Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

03.06.2009 14:55

Meira vítamín í Kobba og Addý komin á flot


   
     Sumarið er komið í gamla bæinn og þar með Aðalgötuna. Ívar Snorri er búinn að koma Addý sinni á flot og fékk Sibba á Skagaströnd til liðs við sig. Hafíssetrið var opnað í í gær og er Hraunsbirna komin á safn við hæfi. Þá er sérstök ánægja að segja frá því að hótelið er komið á fullt undir styrkri stjórn Bryndísar Sig. Þar fer kona sem er beinablíð og sko alls engin bjáa. Það er smá tilbreyting í því að sjá fólk frá fjarlægum löndum rölta um Aðalgötuna í bland við Stefán og Nonna hund.
     Þó svo lífið komist á annað og skemmtilegra plan hér við Aðalgötuna þá vegnar ekki vel hjá hótel þrastarhjónum. Fyrst fauk hreiðrið þeirra sem þau höfðu gert undir gervihnattardisknum og síðan hreiðrið sem þau voru búinn að gera í þakrennu á vesturhlið hótelsins. Það er eins og hótelið hafi skipt um hlutverk. Það er hætt að vera fuglabjarg en hefur breyst í skjól fyrir ferðalanga.
     Mannshöndin er merkilegt fyrirbrigði. Stundum iðar hún af lífi, skapar og fegrar. Svo getur hún tekið upp á því að gera ekki neitt þótt verkefnin hreinlega æpi eftir kröftum hennar. Þetta geta menn séð við austurenda Aðalgötunnar. Seint í vetur og fram á vor fóru skapandi mannshendur um Aðalgötu 2. En núna þegar sumar gengur í garð er þessi sami endi götunnar farinn að líkjast okkar ástkæra Draugagili. Spýtnabrak og bílhræ eru farin að byrgja mönnum sýn út yfir Blöndu. Þó svo ég sé pínu pirraður yfir þessu þá veit ég að nafni minn Jón Sigurðsson hundur setur þetta ekkert fyrir sig því ég veit að hann fúlsar ekki við því að míga utan í þetta allt saman á ferð sinni um Aðalgötuna.
 
    Ég sagði fyrir skömmu frá fyrirbrigði sem ég kallaði dúmmkraft og er á góðri íslensku, tjakkur. Ein ágæt kona sem reyndar býr á Brekkunni og þekkir vel til tjakka, snittvéla og rörtanga benti mér á að "dúmmkraftur" væri bara tóm vitleysa í mér. "Það er orðið dúnkraftur sem þú áttir að nota í skrifum þínum" sagði hún. "En, Oddný! Á sænsku og dönsku er talað um dumkraft" sagði ég mér til varnar og vildi ekki gefa mig í fyrstu tilraun. "Þetta fyrirbrigði heitir nú samt dúnkraftur" sagði konan á Brekkunni  með enn meir þunga og bað mig vel að lifa. Ég get svo svarið það að ég "gúgglaði" orðið dúmmkraftur áður en ég skrifaði umrædda grein og niðurstaða leitar var sú að ekkert orð fannst. Ég "gúgglaði" orðið dúnkraftur þegar konan á Brekkunni var farin og mér til, æ þið vitið, ekki beint vonbrigða, en stoltið svolítið sært kom í ljós að konan á Brekkunni hafði rétt fyrir sér. En ég fer ekki ofan af því að dúmmkraftur er miklu kröftugra og trúverðugra orð yfir þetta öfluga verkfæri sem í daglegu tali er nefnt tjakkur.

     Við skulum núna hverfa aftur um 20, 30 ár og skoða svona eins og tvær myndir frá þessum góðu gömlu dögum þegar allt var svo miklu einfaldara í sniðum.
Fyrst er hér mynd af tveimur heiðursmönnum í ferð skógræktarfólks um A-Hún fyrir nokkrum árum í tengslum við skógræktarþing.

Þetta eru að sjálfsögðu Árni Sigurðsson fyrrv. sóknarprestur og Sveinbjörn Beinteinsson Allsherjargoði


Mátti til með að koma hér með eina mynd af hinum landsþekkta Birni Pálssyni fyrrv alþingismanni frá Ytri -Löngumýri. Björn var með skemmtilegri mönnum á þingi a.m.k. sagði hann það sjálfur

     Núna í þessum töluðu orðum skoppar Rúnar inn úr sumarblíðunni með sjö dægra tíðindin falin í Glugganum. "Ég kem ekki næsta miðvikudag því nú ætla ég í frí" riður Rúnar út úr sér án þess að anda. "Hvað er þetta! Þú getur nú skrölt yfir til mín með svona eins og einn Glugga og við rýnt í hann" segi ég svona með smá trega í röddinni. "Ég kem nú ekki bara frá Finnlandi til þess eins að bulla með þér" svaraði Rúnar um hæl. "Alveg rétt" segi ég og rifjast allt í einu upp fyrir mér að þeir karlakórsmenn í Bólstaðarhlíðarhrepp hinum forna ætla að fara og syngja fyrir finna í næstu viku.
 http://www.huni.is/files/3/20090604094058870.pdf

     Margra grasa kennir í Glugga vikunnar. Sjómannadagur, sumargaman hjá börnunum. Skagfirskar konur ætla að syngja og framhaldsskólarnir berjast um blessuð börnin sem nú eru nýútskrifuð úr 10. bekk.

     Anna Árna er komin í bjórinn í vísu vikunnar og telur að hann kunni að bæta hag bænda. Í því sambandi bendir hún á það að nautin á Hundastapa eru hífuð dag og nótt. Eitthvað rámar okkur Rúnar í það að rannsóknir í Skotlandi hafi leitt það í ljós að  hífðaður karlpeningur sé ekki til neinna afreka en einhversstaðar höfum við heyrt það að hóflega drukkin kona gleðji mannsins hjarta. Þetta seljum við ekki dýrara en við keyptum.

     Elli kom meðan við vorum að sjóða þetta saman (þið vitið Kobbi og Elli). Ég sagði si svona. "Var þetta ekki ábyggilega Elli? "Jú" svaraði Rúnar að bragði og bætti við" Ef þetta hefði verið Kobbi þá hefði verið meiri fyrirferð á honum. Ég held að það sé meira vítamín í honum." Þá vitið þið það, Rúnar veit hvað hann syngur.  Ef þið hittið tvíburabræðurna Kobba og Ella og vitið ekki hvor er hvað þá er meira vítamín í Kobba.

     Við Rúnar ákváðum að enda þennan pistil í dag á sérstæðu limruformi sem við erum ekki vissir að sé til. Sé svo ekki þá höfum við fundið það upp. Rétt er að koma með smá ljóðaskýringar fyrir þá sem ekki þekkja til þeirra persóna sem að getið er í "extra large" limrunni og kemur hún á eftir

Konan hans Hauks heitir Tobba.
Hunda má finna hjá Robba.
Því er ekki að leyna
að vítamín greina
í sundur þá sveina,
tvíburabræður þá Ella og Kobba

   Haukur þessi er hitaveitustjóri RARIK og kona hans heitir Þorbjörg er kölluð Tobba. Róbert Daníel Jónsson er hundamaður og vinnur í íþróttahúsinu. Þetta ágæta fólk hefur ekkert annað til saka unnið en ríma á móti Kobba.  Kobbi og Elli eru áður kynntir til sögu.


27.05.2009 14:36

Fjörulallar og þyngdarlögmálið

    Eitt af því sem mér er sagt endrum og eins er það að ég sé ekki gallalaus. Það eru ekki margir sem segja þetta við mig augliti til auglitis. Það eru helst mínir nánustu sem láta svona orð sér um munn fara og það sem bjargar því að það fjúki ekki í mig er að ég er geðgóður og umburðalyndur maður.

    Eitt er nokkuð oft sagt en það er að ég sé nokkuð þver og eigi erfitt með að taka sönsum, þó svo, takið eftir, að annara mati, vaði ég villu og svíma. Ef satt skal segja þá lít ég á þennan eiginleika sem kost því þó svo manni verði einhvern tíma á að hafa ekki algjörlega rétt fyrir sér er mikilvægt að hafa skoðun, trú á henni og fylgja henni eftir, því hvað er ein vitlaus ákvörðun innan um margar góðar. Það eru allt of margir sem snúast í marga hringi og vita ekkert hvert eigi að stefna og horfa með vonaraugum til nýjustu skoðanakannanna í von um lausn.

    Ég lenti í kröppum dansi í umræðunni um mitt eigið ágæti eigi alls fyrir löngu. Það er þannig að ég álpaðist fyrir einhverja tilviljun inn á samskiptasíðuna Facebook og þar kynnist maður ýmsu fólki. Til dæmis hafa nokkur gömul skólasystin úr Laugarnesskóla grafið mig upp nú eða ég þau, allt eftir því hvort var á undan.

    Málið var það að ég varpaði einhverju fram svona í hálfkæringi og sköpuðust um það líflegar umræður. Kemur þá ekki allt í einu gömul (jafngömul mér) skólasystir inn í umræðuna og rifjar upp sögu þar sem ég í barnaskóla gerði heiðarlega tilraun til að afneita þyngdarlaögmálinu. Sagði hún að ég hefði gengið svo langt að leggja til vaskafat og fyllt það vatni og sagt svo fólki bara að bíða því þegar jörðin færi að hallast þá myndi vatnið að sjálfsögðu renna úr vaskafatinu. Eins og ykkur má kunnugt vera þá fór vatnið ekki úr vaskafatinu og það þurfti þó nokkuð til hjá okkar ástsæla kennara Jóni Frey Þórarinssyni að sannfæra lítin dreng af Laugarnesveginum um að við myndum haldast kyrr á jörðinni þrátt fyrir töluverðan snúning. Ég er ennþá svolítið efins um þetta lögmál þ.e.a.s. þyngdaraflið því margir fara út af sporinu endum og eins og líka er það að sumir fara á svo mikið flug að erfitt getur verið að hemja þá á jörðinni. Mér kemur stundum í hug limmra eftir Hermann heitinn Jóhannesson þar sem hann fjallaði um þingmenn og þyngdarlögmálið:

Að hreykja sér hátt, það er siður
sem hér má sjá oft, því er miður.
Það er glæsilegt oft
er menn gnæfa við loft,
en það er verst ef þeir ná ekki niður.

    Þrátt fyrir þessa niðurstöðu í málinu þá sýndi ég þarna staðfestu og var tilbúinn að leggja ýmislegt í sölurnar fyrir málstaðinn. Eða eins og einhver ágætur maður sagði "yfir litlu varstu trúr yfir mikið skal ég setja þig" Einhverjir eru sjálfsagt tilbúnir að ræða um hversu mikið ég var settur yfir en nóg um það.

Má þó til með að segja eina litla sögu frá þeim tíma þegar ég var yfir byggingarnefndina settur. Þetta var á þeim tíma þegar verið var að byggja hreinsistöð fyrir fráveituna. Hreinsistöðin stóð við götu sem hét ekki neitt og því var erfitt að samþykkja byggingu við götu sem ekki var til svo ég lagði til að götuslóðinn sem hreinstöðin stendur við yrði kallaður Fjörulallastígur og það bókað þannig og sú bókun fór fyrir bæjarstjórn og brjóstið á henni líka. Okkur í bygginganefnd fannst nafnið hreint út sagt kjörið, eftir að ég var búinn að segja henni frá fjörulöllum og hegðun þeirra við sauðfé á fengitíma (sjá þjóðsögur Jóns Árnasonar) . Fólk sem labbaði Fjörullallastíg gæti lesið um förulalla og fengi um leið skemmtilega ónotalegan skrímslahroll í sálina og kroppinn. Í stuttu máli þá er enginn Fjörulallastígur til á Blönduósi en ég hef heyrt að þeir á Bíldudal ætli að hefja fjörulalla til vegs og virðingar ásamt fleiri þekktum skrímslum úr þjóðarsögunni. Þannig er þetta nú bara.

Á æskuárunum mínum var í mér þó nokkur kraftur,
því allt sem fór upp, ég taldi að kæmi ekki niður aftur.
En á þessum síðustu og verstu dögum er allt önnur öldin.
Einnota, margsaga fræðingar hafa hér handsamað völdin
og höndla með krafta sem aðeins þolast á kvöldin.

Ég hugsa oft um það ef væri í mér ennþá æskunnar kraftur,
að einhenda draslinu öllu upp í loft svo kæmi það ekki aftur.
Þá væri á þessum síðustu og bestu dögum, allt önnur öldin.
Afburða stjórnsýsla, ástúð og kærleikur væru við völdin,
aldnir, ungir og allt þar á milli, áhyggjulaus færu kát út á kvöldin.

Núna ein gömul og góð frá 1985


    Einar Ingvi Þorláksson, Hannes Guðlaugsson, Jón Espolín Kristjánsson, Halldór Rúnar Vilbergsson, Svavar Jónsson og Þórir Jóhannsson

    Kemur nú ekki blessaður drengurinn hann Rúnar inn úr hálfkýjuðum hversdeginum með tíðindi vikunnar þrykkt í meðalþykkan Gluggann. http://www.huni.is/files/3/20090526191957114.pdf

    Það er allt að gerast! Heimilisiðnaðarsafnið, Hafíssetrið með ísbirnuna frá Hrauni hefja sumarstarfsemina núna um helgina. Við Rúnar auglýsum enn og aftur eftir brú á ós Blöndu til að tengja saman söfnin og höfðum til heitisins á sýningunni á Heimilisiðnaðarsafninu "Hring eftir hring".

