Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

06.08.2008 10:39

Valdalaus með 50.000 gesti

    Nú hefur sá dagur runnið upp að ég varð valdalaus maður, maður án mannaforráða. Þessi örlagaríki dagur var 4. ágúst en þá varð yngsta barnið mitt hún Ásta Berglind fullveðja, sjálfráða og þarf ekki að spyrja pabba sinn um eitt eða neitt. Núna ræð ég engu lengur en ég rétt ræð því ef ég bý ekki um rúmið að minnsta kosti þrisvar í viku. Reyndar þegar ég renndi augunum yfir Morgunblaðið mitt í morgun þá hresstist ég ögn þegar ég las stjörnuspána mína en þar stóð "Venus hefur blessað þig með góðum smekk. Ef þú passar þig ekki, getur fólk flokkað þig sem snobbara! Næmi þitt fyrir fagurfræði laðar að ást, vini, peninga og völd." Er þetta ekki " akkúrat" það sem allir vilja : ást vini, peninga og völd. Það er gott að sækja sér slíka næringu í Moggann. Þegar mest á reynir þá finnur maður þessa líka frábæru huggun í blaðinu sínu sem bjargað getur fyrir manni deginum.

    Mig langar á þessum meinausa Gluggalausa miðvikudegi og leggja fyrir þá sem þessa síðu heimsækja þrjár myndagátur. Verðlaunin eru ekki af verri endanum því sá sem getur svarað þessum þremur gátum getur átt von á því að geta haldið áfram að heimsækja þessa síðu ef Guð lofar og svo er einnig í boði gönguferð fyrir fjóra vítt og breitt um bæinn með hvíldaraðstöðu úti í Hrútey.

    Fyrsta gátan er einföld í sjálfu sér og er svona. Hvað heitir þessi bær sem myndin er af?


    Önnur gátan er ekki síður einföld: Hvað heitir þessi maður sem ríður þessum örvélfáki um Húnabrautina?



    Þriðja og síðasta gátan gæti verið snúin og mjög líklegt að margir muni flaska á henni en spurt er. Hvað heitir maðurinn sem er að ræða við Kristján málara í blíðunni fyrir innan á, fyrir verslunnarmannahelgi?
 

    Nú fer að líða að því að 50.000. gesturinn komi í heimsókn á síðuna mína. Ef ég satt skal segja þá hefur það komið mér töluvert á óvart hvað margir leggja leið sína inn á síðuna daglega. Í raun eru þessi skrif mín svolítil sálarhjálp mér sjálfum til handa. Ég hef oft gripið til þess ráðs þegar aðstæður í lífinu hafa verið nokkuð snúnar, að skrifa mig eins langt frá þeim og kostur er og er ég ekki í nokkrum vafa að það hefur hjálpað. 
    Eins og fyrr greinir þá kom það mér þægilega á óvart hve margir koma í heimsókn og orðið mér töluverð hvatning að senda endrum og eins eitthvað nýtt inn á síðuna. Þegar talað er um gest þá er átt við IP tölu tölvunar sem er einskonar kennitala hennar. Það koma sem sagt um 90 tölvur í heimsókn að meðaltali hvern einasta dag ársins. Þegar ég fór að gera mér grein fyrir þessu rann upp fyrir mér að mikil ábyrgð fylgir þeim orðum sem send eru út í loftið og öllum aðgengileg. Ég vona að ég hafi ekki valdið neinum teljandi óþægindum með skrifum mínum. Það var að minnsta kosti ekki meiningin nema þá í örfáum undantekningartilfellum sem ég er svo gersamlega búinn að gleyma og mun ekki erfa við sjálfan mig.

    Ég hef ennfremur sett þá kvöð á mig að reyna að bögla saman vísu í vikulegu pistlunum og skemmir ekki að fá Rúnar með í lið við þá yðju því hann hefur af því töluvert gaman.

Ég skrifa það eins og ég segi,
á meinlausum miðvikudegi.
Það er liður í því að lifa,
að láta sig dreyma og skrifa.

Svo mörg voru þau orð.

30.07.2008 10:43

Í leit að sólinni

    Þegar manni er sagt frá brakandi blíðu allt í kring, staddur í þokubrælu þá er það eðlilegasti hlutur í veröldinni að leita út úr þokunni í sólina. 
    Á mínum vinnustað kemur fjöldi fólks í ýmsum erindagjörðum og hefur frá mörgu að segja. Til dæmis kom til mín í gær þekktur skógarbóndi ættaður úr Svínavatnshreppi hinum forna. Til að gera málið einfaldara þá skulum við bara kalla hann Erling. Hafði þessi ágæti bóndi mörg orð um það hversu blíðan væri stórbrotinn í sínu nærumhverfi (tískuorð) og hafði með okkur sem Blönduósbæ byggjum, mikla samúð vegna þokunnar. Reyndar hafði hann ekki í frammi jafn sterk lýsingarorð við mig um veðrið en farinn frá mér heyrði ég hann lýsa veðrinu mun fjálglegar fyrir konu minni. Þessi veðurblíði skógarbóndi hafði slík áhrif á konu mína að við ákváðum að taka okkur klukkutíma sumarfrí og stefnan sett á Gunnfríðastaða skóg. 
    Magga klæddi sig strax í stuttbuxurnar því stutt var í sólina. Ég sagði si svona enda maður sem marga fjöruna hefur sopið í lífinu sama hvar á það er litið "Heldurðu ekki að þú ættir að vera í hlífðarbuxum svona til að byrja með". Min samþykkti það með smá semingi og lagt var af stað fram Svínvetningabraut til móts við sumarblíðu eins og hún best getur orðið. Ég hafði svona heldur hraðan á því ég vildi sem fyrst komast í sólina. Er við vorum á móts við Hnjúkahlíð og sáum til Hjartar í heyönnum hvarflaði ekki annað að okkur en stutt væri í sólina. Á hæðinni við Sauðanes sáum við grylla í Laxárvatn og tókum eftir því að Kristján flugumaður hafði lagt bíl sínum við veginn og var líklega við veiðar í Laxárvatni. Ekki sáum við sólina enn en vorum samt vongóð um að til hennar sæist þegar við kæmum að Köldukinnar afleggjaranum og í síðasta lagi þegar við kæmum í Kagaðarhólsbeygjuna framan við Grænuhlíð. Ekki gekk það eftir og var ákveðið að fara ekki í skóginn heldur halda áfram sem leið liggur fram hjá Tindum og Búrfellsbæjunum. 


    Þegar komið var upp á Sólheimahálsinn og litið yfir vatnið og bæina allt í kring sást bara ekki nokkur skapaður hlutur. Ég fór út úr bifreið minni vopnaður minni myndavél, staðráðin í því að taka mynd af Sólheimum, Svínavatni og hugsanlega mynd af Valdimar á Kúlu ef vera kynna að hann væri að smala heimalandið. Ég tók mynd en það sást bara hvítt rakaþrungið loft sama hvert litið var. 


    Efst á Sólheimahálsi var ákveðið að snúa við og fara Orrastaðahringinn. Hugsanlega væri sólin vestar því eins og flestir vita þá sest sólin í vestri og því rökrétt að elta hana enda degi tekið að halla. Þrátt fyrir þessa brakandi þoku blíðu þá var ýmislegt að sjá í vegkantinum.


