunni á hurðarhúninum á Aðalgötu 8 eftir hádegið.   Í stuttu máli ég veit ekkert annað en það að bændur eru í göngum og réttir verða um helgina og ég tel fullvíst að vísa vikunnar í Glugganum sé á sínum stað. Þess vegna verður samhengi þessa miðvikudags einfaldlega svona:

Ég var út' á Spáni í vikur tvær,

var þar úr hita að deyja.

Um háttatíma ég heim kom í gær

og hef ekki frá neinu að segja.

15.08.2012 13:59

Private Robertson

    Lognið umlykur þennan dag meðan ríkissjóður innheimtir sinn toll af launum landsmanna. Jafnframt hangir í hlíðum fjalla og við sjóndeildarhring, þokuloft sem mér sýnist að sé á undanhaldi og framundan  virðist vera magnaður miðvikudagur tilvalinn til ýmissa verka.


Skólarnir eru að byrja og von bráðar byrjar fermingafræðslan. Grunnskólinn og kirkjan

 

Það er engum blöðum um það að fletta að það gengur á sumarið. Fuglarnir eru við það að skila ungviðinu út í lífið. Litlu sætu ungarnir eru orðnir fleygir og foreldrarnir kenna þeim ýmislegt sem kemur þeim að gagni í lífinu eins og til dæmis að fljúga saman í hóp og ýmis minstur í hópflugi. Þessi hugleiðing minnir mig í þessum skrifuðum orðum á línur úr lagi Benny Andersons "Svantes lykkelige dag :  Fuglene flyver i flok når de er mange nok." Þetta lag og texti er svo gott innlegg í lífið og tilveruna að það ætti að vera síðasta lag fyrir fréttir á rás 2 á hverjum degi.  Gæsirnar eru að mestu horfnar af túnum bæjarins yfir hádaginn því þá eru þær á berjamó. Það var svo notaleg tilfinning seinni partinn í gær þegar ísbíllinn fór um götuna heima og bjölluhljómurinn barst yfir hverfið þegar skyndilega með töluverðu gargi komu heilu hóparnir af gæsum fljúgandi yfir, pakksaddar af berjum. Þetta var svona sambland af því að þegar kirkjuklukkurnar hringja inn jólin í ríkisútvarpinu og andvarpi síðsumarsins, svona einskonar elífðarsamhljómur sem gefur sálinni frið.

Það er hér starfandi í gamla bænum rithöfundur ættaður frá Argentínu og hefur hann aðsetur í gömlu kirkjunni. Hann heitir að eftirnafni Robertsson en gengur venjulegast undir nafninu mr. Robertsson hjá þeim sem gleggst til hans þekkja. Hann er að skrifa kvikmyndahandrit er mér sagt um gullgrafara í S-Ameríku seint á 18. öld. Gullgrafara ættaða frá Rúmeníu sem meðal annars höfðu sér dundurs að drepa indíána meðfram gullleitinni.  Mr. Robertsson taldi sig hafa gott næði til verksins hér í hjarta gamla bæjarins en annað hefur komið á daginn. Vegna veðurblíðunnar hafa kirkjudyrnar oftast staðið opnar og þar sem eru opnar kirkjudyr þar má allt eins eiga von á Guðhræddu andliti í gervi ferðamanns. Það gefur auga leið að svona lagað getur ekki gengið til lengdar og þegar Guðhræddir ferðamenn  voru farnir að sjá mr. Robertsson sitjandi á altarinu starandi móti forvitnu andliti með svip sem minnti á svipinn á Jack Nicholson í kvikmyndinni"Shining" varð eitthvað að gera.


 Helstu hugsuðir í gamla bænum komu saman og sögðu " nú eru góð ráð mjög dýr" og útbjuggu í framhaldi af því skilti hvar á stóð "PRIVATE" og hengdu það á kirkjudyrnar. Þetta reyndist skammgóður vermir því sumir ferðamenn skildu þetta þannig að hér væri um snyrtingu að ræða og lögðust með það í huga á hurðarhún kirkjunnar. En tímar hafa liðið og ráðin hafa batnað og ég held að staðan núna sé öll miklu betri og handritsgerðin gangi til muna betur. Þessa ályktun dreg ég af því að þegar ég sá mr. Robertsson í morgun fyrir utan kirkjuna þá lá bara vel á honum og blístarði hann lítinn lagstúf út í þennan kyrrláta miðvikudag sem ber í sér blíðuna.

 

Ég ætlaði upphaflega að skrifa um um sparimerkjabók sem ég átti sem ungur maður í barnaskóla og einnig um uppeldi á ungviði mismunandi dýrategunda en varð fyrir óvæntri truflun líkt og handritshöfundurinn í kirkjunni svo það verður að bíða betri tíma en hvorutveggja er spennandi umfjöllunarefni.


Fallegar stúlkur á vesturbakkanum með kisuna Skottu

 

Go'Blonken heitir lagið sem Arnt Haugen hinn norski leikur af fingrum fram undir geislanum í Súkkunni hans Rúnars. Sem sagt Rúnar er kominn með Gluggann. Ég skoðaði kápuna utan af disknum með lögum Arnt Haugen og virti fyrir mér andlitsdrætti listamannsins. "Minnir þessi maður þig á einhvern hér um slóðir?" spurði ég Rúnar. Hann hugsaði sig lengi um og sagði síðan með hægð. "Hann er ekki ólíkur Kidda á Húnsstöðum". "Þú segir nokkuð" sagði ég og bætti við, "Það er svo miklu þægilegra fyrir fólk að átta sig á hlutunum ef það getur tengt það við eitthvað sem það þekkir." Arnt Haugen og Kristján á Húnsstöðum er svo sem ekkert vitlausara en hvað annað í andlitslegu tilliti.

 

          Vísa vikunnar er á sínum stað í Glugganum og Vörumiðlun ætlar að taka á móti dósum alla virka daga segir í auglýsingu. Fleira er að finna í Glugga en mál er að linni og komið að því að finna hið gullvæga samhengi.

                  Í kirkjunni ritar sögur, meistari Robertson
                  um rúmena í Ameríku í gullleitarvon.
                  Ef á túrhestunum þreytist
                  hann umhendis breytist
                  í leikarann Jack Nicholsson.


 

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 62
Gestir í dag: 10
Flettingar í gær: 246
Gestir í gær: 12
Samtals flettingar: 64720
Samtals gestir: 11490
Tölur uppfærðar: 2.5.2024 11:44:54