    Við Rúnar setjum stórt spurningamerki við vísu vikunnar. Ekki fyrir bragfræði, heldur innihaldið. Svo er það góður siður að setja stafina sína undir yrkingar hverju nafni sem þær nefnast. Nafnið Hlustandi finnst okkur ekki vera rétt undirskrift heldur væri Gapandi gúli meira við hæfi

    Ægir frá Móbergi? spurði ég Rúnar og rak upp stór augu! Er hann ekki frá Stekkjardal spurði ég áfram? Las áfram og í ákafanum missti ég af orðinu stóðhestur og undraðist það að Ægir yrðir hafður í hólfi í Stóradal sem er nú næsti bær við Stekkjardal og tekinn af honum tollur. Þetta er oft hættan þegar sögur fara af stað að þær geta byggst upp af því að maður gleymdi einu orði en oftar er það nú vegna þess að bætt er inn orði sem aldrei var.

    Við Rúnar erum kátir því opna á aftur kaffihúsið Við árbakkann á föstudaginn og tilboð verður á öli fram til kl 23. Tveir fyrir einn þannig við Rúnar getum mætt og verður það öðrum okkar að kostnaðarlausu. Alltaf að græða.

    Við Rúnar höfum nú alltaf haft það fyrir sið að setja ekki nein horn í þá sem minna mega sín í samfélaginu en við vitum að heimilismenn á sambýlinu hefðu ekki orðað auglýsinguna frá Félagsþjónustunni með eftirfarandi hætti: "Starfið felur í sér að aðstoða fólk með fötlun við athafnir daglegs lífs". Þeir hefðu einfaldlega sagt: Starfið felur í sér að aðstoða fatlað fólk við dagleg störf". Þannig er nú það.

    Og svona að lokum þá skiljum við ekkert í Hjalta meindýraeyði í Huldugilinu á Akureyri. Við höfum viku eftir viku fært rök fyrir því að það eru ekki allir sem vilja fluglaust sumar. Hjalti minn! Mundu eftir blómunum, maríuerlunum, silungunum og öllum þeim sem gagn hafa og gaman af þessum vængjuðu skordýrum.

    Þá er bara amenið á eftir efninu eftir:

Eyðing á flugum, þýðir að þær munu deyja
Þessi pistill er búinn, ekkert meira að segja
Rúnar svo fer
Sit einn eftir hér
Svona er stríðið sem við þurfum að heigja.  

20.05.2009 15:47

Af dúmmkrafti og hugarfari

    Dúmmkraftur er merkilegt fyrirbrigði. Þetta er svona tæki sem gerir nánast hverjum sem er mögulegt að hefja á loft hlut sem er margfallt þyngri en hann sjálfur, t.d. bíl. Sumir kjósa að nota orðið tjakkur yfir sama hlut en það skiftir ekki máli í þessu samhengi. Jákvætt hugarfar er einnig merkilegur eiginleiki. Hann gerir manni kleyft að hefja á loft nánast hvað sem er og komast hvert sem er. 
    Þekkt er sagan um manninn sem sem varð fyrir því óláni að það sprakk hjólbarði á bifreið hans skammt frá sveitabæ nokkrum. Svo illa vildi til að dúmmkrafturinn hafði gleymst heima svo hin óheppni bílstjóri hugsaði með sjálfum sér. "Ég fer bara og fæ lánaðan dúmmkraftin hjá bóndanum á bænum" og lagði af stað til bæjar. Þegar okkar maður var um það bil hálfnaður hugsaði hann með sér. "Það skyldi þó aldrei fara svo að bóndinn lánaði mér ekki dúmmkraftinn þegar ég kem? Jú, auðvitað hlýtur hann að gera það" og heldur áfram leið sinni. Þegar hann á 500 metra ófarna til bæjarins skýtur niður í huga hans óþægilegri hugsun. "Það er nú bara ekkert víst að bóndinn vilji lána mér dúmmkraftinn þeir eru víst svo andskoti nánasarlegir þessir bændur. En ég trúi samt ekki öðru en hann láni mér nú dúmmkraftinn þrátt fyrir allt; annað getur bara ekki verið" og hélt áfram síðasta spölinn. Þegar hann stendur loks á hlaðinu á bænum, taka á móti honum heimilishundurinn og nokkur forvitin börn. Ökumaðurinn spyr börnin um bóndann á bænum og innan stundar stendur gæfulegur bóndi frammi fyrir hinum ólánsama bílstjóra. Á þessari stundu var hann orðinn svo sannfærður um að bóndinn myndi ekki lána honum dúmmkraftinn að hann sagði um leið og þeir hittust á hlaðinu. "Þú getur átt þinn andskotans dúmmkraft sjáfur" og strunsaði til baka sömu leið og hann kom. Já! dúmmkraftur og hugarfar eru merkileg fyrirbrigði.

    "Höfum við gengið til góðs götuna fram eftir veg" spurði Jónas Hallgrímsson í ljóðinu Ísland á sínum tíma. Ég hygg að flestir myndu svara þessari spurningu neitandi í dag. Um ástæðuna þarf ekki að fjölyrða og margir eru þeir sem dæma og draga ályktanir um ástæður og eru skoðanir skiptar. Þegar fram líða stundir og við horfum á hlutina úr fjarlægð er ég ekki frá því að önnur mynd muni blasa við. Mér datt þetta í hug þegar ég las fréttina á mbl.is í gær um það hve gott gæti verið að ganga afturábak, fjarlægjast hlutinn án þess að missa af honum sjónir. "Hugsunin verður skýrari ef gengið er aftur á bak. Þetta er niðurstaða rannsóknar hollenskra vísindamanna. 
    "Þurfi maður að takast á við alvarlegt eða erfitt verkefni getur það skerpt heilastarfsemina að ganga aftur á bak," segir vísindamaðurinn Severine Koch í bandaríska ritinu Psychological Science." Svo mörg voru þau orð.

    Það er eins og heimurinn hafi ekkert að gera þegar maður sér Erlend Magnússon í heimspekilegri ró fyrir utan heimili sitt á Brislóðinni. En fyrir þá sem ekki þekkja til á er Brimslóðin fyrir neðan Aðalgötuna og hefur að geyma húsin við hafið.


    Í gær rakst ég á þennan ágæta mann og heimurinn beið á meðan við spjölluðum saman. Hann var búinn að taka tvö hross í fóstur fyrir Helga nokkurn Jónsson sem sumir kalla Helga Ho Ho og tengist líklega eitthvað hestamennsku hans. Þetta voru brúnblesóttur, glaseygður hestur og líkast til rauð meri. "Helgi lánaði mér hrossin til að halda niðri grasinu og svo þegar hrossaskíturinn þornar þá myl ég úr honum" sagði Erlendur áður en ég náði að spyrja hann nákvæmlega að því sem hann svaraði. " Helgi ætlar taka hrossin í dag og lána mér þau aftur seinna í sumar" bætti hann við. Allt í einu fór heimurinn í gang að ný. Farsíminn hringdi og allt í einu var ég farinn að tala við mann í Reykjavík. Ég labbaði aftur á bak suður Brimslóðina og tók síðan stefnuna á Aðalgötu 8 með nefið á undan.

    Ja hérna hér, kemur nú ekki hann Rúnar með nýjasta Gluggann. Skyldi hann vera þykkur eða rýr þ.e.a. s. Glugginn. Veðrið var gott og allt lék í lyndi þegar hann kom.

    Þegar við vorum að setja okkur í stellingar þá birtist í dyrunum Björn bóndi á Kurfi. Hann var í sjöunda himni, því hann var nýkominn heim úr velheppnaðri bændaferð. Við spurðum hann náttúrulega í framhaldi af þessu hvort einhverjir heimamenn hefðu verið með honum í för og svarið var stutt og laggott. "Nei".

    Legsnyrtirinn okkar ástsæli Hávarður Sigurjóns kemur með þarfar ábendingar til þeirra sem annast minnigamörk í kirkjugarðinum.

    Jónas Travel Group rær á dáðadjúp í vísu vikunnar sem að þessu sinni er eftir Rúnar á Skagaströnd.

    Annars er mikið um að vera í Glugganum og þar af leiðandi í héraðinu þó Glugginn sé ekki sé þykkur. Hér gildir sem fyrr og annarsstaðar að ekki fara alltaf sam magn og gæði.

    Og síðast en ekki síst þá eru kartöflugarðarnir tilbúnir og við Rúnar hvetjum alla sem útsæði valda að koma með stunguskóflurnar sínar í Selvíkina og gera garðinn frægan og uppskera eins og þeir sá.

    Það verður spennandi að sjá garðálfana hennar Hrafnhildar í blómabúðinni. Skyldu þeir líkjast álfinum út úr hól henni Jóhönnu forsætis.

    Því verður ekki logið að hér hefur verið þvílík ös og örtröð að annað eins hefur ekki sést í langan tíma. Hér hafa komið landsþekktir hagyrðingar sem nákvæmlega ekkert gagn var af og má þar nefna Gísla á Mosfelli og Sigurjón frá Fossum en við Rúnar börðum þetta saman í lokin næstum þrotnir kröftum.

Margt er það sem miður fer
því mikið er að gera.
Andlaus er nú andans her
og ónýt skáldapera.

Ps

Engar gamlar myndir í dag vegna anna.

13.05.2009 15:04

betri er beygluð baga en engin

    Frægð okkar Blönduósinga hefur aukist til mikilla muna. Við höfum eignast ráðherra sem fer fyrir sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum í landinu. Það eru ekki svo mörg ár síðan Jón Bjarnason þá þingmaður vinstri grænna flutti með dívaninn sinn inn í einu blokkina í bænum. Þá hafði nýverið verið farin kynnisferð um bæinn með eldri borgara á Hofsósi þar sem fram kom hjá leiðsögumanni að í blokkininni byggju aðeins farandverkamenn og aðrir þeir sem minna mættu sín í samfélaginu. Það kom svo á daginn að í blokkinni bjuggu m.a. þingmaður, læknir og tæknifræðingur og fleiri íbúar sem áttu vel til hnífs og skeiðar. Menn höfðu af þessu nokkuð gaman að Jón skyldi teljast til þeirra sem minna mega sín í samfélaginu . Vegur Jóns Bjarnasonar hefur vaxið til mikilla muna frá því hann bjó þeirra á meðal því nú eigum við með Jóni Bjarnasyni Ráðherrabústað á Skúlabrautinni. Nú er hann kominn í forystusveit lýðveldisins Íslands og í augsýn eru ærin verkefni. Vonandi hefur veran í blokkinni gefið honum þá innsýn í heim hins stritandi og skuldum setta íbúa í blokkinni Ísland að til farsældar leiði. Í það minnsta þá óska ég honum og samstarfsfólki hans í framvarðarsveitinni farsældar í störfum. Ég bið góðan Guð að færa honum vit og kjark til að takst á við hin gríðarlegu verkefni sem við blasa því tvö af fjöreggjum þjóðarinnar eru í hans höndum.


RÁÐHERRABÚSTAÐURINN Á BLÖNDUÓSI

    

    Það er svona frekar rólegt í Aðalgötunni þessa dagana fyrir utan grjótflutningana og æðibunuganginn í vindinum. Ég rétt sé nafna mínum bregða fyrir og Fúsa gamla hund hef ég ekki séð. Talandi um Fúsa á Aðalgötu 2 þá hefur engin hreyfing orðið á gömlu innréttingunum sem hvílt hafa við sauðausturgafl heimili hans undanfarin misseri. Meira að segja hinn magnaði vindur sem leikið hefur við hvurn sinn fingur síðustu daga lætur spýtnahauginn í friði.

    Skógarþrösturinn sem er eini gesturinn á hótelinu hefst við í öruggu skjóli á bak við gerfihnattardiskinn og lætur sér fátt um vindinn finnast. (þessi fullyrðing átti eftir að breytast)

    Það er annars alveg stórmerkilegt að svona lítil dýr eins og þrestir og kríur skuli ekki hreinlega fjúka á norðurpólinn í þessu mikla vindi. Horfa á þessar litlu og léttu verur lyfta sér upp í vindinn og fara allar sinna ferða nánast eins og ekkert sé er aðdáunarvert. 
    Þetta skrifaði ég fyrir hádegi en núna í hádeginu fauk hreiður þrastarhjónanna og er mikil sorg hjá mér og þröstunum. En ég veit hvernig þeir vinna sem hafa óbilandi trú á lífið og tilveruna. Þeir byrja upp á nýtt og og horfa ekki um öxl, beygðir en ekki brotnir.