    Á heimleiðinni rákumst við til dæmis á Raimund B Brockmeyer Urbschat bónda á Litla-Búrfelli við búfjáreftirlit. Við spurðum hann eftir sólinni og gaf hann greinargóð svör. "Hún var hér áðan" sagði hann og með þeim orðum héldum leið okkar áfram. Skömmu áður en við hittum Raimund bónda þá varð marg-reyfa ær á vegi okkar og má þakka það að hún varð ekki fyrir bifreið minni það að ekki var hægt að aka mjög greitt vegna þess hve skyggni var lítið. Skammt utan við Stóra- Búrfell fór um veginn vaskur hópur hestamanna á fákum sínum og svona mætti lengi upp telja. 
    Eins og fyrr greinir þá var Orrastaðahringurinn tekinn í heimleiðinni og er skemmst frá því að segja að eina sem við sáum á þeirri leið var vegurinn og erum við þakklát fyrir það. Þegar komið var niður undur Beinakeldu sofnaði frú Margrét og sá hún ekkert eftir það fyrr en hún vaknaði endurnærð á Blönduósi 20 mínútum síðar.

    Þessi ferð sem farin var í þeim tilgangi að leita að sólinni breyttist í ferð þar sem leitað var að því fjölmarga sem býr í þokunni og seint verður skógarbóndinn góðkunni sólkonungur í mínum huga líkt og Ólafur F. Magnússon borgarstjóri. Við hjónin erum búin að fyrirgefa skógarbónda og höfum áttað okkur á því að þokan getur farið víða.

Út í loftið nokkrum orðum sleppi
í von um sólarstund á ofnu teppi.
Þessi sólarvon brást
því eingöngu sást
einmuna þokan í Húnavatnshreppi.

23.07.2008 14:02

Með smá hjálp frá vini

    Nú er runninn upp miðvikudagur sem ber með sér engan Glugga. Þetta minnir svona á sjónvarpslausu dagana í "den" þegar menn urðu að finna sér eitthvað annað gera en horfa á sjónvarp. Ég man ekki hvort það var eitthvað erfitt því ef í harðbakkann sló þá gat maður bara talað við sína nánustu.

    Nú er lokið eftirminnilegri helgarferð til Húsavíkur þar sem ég sá Hvöt tapa fyrir Völsungi í knattspyrnu og Hjalta vinna hjarta Húsvískrar eðalstúlku. Það ætti hverjum manni að vera það ljóst að seinna dæmið er greipt inn í mitt hjarta og mun verma það um ókomna tíð og ræði ég það ekki nánar hér.


 
    



Hitt er annað mál að um Hvöt og Völsung er hægt að ræða af hæfilegu gáleysi og niðurstaðan í því máli öllu saman er við það að hverfa úr huga mér. Mig langar aðeins að ræða þennan leik út frá mínum sjónarhóli. Hvernig það er að vera einn á móti öllum í þingeysku lofti. Eftir að við hjón Margrét og ég ásamt nokkrum öðrum höfðu lokið kvöldverði á Sölku var haldið á knattspyrnuleik. 
    Í upphafi er rétt að geta þess að Ásta Berglind ók móður sinni heim eftir kvöldverð því í mörg horn er að líta hjá tengdamóður fyrir brúðkaup. Ásta sat inni í bíl enda kalsamt veður en hún fékk ákúrur fyrir að þeyta horn bifreiðar okkar þegar að Hvöt skoraði. Þar sem ég og myndavélin erum nánast eitt ákvað ég að taka bara myndir á leiknum og fékk að skrölta um hliðarlínu átölulaust og tók nokkra myndir.


 
    
Þegar fyrri hálfleik var lokið var mér næstum lokið líka því ég fann ekki fyrir neinum stuðningi við mína menn í Hvöt þannig að ég fór með myndavélina upp í bíl og breytti mér í stuðningsmann Hvatar og færði mig upp á áhorfendasvæðið. Á örskotsstundu breyttist virðulegur eiginmaður, heimilisfaðir, afi og tengdafaðir í bandvitlausan stuðningsmann Hvatar. Lengi vel hrópaði ég hátt og hvatti mína menn hvað mest ég mátti og er ég ekki frá því að ég hafi átt drjúgan þátt í eina marki Hvatar. 
    Það er sérstök tilfinning að rísa svona einn upp gegn fjöldanum og halda á lofti sinni sannfæringu með tilfinningaþunga. Maður fær á sig alls konar glósur og þarf að þola margt misjafnt frá umhverfinu. Við þessu er alls ekkert að segja því val mitt var að standa með minni sannfæringu sem gekk þvert gegn sannfæringu fjöldans. Þegar seinni hálfleikur var hálfnaður, staðan 1:2 og allt gat gerst birtist mér óvæntur stuðningsmaður. " Afi erum við ekki þessir hvítu?" sagði einbeitt rödd lítils drengs sem togaði létt í vindjakkann minn. Jú Baldur minn svaraði ég um hæl. Hér var kominn sonarsonur minn sex ára og var af honum mikill fengur því hann hrópaði með afa sínum og hafa þennan unga svein sér við hlið við harðdrægar aðstæður var stórkostlegt. Bæði var það að þegar þessi ungi maður var kominn mér við hlið þá hættu glósurnar. Það mega húsvíkingar eiga að þeir hafa aðgát í nærveru sálar. Svo einnig það að finna fyrir einlægum stuðningi frá kjarkmiklu góðmenni. Þegar Hvöt fékk á sig klaufalegt mark undir lok leiksins og við sáum að ekkert nema tap blasti við urðum við daprir en gengum hnarreistir hlið við hlið út af leikvangi að leik loknum. Á leiðinni út af vellinum heyrði ég kallað " það var gaman að heyra rödd frá Blönduósi á vellinum" Þarna var þá kominn " gamall" Blönduósingur búsettur á Húsavík hún Anna Kristrún Sigmarsdóttir. Urðu með okkur fagnaðarfundir og héldum við síðan hvort sína leið út í húsvíska súldina, ég með árnaðaróskir í farteskinu og Anna með þá reynslu að hafa séð og heyrt léttgeggjaðan Blönduósing á Húsavík. 
    Allt sem hér að framan er ritað gefur lífinu gildi og finna fyrir stuðningi frá litlum dreng er mikils virði.

Ef hittir þú heitan Húsvíking
á Húsavíkurvelli.
Og bandbrjálaðan Blönduósing,
er bara von á hvelli.

En allt er gott sem endar vel.
Ekki er því að leyna.
Á hendur þínar allt mitt fel,
æ, þið vitið hvað ég meina.

16.07.2008 14:27

Í skýjunum

    


    Framundan í mínu lífi eru hamingjudagar. Hann Hjalti litli ætlar á laugardaginn að játast frammi fyrir Guði í Húsavíkurkirkju, heitkonu sinni Láru Sóleyju Jóhannsdóttur. Ég get notað flest nöfnin á Vökulögunum til að tjá tilfinningar mínar þessi dægrin. " Mér líður svo vel og lífið er fínt. Hlustum á lífið því allt sem ég ann er þrátt fyrir allt búið að fara nokkrum sinnum yfir Holtavörðuheiðina . Hvert fór sú þrá spyrja vinnandi menn á leið sinni inn í draumalandið. Lífið er yndislegt sagði skáldið forðum og því eru höfundar Vökulaga nokkuð sammála og ég þeim. Já ! Núna liggur mín leið brátt til Húsavíkur og þar skal haldið brúðkaup. Þetta gerist vart betra.Húnavakan var fín og á þeirri hátíð sveif góður andi yfir lýðnum. Dr. Gunni bloggar örlítið um frammistöðu Mercedes Club og segir að nýju þráðlausu græjurnar þeirra hafi svínvirkað og hljómsveitin "sándað" nákvæmlega eins og á nýju plötunni þeirra og segist hann bíða spenntur eftir fimmtu plötunni.