    Ég samdi lítið lag í gær um sumarið, sólina og sporin sem maður á vonandi eftir að marka næstu misserin. Ég man hljómana vel, G, C, D í grunnin og svo minnir mig að að ég hafi eitthvað hrært inn í viðlagið D molli. Ég raulaði þetta í að minnsta kosti klukkutíma og taldi mig vera kominn með lagið á harða diskinn í höfði mínu. Svo fór ég að leita að litla upptökutækinu mínu til að festa laglínuna á traustari stað. Rann þá ekki upp fyrir mér að tækið var í bílnum hjá konunni og þau bæði víðs fjarri. Ef satt skal segja þá fauk svolítið í mig, rólyndismanninn yfir eigin glópsku að ég hreinlega steingleymdi laginu. Í gær varð til lag og í gær glataðist lag. Ég huggaði mig við það að fyrst ég myndi það ekki eftir klukkutíma þrotlausa æfingu þá væri það nú ekki merkilegt. Ég hugsaði mikið um þetta og taldi að það myndi nú rifjast upp meðan ég grillaði pylsurnar úti á palli meðan ég horfði á Evróvision. En andsk.. vindurinn blés svo á grillið að það ætlaði aldrei að hitna og það tók óratíma að grilla og missti ég af mörgum lögum í Evróvisjóninni fyrir bragðið. Vindurinn fauk svo í mig að það varð til þess að lagið góða hreinlega fauk endanlega sinn veg en engu að síður náði ég að sporðrenna síðustu pylsunni með Jóhönnu Guðrúnu fyrir augum og lagið hennar í eyrum og mér hurfu öll leiðindi. Í gær var dagur til að skapa og líka til að tapa. Ég áttaði mig á því fyrir rest að tapið var mér sjálfum að kenna og nú hef ég ákveðið að láta vindinn og geðvonskuna sem vind um eyru þjóta og reyna aftur.

Núna kemur örlítill skammtur af gamla tímanum


Þarna má þekkja m.a. barnabarn Jóns Ísbergs, Dódó, Bobby, Hjalta ofl. undir stjórn Jóhanns Gunnars Halldórssonar heitins.



Björgvin kennari með reyklausa bekkinn sinn. Þarna m.a sjá Þórdísi, Gutta og marga fleiri


Í þessum skrifuðum orðum fýkur Rúnar inn úr dyrunum á Aðalgötu 8 með næfurþunnan Glugga í hönd. Hnúar hans eru hvítir af átökum við að halda Glugganum svo hann fjúki ekki út í veður og vind.

    Það gladdi okkur Rúnar heilmikið að sjá að það er auglýst eftir fólki til starfa. Það vantar starfsmann í Íslandspóst, Hafíssetrið og Húnavallaskóla. En það greinilegt að Hjalti meindýraeyðir les ekki pistlana okkar því hann er enn á því að allir vilji eiga flugulaust sumar. Við minnum enn og aftur á flugurnar og blómin og ekki má gleyma blessaðri Maríuerlunni sem þykja flugur hreinasta lostæti.

    Við Rúnar héldum í fyrstu að vísa vikunnar væri eftir Stebba Ólafs og að stafavíxl hafi verið við höfundarskráningu. Það stendur G.V. en við héldum að það ætti að vera VG sem að sjálfsögðu stendur fyrir vinstri græna. Og það sem fékk okkur Rúnar til að halda þetta voru lokaorðin í vísunni en þar segir "blessuð Ísafoldin" en eins og flestir vita heitir eiginkona, Stebba Erla Ísafold. Eftir að hafa rökstutt þetta svona vel eru við nokkuð vissir um að Stefán VG hafi ort vísuna.

    Eins og alltaf þá þarf að koma hlutunum í ljóðrænt velsæmishorf og það hefur oftar en ekki reynst okkur Rúnari erfitt en við gefumst aldrei upp og segjum eins og einhver sagði  "Betri er beygluð baga en engin"

Af gömlum bæði og góðum sið
gerum flest til bóta.
Veðurgnýinn látum við
sem vind um eyru þjóta.

06.05.2009 14:49

Vatnsberinn og hrúturinn standa með krónunni

     En og aftur lenti ég í því að geta ekki kíkt í tímaritið "Séð og heyrt" hjá Bryndísi í gær þegar ég fór í klippingu. Það sem þó gladdi mig var að aðrir gátu heldur ekki notið þess að gleypa í sig sögurnar af fræga og fína fólkinu meðan ég var klipptur. Það kalla ég huggun harmi gegn. "Jón Sigurðsson (57) sér aldrei Séð og heyrt  hjá Bryndísi (49)." Skyldi þessi fyrirsögn selja? Ekki gott að segja.

 
     "Höskuldur, vörður laganna (43) syngur sig inn í hjörtu verkalýðsins" hljómar meira "kúl". Og textinn yrði eitthvað á þessa leið  "Hér má sjá Höskuld lögregluforingja ásamt Elínu (44) vinkonu sinni á leiðinni að syngja fyrir örþreytta alþýðuna í félagsheimilinu þann 1. maí. Höskuldur stóð vörð um lögin og söng, alþýðan fagnaði og fór glöð heim."
     Ég áskildi mér rétt til þess að fjalla frekar um gæsirnar okkar hér á Blönduósi. Eitthvað virðist farið að þrengjast á varpsvæðum bæjarins því ég sá í fyrsta sinn í gær tvær gæsir á vappi inni á gömlu kirkjulóðinni. Þetta ágæta par hefur síðan þá fært sig yfir á lóðina til hennar Siggu Gríms og gerir sig líklegt til að hefja þar varp. Ekki veit ég hvernig minn ágæti nágranni tekur þessum nýju gestum í viðbót við grjótflutningamennina.
     Ég hef heyrt það utan af mér að búið sé að ráða nýjan hótelstjóra á Hótel Blönduós. Heimildir mínar frá því fyrr í vetur að búið væri að ráða annan Magnús til hótelstjórnar reyndust ekki réttar eða eitthvað farið úrskeiðis í þeim málum. En nú berst mér til eyrna að fyrrum hótelstjóri á Hvolsvelli hún Bryndís á bæjarsskrifstofunni hafi verið ráðinn til starfans og er næsta víst að þar hefur Óli Werners ratað á réttan mann að margra mati.
     Eins og áður hefur komið fram þá er ég í eðli mínu í peysufötum undir mína hrjúfa yfirborði. Þetta segi ég vegna þess að ég ætla að leggja því fyrirbrigði í íslensku samfélagi sem hefur fengið einna versta umtalið undanfarin misseri, lið. Það er blessuð krónan sem svo margir tala niður til og kenna henni um allar þær ófarir sem á þjóðinni dynja. Krónan er gjaldmiðillinn OKKAR, líkt og strákarnir eða stelpurnar okkar. Ekki dettur okkur í hug að tala hin síðarnefndu niður og naga af þeim skóna. Við erum stolt af þeim og stöndum við bakið á þeim. Öðru gegnir um blessaða krónuna. Helstu liðþjálfar ríkisins og legátar þeirra hamast við að úthúða krónunni og er alþýðan farin að trúa þessu. Það getur ekki annað verið en þessi dæmalausa króna sé uppspretta alls ills segir fólkið eftir margra mánaða illt umtal. Í mínum huga er krónan hæfileikarík og hefur allt til að bera til að gera góða hluti ef einhver hefur trú á því að fela henni það verkefni. Krónan er mælikvarði á það hvað við erum að framleiða og skapa í þessu landi og hvernig við komum því á framfæri. Árinni kennir illur ræðari og á það við um þjálfara krónunnar í þessu tilfelli. Ef þjálfarar og fyrirliðar krónunnar tækju nú upp á því að hvetja þennan lítilsvirta gjaldmiðil til dáða og þar með þjóðina er ég ekki í nokkrum vafa um að sú litla króna sem nú gengur smáð manna í millum hér á landi fengi aukið sjálfstraust og tæki til við að blómstra áður en langt um líður. Maður hendir ekki ósyndum manni í laugina og segir honum að synda til sigurs. Fyrst er að læra sundtökin, samhæfa huga og hönd og takast svo á við verkefnin í samræmi við það. Svo mörg voru þau orð og gætu orðið mikið fleiri en mér þykir vænt um krónuna, sólina, vorið, land mitt og þjóð.
     Fyrir utan gæsaparið á kirkjulóðinni, já og nýja hótelstjórann þá er það helst að frétta úr Aðalgötunni og nágrenni að Jón Sigurðsson hundur er við góða heilsu, grjótflutningar halda áfram og Krákur og Bjössi eru á fullu í nýja trésmíðaverkstæðinu í Krútthúsinu. Fúsa hund hef ég ekki séð en Jónas bauð upp á kaffi í Ljóninu þann 1. maí. Jónas var svo ánægður með viðtökurnar að hann sagði við mig. "Fullt út úr dyrum, þetta er komið til að vera." Og Jóhannes á Blöndubyggðinni er nú vopnaður malaskóflu og vinnur að jarðvegsskiftum við Aðalgötu 6b. og undirbýr hellulögn. Siggi er alltaf eitthvað að brasa í Þorsteinshúsi og þrösturinn er líklega orpinn í gerfihnattardisknum á hótelinu.

Núna nokkrar "gamlar myndir"


Hér er Bjarni Gaukur að dansa ásamt fleirum


Pétur Brynjólfs, Ragney, ?, Silla, Þórhalla, ? Sturla Þórðar situr líkt og Magga Skúla áhorfandi að leikritinu Stormi í glasi

     Þá klukkan er að slaga í tvö eftir hádegi kjagar þá ekki Rúnar með næfurþunnan Gluggann milli vísi- og þumalfingurs inn úr nöpru vorinu. Ávarpar Helgu hlýlega lætur hana hafa slatta af þunnum Gluggum og skondrar síðan inn í horn til mín með tvo Glugga. http://www.feykir.is/kualubbi/wp-content/uploads/2009/05/glugginn.pdf
     Lúðrasveitartónleikar og 10 daga frí hjá frú Flix er á forsíðu. Hvað skyldi Þórdís ætla að fara að gera í 10 daga?
     Það er spurningamerki sem yrkir vísu vikunnar. Við Rúnar teljum vísuna vera pólitíska og fjalla um ríkisstjórnina þar sem fjallað er um fley sem er á floti. Við erum ekki sammála því eins og fram kemur í vísu að einhver friður verði um þetta fley sem enginn veit hvert er að fara eða hvort það er að fara eitthvað eða hvort það fljóti yfirleitt.
     Á Hjaltabakka verður naglasérfræðingur  um helgina. Við veltum því fyrir okkur við Rúnar hvort fræðingurinn sé fjölmenntaður og ráði jafnt við tre- og fírtommu. En málið er að vera ekki búinn að naga á sér neglurnar áður en til kasta sérfræðingsins kemur.

Sundlaugin gamla segir nú bless,
sú nýja mun stíga á svið.
En svaka við þurfum að þrauka hress,
þar til nýjungin tekur við.
Varð okkur að orði þegar við lásum auglýsinguna frá bæjarstjóranum um eins árs sundlaugarskort á Blönduósi.
 
   En á eftir efninu kemur alltaf amen og þar sem Rúnar er hrútur og ég vatnsberi þá eigum við afar vel saman eða eins og Morgunblaðið segir: Vatnsberi og Hrútur heillast hvor af öðrum, enda trúa báðir statt og stöðugt á framtíðina. Báðir eru trygglyndir og öll sambönd þeirra á milli ættu að verða djúp og einlæg, hversu lengi sem þau endast. Hvorugur veltir sér uppúr gömlum misklíðarefnum og samkomulagið er yfirleitt mjög gott.
Þessvegna endum við pistilinn í dag sælir og sjálfumglaðir á þessum orðum:

Það  er alltaf  ósköp  gaman
Að sitja og blaðra hér saman
Það væri hreint útúr
Að velta sér uppúr
Hversu skrítnir við erum í framan.











29.04.2009 15:00

Vorgyðjan og hundalógík

    Miðvikudagur og dagurinn gengur sinn gang kvað skáldið á sínum tíma. Þetta virðist eiga við um þennan miðvikudag líkt og alla hina. Að hafa sinn gang er gangur lífsins og það er töluvert undir manni sjálfum komið hvernig sá gangur verður.
   Í gær byrjuðu þeir Borgarvirkismenn að aka grjóti í sjóvarnargarðinn fyrir neðan Brekkuna. Leið grjótflutningabíla mun eðli málsins samkvæmt liggja fram hjá mér á Aðalgötunni sem og fram hjá þeim heiðurshjónum Siggu Gríms og Eyjólfi á Brimslóðinni. Grjótið sem fer í garðinn er ættað frá Uppsölum og sama gildir um allt það grjót sem liggur í núverandi sjó- og brimvarnagörðum bæjarins. Hvað skildu vera komin mörg tonn af Uppsalalandi til Blönduós í gegnum tíðina.
   Þegar maður fer að hugsa um efnisflutninga hverskonar til Blönduóss fer ekki hjá því að leiða hugann að Torfalæk. Vart er til það græna svæði í bænum að það sé ekki ættað frá Torfalæk. Til að fara ekki út í langa sálma þá nægir að nefna íþróttavöllinn. Það er orðið drjúgt yfirborðið sem Blönduós hefur yfir að ráða sem er ættað úr Húnavatnshreppi hinum nýja. Þessi staðreynd ætti að vera gott innlegg inn í umræðuna um sameiningu sveitarfélagana því ekki geta þeir menn sem byggja Húnavatnshrepp borið fyrir sig að þeir þekkji ekki aðra hverja þúfu og stein í bænum.
   Hundalógík er skemmtileg lógík og þá á ég við hana í orðsins fyllstu merkingu. Þeir sem þekkja til skrifa á þessari síðu þekkja allvel til Nonna hunds og eiginleika hans. Það er annar hundur sem dvelur endrum og eins hér í Aðalgötunni. Hann heitir Fúsi og ég vissi það ekki fyrr en í gær að hann væri elsti hundur landsins. Það sagði Erlendur Magnússon mér að minnsta kosti. 23 ár hefur hann lifað og má glöggt sjá á svip hans að lífið hefur gefið honum reynslu. Ef maður horfir á hann einkum og sér í lagi í augu hans þá fyllist sálin trega og umhyggju. Hann hefur lifað lengur en ríkisstjórn undir forystu Sjálfstæðisflokksins og segir það sína sögu. Þessi tregasvipur Fúsa hefur ekkert vikið til hliðar þó svo Jóhanna Sigurðardóttir hafi komist til valda. Fúsi og Nonni hundar eiga sitt hundalíf á sínum forsendum og húsbænda sinna líkt og við hin.
   Ég hitti einnig í gær einn aldraðan Blönduósing sem lifað hefur níu tugi ára og rúmlega það. Imma Karls sem fyllti níu áratugina fyrir skömmu varð á vegi mínum og það get ég sagt með sanni að svipurinn á henni var mun djarfari en á Fúsa, það lá vel á Immu. Hún sagði mér að hún hafi gengið í gegn um margt í lífinu en það hefði aldrei náð að leggja þunga á sál né huga. Ég er nokkuð viss um að sá sem varðveitir gleðina í hjarta sínu og kastar jafnóðum út leiðindum úr sálarkistunum, leggur grunn að farælu lífi. Margt getur truflað þetta ferli en þessi grunnur er þess verður að byggja á.
En núna nokkrar myndir úr fortíðinni:


              Hér má sjá mikilvirka athafnamenn fyrir nokkrum árum þá Hjörleif Júlíusson og Vilhjálm Egilsson   Bjarnasonar frá Sauðárkróki




Hér eru á ferðinni merkir kappar úr yngri flokkum knattspyrnudeildar Hvatar. Ég á þarna einn son, Ámundi Grétar, Páll Ingþór Vignir, Gummi Ingþórs og vafalaust fleiri eiga þarna afkvæmi

"Þú markvissi miðvikudagur,
miðlægur, kemur og fer.
Þú máttugi miðvikudagur,
mættur ert hér hjá mér."
   Varð mér á orði þegar þegar ég sá Rúnar koma inn úr sunnan strekkings vindi með Glugga vikunnar í hendi. http://www.huni.is/files/3/20090429000323565.pdf
Nafni Rúnars sá  er á Skagaströnd býr rennir stoðum undir þá margþekktu kenningu í vísu vikunnar að konur og þögn fara ekki saman. "Því gegn því mælir sérhver sögn að saman fari kona og þögn" segir hann og við Rúnar horfumst í augu og lútum höfði.
   Ljón norðursins er vaknað eftir vetur og opnar fyrir gesti og gangandi þann fyrsta maí. Jónas Skafta býður kjarakjör á barnum og svo geta menn (enn og aftur, konur eru líka menn) sungið með undirleik stórsveitar, ekki amalegt það. Það er komið vor, ljónið er vaknað.
   Maggi á Hnjúki ætlar selja hitakútinn sinn. Hann treystir því sem haft var eftir öðrum okkar, sérstaklega mér að vora myndi snemma á Hnjúki en hann er ekki eins viss um að svo muni vera hjá öðrum, sérstaklega sauðfjárbændum þessa lands. Nú er spurningin þessi. Hver mun kalla á kútinn á Hnjúki?
   "Vilja ekki allir eiga flugulaust sumar?" spyr Hjalti meindýraeyðir í Huldugilinu. Við Rúnar erum klárir á því að svo sé ekki. Til að mynda maríuerlan, skógarþrösturinn og hver á að bera frjókornin á milli blóma. Það er ekki einfalt þetta líf.
Auður Andrésar og Arður frá Brautarholti hljóma svo velsældarlega í eyrum. Takið eftir því hvað eitt ell skiptir miklu máli í samhengi hlutanna.
   Auður og Arður eru auglýst í Glugganum og aldrei að vita hverju þau skila í veraldlegu tilliti.
   Vorgyðjan sem Karlakór Reykjavíkur ætlar að koma með norður í 15 gráðu hita úr súldinni fyrir sunnan er á baksíðu Gluggans en Ljón norðursins er á forsíðunni. Þetta eitt kallar á ljóðræn hughrif sem gætu hljómað eitthvað á þessa leið


Hér vorgyðja svífur úr suðrænum geim
og Skaftasons ljónið býður þér heim.
Svo kemur kórinn
strax oní bjórinn
og syngur oss kvæði með glaðbeittum hreim.

22.04.2009 15:10

Slóða- og vísnagerð í vetrarlok

    Síðasti sumardagur er ekki hafður í eins miklum hávegum og síðastidagur vetrar. Og vetradagurinn fyrsti er ekki sá dagur sem skátar arka um víðan völl und blaktandi fánum bláir af kulda líkt og á sumardaginn fyrsta. Hvað skyldi standa í veginum. Hitaveitur hafa fulla ástæðu til að halda upp á þessi tímamót sem og rafveitur, 66 gráður norður sem og félag umfelgunarmanna. Enski boltinn er allan veturinn og veit ég ekki betur en margir hlakki til að fylgjast með honum. Kvenfélög, kórar og ég veit ekki hvað og hvað hefja starfsemi sína af fullu. Jól, áramót og þorrablót eru yfirleitt á vetrum að minnsta kosti hér á norðurhveli jarðar.  Hversvegna er ekki haldið upp á vetrardaginn fyrsta? Spyr sá sem ekki veit en tilefnin eru ærin. Með sumrinu kemur grasvöxtur og maður neyðist til að slá garðinn minnst einu sinni í viku. Ekki er óhætt að fá sér göngutúr á Bakkakotsmelum fyrir hettumávum og kríum sem steypa sér í höfuðið á manni. Það er sem ég segi að jafnræðisreglan er ekki í hávegum höfð hvað varðar sumar og vetur.

    Lífið hér á Aðalgötunni gengur sinn vanagang en það á líklega eftir að breytast töluvert því fyrir dyrum stendur að leggja út heilmikinn sjóvarnargarð fyrir neðan okkur og inn með Brekkunni. Það sást til mælingamanna í morgun sem voru að taka út stöðuna. Við Sigurjón Guðmunds höfðum nokkrar áhyggjur af ástandinu því þverleggja þarf vínflutningabíl Vörumiðlunnar þvert yfir Brimslóðina meðan losun á sér stað.  Þetta leiðir til þess að við stöðvum svona þrisvar í viku, 10 mínútur í senn, grjótflutninga í garðinn góða.
    Talandi um Sigurjón frá Rútsstöðum þá sagði hann mér ágæta sögu af einum ágætum bónda hér í sýslu sem við getum bara kallað Björn jr frá Löngumýri. Þessi Björn er auk þess þekktur fyrir að þekkja vel til skógarbóndans Erlings á Hamri en það er önnur saga. Björn leitaði ekki fyrir svo löngu til dýralæknisins vegna krankleika í smalahundinum sínum. Dýralæknirinn sagði si svona við Björn " Mér sýnist að þú ættir að gefa honum meira". "Ég gef honum hálfan sláturkepp á dag" sagði Björn, svona eins og sá sem örlátur má teljast. " Þú ættir að prufa að gefa honum heilan kepp og sjá hvort hann hressist ekki" sagði dýri. Björn horfði spurnaraugum á dýralækninn og mátti  sjá bregða fyrir örlítilli angist í svip hans þegar hann sagði. "Hvað á ég þá að borða".
  Hér á eftir fylgja nokkrar myndir frá þessum gömlu góðu dögum þegar vinstri grænir, samfylking og útrásarvíkingar voru ekki til og Ísland var ekki orðið "stórasta land í heimi" og öll vitleysan var eins.



     Hér á ferðinni Benni Blöndal að kyssa Umhverfis Kolbrúnu Halldórs og Jón Ingi faðmar Vilborgu Valgarðsdóttur

       Skrifstofutæknar að loknu námskeiði: Núna megið þið glíma við nöfnin



    Birgitta Hrönn og Soffía Jóhannesdóttir skáldkonur

    Rogast nú ekki hann Rúnar blessaður inn úr dyrunum með loforðahlaðinn
Gluggann í farteskinu. Veðrið er litlaust og grátt, aðgerðalítið og maður fær það á tilfinninguna að þetta sé lognið á undan storminum.  http://www.huni.is/files/3/20090422003210218.pdf

    Við Rúnar nennum ekki að fjalla neitt um auglýsingar stjórnmálaflokkana nema þær auglýsingar frá flokkum sem ekki birta auglýsingar í Glugganum. Reyndar ætlum við bara að fjalla um eina auglýsingu sem ekki birtist í Glugganum en það er auglýsingin um flokkinn sem hann Þeysi er í. Reyndar munum við ekki hvaða flokkur það er þannig að við hættum hér með að fjalla um þessa auglýsingu sem ekki birtist.

    Útboð - Slóðagerð! Hvernig býður maður í slóða. Bíður manni við slóða eða bíður maður bara eftir að slóðinn hætti að vera slóði. Reyndar er hér um vegslóða að ræða en slóðaskapur á vegum úti er ekki eftirsóknarverður eða hvað? Þeir eru margir slóðarnir.

    Harmonikkuliðið verður með sitt árlega hagyrðingamót í kvöld. Það er lofað átökum á milli Borgfirðinga, Húnvetninga og Skagfirðinga og svo munu þau Elín og Hermann leika fyrir dansi. Skyldu þetta vera þau Hemmi Ívars og Elín í Sölufélaginu sem leika fyrir dansi. Hemmi gæti líka verið liðtækur í átökum við nærsveitunga því eins og frægt er orðið þá varð hann maður ársins fyrir margt löngu fyrir það að bera fimm manna fjölskyldu á bakinu úr bíl úti í á í land. "Þetta er ekki þau" sagði Rúnar harmonikkuleikari og hagyrðingur.

    Það verða fermingar á Blönduósi um helgina, nánar tiltekið á sunnudaginn, daginn eftir kosningar. Við Rúnar efumst um að umræðuefni skorti og í versta falli geta umræður orðið það heitar að fermingarveislurnar verði með styttra móti en við vonum að  til þess komi ekki.

    Við Rúnar veltum því fyrir okkur hvað þeir hafi nú gert af sér þeir Maggi sveitó og Dolli því Skagstrendingar ætla að ganga um bæinn og þylja bænir við helstu stofnanir sem þar er að finna.

    Við Rúnar veltum vöngum yfir hver þessi G I G er sem á vísu vikunnar og erum engu vísari annað en það að bláa höndin er honum töm. Hann ætti bara að fara í kaffi til Jónasar Skafta og sjá bláu hendurnar tvær sem prýða veitingasalinn á Ljóni norðursins. Og við vitum  að gæsirnar hans Jónasar eru hvergi smeykar.

Þá er komið að síðasta hnoði vetrarins m.ö.o. ljóðrænt samhengi hlutanna.

Vinstri grænir kinn við kinn
Kommar, framsókn, fylkinginn.
Íhaldsins forherti flokkurinn
Fannst þetta allt í Glugga.
Fátt er oss að hugga,
elsku besti drottinn minn

15.04.2009 14:54

En svo kemur gleðin

    Mig langar að skrifa um gæsirnar, lífið, dauðann og lognið sem umvefur allt í mínu nánasta umhverfi. Mig langar að skrifa um það hvernig við getum leyst öll heimsins vandamál á einni nóttu. Í raun er þetta síðast nefnda auðveldast viðfangs því, ef allir gerðu öðrum það sem þeir vildu að aðrir gerðu þeim þá væru enginn vandamál til. En einhvern veginn klikka menn alltaf á þessu einfalda atriði. Sumir vilja gefa meira en aðrir hafa hreinlega áhuga á að þiggja og svo er það þekkt að sumir hafa einungis áhuga á því að þiggja. Það er með ólíkindum hvernig hægt er að klúðra jafn einföldu atriði og hér að undan er nefnt. Æ! Ég nenni ekki að ergja mig mikið lengur á þessu heldur drífa mig í það að skrifa um grágæsirnar sem komu í stórum hópum til Blönduós um páskana.

    Þessir einkennisfuglar bæjarins eru einstakar skepnur sem hafa svipaðan mátt og veðrið því um þær má alltaf ræða þegar annað umræðuefni þrýtur. Já þær eru núna flestar búnar að skila sér í heimahagana, líka frægasta gæsin SLN sem var merkt á Blönduósi sumarið 2000. Hún er líklega sú síðasta af 120 gæsum sem þá voru merktar með hálsmerki sem en er á lífi. Það skemmtilega við þessa gæs er að hún kemur svo að segja alltaf um 14. apríl ár hvert og það má jafnframt ganga að henni vísri á lóð Héraðshælisins. SLN er kvenfugl og hún hefur ávallt haft með sér karl og ég er nokkuð viss um að hún heldur sig æ við þann sama. Þessi frægasta gæs bæjarins hefur þá eiginleika sem margur mætti vera stoltur af. Í fyrsta lagi þá er hún einbeitt og staðföst og heldur tryggð við sitt umhverfi. Hún er stundvís og öguð og síðast en ekki síst þá elskar hún sinn eiginmann gegn um þykkt og þunnt. Þau hjónin vinna að sínu og hafa það eitt að markmiði að hafa efni á einni utanlandsför á ári fyrir sig og börnin. Öðrum auði safna þau ekki en þau skilja eftir sig áburð sem sumir kalla skít og ómældri ánægju til handa okkur sem þetta samfélag byggjum. Ánægjan getur verið fólgin í því eins og ég kom að áðan að ræða kosti þeirra og galla. Það er stórkostlegur tími þegar fyrstu gæsirnar renna sér með ungahópana út á Blöndu oftast nær í kring um 1. júní og þá er eins og það verði sprenging í náttúrunni. Á örfáum vikum verða ungarnir stórir og sældarlegir og þeir ásamt foreldrum leggja bæjaryfirvöldum lið í að halda niðri grasvexti á grænum svæðum bæjarins. Reyndar bíta þær svolítið gras hjá frístundabændum en það gera þær bara í frístundum. Það er gaman af gæsum og hægt að skrifa um þær langar greinar en læt ég hér staðar numið en áskil mér rétt til að fjalla um þær seinna.