    Ef satt skal segja þá er hugur minn þessa dagana þó nokkuð upptekin af því sem framan er ritað þannig að andinn er nokkuð beislaður. Þetta leiðir til þess að maður verður svolítið sjálhverfur og töluverðar líkur á því að tryggir lesendur minnar síðu hafi ekki nennu í það að lesa bara, ég um mig frá mér til mín.

Ég sagður er sjálfum mér líkur,
og sáttur er ég sem slíkur.
Enda liggur mín leið,
björt bæði og greið
í brúðkaup til Húsavíkur.

    Með miklum rólyndisbrag og æðruleysissvip kom Rúnar inn um dyrnar með síðasta Glugga fyrir sumarfrí.

    Auglýst er eftir leikskólakennara við leikskóla Húnavatnshrepps.

    "Hefur þú skroppið fyrir Skagann nýlega" spyrja vertar í Skagaseli? Reyndar ætlaði ég fyrir Skagann nýlega en var stöðvaður af lögreglunni vegna þess að mun hættulegri húsdýr en hænur og aliendur voru á vappi fyrir utan dyr Skagabænda. Við Rúnar spyrjum í blásakleysi. Er þetta ráðlegt með skírskotun til sögu undangengina daga?

    Héddi og Óli skella hurðinni á eftir sér í Gretti og skunda í sumrfrí en knattspyrnudeildin hefur þó vit á því að minna á hágæða pappírinn harðfiskinn og lakkrísinn áður en dyr falla að stöfum.

    Spurningamerkið á vísu vikunnar og verður hún vafalítið lesin í Skagaseli einhvern daginn.

    En nú er komið að því að vísnahlé verði um stund en Rúnar vildi endilega koma þessari vísu að svona sem góðu veganesti inn í sumarið og það get ég sagt með sanni sem sólin á himinum skín að við lögðum sál okkar í hana:

Í fríið núna bull vort fer
sem við félagarnir sjóðum.
Um stundarsakir endir er
á orðagjálfri í ljóðum

11.07.2008 10:57

Þarna náðir þú góðri mynd

    " Þarna náðir þú góðri mynd " sagði hinn lagnalipri pípari Guðmann Steingrímsson sem betur er þekktur sem " Gúddmann " meðal pólskra samverkamanna. Ef grannt er skoðað þá víkur hinn lagnalipri ekki svo langt frá sannleikanum því myndin er bara bísna góð þó ég segi sjálfur frá. En þessi mynd var tekin um það bil sem hann var að sleppa úr kjallarnaum frá Sölufélags-Sigga sem nú leggur lokahönd á innréttingar í kjallarnum á Aðalgötu 11.




    
    "Gúddmann" var líka afar ánægður með það að hönnuðurinn Atli Arason annar kirkjueigendanna mætti með tæki sín og tól og hóf slátt á kirkjulóðinni. Það var orðið samdóma álit bæjarbúa að kominn væri næg slægja á kirkjujörðina og líkast til myndi það duga í viðhaldsfóður fyrir tvö til þrjú lömb. 
    Það var ekki nóg með það að Guðmann væri kátur með ástand mála því Atli sem einhver gálaus maður álpaði út sér að væri eins og "maðurinn með ljáinn" (átti að sjálfsögðu við sláttuorfið, ætlaði að vera fyndinn) )var einnig afar ánægður með að geta nú hafið slátt. Það er því ljóst að allir leggjast á eitt með það að gera bæinn fallegan fyrir helgina sem nú gengur í garð. Svona er Aðalgatan í dag.











09.07.2008 11:41

Í dag lyftist brúnin á bænum

    Margt býr í þokunni segir einhversstaðar. Við höfum þann einstæða hæfileika að gera gott úr öllum sköpuðum hlutum. Þegar maður veit af því að þvílík blíða hangir yfir manni í nokkur hundrað metra hæð þá segja menn bara " margt býr í þokunni." Þessi leiðinda rakapakki sem hangir yfir alla daga má geyma hvað sem er mér og mínum að meinalausu, en bara einhversstaðar annarsstaðar. Reyndar virðist þessi rakahaugur hanga yfir fleirum en okkur og ef satt skal segja þá veitir það mér örlitla huggun því þá þarf ég ekki að öfunda neinn, þá veit ég að við búum flest við svipað veðurborð. "Öfundin er nærandi og uppbyggjandi" og handviss er ég um að hún býr í þokunni eins og svo margt annað.
   En að allt öðru, en þó ekki. Núna fer Húnavakan að bresta á og þá fer maður ósjálfrátt að hugsa um veðrið, hvernig mun það verða. Mun hann blása og rigna um helgina? Hangir hann þurr eða verður einmuna blíða? Ef það verður þoka þá kemur Húnavakan til með að búa með öllu hinu í þokunni. Þó svo við íslendingar höfum þann einstaka hæfileika að gera gott úr flestu þá höfum við líka þann einstaka hæfileika að una okkur aldrei hvíldar í fríinu því aldrei má falla verk úr hendi. Þetta er arfur kynslóðanna, arfur hins fátæka manns sem þurfti hér áður fyrr meir á öllu sínu að halda til að komast af. Þegar maður er búinn að koma sér upp þessari líka fínu aðstöðu til að slaka á og hafa það "næs" þá þarf að mála þessa aðstöðu, snyrta og snurfusa þannig að þegar dagur er að kveldi kominn þá leggst maður örþreyttur til svefns og hefur ekki einu sinni haft tíma til að öfunda einn eða neinn út af einhverju, því til þess gafst einfaldlega ekki tími. 
    En gaman hafði ég samt af því í gær þegar ég var að mála skotið þar sem pallurinn minn nýji er. Þeir sem muna eftir hjónunum Sólrúnu og Sigvalda, þá er það að frétta af þeim að þau hafa komið afkvæmum sínum á legg að ég best veit. Eitt barna þeirra hann Sigtryggur (kallaður Siddi) sat í sólstólnum mínum
 






meðan ég málaði og lét fara vel um sig. Gaf mér auga öðru hvoru og Sólrún skrækti örlítið fyrst í stað en hætti því fljótlega þegar hún sá að þetta var bara ég. Þetta taldi ég hyggilegt hjá þessari skógarþrastarfjölskyldu því meðan hann Siddi litli sat þarna þá var nokkuð öruggt að Höskuldur köttur komst hvergi nærri. Ég veit ekki nákvæmlega hvar hinir fjölskyldumeðlimirnir eru þau Sigrún, Sigurlaug, Sighvatur og Sigurjón. Þau gætu verið í garðinum hjá Hauk Ásgeirs nú eða hjá henni Bebe, hver veit.

    Núna veit ég hver er munurinn á Hvatargöllum og Hvatargöllum. Þetta skýrðist endanlega í gær þegar Hvatarmenn í Hvatargöllum lögðu skjálftastrákana í Hveragerði að velli í knattspyrnuleik. Nokkrum dögum áður höfðu Hvatarpiltar sigrað Hattarmenn á Egilsstöðum. Sex stig í tveimur leikjum og það á útivelli er gallalaust.

    Birtist ekki Rúnar inn úr blátærum þokulausum miðvikudeginum svona líka léttur í lund með næstsíðasta Glugga sumarsins.