    Maður fæðist og deyr. Tíminn sem maður fær er mislangur og það sem gerist hjá hverjum og einum frá vöggu til grafar er misjafnt og er það jafn breytilegt og mennirnir eru margir. Það sem í rauninni skiptir höfuð máli í lífi hvers manns eru minningarnar sem hann skilur eftir. Í mínum huga skilur minn ágæti félagi Ævar Rögnvaldsson sem lést á föstudaginn langa eftir harða baráttu við krabbamein, eftir sig góðar minningar. Fyrir þær þakka ég og ég bið góðan Guð að styðja og styrkja ættingja og ástvini hans. Guð blessi minningu Ævars Rögnvaldssonar.
 


    Mig langar í framhaldi af þessu að birta hér mynd sem var tekin á uppgangsárum rækjuveiða í Húnaflóa en hún sýnir þá Særúnarfélaga Gunnar heitinn Ólafsson, Kára Snorrason og Ævar Rögnvaldsson á brúarvæng Gissurar hvíta ræða landsins gagn og nauðsynjar.

Hér væri kannski viðeigandi að setja punkt en lífið heldur áfram hvað sem hver segir.


    Nú er Íslandsbanki aftur orðinn Íslandsbanki og því tilvalið að birta þessa mynd. Á myndinni eru Baldur Daníelsson, Svandís Ása Sigurjónsdóttir (takk Auðunn), Eysteinn Pétur Lárusson og Rósa Margrét Sigursteinsdóttir.

    Núna í þessum töluðu orðum kemur Rúnar inn úr dyrunum með Gluggann í báðum höndum svona til þess að forðast pólitískan ágreining því sjáfstæðisflokkur er í bak og vinstri grænir í fyrir á útsíðum Glugga vikunnar. http://www.huni.is/files/3/20090415112444159.pdf

    Vinstri græn (Vg) eru svona kinn við kinn á forsíðunni og Jón Bjarna virkar svolítið feiminn, soldið svona Kári litli í sveitinni. Sjallarnir á baksíðunni standa saman í hóp og undir þeim loforðum sem þau hafa fest á blað. Frambjóðendur Vg eru ekki saman á hópmynd heldur koma þau fyrir hvert fyrir sig. Ef ég vissi ekki betur þá líta Vg út fyrir að vera flokkur sem byggir á einkaframtakinu en sjálfstæðisflokkurinn lítur út eins og heilagur alþýðuflokkur.

    Enn og aftur ætlar Maggi á Hnjúki að þeytast með kúabændur í héraðinu út um gráa grundu. Ætlunin er að borða skyr á Akureyri og ís í fjósi á Holtseli. En það skemmtilega við þetta, að þegar við Rúnar vorum að fara yfir Magnúsar þátt á Hnjúki birtist þá kappinn ekki í eigin persónu í gættinni. En svo skelfingu var hann lostinn þegar hann sá okkur og hvað við vorum að bralla að við sáum undir iljarnar á honum út um dyrnar því hann vildi í Guðs almátugustu bænum komast hjá frekari umfjöllunn.

    Gluggamenn hafa loksins áttað sig á því að það eru tvö GÉ í glugga út á hlið.

    Ekki er að spyrja að samfylkingarfólkinu , það er með velferðarbrú í smíðum. Við Rúnar vitum um aðra velferðarbrú (gamla Blöndubrúin) sem var smíðum fyrir svo ofsalega löngu og liggur nú gagnslaus upp í krús. Væri ekki tilvalið að dusta rykið af þessari brú áður en ráðist er í brúarsmíði fyrir Jóhönnu Sig.

    Jón Bjarna og félagar ætla að opna kosningaskrifstofu í gömlu skrifstofu kaupfélagsins. Þarna getur nafni teygað að sér gamla samvinnuloftið og rifjað upp gamla daga.

    Söngur um sumarmál, hagyrðingamót hjá harmonikkuliðinu og kosningar standa fyrir dyrum, þess ber Glugginn merki og ekki má gleyma því að hún Imma blessunin Karls verður 90 ára á morgun. Við Rúnar viljum nota tækifærið og sendum henni okkar bestu óskir.

    Við Rúnar lögðumst í djúpar pælingar hvernig við ættum að ljúka þessum pistli og duttum strax niður á hvellibjölluna, Magga á Hnjúki. Ætlunin var að kvelja hann ögn svona eins og hann ætti skilið en það var sama hvað við reyndum. Það var líkt og yfir honum vektu helgar vættir því allur óhróður vað að blessunar- og blíðuorðum um þennan mann og þess vegna sitjum við uppi með þetta:

Stundum er samtíðin litlaus og grá
stútfullur hausinn af fortíðar þrá.
En svo kemur gleðin,
alls óumbeðin
er Hnjúksbóndinn einbeittur skaust okkur frá.

08.04.2009 14:59

Í peysufötum undir hrjúfu yfirborði

    Ég held að við íslendingar séum vorsins börn í hjartanu. Að minnsta kosti er ég það og ég byrja alltaf að hlakka til vorsins um leið og síðasta haustlaufið fellur til jarðar. Veturinn líður og veður misjöfn eins og gengur og einhvern veginn lætur maður það sig litlu skipta nema maður þurfi að ferðast milli landshluta eða veit af einhverjum nákomnum á ferðinni. Vetrasólstöðum fagnað þegar sólin fer að hækka á ný. Vorjafndægrum fagnað þegar dagur og nótt eru jafn löng. Maður finnur sér allt sem er í boði til að færa vorið nær í tíma.  Svo kemur vorið sem búið er að bíða svo lengi eftir. Þá koma fram á sviðið ýmis tilbrigði í veðrinu sem skella á sálartetrinu sem bæði gleðja og hryggja. Ef eitthvað hik kemur  á vorið fer maður að agnúast út í það og hefur uppi ýmis orð sem hæfa hverju sinni. Svona líður vorið; ekki svona með reglulegri stigvaxandi hitastigshækkun heldur í rikkjum og skrikkjum allt eftir því hvort hæð eða lægð er yfir hennar hátign Betu og Pusa í bretaveldi. En vorið kemur en maður er bara ekki alveg viss hvaða dag það byrjar og hvaða dag sumarið tekur við. Og svo er eitt sem ekki bregst en það er að maður gleymir alltaf Húnaflóaþokunni allan veturinn þangað til hún birtist allt í einu bara si svona.
    Í dag eru nákvæmlega liðin 3 ár síðan mitt litla hjarta fór á yfirsnúning. Samkvæmt áræðanlegum heimildum þá fór hjartslátturinn í 240 slög á mínútu og engin teikn um að hann færi að hægja á sér. Eðli málsins samkvæmt var ég tekinn úr umferð og fékk að kynnast áhrifum rafmagnsins til annara nota en ál- og ljós framleiðslu. Í stuttu máli fékk ég stuð og er það mesta stuð sem ég hef lent í á allri minni margslungnu ævi. Enn man ég höggið, skerandi ópið, og brunalyktina af sviðnuðum bringuhárum og fólkið sem var í kringum mig á þessu augnabliki. Líkast til hefur þetta stuð lífs míns verið stuð lífs míns því án þess væri ég ekki að velta vöngum yfir þessu. Þetta stuð hefur dugað í þrjú ár. Takk fyrir það.



    Þær eru oft sniðugar tilviljanirnar. Svona blasti minn ágæti vinur Jón Bjarnason þingmaður við mér þegar ég tók póstinn upp af flísalögðu forstofugólfinu, heima um daginn. "Kallin með hattinn borgar ekki skattinn því hann á ekki aur" datt mér í hug en varð svo eina auknabliksstund hugsað til alvörunnar því þessi kall ætlar ásamt félögum sínum að leggja á skatt komist hann til valda. Glöggir samfélagsrýnar sem þekkja pólitíska litrófið ofan í kjölinn segja að Jón Bjarnason sé sósíaldemókratískur framsóknar kommi en þetta sel ég ekki dýrara en ég keypti.
 
    Ekki gengur að vera bara með kosningamyndir af vinstri grænum, maður verður að gæta "hlutleysis" og læt því fylgja með eina mynd af þeim félögum Erlendi G. Eysteinssyni og Ófeigi Gestssyni syngja sjálfstæðismönnum baráttuanda í brjóst fyrir all nokkrum árum. Þessi söngur dugði vel í þrjá þingmenn.
    Einn ágætur félagi minn sagði á dögunum eftir að ég datt inn á félagslegu samskiptasíðuna Facebook. "Ég vissi það alltaf að þú værir í peysufötum undir þínu hrjúfa yfirborði." Af því tilfelli þá er tilvalið að birta hér mynd af minni ágætu vinkonu,  konu sem vinnur í sama húsi og ég, Helgu Jónínu Andrésdóttur.


    Myndin heitir "fjallkonan handtekin" og sýnir Helgu Jónínu í fylgd Kristjáns Þorbjörssonar og ? á góðum þjóðhátíðardegi sem haldinn var hátíðlegur í Fagrahvammi fyrir margt löngu.
Svo svona í blálokin áður en sá sem eflir með mér andann í ríkinu kemur með Gluggann er rétt að birta mynd af knattspyrnuliði Hvatar þegar það var að mestu skipað heimamönnum og gerði jafnframt  garðinn frægann. Ég læt ykkur eftir að koma með nöfn á þessa kappa.

Kristinn Guðmundsson í Staðarskála sendi upplýsingar um þessa mynd:    Þeir sem eru á myndinni eru í aftari röð frá vinstri: Garðar Jónsson þjálfari og leikmaður, Ásgeir Valgeirs, Hrafn Valgeirs, Stefán Logi Haraldsson, Kristinn Guðmundsson, Baldur Reynis, Guðmundur Sveinsson og Ásmundur Vilhelmsson. Neðri röð frá vinstri; Sigurður Davíðsson, Hörður Sigurðsson, Valgeir Baldursson, Hermann Arason,Haraldur Jónsson (frá Borgarnesi), Auðunn Sigurðsson og Hermann Baldursson. 
 
Þrútið er loft og þungur sjór þegar Rúnar kom inn með Gluggann í hægri hendi með þumalinn á páskatónleikunum og hina fingurna á frambjóðendum sjálfstæðisflokksins. http://www.huni.is/files/3/20090408103245475.pdf
    Í kjölfar Rúnars kom lífskúnstnerinn Jónas Skaftason  og hafði yfir gamla kviðlinga sem ekki verða hér færðir til bókar en Rúnari varð á orði:

Af gömlum bæði og góðum sið
við göngum oss til bóta.
Um Jónas síðan yrkjum við
eina vísu ljóta.
    
    Jónas varð eins og þrútið loftið sem fylgdi Rúnari inn úr dyrunum eftir að hafa hlýtt á þetta og fannst lítið fara fyrir lýðræðinu þegar við vorum ekki tilbúnir að birta gömul ljóð eftir Jónas.
    Páskatónleikar! Rúnar mun að eigin sögn leika andskotann í þessu verki og bíð ég spenntur eftir því að sjá hann veifa halanum og sletta úr klaufunum og setja hornin í menn.
    Domusgengið hefur bjargfasta trú á því að verðbólgan sé á niðurleið og úr fari að rætast í fasteignaviðskiptum. Það vonum við svo sannarlega svo Magnús geti farið að snúa sér að einhverju öðru en yrkja um konur á Blönduósi og Bessastöðum.
    Messur og tónleikar eru fyrirferðarmiklir í Glugga vikunnar enda eru að koma páskar .
    Rúnar á Skagaströnd yrkir um að bjartsýn hugsun eigi að losa um málbeinið á konum sýslunnar eftir tveggja vikna þagnarákall Magnúsar Ólafs til þeirra.
    "Hvað er þetta! Ætlar þú ekki á fundinn í kvöld" sagði Jónas Skafta við mig þegar hann sá Gluggann. "Það fær ekki nokkur skapaður hlutur hreyft mig frá skjánum í kvöld" sagði ég " því ég ætla að horfa á leik Liverpool og Tjélsí" Fundurinn sem Jónas átti við var fundur með sjálfstæðismönnum við opnun kosningaskrifstofu miðvikudaginn eftir viku. Ég benti honum á þetta. 
    Núna í þessum töluðu orðum kemur klósettepappírsalinn Vignir Björnsson frá Hvöt með blóm í fötu og hyggst hann selja þetta viðskiptavinum vínbúðarinnar sem og viðskiptavinum TM þessi gulu fötublóm. 
    Við ræddum lítillega um þær vörur sem Hvöt hefur til sölu og kom þar m.a. fram að klósettpappírinn væri misjafn að gæðum. Vignir sagði að hann hefði ekki getað hugsað sér að bregða gæðaminni pappaírnum að sínum úrgangs-enda og því varð Rúnari þetta að orði:

Vignir segir margt við mig
Sem ekki er illa meint
Með gömlum Gluggum getur sig
Gaurinn sjaldan skeint.

Það skal tekið fram að Hvöt hefur hætt sölu á klósettpappír sem Vignir getur ekki notað.
    
    Nú er komið að hinni angurværu og ljóðrænu úttekt á atburðum vikunnar. Með öðrum orðum smyrjum við sálarlími á hlutina svo þeir megi betur festast í sinni.

Um Jesú er ætlun að syngja
og eflaust gera menn meira.
Eggjum og öðru svo kyngja
og aðrir fara út að keyra.





01.04.2009 14:47

Betra að konur þegi?

    Í dag er 1. apríl um land allt eins og einn ágætur Hafnafjarðarkrati sagði á sínum tíma svo það sé nú á hreinu í þessu upphafi. Og í dag söng skógarþrösturinn í Árbrautinni fyrir okkur degi seinna en hann á venju til.

    Það er langt síðan ég hef fengið fyrirmæli frá öðrum en sjálfum mér. En eins og allir vita þá eru fyrirmæli hinn endinn á eftirmælum. Síðustu fyrimælin sem ég geymi í brjósti mér og fer með yfir um leið og ég nudda úr mér stírurnar fyrir framan spegil morgun hvern, hljóða svona í Birgittu nafni :

Fágætur og fyndinn líka,
fyrirmenni í sjón.
Gott ef ættum aðra slíka
eins og þennan Jón.

    Jæja nú get ég arkað fram minn veg þennan daginn nokkuð sáttur við lífið og tilveruna.

    Meðan ég man þá var ég lítið var við hann nafna minn hund á efri hæðinni á Aðalgötunni í síðustu viku. Það settist örlítill uggur að í sálinni þegar ég, að minnsta kosti í tvo daga heyrði ekki boffs í nafna. Hann svaraði ekki einu sinni kalli bakarahundsins á Brekkunni og Stefán var aldeilis einn á ferð. Þessi tilfinning var eins og bæjarlækurinn hefði þagnað skyndilega, væri hættur að renna og maður vaknaði upp við þessa skyndilegu þögn. Þessari nagandi óvissu var eytt í gær þegar ég mætti þeim Stefáni og Jóni hundi á göngu. Jón hundur fagnaði mér eins og honum einum er lagið. Reis upp á afturfæturna og viðhafði sjálfsögð kurteisishljóð. Mér fannst hann hress og nokkuð líkur sjálfum sér en þegar Stefán var búinn að fá lánaða hjá mér skófluna og kústinn sagði hann mér í óspurðum fréttum að Jón hundur hefði verið lasinn að undanförnu en sé nú allur að koma til. Sem sagt Jón Sigurðsson hundur hefur verið lasinn og það skýrir þessi rólegheit á hæðinni fyrir ofan mig í vinnunni undanfarna daga.

    En það eru ekki nein lognmolla að öðru leyti í Aðalgötunni því verið er að breyta Sæmundsenhúsinu í lúxusvillu. Samkvæmt áræðanlegum heimildum er verið að setja upp billiardstofu og saunabað í kjallara og lúxusíbúðir á hæðum þar fyrir ofan.

    Einnig hefur heyrst að búið sé að ráða mann til að stýra hótelinu og mun sá maður bera sama nafn og fyrri hótelstjóri en föðurnafnið er annað samkvæmt sömu heimild.

    Og ekki eru allar sögur enn sagðar úr Aðalgötunni því heimildir segja að Lárus Krákur ætli að fara að leggja í og það í Krútt bakaríi. Lárus ætlar ekkert að fara á bak við Bjarna sýslumann því ölið í krúsum Kráksins verður allt blessað af þar til bærum yfirvöldum og því öruggt að Sigmundur Davíð veit hvar hann getur keypt ölið. Þetta er allt saman grá upplagt því þegar ölið er á kútunum klárt þá er bara að trilla því yfir og fá frú Margréti til að selja  það í Vínbúðinni. Heimildarmaður minn í þessu máli tók það reyndar fram að timburmenn koma a.m.k. við sögu í nýjum verkefnum á Aðalgötu 9.

    Ég ætlaði að segja frá því þegar við Árbakkabræður vorum truflaðir af Sigmundi Davíð formanni Framsóknarflokksins í nýliðnum mánudagshádegisverði Árbakkabræðra á Pottinum og pönnunni. Lúðan var góð en við einhvernveginn gátum ekkert rætt um lífið og tilveruna því orðið "Við framsóknarmenn" barst okkur stöðugt með digrum karlaróm yfir matarborðið. Á næstu borðum mátti sjá menn (konur eru líka menn) sem létu sér þetta vel líka og sötruðu súpuna sína sælir og glaðir undir verndarvæng flokksformannsins. Þegar við Árbakkabræður báðum um 20% flatan niðurskurð á reikningum fyrir lúðunni vegna áðurgreindra ástæðna, fengum við það svar að það væru ekki margir sem fengju það tækifæri að sjá alla framsóknarmenn í sýslunni samankomna á einum stað. "Nokkuð til í þessu" sögðum við, greiddum uppsett verð og gengum út, reynslunni ríkari.

    Svona rétt áður en Rúnar kemur er rétt að smella inn einni eða tveimur augnabliksmyndum úr fortíðinni


Jón Jóhannsson kenndur við Beinakeldu

Friðgeir Halldórsson  (takk Aðalbjörg), Sunna Gests, Palli Svavars, Lárus B. Jóns, Hafsteinn Pétursson og Gunna Blö

    Núna líður Rúnar inn úr vorblíðunni með Glugga vikunnar í hendi.http://www.huni.is/files/3/20090401195853572.pdf

    Við veltum því fyrir okkur við Rúnar hvers vegna vísa vikunnar eru sú sama og síðast. Eitthvað virðist mönnum brýnt að konur hafi hljótt þessa dagana því enn og aftur er bent á þá vafasömu staðreynd að betra sé að konur þegi. Er ekki allt í lagi heima hjá þessum mönnum sem standa að þessum gjörningi.

    Pöbb kvissið verður í kvöld á Pottinum. Það vekur athygli að spyrlar að þessu sinni verða þeir Ágúst Þór og Auðunn Steinn. Þessir kumpánar hafa mætt á hvert einasta pöbba kviss í vetur og aldrei náð að bera sigur úr býtum. Nú hafa þeir verið fengnir til að búa sjálfir til spurningarnar svo þær ættu einhverja möguleika á sigri.

    Listi framtíðar boðar til fundar á Húnavöllum. Líkast til verður þar rætt um sameiningu sveitarfélaga, fjallskilamál og önnur framtíðarmál.

    Glugginn er svona á heildina litið, lítið auglýsingablað í A5 broti sem segir frá ýmsu sem gagnlegt er að vita en ekki mikið meira en það. Engin meiri háttar afglöp er þar að finna sem hægt er að nærast á og snúa út úr nema vísan hans Magga frá Sveinsstöðum.

    Nú er bara eftir að varpa ljóðrænum helgiblæ á þessar hugleiðingar svo einfaldleikinn fái notið sín á notalegan og mannlegan hátt:

  



Frá Sveinstöðum sagður er Mangi.
Þessi sótrauði fasteigna prangi.
Segir konum að þegja
sem satt best að segja
þrá allar að sjá að hann hangi. (á afturfótunum auðvitað)

25.03.2009 15:05

Best væri bara að þegja

    Boðunardagur Maríu meyjar er í dag 25. mars. Þá tilkynnti Gabríel erkiengill að hún skyldi ala son Guðs, enda eru þá níu mánuðir fram að jólum en það er eitthvað hik á vorinu. Ég taldi það víst að það væri hægt að reiða sig á að vorið kæmi á morgun eða hinn því páskatungl kviknar á morgun í SV. En svona er þetta nú bara þó erfitt sé að kyngja því. Maður var alveg sáttur við það að síðasti tunglmánuður væri leiðinlegur einfaldlega vegna þess að þá kviknaði tungl í norðri. En hvað sem öðru líður þá eru álftirnar farnar að streyma í heimahagana frá Bretlandseyjum. Sá nokkra hópa í gær á leið minni til og frá Reykjavík. Fyrst var ég var við þær á Torfalækjartúninu. Síðan sá ég nokkra álftir á flugi yfir þjóðveginn við Hnausa og svo loks nokkrar við Gauksmýri.

    Skógarþrösturinn hefur nánast upp á dag byrjað að syngja fyrir okkur á Árbrautinni þann 31. mars en það varð á því töf í fyrra. Hinsvegar bætti hann það upp í ár því hann söng hástöfum í grenitrénu hjá Hauk Ásgeirs nágranna mínum í fyrradag . Grun hef ég um að þessi ágæti fugl muni hafa hægt um sig næstu daga og einbeita sér að því að halda á sér hita.

    Eins og stundum hefur komið fram hjá mér þá erum við að minnsta kosti tveir í götunni sem höfum áhuga á fuglum. Höskuldur köttur er ekki síðri í áhuga en ég og fer hann mun gætilegar yfir og horfir fuglana allt öðrum augum en ég. Ég verð töluvert var við Höskuld kött þessa dagana því nægilegt framboð er af auðnutittlingum og svo hefur rjúpan bæst í hópinn.

    Við Rúnar erum núna komnir á FACEBOOK og orðnir gildandi í samfélagi mannanna. Maður er búinn að eignast fjölda vina hina síðustu daga og veit nú orðið alveg hvað þeir eru að hugsa, hverjum þeir eru líkir sem og hversu ungir þeir eru í anda. Það er hægt að senda fólki blóm og kransa, páskaegg, já bara nefna það.

    Það eru flestir mjög jákvæðir á þessari bók sem mig langar að kalla "sálarspegil". Ég hef ekki enn rekist á neinn sem lemur konuna sína eða stundar einelti. Ef maður rækist á slíka færslu og ætlaði að blanda sér í umræðuna gæti maður óvart ýtt á "líkar þetta" og þá sæju allir vinar manns hjá sér " Jón Sigurðsson líkar þetta". Svo hef ég ekki rekist á neinn sem hefur stofnað hóp um að standa við bakið á nýrri reglugerð um það að sælgæti eigi ekki að vera í sjónhæð barna, a.m.k. hefur mér ekki verið boðið þann hóp. En engu að síður, með því að sína andlit sitt í sálarspeglinum þá grefur maður upp gamla vini sem maður lék sér við í æsku og það er svona þægileg "nostalgía".

    Það er annars með hreinum ólíkindum hvað hægt er að ganga langt í því að hafa vit fyrir öðrum. Nú ætlar hið opinbera að taka þann kross af foreldrum að þurfa að segja nei við við börnin sín þegar þau sjá sælgæti úti í búð með því að skylda verslunareigendur til að færa sælgæti úr augsýn barna. Hvað verður næst. Verður leikfangaverslunareigendum gert að mála búðarglugga sína svarta svo börnin sjái ekki leikföngin. Er foreldrum ekki treyst til að segja nei eða já við börnin sín. 
    Í sumum skólum er börnum bannað að ganga með leikfangabyssur og sverð á grímuböllum svo þau verði ekki ofbeldinu að bráð. Ég man eftir því í þá gömlu og góðu daga þegar maður, stubburinn kom heim úr Austurbæjarbíói með strætó nr 3 nýbúinn að sjá Roy Rogers afgreiða bófana á glæsilegan hátt sitjandi á Trigger, vopnaður tveimur skammbyssum líklega Colt. Vagninn iðaði af lífi og menn földu sig á bak við sætisbökinn og skutu hver á annan af hjartans list og þegar maður fór úr vagninum á Laugarnesveginum voru fjölmargir "fallnir í valinn". Ekki minnist ég þess að þeir félagar mínir sem stóðu að þessum "ofbeldisleikjum" séu eitthvað verri menn fyrir bragðið. Ég læt öðrum eftir að dæma mig.

    Svona í lokin áður en Rúnar kemur með Gluggann, nokkrar "gagnlegar" upplýsingar: Fyrsta heimsmeistaramót í bananaáti var haldið þennan dag árið 1979. Nokkrir merkir tónlistarmenn eru líka fæddir þennan dag og nægir að nefna ungverska tónskáldið Bela Bartok (1881), Arethu Franklin (1942) og Elton John (1947).

    Nú læðist inn um dyrnar á lognkyrrum, köldum miðvikudegi Rúnar Agnarsson með helstu viðburði í sýslunni falda í Glugganum.
http://www.huni.is/files/3/20090325193502442.pdf

    Þeir eru óborganlegir þessir hestamenn í sýslunni. Á laugardaginn ætla þeir að standa fyrir sýningu á sjálfum sér eða eins og segir í auglýsingu. "Í ár höldum við 10. sýninguna en Reiðhöllin er 9 ára um þessar mundir. Að þessu sinni er sýningin borin uppi af almennum hestamönnum og konum (eins og konur séu ekki menn) á öllum aldri og u.þ.b. 50 börnum og unglingum. Markmiðið er að sína þá miklu breidd sem er í iðkendahópnum." Við Rúnar erum nokkuð vissir um það að hestamenn eru misbreiðir og allt það og vafalaust afar gaman að sjá þessa breidd.