    Þegar við rennum augum yfir þenna glóðheita Glugga rekum við fyrst augun í öldunginn Sölufélag A-Hún. Við ætluðum að byrja á vísu í tilefni þessara tímamóta sem byrjaði eitthvað svona: "Í hundrað ár hafa fallið tár yfir dánum lömbum", en hættum snarlega því við vorum ekki klárir á því hvernig Siggi í Sölufélaginu tæki þessu.

    Það verður opið í Vínbúðinni en lokað hjá VÍS og svo ætla menn að hlaupa heil ósköp á Húnavöku.

    Kjötsúpuferð Neista á bjarndýraslóðir, upplýsingar veitir Angela. Er þetta nú ekki fullmikill " riskí bissness". Þegar kjötsúpuilminn leggur um bjarnarslóðir þá rennur bangsi strax á lyktina. Það sem gæti orðið félögum Neista til bjargar frá birni er að súpan verði góð og vellyktandi og félagarnir verr lyktandi en súpan.

    En endum þetta á ljúfum nótum og skemmtum okkur vel á Húnavökunni. Göngum hægt um gleðinnar dyr og bægjum allri þoku frá hvort heldur hún er huglæg eða norðlæg.

Í dag lyftist brúnin á bænum
Í blátærum norðan blænum
Því þokan er flúin
Var orðin lúin
Ég sá það á lognkyrrum sænum.

Þegar sólin skín yfir sænum
og sútin hverfur með blænum.
Senn er Húnavaka,
sýnast fuglarnir kvaka.
Nú brosa menn breitt í bænum.

04.07.2008 11:31

Til hamingju Blönduós með 20 árin



Blönduós bærinn við ósinn




    Til hamingju Blönduós með 20 ára bæjarafmælið. Ég man það eins og það hefði gerst í gær þegar þessi tímamót urðu í samfélaginu okkar. Jóhanna Sigurðardóttir var þá ráðherra sveitastjórnamála og kom í heimsókn til að fagna þessum atburði með okkur. Bæjarstjórnarfundur var haldinn í Félagsheimilinu og komu margir bæjarbúar til að fylgjast með. 
    Ég man að það var fallegt veður og ég man að við fórum með Jóhönnu ráðherra út í Hrútey og ég man að einhver bæjarfulltrúa þurfti að ýta undir ráðherrann svo hann mætti ná hæsta tindi Hrúteyjar því stiginn góði var ekki kominn. 
    Ég man að Gestur heitinn Þóra söng við fánastöngina sem stendur fyrir framan stjórnsýsluhúsið og var gjöf frá nágrana sveitarfélögunum. Já ég man þetta eins og þetta allt hefði gerst í gær. 
    Sú tilfinning sem er tengd þessum viðburði er fyrst og fremst gleði. Það var eftirvænting í loftinu og maður hafði á tilfinningunni að við værum að verða stór. 
    Ég man að það var veisla á Hótelinu um kvöldið þar sem margir fluttu ræður og ég man að við Hilmar heitinn þökkuðu almættinu fyrir það að Hörður Ingimarsson þekktur sveitastjórnarmaður úr Skagafirði flutti stutta ræðu sem hann átti ekki vana til. 
    Já við eigum afmæli í dag og enn er mörg verk að vinna og bak við þokuna sem umlykur okkur í dag bíður sólin og blíðan í eftirvæntingu til að umvefja okkur á afmælisdaginn.

PS. Það var fáni dreginn að húni á flaggstönginni sem Blönduós fékk að gjöf frá nágrönnum sínum 4. júlí 1988. Þann 4. júlí 2008 kl 13:05 var enginn fáni við hún á þessari sömu stöng. Kannski verður flaggað seinna í dag í tilefni tímamótanna?

02.07.2008 11:05

Hégómi, gallar og Jónmundur

    Að skrifa eða skrifa ekki, er sama og að segja eða segja ekki neitt . Ég velti oft vöngum yfir því hvort sé betra. Eftir langa yfirlegu hef ég komist að því að á þessu er enginn munur. Ef ég þegi þá segir það ákveðna sögu um mig allt eftir því hver hlut á að máli. Ef ég segi, þá vita allir sem það heyra hvað við er átt nema menn kjósi að misskilja það. 
    Þessa heimasíðu heimsækja dag
hvern um 90 einstaklingar að meðaltali og fyrir þær heimsóknir þakka ég. Á bak við skrifin sem birtast á síðu þessari er þó nokkur vinna og myndirnar úr samfélaginu eru ekki síður tímafrekar. Ekki met ég gerðir mínar út frá magni heimsókna en það skemmir ekki að einhverjir hafi af þessu örlítið gaman. Ég er ekkert öðruvísi en flestir menn svolítið hégómlegur, en því er ekki að leyna að ég hef töluverðan metnað og þó nokkra gleði í brjósti til þess að túlka samfélag mitt frá degi til dags og reyni að fremsta megni að draga fram í dagsljósið, broslegu og jákvæðu hliðarnar á tilveru okkar. Í lífi sérhvers manns eru plúsar og mínusar og ef allt fer eins og gott bókhald gerir ráð fyrir þá á niðurstaðan að vera í kringum núllið. Þessi viðleitni er svona eins og örsmá spor í fjörusandinn sem við vitum að nýjar öldur má burtu svo aðrir fái svæði til að skrá hugrenningar sínar. En á þessari síðu fæ ég að spora fjöruna eins og vit mitt leyfir og í því er fólgið frelsi, ábyrgð og ánægja. 
    En segjum eitthvað! Ég rakst á þessa færslu eftir Berghildi Árnadóttur frá Ísafirði um daginn þegar ég gúgglaði orðið Jónmundur í Kambakoti:

"... Ég semsagt fór í sumarfrí í júlí og tók krús um landið í leit að sjálfri mér og nýju lífi, var búin að keyra allt landið þvert og endilangt þegar ég að lokum er að keyra á fullu farti í gegnum Skagafjörðinn á sólríkum sunnudagsmorgni, vill svo heppilega til að vinstra afturhjólið á bílnum svoleiðis hvell springur!! kabúmm!! og ég held áfram að keyra og stoppa ekki fyrr en ég sé eldglæringar standa afturúr bílnum... var að hlusta á Whitney Houston af mikilli innlifun og tók ekki eftir neinu.
    Jæja, ég sit þarna í vegkantinum og er að baksa við að ná felgunni undan, já dekkið var horfið, bara felgan eftir eða allavega hluti af felgunni var eftir, eiginlega bara boltarnir... jæja ég var að skrúfa þá af þegar ég sé í fjarska koma aðvífandi Massey Ferguson árg 1990 með spoiler, mismunadrifi, ABS bremsum og spánýjar öxulhosur! ég fékk tár í augun þegar ég sá manninn sem steig út... Hann kinnti sig, sagðist heita Jónmundur og kæmi frá Kambakoti!
Ég kikknaði í hnjánum, hann er á sjötugsaldri en virkilega spengilegur miðað við aldur  smá gallaður samt með eiginlega ekkert hár en góð sál samt sem áður... hann hélt á mér upp í Fergusoninn og keyrði heim að bæ og gaf mér að drekka...
    Við fundum strax að við eigum að vera saman að eilífu, tja.. hans eilífð er nú að verða búinn þannig að jæja! 
    Svo á hann fullt af pening og alveg 100 rollur, tvær beljur og einn hest, fjós og hlöðu...og alveg hreint fínasta hús, ég hef fundið mig, ég hef fundið ástina og nýtt líf á Kambakoti :o)
    Ég hef ákveðið að flytja til Jónmundar að Kambakoti í september, ég á eftir að lifa í vellystingum þegar hann fellur frá og það verður ekki langt þangað til ;o) Allt fyrir ástina gott fólk!!" (innskot mitt: Vertu ekki of viss Berghildur)

    Þá er búið að taka ákvörðun um hvar ísbjörninn frá Hrauni eigi að vera til sýnis. Að sjálfsögðu í Hafíssetrinu, hvar annarsstaðar. Skagfirðingar heimtuðu strax Þverárfjallsbjörninn og hefðu aldrei gefið hann eftir. Nú þegar menn felldu annað dýr á Skagatá þá geta þeir sýnt víðsýni og benda með stolti á nágrana sína í vestri og segja. Auðvitað eiga Blönduósingar að fá björninn því þeir eru að berjast við að koma upp sérhæfðu safni um hafís og hvítabirni. Afbragsmenn Skagfirðingar og standa með nágrönnum sínum í vestri.