    Við Rúnar erum mikið að velta vísu vikunnar, sem að þessu sinni er frá Magga frá Sveinsstöðum, fyrir okkur. Gæti verið að Björg hans Magga hafi sagt eitthvað í tveggja daga afmælinu hans Óla sem verðskuldar þessa vísu? Ekki vitum við það

    Það er spurning hversu girnilegur og bragðgóður hann er þessi 3ja rétta tilboðsseðill sem boðið verður uppá á Pottinum og pönnunni.

    Svo sé ég það í Glugganum að Einar Örn Jónsson ætlar að vera hjá foreldrum sínum um páskana og vonandi hefur hann með sér börnin og konuna.

    Hvernig er það eiginlega með þá Gluggamenn. Er ekki með nokkru móti hægt að koma því inn hjá þeim að það eru tvö G í Gluggi hvort heldur orðið er skrifað á hlið eða lárétt.


    Það eru ekki allir sem eiga eins harðsnúinn bæjarstjóra og við Blönduósingar sem stendur vörð um sitt samfélag. Þessi mynd er ekki úr Amerískri hasarmynd heldur er hér á ferðinni hinn geðþekki og einbeitti bæjarstjóri Arnar Þór Sævarsson á vaktinni.

    Þá er bara eftir að setja þetta allt saman í vinjettuform en það versta er að við kunnum það bara alls ekki svo gamla góða aðferðin verður bara að duga.

Það er erfitt hvað nú ætti segja
um þennan Glugga í dag.
En best væri bara að þegja
og blístra eitt angurvært lag.

Og loks þegar lagið er búið
og löng verður tómrúms bið.
Þið ráðið hvort þessu þið trúið
því Glugginn er eins út á hlið.

18.03.2009 15:04

Í andrými hins hugumstóra manns eða lóan er komin

    Vorið er að koma það er næsta víst. Þetta skynjar maður þegar ein og ein fiskifluga er farin að suða í glugganum hjá manni. Annað vorboðamerki sem ekki bregst en það er koma farfuglanna. Það sáust lóur á Buddutúni á mánudaginn eða það sagði Stefán Hólm að minnsta kosti og innan um þær var töluverður fjöldi skógarþrasta. Þessir fuglar eru til þess að gera mjög snemma á ferðinni og vorum við Stefán Hólm sammála um að lóan væri óvenju snemma á ferðinni. Vonandi er þetta ávísun á það að nú vori snemma á Íslandi og skógarþrösturinn verði farinn að syngja ástarljóð sín eigi síðar en 31. mars.

    Daginn sem sást til lóunnar á Blönduósi hringdi minn kæri nágranni og fuglaáhugamaður Þórður Haukur Ásgeirsson í mig og sagði mér frá stórum hópi fallegra fugla á sundi á sjónum fyrir neðan RARIK. Þetta er frábært myndefni sagði hann og þegar þú ert búinn að mynda fuglana þá er heitt á könnunni í RARIK.

    Ég, náttúrulega af stað með mína kameru og renndi úteftir og kom fljótlega auga á slatta af æðarfugli á sundi. Ég skimaði um allan hafflötin til að reyna að sjá þessa undrafugla sem Haukur nefndi í símann við mig. Víst er æðarfuglinn fallegur svo ég splæsti einni mynd á fuglahópinn. Fór svo í kaffi í RARIK og komst að því sanna í málinu en það var gaman að hitta fuglana á sjónum fyrir neðan og í RARIK og þiggja kaffi og smá spjall.

    Ég var búinn að lofa því að koma endrum og eins með gamlar myndir úr svarthvíta myndasafninu mínu og hér koma nokkrar myndir:

    Prófkjör eru oft tákn um vorkomu. "Ég er ekki sjálfstæðismaður en ég ann minni heimabyggð" sagði einn ágætur vesturbæingur á Húnahorninu sem við getum bara kallað Mugga og hleður síðan lofi á flokkinn og sérstaklega hinn skellega Sigurð Örn Ágústsson sem við munum nú brátt sjá mynd af ásamt fleirum ágætum kempum á uppskeruhátíð Hvatar fyrrir allnokkrum árum.


Hér má sjá: Svanhvíti, Jóstein, Jakobínu, Orra, Elsu, Hallstein, Erlu, Sigga Geit og Ara Guðmund

    Hvar skyldi Muggi annars vera í pólitík? Mér fannst hann flottur málshátturinn sem hann kynnti til sögunnar og er eignaður Sigurði Erni "Ef Geitin getur það ekki - þá er það ekki hægt"

    Annað sem hefur tengst vorinu í gegnum tíðina er uppsetning leikrita hjá leikfélagi Blönduóss (þetta kalla ByggingaBjartur fruss en í þessu tilfelli er ósinn í eignarfalli). Hér má sjá þekkta einstaklinga úr samfélaginu í indíánaleik.

Á mynd: Benni Blö, Jón Ingi, Kalli og Gugga
    
    Blönduvision er söngkeppni sem hefur verið tengd árshátíð Gunnskólans á Blönduósi svo lengi sem elstu menn muna. Hér koma tvær myndir tengdar þessari hátíð frá fyrri tíð.
 


                Á mynd: Una, Anna og Ragnar Z


        Sirrí með hóp aðdáenda

    Ég ætla að leyfa mér að fjalla örlítið um einn þeirra sem er á þessum Blönduvision myndum en það er Ragnar Z. Guðjónsson (RZG) einn af máttarstólpum Húnahornsins. Eftir mjög áræðanlegum heimildum, þá bar hann þetta höfuðfat daglega á sínum æskuárum á Blönduósi . Hatturinn var viðurkenndur sem eitt af hans auðkennum líkt og freknur á nefi og fékk hann að hafa hattinn á höfði í kennslustundum. Með þessu hefur RZG skipað sér í flokk manna sem ég þekki sem hafa hlotið álíka viðurkenningu þ.e að hatturinn sé hluti af persónueinkennum. Þeir menn sem skipa þennan flokk ásamt RZG eru Guðmundur Valtýsson kenndur við Bröttuhlíð, Kristján Pálsson frá Hvíteyrum og síðast en ekki síst Ferdinand í Mogganum.

    En nóg um þetta því núna fýkur enn og aftur Rúnar Agnarsson inn um dyrnar með sunnan vindinn í bakið og Gluggann í fanginu.
http://www.huni.is/files/3/20090319000100766.pdf

    Sjálfstæðismenn prýða forsíðu og bak Gluggans í dag og reiknum við Rúnar með að Einar Kristinn hafi valið bakið með tilliti til vísu vikunnar þar sem fjallað er um baklandið og mikilvægi þess. 
    Domusgengið er farið að selja gröf . Þetta verður að teljast bráðsnjallt í kreppunni því eina vistarveran sem ekki er offramboð af er einmitt gröfin.

    Glugginn sjálfur klikkar ekki á því að klikka. Gluggamenn eru nokkuð brattir á láréttu nótunum en ef þeir prenta út á hlið þá verða þeir linskrifanndi nema Géin renni bara saman í vélum þeirra þegar prentað er út á hlið. En við Rúnar gefum það ekki eftir að Gluggamenn verða að hafa hugann við Gluggann en ekki Glugann.

    Hún er einstaklega eggjandi og karlmannleg auglýsinginn frá karlareið Neista. Flengriðið verður í botni frá Orrastöðum eftir Svínavatni endilöngu fram í Stekkjardal. Gísli Hólm Geirsson verður fyrri til að ríða en Ægir, fyrir hópnum enda ekki nema von því Gísli er þaulreyndur frjótæknir.

    Að öðru leyti er Gluggi vikunnar hófstilltur og upplýsandi eins og honum ber.

    Til að koma þessu öllu saman í ljóðræn klæði er gráupplagt að setja saman einhverja hugljúfa og alltumliggjandi vísu sem lýsir andrúmi hins hugumstóra manns sem skilur hvorki upp né niður í hlutunum.

Á baki Gluggans brosir hann Einar
og biðlar til sjálfstæðismanna.
Renna um Svínavatn ríðandi sveinar,
reiðskjóta sína að kanna.

    Rúnar vildi ólmur koma með tvíræðar vísur um Eydísi og Einar og tengja það eitthvað við bakið og svoleiðis en ég áréttaði og undirstrikaði við Rúnar að þetta væri síða fyrir alla fjölskylduna.





11.03.2009 15:16

Þegar amma var ung

    Lífið er einstaklega margslunginn rennireið; kannski mætti segja sjálfrennireið (reyndar var þetta orð notað um fyrsta bílinn sem kom til landsins) því hver er sinnar gæfu smiður og ræður töluverðu um hvernig rennireiðin gegnum lífið verður.

    Þegar maður lítur yfir rennireið lífs síns er af mörgu að taka. Minn betri helmingur ákvað það á dögunum að draga fram í dagsljósið skjalakassa sem hafði að geyma þó nokkurn fjölda af "gömlum" svart hvítum ljósmyndum. Þessar myndir eru að líkindum frá 1986- 1990 og margar hverjar allrar athygi verðar. Flestar myndirnar eru teknar við einhverja misáhugaverða atburði hér á Blönduósi en ætíð af áhugaverðu fólki. Sjá má andlit sem tekið hafa út að minnsta kosti 20 ára þroska við ýmsa leiki og störf. Þegar mín ágæta kona rakst á mynd af sjálfri sér hvar með henni á mynd voru synir hennar tveir og systir, fór um hana einhver sælu tilfinning. Glampinn í augunum var þannig að maður sá veröld sem var.


    
    Það er hægt að skoða þessar gömlu myndir með að minnsta kosti tvennum hætti. Annarsvegar hvað það var gaman í "den" og hvað heimurinn hefur farið versnandi nú eða bara sleppa hinu síðast talda. Það var déskoti gaman í "den" og byggist það líklega á því að maður var ekki búinn að safna saman eins mikilli reynslu til að byggja upp þröskuldinn í sjálfum sér.

Eins og ég sagði áður þá sá ég í augum konunnar veröld sem var þegar hún sá sjálfa sig 20 árum yngri.

Ég ætla mér að svona annað slagið að skjóta hér inn á síðuna myndum úr þessari möppu og varpa örlitlu ljósi á árin sem nú eru horfin í aldana skaut. Það er gaman að sjá myndir af krökkum sem nú eru á aldur við mann þegar myndirnar voru teknar.

Lítum á Þessa mynd:



    Hér eru á ferðinni fræknar stúlkur sem sýna kraftmikinn dans á árshátíð Grunnskólans á Blönduósi fyrir einhverjum árum. Ein þeirra er hér enn starfandi og það ég best veit gerir hvað hún getur til að halda ömmu barnabarna minna ungri. Þið megið velta vöngum örlitla stund yfir þessari mynd og reyna að sjá hverjar hér eru á ferðinni en ég hef ekki endalausan tíma til að bíða eftir svari þannig að ég uppljóstra núna hverjar þær eru. Lengst til vinstri er Una Marsibil Lárusdóttir, þá Magdalena Berglind Björnsdóttir og Anna Sveinsdóttir.

    Það er alltaf gaman að rekast á eitthvað nýtt í fari manna einkum og sér í lagi þegar það er til að auðga andann. Öll þekkjum við limmósíu eigandann Kristján Pálsson manninn sem vill hafa steinana í kringum sig. Einn dag þegar synfónískur niður hafsins sem norðanáttin bar með sér í öldum Húnaflóans þegar þær brotnuðu við strönd Húnafjarðar, bárust Kristjáni til eyrna varð honum samstundis að ljóði:

Húnaflói þú heillar mig og kætir
og hressir dag hvern andans kraftinn minn.
Ég held þú geðið Blönduósinga bætir,
er Blanda kyssir öldufaldinn þinn.

    Núna á þessum frostlausa miðvikudegi fýkur hann Rúnar inn með sunnanvindinn í rassinn og Gluggann í hægri hendi og strunsar beint til Helgu áður en hann kemur til mín.http://www.huni.is/files/3/20090312090728744.pdf

    Hvað boðar blessaður Glugginn í dag. Nú er bara að fletta.

    Strax á forsíðu Gluggans rekum við Rúnar hornin í það að gleymst hefur að segja frá því hvenær árhátíð Grunnskólans verður haldinn sem og hvar en ljóst er að hún hefst klukkan 19:30. Sem sagt við vitum að árshátíð verður haldin en ekkert meir.

    Domus gengið auglýsir Húnabraut 3 efri hæð til sölu. Gott útsýni og lánið sem hvílir á eigninni er gott og yfirtakanlegt. Þeir hefðu átt að nota sér markaðsfræðina og segja "Stutt í næstu lánastofnun".

    Pöbb Quiz mánaðarins er einfalt. Hvar og hvenær verður árshátíð Grunnskólans á Blönduósi?

    Ólafur bóndi á Sveinsstöðum hagar sér líkt og Gissur jarl á Flugmýri og boðar til margra daga veislu í tilefni afmæli síns. Það er von okkar Rúnars að veislulok verði með blíðari hætti en á Flugmýri forðum en enga athugasemd gerum við Rúnar við það að menn kíki í sýrutunnurnar á Sveinsstöðum.

    Bestu þakkir fá allir sem að Ís-landsmótinu á Svínavatni komu. Okkur Rúnari hefði nú fundust allt í lagi að senda hestunum sem þátt tóku örlítin þakklætisvott þó svo þeir sé lítt læsir.

    Óskar í Meðalheimi leit hér inn og tjáði okkur að hann væri farinn að endurvinna gömlu barnagælurnar því nútímabörnin skilja ekkert í þeim lengur svo sem eins og að "mjólka ána sín", svo hann kom með bragabót:

Sigga litla systir mín
sést nú ekki lengur.
Hún gleypti vitlaust vítamín
og visnaði eins og gengur.

Pétur Þorláksson sat hjá okkur yfirfullur af gömlum vísum og og gömlum  húsgöngum og lagði hann okkur til eina vísu sem kjörið er að birta á þessum vettvangi á seinni hluta góu:

Góa er slyng að snuða út hey,
snjónum kyngir niður.
Frostið þvingar mann og mey,
má um syngja fagurt ei.

Þessi vísa er eftir Ellert Bergsson pabba hennar Heddu (Herdísi Ellertsdóttur) sagði Pétur okkur. Sagði hann að til væru eftir hann margar vísur en það vissi bara engin hvar þær eru niðurkomnar.

Að lokum þetta eftir að hafa verið umvafnir ljóðrænum "erkibjálfum" líkum okkur.

Hér verður ekki bætt um betur
í bragfræðinni á þessum degi.
Hér áðu bæði Óskar og Pétur
Ótæmandi á förnum vegi.

04.03.2009 15:08

Augnablikið

    Að njóta augnabliksins eru gríðarleg verðmæti sem ég veit ekki hversu mörgum er gefin. Þetta eru verðmæti sem ekki verða mæld með mælistikum veraldargengisins. Augnablikið er á stöðugri hreyfingu og aldrei eins en samt getur maður gefið sér tíma til að staldra við það, meðan tíminn líður hjá. En það er misjafnt hvernig maður meðhöndlar þetta fyrirbæri sem kallast augnablik. Eins og fyrr greinir njóta sumir þess, aðrir missa af því, en aðrir hnýta í það eða láta sér fátt um finnast. Líkast til blandast þetta allt saman hjá venjulegum manni; sitt lítið af hverju en þegar maður fangar augnablikið, smjattar á því og dæsir síðan, þá er maður ríkari. 
    
    Það var eitt augnablik fyrir skömmu að ég fékk senda vísu í tilefni þess að ég velti því fyrir mér að skrifa minningargreinina mína sjálfur. Sá sem sendi mér vísuna sem brátt verður hér á skjá fest, benti mér á að minningargrein er eftirmæli og það sem ég væri að hugsa væri því fyrirmæli. Hún Birgitta á Löngumýri sendi mér þessi frábæru fyrirmæli sem mér er afar ljúft að leyfa lesendum að njóta með mér. Njóta augnabliksins með mér. Ekki er ólíklegt að ég komi til með að rifja þessa vísu upp endrum og eins svona til að minna mig og ykkur á mig en fyrirmælin eru svona:

Fágætur og fyndinn líka,
fyrirmenni í sjón.
Gott ef ættum aðra slíka
eins og þennan Jón.

Hugsið ykkur ef ég hefði fengið senda vísu eða fyrirmæli sem hljómuðu eitthvað á þessa leið:

Önugur og undinn líka,
afleitur í sjón.
Slys ef ættum aðra slíka,
eins og þennan Jón. 

    Það þarf ekki að fara um það mörgum orðum hvernig mín viðbrögð hefðu orðið. Ég hefði orðið dapur og sagt si svona við sjálfan mig. "Það fór sem mig grunaði að það er engum betur treystandi en mér sjálfum að fjalla um mig sjálfan." En fyrirmælin frá Birgittu lýstu upp heiminn minn um stund og lögðu til eitt augnablik sem ég naut til fulls. Ég er ekki frá því að við gætum gert örlítið meira af því lýsa upp heiminn í kringum okkur og er þá hverjum og einum í sjálfsvald sett hvernig hann fer að. Einn ágætur maður benti á það fyrir margt löngu þegar á honum dundu leiðinleg fyrirmæli. "Dauðasyndirnar hafa oftast nær verið taldar sjö en áttunda syndin er til og hún er sú að vera leiðinlegur." 
    
    Mig langar bara svona í lokin að birta eina augnabliksmynd sem ég á. Guðmundur nokkur Valtýsson kenndur við Bröttuhlíð varð á vegi mínum fyrir skömmu þá nýkominn úr velheppnuðu söngferðalagi með Bólhlíðingakórnum suður yfir heiðar. Það lá vel á Guðmundi og gaukaði hann að mér vísu sem hann kallaði hakabrag og hafði m.a kynnt fyrir sunnlendingum við góðar undirtektir. Þessi vísa, þessi hakabragur fannst mér skemmtilegur og vel til þess fallinn að fleiri en nú gera, geta tjáð sig í ljóði. En vísan sem Guðmundur fór með fyrir mig er svona: 

Þórunn mín ég þakka þér
fyrir kaffisopann.
Hérna leit hann frændi þinn inn,
rétt að gamni sínu. 

    Núna ratar Rúnar inn um gáttina og í áttina til mín með fyrsta Glugga marsmánuðar. Glugga sem varpar ljósi á atburði komandi daga.http://www.huni.is/files/3/20090303194309382.pdf 
    
    Hún er ansi losandi auglýsinginn frá Blönduósbæ. Ef maður þarf að losa mikið þá er bara að hafa samband við Villa Harðar og það veit ég að ef losað er of mikið á stuttum tíma í of þröngt rými þá er líka haft samband við Villa Harðar. 
    
    Nú er hætt að keppa í tölti og fimmgangi barna og fyrir dyrum stendur stórmót á Svínavatni þar sem gæðingarnir verða teknir til kostanna. 

    Við vorum að velta því fyrir okkur hvort hún væri tilviljun auglýsingin frá Kjalfelli þar sem auglýst er tilboð á vírushreinsun á tölvum sem og uppfærsla . Þetta tilboð kemur á sama tíma og samfylkinginn býður upp á rafrænt prófkjör. Við teljum mjög mikilvægt að hreinsaðir verði sem flestir vírusar úr tölvu netbankastjórans Vignis Einarssonar svo prófkjörið geti farið sem best fram og sem fæstir vírusar komist á þing. 

    Þeir fara öðruvísi að framsóknarmennirnir og ætla að treysta Kára Kára póstmeistara fyrir prófkjörsatvæðum sínum. Í stuttu máli þá gæti Kári Kára verið vírusvörn framsóknar í komandi prófkjöri. 
    
    Stóru-Giljár Elli er engum líkur þegar hann dregur upp mynd af lífi sínu á freðmýrinni. Hér áður fyrr meir var haft á orði: "Nú falla öll vötn til Dýrafjarðar" en héðan í frá má með töluverðri sanngirni segja. "Nú falla flest vötn til Smárabrautar 10". 

    Það kemur sér vel að hafa frjótækni á næsta bæ. Auðvitað veit Gísli manna best í hvaða stráum kvígukálfarnir eru og smellir þeim í kýrnar á Geithömrum. Er nú svo komið að ekki er pláss fyrir fleiri kvígur í fjósinu svo eina ráðið í stöðunni að auglýsa þær til sölu. 

    Við Rúnar höfðum lagt alveg gríðarlega mikið á okkur til að koma þessu öllu saman í ljóðrænt samhengi en þegar við vorum í þann mund að ná endum saman birtist þá ekki Jóhannes Guðmundsson á Blöndubyggðinni í dyrunum og fékk okkur til að hugsa smá stund um eitthvað allt annað. Reyndar var Rúnar býsna tómur andlega þegar hann kom og skýrist það af erfiðum morgni. Tjáði hann mér að bæði jeppinn og andlegi þátturinn hafi setið fastir í skafli skammt frá Lindarbrekku 1 í morgun og sæti andlegi þátturinn þar enn fastur. Okkur Rúnari er ljúft að geta þess að Sigurjón Guðmundsson löngum kenndur við Fossa kom á ögurstundu neðangreindrar vísu.

Með misjöfnum hætti menn raða á lista.
Margir með tölvu þótt sumir sig signi.
Óþarfi að láta óttan sig hrista,
þú átt bara að fara og kjósa hjá Vigni.

25.02.2009 15:11

Af hækjum og fimmgangi barna

    Sprengidagur var í gær og bar nafn með rentu því margar pólitískar spregjur féllu og sníkjudýradagurinn er í dag. Sníkjudýradaginn kenni ég við litlu sníkjudýrinn sem rölta uppábúinn milli fyrirtækja og syngja fyrir sælgæti. Það er nú afar misjafnt hvað börnin leggja á sig til að vinna fyrir sælgætinu og mættu sumir að ósekju leggja sig örlítið meira fram. Það er ekki öllum gefið að halda lagi en þá gætu þau til dæmis farið með ljóð eftir okkur Rúnar eða einhver önnur stórskáld. Þetta er ekki svo galin hugmynd þegar ég heyri sjálfan mig segja hana í huganum. Sníkjdýradagurinn er að sjálfsögðu kallaður öskudagur.

    Þó svo að litlu dýrin sem syngja fyrir sælgæti hafi umvafið okkur hér í Aðalgötunni með söng, brá fyrir fleiri söngfuglum. Sigurjón frá Fossum nýkominn úr söngfrægðarför af Suðurlandi var aldeilis í skýjunum. Hann hitti meðal annars Hreppamenn og komust margir úr Bólhlíðingakórnum á baksíðu Moggans fyrir bragðið fyrir það eitt að verða á vegi Hreppamannsins Sigga í Syðra (Sigurður Sigmundsson frá Syðra-Langholti)

Sigurjón hafði yfir vísu sem hann orti eftir að hafa kynnst þessu mönnum sem þekkjast vel hversu vel þeir eru aðlagaðir vætu og þúfnagöngulagi.

Hreppamenn ég hefi talið,
hressa þó að lægðir gangi.
Orðspor þeirra er svo galið,
ofarlega á Suðurlandi.

    Söngfuglinn Maggi á Hnjúki kom hér með allar búsafurðir síðastliðns árs og fór hann ótrúlega hratt yfir miðað við allt það magn sem hann var með. Þessir dagar í lífi mínu markast örlítið af því að bændur þurfa að standa í skilum við skattstjórann á virðisaukaskattinn nú um mánaðarmótin.

    Ég vil heldur fá eitt blóm og hlýleg orð meðan ég lifi heldur en helling af blómum þegar ég dey. Þessi fallegu orð ásamt fleirum fékk ég frá Birgittu á Löngumýri í dag og fylgja þau hér: Gæfan gerir þig fallegan, erfiðleikar styrkja þig, sorgin gerir þig mannlegan og að mistakast gerir þig auðmjúkan. Árangur veldur því að þú geislar og vinirnir fá þig til að þrauka.

    Eftir að hafa lesið þessi hlýlegu orð þá hef ég horfið frá því að skrifa sjálfur minningagreinina um sjálfan mig því lengi vel hef ég gengið með það í huganum að ég sé best til þess fallinn. Svona til að tryggja það að allt komi nú fram sem máli skiptir.

    Kemur ekki söngfuglinn og harmonikkuleikarinn Rúnar Agnarsson með Gluggann í hendi syngjandi Volare ó, ó. Contare og svo frv. http://www.huni.is/files/3/20090225222344156.pdf

    Fimmgangur og tölt barna og unglinga, mót í reiðhöllinni? Við Rúnar höfum orðið varir við tölt barna um bæinn, syngjandi í von um sætan mola í munn. Reyndar eiga börnin ekki að tölta um bæinn heldur í reiðhöllinni í Arnargerði en það er bara miklu einfaldara og þægilegra á allan hátt að fóðra blessuð börnin á einum og sama staðnum.

    Hækkjur- hækjur- hækjur oft er þörf en nú er nauðsyn. Við Rúnar lásum ekki mikið lengra en þetta í auglýsingunni frá Hælinu því okkur varð svo mikið um. Við erum svo vitlaust þenkjandi að við lásum þetta með hugafari hins breyska manns. Við erum ekki með neinar hækjur frá hælinu en við rákumst á dögunum á svipaða auglýsingu frá konu frá Akureyri og mun það mál vera í rannsókn og alls óvíst hver málalok verða. Og svo það sé á hreinu þá er hún Magga mín er sko engin hækja þó hún vinni þarna fyrir hádegi. Hún er mín stoð og stytta og ég skila henni ekki baráttulaust.

    Bændur athugið og það vel. Áburðurinn frá Kaupélagi Skagfirðnga er vaxtalaus. Við Rúnar erum nú bara eins og við erum og viljum meina að áburður eigi að skila sem mestri ávöxtun.

Lífið það er bras og brölt,
"bags" á vegi förnum.
Fimmgangur og fallegt tölt,
fer svo vel hjá börnum.

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 45
Gestir í dag: 7
Flettingar í gær: 246
Gestir í gær: 12
Samtals flettingar: 64703
Samtals gestir: 11487
Tölur uppfærðar: 2.5.2024 06:54:25