    Kemur nú ekki Rúnar og það fyrir hádegi í þessu líka fína veðri með sextán síðna Gluggann sinn. Kennir þar margra grasa líkt og venjulega og allt með, til þess að gera, kyrrum kjörum að okkur sýnist.

    Það er kominn sumarbragur á Gluggann og það sjáum við best í því að allir eru að fara að loka vegna sumarleyfa.

    Það á að fara að bjóða út jarðvegsskipti vegna nýbyggingar sundlaugar. Við Rúnar gleðjumst í hjarta okkar og íhugum sterklega að fjárfesta í endingargóðum sundfötum því það kostar mann 270 kr að leigja sundskýlu hjá Mumma á Bakkanum þannig að maður þarf ekki nema að mæta 10 sinnum í sund þá er maður búinn að borga upp skýluna.

    Maður er búinn að heyra svo mikið um vöruúrvalið eða vöruskortinn í Samkaupum að undanförnu að þreytandi er orðið. Því gladdi það mig ósegjanlega að sjá auglýst í Glugganum að enn er hægt að fá 6 kjúklingabita, franskar og 2 l af kók fyrir aðeins 999 kr. Það var einmitt þetta sem mig vantaði.

    Mikið assskoti getur maður verið fljótur á sér þegar maður bregður augum á síðu og sér orðið Hvatargallar. Hvernig á maður eiginlega að útskýra mál sitt á prenti svo vel sé, til að koma til skila muninum á göllum og göllum. Við erum ekki í nokkrum vafa um það að það er þó nokkur galli í leik meistaraflokksliðs Hvatar í knattspyrnu því þeir tapa nú hverjum leik á fætur öðrum. En við gerum okkur grein fyrir því að það að vera í góðum galla í nöprum vindi getur verið mikið þarfaþing.

    Svo er þetta spurningarmerki sem er farið að yrkja í Gluggann. En við Rúnar ortum eftirfarindi vísu gersamlega ógallaðir og í þvílíku sumarskapi sem glöggir lesendur að sjálfsögðu sjá:

Við erum svo léttir og ljúfir í skapi
af lífsgleði einni við tröllum með tröllum.
Um gengna helgi var gnístan og krapi
svo gallaðir "pældum" í (H)hvatargöllum.



25.06.2008 14:14

Haglabyssa, hjólhýsi og Arnargerðishundar

    Nú er sumar og sól í hámarki og svo er líka með lífið hjá þeim Sólrúnu og Sigvalda. Fyrir þá sem ekki vita þá eru þau Sólrún og Sigvaldi þrastarhjón sem eiga sér hreiður í garðinum hjá mér og hef ég greint frá lífi þeirra hér fyrr í pistlum. 
    Af þeim hjónum er það að frétta að komnir eru ungar í hreiðrið, fimm að mér best sýnist. Í fyrradag voru þeir ansi glærir og umkomulausir en í gærkvöldi voru þeir orðnir til muna þroskameiri. Það er gaman að hafa þessi hjón í garðinum og fylgjast með lífshlaupi þeirra. Það er hægt að standa framan við heimili þeirra og ræða við þau um hætturnar í lífinu og þau hlusta og hreyfa sig lítt. Það er hægt að fara með háværa sláttuvél í kringum tréð sem þau búa í og Sólrún rétt bregður sér af hreiðri augnabliksstund ef ég rekst með vélina utan í tréð. 

                                    Afkvæmi Sólrúnar og Sigvalda



    Núna vökva ég mikið í kringum tré þeirra hjóna til að reka ánamaðkana ofar í jarðveginn þannig að þau Sólrún og Sigvaldi eigi léttara með fæðuöflun. Það er fyrsta flokks þjónusta á Árbraut 12 fyrir þresti. Höskuldur nágrannaköttur er okkar helsta ógn og erum við hjónin farin að tala um það að sofa í svefnpoka fyrir neðan tréð hjá þeim til að verja bústað þeirra. Ekki er því að neita að maður hefur leyft ýmsum andstyggilegum hugsunum að skjótast upp í kollinn hvernig verjast mætti Höskuldi en þar sem þessi heimasíða er fyrir alla fjölskylduna þá ræði ég þær ekkert frekar.

    Ólafur Þorsteinsson er Gluggadreifir núna vegna þess að Rúnar er fjarverandi vegna sumarhúsadvalar. En þó Rúnars sé sárt saknað þá er Óli með helstu tíðindin. Tíðindi sem segja okkur örlítið um sýslusálina og hverju hún má eiga von á.

    Bæjarstjórn Blönduóss hefur ráðið refaskyttur til starfa og mega þær einar drepa refi innan bæjarmarka. Ekki er enn búið að ráða bjarndýraskyttur og samkvæmt reglum er öll meðferð skotvopna innan bæjarmarka óheimil nema með leyfi bæjaryfirvalda. Mér finnst bæjarstjórn taka nokkuð mikla áhættu í þessu eða er kannski öllum frjálst að skjóta bjarndýr ef það birtist og þá með vísan til laga um það að hver maður má verja sig ef á hann er ráðist.

    Í framhaldi af þessarri hugleiðingu þá er auglýsing í Glugganum þar sem auglýst er til sölu hjólhýsi og haglabyssa, reyndar ekki alsjálvirk en þó með kíki. Er þetta ekki kjörið fyrir fjölskyldur sem ferðast um svæðið. Konan ekur bifreiðinni en karlinn og börnin hafast að í hjólhýsinu. Karlinn vopnaður byssunni, við öllu búinn og börninn geta til dæmis lesið söguna um birnina þrjá eða Bangsímon.

    Það er graðhestur í gæslu hjá Birni á Hólabaki. Er þetta barasta ekki bjarndýrið sem skildi eftir sig spor fram á heiðum um daginn. En hvað sem öllu líður þá er það engin lygi eða glannaskapur að segja að það er Björn á Hólabaki og til þess að gera meinlaus en hefur yfir að ráða þó nokkru landrými.

    Gaman að sjá að Erlendur yrkir áfram þó svo hann sé fluttur á Blönduós. Þetta er bara enn eitt dæmið um það að það er ekki svo hættulegt að setjast að á Blönduósi þar sem við Rúnar og Nonni hundur búum. Skemmtileg myndlýsing hjá honum í vísu vikunnar þar sem segir að áin renni eins og hver efst af bergi háu. Þarna á Elli við það að þegar árnar renna niður hlíðar í norðanbálinu þá skefur af þeim líkt og hvera reykur stigi til himins.

    Hvatar pappírinn og Domusgengið eru á sínum stað og segja okkur það eitt að allt er í lagi í þeim herbúðum. Ekki er verið að selja ofan af mér en Domus er farið að selja gröf, ég meina gröf með stórum staf og á því er töluverður munur. Eftir að ég áttaði mig á þessu þá létti mér stórum því umræðan í þjóðfélaginu er komin á það stig að maður er farinn að halda að annað hvert fyrirtæki og heimili í landinu sé á leið í gröfina í efnahagslegu tilliti.

    Hér er að lokum vinsamleg ábending til þeirra sem koma til með að verja okkur fyrir ágangi refa í sveitarfélaginu:

Þótt velbúnar skyttur vopn sín af kostgæfni mundi
og veiðar á refum af kappi og forsjálni stundi.
Þá er þörf sem menn sjá,
að þekkja muninn vel á,
þéttbýlisref og Arnargerðishundi.

18.06.2008 15:22

Karen, Karen!

    Það er ekki einfalt að vera fréttaritari á Íslandi ef ísbjörn gengur á
land hálfum mánuði eftir að samskonar dýr hefur verið fellt og lögreglan
verið skömmuð blóðugum skömmum fyrir að þyrma ekki lífi þess. Yfirvaldið
verður afar vart um sig og leggst í þvílíka vörn að engu tauti verður við
komið. 
    Ég ræfillinn lagði eins og nokkrir aðrir vopnaður myndavél út á Skaga í
fyrradag til að festa bangsa á örflögu. Það var sama hvað reynt var til að komast
inn á svæðið, svarið ávallt hið sama, hreint nei. Reyndar var einhverjum útvöldum hleypt í námunda við björninn en það var aðeins Skagafjarðarmeginn. Allt var lok lok og læs við Víkur, Húnavatnssýslumeginn. Ég verð að játa það að ég var hundfúll yfir þessum viðbrögðum yfirvalda því ég vissi ekki til annars en ég hefði á mér sæmilegt orð í samskiptum við lögreglu við fréttaöflun í
gegnum tíðina. En auðvitað vita sérfræðingar og yfirvöld hvað taugar ísbjarnar
þola og einn blár RAV í fylgd með björgunarsveitarbíl fram hjá þessu dýri var
eitthvað sem var "tú mödds". 
    En nú er ljóst að ekki verða teknar fleiri myndir af þessu bjarndýri lifandi því bangsi var hræddari við sérfræðinga og yfirvöld en fljúgandi áhugasama ljósmyndara frá Blönduósi (ég get ekki nefnt mig í þessu samhengi því mér var ekki hleypt í námunda við björninn).
Það er ætíð gott að vera vitur eftirá og nægir að nefna hagfræðinga landsins sem vita nú allt um hvernig bjarga hefði mátt efnhagskreppu heimsins. En það var vitað að Bjössi gæti drukknað í Atlantshafinu í svefnrofanum ef hann yrði deyfður of nálægt hafinu. Það vantar í embættismannakerfið ævintýraeðli og örlítin húmör. 
    Auðvitað átti að leyfa lýðnum að fara fyrir Skagann og ég tala nú ekki um
Víknafólkinu sem þurfti að fara Þverárfjallið heim frá Akureyri og eyða fyrir
bragðið mun meira af dýrmætri orku en ætlað var til að komast heim. Ef við hefðum fengið frjálsan aðgang að náttúru Íslands þá hefði hvítabjörnin þurft að
laga sig að lífinu í landinu og annaðhvort lagt land undir fót eða haldið
til hafs á ný. Niðurstaðan hefði orðið spennandi hvort heldur björninn hefði
haldið til norðurs eða suðurs. En niðurstaðan er fenginn. Björninn er dauður
fyrir það eitt að yfirvaldið fór á taugum. Menn verða að hafa mikið
sjálfstraust og sterkar taugar til að höndla aðstæður sem þessar en það má
virða yfirvöldum það til vorkunnar að yfirmenn umhverfismála á landi hér er
mikið í mun að fá jákvæða umfjöllun í öðrum löndum um það hversu meðvituð við erum um umhverfisvernd og þrýstingur þaðan mikill sem og frá fjársterkum
aðilum sem tilbúnir eru að leggja fram vænar fúlgur til að baða sig í
umhverfisvæna ljósinu.
Núna syng ég bara "Karen, Karen" í sjálfsáfallarhjálpartilgangi, en það voru einmitt stúlkur sem báru þetta nafn sem fyrstar sáu hvítabirnina. Báðar voru þær nægilega ungar til að bera í brjósti ævintýrið um hið óþekkta. Báðum var ekki trúað í fyrstu og svo komu hinir fullorðnu með allt vitið og klúðruðu ævintýrinu um birnina tvo. 
    Hvað skildi Jón Sigurðsson afmælisbarn dagsins sem björninn dó hafa hugsað ef hann hefði lifað. Og til að ljúka þessu máli þá vil ég endilega að næsta Karen sem kemur auga á ísbjörn hringi fyrst í mig áður en löggan nær að loka öllu aðgengi að ævintýrinu (862 3250).

    Jæja þá er Rúnar kominn með Gluggann inn úr sólinni. Það má lesa úr þessu 24. tölublaði að dagar hátíðanna eru runnir upp. Nægir að nefna harmonikkuáhugamenn og sumarhátíðina Bjartar nætur. Sögusýning verður á Þingeyrum og svo má fá 52% afslátt af blandi í poka hjá N1.

    Skyldi Domus gengið vera hætt við að reyna að selja ofan af mér? Það hefur enginn auglýsing um það mál birst í Glugganum að undanförnu. Meðan það ástand varir þá veit ég að þeir Nonni og Stefán eru ekkert á förum.

    Brynjar Bjarka ætlar að kenna krökkunum golf í sumar. Það get ég fullyrt og sagt hér að Binni er mesti prýðispiltur en hann hefur einn stóran galla en það er að hann heldur með Everton. Ef hann fer eitthvað að nefna það lið á nafn við ykkur krakkar þá er bara best að fara í það að skyggnast eftir ísbjörnum.

    Við Rúnar tökum undir það með Rúnari á Skagaströnd í vísu vikunnar að leið bangsa á Hafíssetrið á Blönduósi er torsótt og hefur enginn björn náð þangað lifandi. Hér er átt við bjarndýr að sjálfsögðu.

Frásagnir þær sem við færum í letrið
fjalla um birni og Nonna tetrið.
En við þráum það mest
sem færi hvað best,
að bangsi kæmist á hafíssetrið.

    Í tilefni af því að Gústi P er kominn í bæinn þá vildi ég fá Rúnar til að yrkja litla sjóferðabæn til handa Ívari Snorra útgerðarmanni og áhöfn hans. Þar sem Rúnar í Lindarhvammi 1 hefur fengið aukið útsýni til hafsins eftir að Verslunafélagshúsið var rifið hefur hann legið í norðurglugganum og skimað eftir ísbjörnum og er vita gagnslaus við yrkingar nú um stundir.

17.06.2008 20:23

Alþýðunni takmörk sett (Fúll fréttaritari)



    Í leit að ísbirni við erfiðar aðstæður daginn fyrir þjóðhátíð er ekki einfalt mál. Hér má sjá bæinn Víkur sem er nyrsti og líklega austasti bær í A-Hún. Ef litið er nokkurn veginn beint yfir íbúðarhúsið (í miðri mynd) í Víkum þá má sjá glytta í vitann á Hrauni og þar var lifandi björn þegar þessi mynd var tekin.


    Þegar komið var niður brekkuna hjá Víkum þá blasti þetta við. Skagfirðingasveit var mætt til að fylgja eftir skipunum valdhafa í stóra ísbjarnarmálinu. Það get ég sagt með sanni að ég átti skemmtileg samkipti við það ágæta björgunarsveitarfólk sem skipaði áhöfn þessa bíls. Þau gerðu allt sem þau gátu til að liðka fyrir gamla fréttaritaranum frá Blönduósi og fannst líkt og mér ósanngjarnt að ég fengi ekki líkt og aðrir blaðamenn aðgang að Hrauni. 
Þegar mér var ljóst að nærveru minnar var ekki óskað varð ég að nota ónotað svæði á minniskorti myndavélarinnar á leiðinni heim.



    Hér má sjá mann sem fékk svipaðar móttökur og ég og hann ákvað að nota minniskortið sitt til að taka mynd af bænum Víkum. Maður hefði svo sem getað gert eitthvað úr þessari ferð fyrst maður er álitinn slík bjarnarfæla en því var ekki til að heilsa því vinir mínir í Víkum voru allir á Akureyri þennan dag. Fór ég við svo búið hundsvekktur heim í hávaðaroki, lítilsvirtur en þó ekki öllum lokið.
    Bara svona til að storka örlögunum og athuga hvort skaparinn hefði ætlað mér að fjúka í þéttingsvindi fram af Króksbjargi eftir árangurslausa tilraun til að ná mynd af hvítabirni tók ég þessa mynd rétt við Krókssel þar sem styst fram af bjarginu



    Þarna fljúga fuglar frjálsir yfir kolmórauða tjörnina vestan við Króksel alls óafvitandi um flugbannið við Hraun. Auðvitað sjá það allir að hérna skrifar hundfúll og sársvekktur fréttaritari á heimleið sem hefur verið hafnað af þeim sem hann hafði trú á. Bévíti!
En til að enda þetta á hvítu nótunum, jákvætt og sáttur, þá var tjaldsvæðið á Blönduósi alhvítt yfir að líta áður en ég náði heim í síðbúinn kvöldverð og við það að hrista af mér höfnunartilfinninguna. Það má víða sjá hvítu bregða fyrir og skjóta án þess að deyða það.




11.06.2008 14:41

Sagan af Sólrúnu og Sigvalda

    Margur hefur af því reynsluna og hana misjafna að sjá sér og sínum farborða. Á þessum síðustu og verstu tímum hefur orðið æ þyngra að tryggja fjölskyldunni athvarf án þess að sökkva í órætt skuldafen. 
    Skógarþrösturinn veit ekkert hvernig gengið sveiflast, orkuverð hækkar og hlutabréf falla. Hann veit það eitt að hlutverk hans á leikvelli lífsins er að skila til framtíðar afkomendum sem halda áfram að snæða ánamaðka, reyniber og halda köttum heimsins í náttúrulegri villidýrsþjálfun. 
    Þau Sólrún og Sigvaldi skógarþrestir í garðinum mínum á Blönduósi hafa komið sér upp fallegu heimili í fallegu bjarkartré og eiga von á afkomendum áður en mjög langt um líður. Þeir sem til þeirra hjóna þekkja telja að heimilið sé ekki nógu hátt frá jörðu og aðgengi Höskuldar nágrannakattar sé til þess að gera einfalt. En hvað vita þeir sem allt vita um veraldleg gæði hvort þau Sólrún og Sigvaldi hafi staðið rétt að málum. Það á eftir að koma í ljós en júní lofar góðu og úr mörgu er að velja fyrir ketti bæjarins. Kannski verður þessi þrastarfjölskylda farsæl, við sjáum hvað setur.

    Hér á eftir fylgir smá bænarljóð til handa Sólrúnu og Sigvalda já og okkur Möggu líka, því ótti okkar við Höskuld kött og mátt hans í lífríki fugla er mikill:

Hún býr hjá okkur hún Sólrún með Valda.
Hefur þar skjól fyrir norðaustan kalda.
Í hreiðri eru egg
sem ég trú mína á legg
að brátt verði að ungum sem lífinu halda.

    Nú er búið rífa verslunarfélagshúsið á Aðalgötunni. Með því er horfið eitt sérstæðasta hús í bænum og þó víða væri leitað. Mér var alltaf vel við þetta hús og þótti það súrt að það þyrfti að hverfa. Þetta hús hafði í mínum hug sál, sál sem hafði aðlögun að leiðarljósi. Það sést best á því að húsið var lagað að Aðalgötunni og var á sínum tíma eins og Tilraun, útvörður Blönduós þegar fólk kom að sunnan inn í bæinn á leið sinni norður. En ekkert er eilíft undir sólu og þetta hús er farið og það var orðið illa farið og ekki hægt að ætlast til þess að nokkur fjármagnaði endurgerð þess.

    Húnahornið hefur allt á hornum sér í dag og erfitt að komast þar inn og sjá hvað þar er um að vera. Það hefur oft nýst mér vel að geta kíkt þar á Gluggann og byggt smá beinagrind sem við Rúnar hengjum síðar einhverja misjafna bita á. Nú er því ekki að heilsa.

    Þá er Glugginn loksins kominn og Rúnar með.

    Það vekur strax athygli að þjóðhátíðarhöldin verða á hinu nýja torgi Blönduósbæjar og skrúðgangan leggur af stað frá Sölufélaginu í stað Héraðshælisins eins og verið hefur um langa tíð. Við Rúnar veltum því fyrir okkur hvort að hestamennirnir í Neista sem hafa umsjón með herlegheitunum, hefðu lesið auglýsinguna frá SAH þar sem fram kemur að vanti m.a. hross til slátrunar og því talið gráupplagt að skilja hrossin eftir í Sölufélaginu og ganga svo fylktu liði þaðan og á torg hins himneska friðar. En hvað sem því líður þá erum við félagar himinhrópandi glaðir yfir þessari breytingu á tilhögun hátíðarhalda, því þótt Brautarhvammur sé indæll þá er hjarta bæjarins ekki þar.

    "Verð að vinna í Stekkjardal" er fyrirsögn á auglýsingu. Þar kemur fram að hægt er að fá bót hinna ýmsu meina og er m.a. nefnt að bregðast megi við vandamálum eins og mislöngum fótum. Það skaustst svona eins og augnabliksmynd fyrir hugskotsjónir okkar Rúnars hvort ekki væri hægt að bjarga þeim sem væru með mislagðar hendur.

    Kirkjan er nokkuð fyrirferðamikil í Glugga vikunnar og er það vel því það er eindreginn stefna okkar Rúnars að Guðsótti og góðir siðir séu hverjum manni hollir og gott veganesti inn í framtíðina.

    Hestamannfélagið Neisti fær rós í hnappagatið frá okkur Rúnari þessa Gluggvikuna fyrir einstaka samræmingarhæfni:

Í sláturhús er stefnan sett,
með stóðmerar og hesta.
Svo þrömmum við í þéttum sprett
til Þjóðhátíðargesta.

04.06.2008 15:21

Ef !

    Mikið hefði nú verið gaman ef hvítabjörninn hefði sloppið inn í þokuna og týnst í svona vikutíma. Hálfur mánuður hefði verið í lagi. Þá hefði verðið lýst yfir viðbúnaðarstigi, lögreglan skömmuð miklu meira heldur en fyrir drápið á birninum og allir verið í nettri spennu. Stöðugur straumur fólks hefði verið norður til að reyna að koma auga á dýrið. Vignir Björns og félagar hefðu getað skipulagt gönguferðir inná Skagaheiðina og þjóðfélagið hefði um nóg að tala. "Skelfilegar" reynslusögur hefðu orðið til og nagandi óvissan um hvar og hvenær dýrið myndi birtast hefði orðið hreint dásamleg. 
    Ævintýraferðir á ísbjarnarslóðir hefði hljómað um allt og við hér á norðvesturlandi komist í sviðsljósið í mun lengri tíma. Ferðamannatímabilið hefði hafist með glans. 
    Þegar Bjössi hefði svo fundist  og menn verið búnir að ná svona einhverjum áttum um framtíð hans þá hefði kröftug rödd Blönduósinga getað hljómað til heimsbyggðarinnar: " Ísbjörninn á heima á Blönduósi! Hér er flóinn sem við hann er kenndur! Hér er sýslan sem kennd er við hann og hér er Hafíssetrið!" Hugsið ykkur bara ef hann hefði fengið að lifa og gista hér á Blönduósi í sumar í gamla bænum í leikskólagirðingu frá Krák. Vignir Björns hefði getað veitt einn og einn sel handa honum og svo þegar vetur gengi í garð þá yrði hann sendur með varðskipi að ísröndinni og sleppt þar og kannski komið aftur næsta vor hver veit? Okkur Þór Jakobs hefði líkað það vel ef saga hvítabjarnarins hefði orðið á þennan veg. En sagan varð ekki svona. Nú er Bersi allur og hvílir nú helfrosinn á Króknum og ef ég þekki nágranna mína í austri rétt þá gefa þeir bjarnarhaminn ekki svo létt eftir til okkar hér í bæ hafíssins. 
    Ísbjörninn okkar í Hafíssetrinu hefur alltaf komið norður á vorin og horfið aftur til síns heima með haustskipum og líkast til verður svo áfram, nema ??.!!? . Ég trúi ekki öðru eða að minnsta kosti vil ekki trúa öðru en þessi fallni nágranni sem var á leið vestur á bóginn fái hér framtíðarheimili. 
    Læt hér fylgja með smá athugasemd sem birtist hjá "Hundfúlum" á skagafjordur.com sem kannski undirstrikar hvar Ísbjössi á að vera til frambúðar. "Auðvitað hefur þessi ísbjörn verið útsendari frá Blönduósingum til að grobba sig af sigrinum á Tindastólsmönnum í bikarkeppninni (Hvöt vann 5:0). Þeir hafa sent hann upp á Þverárfjall eftir leik og sagt honum að dilla sér framan í Króksarana. Herra Hundfúll sér í gegnum svona dörtí trikk..." Og svona í framhjáhlaupi Hvöt mætir Fram á Laugardalsvelli í bikarnum, seinna í mánuðinum.

    Hún var alveg " brillíant" hugmynd Seyðfirðinga að flýta klukkunni um tvo tíma yfir sumartímann. Þó það yrði ekki nema klukkustund sem klukkunni yrði flýtt þá yrði það til mikilla bóta. Þjóð sem ver megin hluta ævi sinnar í skammdagi á rétt á því að njóta meiri frítíma í sól og sumaryl en hún gerir og með því að flýta klukkunni þá getur sá draumur ræst. Villi Egils var með þessa hugmynd fyrir nokkrum árum og fékk ætíð bágt fyrir en Villi vildi vel og við hljótum að geta gert þetta eins og aðrar þjóðir. Þarna gæfist mörgum sem áhugasamir eru að fylgja Evrópusambandinu í einu og öllu tækifæri á að fylgja því, í það minnsta einu. Kýlum á þetta og frelsum þjóðina úr ánauð skuggans. Komum út í sólskinið og njótum lífsins því þetta snýst bara um að breyta stillingunni á vekjaraklukkunni.

Mér finnst það beint út í bláinn
að blessaður karlinn með ljáinn.
Skuli taka þátt í,
já vera valdur að því
að vesalings björninn er dáinn.

    Glugginn er nú bara frekar á rólegu nótunum þessa vikuna. Fundir með bændum og íbúum. Kannski verður farið yfir það á íbúafundinum hvernig bregðast eigi við, ef og þegar ísbjörn kemur í bæinn.

    Dagar stóðhestanna eru hafnir og tónleikar verða bæði á Blönduósi og í Skagafirði. Ekki veit ég hverjir þeir eru Jón Svavar og Sveinn Dúa, söngvararnir sem ætla að koma fram í Blönduóskirkju á laugardag og enn síður undirleikarinn hún Guðrún Dalía.

    Ekki má gleyma Andrési með fötin en hans minnist ég sérstaklega fyrir það að hjá honum var iðulega hægt að fá þokkalegar peysur með heilu eða "rúnnuðu" hálsmáli og úr efni að mínu skapi.

    Svo má alls ekki gleyma stórsýningu hjá Krák og Domusgenginu og Dalton bræður verða í Félagsheimilinu. Svona er nú lífið fyrir botni Húnafjarðar.

    Rúnar er svona eins og Glugginn á rólegu nótunum og alveg grábölvað að kvelja út úr honum vísu.

En samt gæti vísan verið eitthvað á þessa leið:

Klukkan er þvílíkt að þvælast í Jóni,
er þvaðrar hann látlaust í símann.
Á Fjallinu ísbjörn varð fyrir tjóni,
og drepa vilja menn tímann.

02.06.2008 14:08

Sláttur ekki hafinn á hótelinu

Ég rak augun í það að á mbl.is að sláttur væri hafinn í Eyjafirði og gladdist ég í hjarta mínu yfir gæsku Skaparans í veðurfarslegu tilliti. Veðrið hefur einnig leikið við okkur sem þessa sýslu byggjum og eru allflestir þéttbýlisbúar búnir að slá garða sína í það minnsta tvisvar og sumir jafnvel þrisvar.
Einn er sá staður í þéttbýlinu þar sem sláttur er ekki hafinn en það er á Hótelinu. Sjálfsagt liggja einhverjar ástæður að baki því og veit ég um gæðakonur hér í bæ sem hugsa hlýlega til þeirra hótelmanna sem gefa fíflunum tækifæri til að blómstra, ná kynþroska og fjölga sér á þessu lofandi sumri.

30.05.2008 09:28

Fyrstu grágæsarungarnir komnir á kreik

    Þá eru fyrstu grágæsirnar búnar að koma sér upp ungum á þessu vori. Þessar gæsir spókuðu sig í kvöldsólinni í gær og stóðu þéttan vörð um afkvæmi sín. Þegar undirritaður nálgaðist forðuðu þær sér með ungana út í Blöndu. Það er næsta víst að á næstu dögum fer gæsunum á Blönduósi að fjölga svo um munar. 
    Það verður spennandi að fylgjast með því hvort eða þegar grágæsin SLN birtist með unga sína en það hefur gerst árlega kringum 1. júní frá árinu 2000 það ég best veit. Þessi gæs hefur glatt íbúa í Flúðabakkanum í allt vor en líkast til heldur hún sig við árbakkann fyrstu ævidaga unganna og rennir sér síðan niður Blöndu undir brúnna og ver sínum tíma lengst af austan ár og bítur gras í Fagrahvammi.
    Hér fyrir neðan má sjá tvö fyrstu grágæsarpörin með unga sína. Það er svolítið gaman að sjá þegar ungarnir eru komnir í heiminn hvernig gæsirnar standa saman en þær eru eins og hundur og köttur í tilhugalífinu.
Fyrstu ungarnir 2008

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 40
Gestir í dag: 7
Flettingar í gær: 246
Gestir í gær: 12
Samtals flettingar: 64698
Samtals gestir: 11487
Tölur uppfærðar: 2.5.2024 06:26:53