Jón Sigurðsson

Myndir og hugleiðingar úr A-Húnavatnssýslu. Hver sem er getur ratað inn á þessa síðu í töluverðri vissu um að komast frá því óskaddaður. Ef einhver skaddast og er tryggður, þá fær hann það bætt. Svo einfalt er það!

29.04.2015 16:02

þrestirnir farnir að syngja



Bjartmávur að ég held á flugi við botn Húnafjarðar

Ég fer ekki ofan af því að þetta vorhret var andstyggilegt og óvíst hvort það hafi lokið sér af. Dagurinn í dag er þó með öðrum brag og skógarþrestirnir sem hafa hrakist um í hríðargargi undanfarna daga eru farnir að hoppa um grundir og tína upp í sig ýmislegt góðgæti sem er að finna í grasrótinni og það sem meira er , þeir eru farnir að syngja.  Það er allt annað yfirbragð á fuglunum í dag því nú hafa þeir tök á að afla sér viðurværis á eigin forsendum. Lóurnar sem höfðu hópast saman á túnum frístundabænda eru gersamlega horfnar og veit ég ekki hvað af þeim varð. Þær voru ekkert að fara í morgun heldur flúðu þær eitthvað út í buskann í versta veðrinu.


Einmana grágæs gæðir sér á grænum grasnálum í garði Siggu Gríms (mikið af "Gjéum")

Það eru ýmsir sem hafa áhuga á því að fylgjast með athöfnum Jónasar verts á Ljóninu. Af honum er svo sem ekkert mikið að frétta annað en það að hann bjástrar en í ferðþjónustunni og fær svona annað slagið og í flestum tilfellum erlenda gesti. Þess ber þó að geta að ferðamannatímabilið er nú ekki enn komið í fullan gang. Það verður spennandi að fylgjast með því hvernig pizzuframleiðsla Ljósnins "plummar" sig en Jónas hyggst hefja framleiðslu nú um mánaðarmótin.

Mér sýnist á öllu miðað við snjóalög í mínum garði og veðurspá fyrir næstu daga að ekki verði af hinni árlegu 1. maígöngu minni um garðinn með áburð í fötu.  

Rúnar vinur minn Agnarsson ók framhjá mér áðan án þess að kasta á mig kveðju en hann má þó eiga það að hann hafði skrúfað niður gluggarúðu farþegameginn á Súkkunni sinni og gat ég greinilega heyrt að hressilegur harmonikkuleikur barst úr bifreið hans.


Ferðaþjónustubóndinn Lárus B. Jónsson lætur verkin tala og þeytir snjó frá inngangi hótelsins. Kristín Lárusdóttir og Gunnar Sig Sigurðsson fylgjast glaðbeitt með

Svo mörg voru þau orð þennan síðasta miðvikudag í apríl það Herrans ár 2015.

22.04.2015 16:22

síðustu andartök vetrar




Húsin í norðausturhluta gamla bæjarhlutans

Þá er síðasti vetrardagur runninn upp og framundan er sumarið 2015. Mér fannst þessi vetur sem er að líða leiðinlegur í veðurfarslegu tilliti og kveð hann með takmörkuðum söknuði. Þó svo þessi vetur hafi verið svona eins og hann var þá var hann bara þannig og bætist við enn einn veturinn sem ég hef lifað, hann er kominn í minningana sjóð.

 Sumardagurinn fyrsti, einnig kallaður Yngismeyjardagur, er fyrsti dagur Hörpu, sem er fyrstur af sex sumarmánuðum í gamla norræna tímatalinu. Íslensk þjóðtrú segir að ef sumar og vetur frjósi saman boði það gott sumar, en með því er átt við að hiti fari niður fyrir frostmark aðfararnótt sumardagsins fyrsta. Hvergi hef ég séð neina úttekt á því hvort eitthvað sé hæft í þessari þjóðtrú og gæti hún verið álíka gáfuleg og speki skagfirðings nokkurs sem sagði að frysi saman Jónsmessa og Verslunarmannahelgi þá yrði gott í Laufskálarétt.


Gæsin AVP er komin í heimahagana en hún var merkt sem ungi árið 2000

Eins og ég hef einhversstaðar sagt frá þá hafa grágæsirnar hópast í heimahagana síðustu daga og í þeim hópi er ein gæs sem merkt er með fótamerki sem ber stafina AVP. Þessi gæs er líkast til sú síðasta af gæsunum sem merktar voru við Sýsluskrifstofuna í júlí árið 2000 en gæs sem bar hálsmerki með einkennisstöfunum SLN er líkast til öll. Samkvæmt áræðanlegum heimildum frá Skotlandi þá er AVP með elstu merktu gæsum sem vitað er um en hún verður 15 ára í byrjun júní. Elsta gæsin sem ber merki hefur náð 20 ára aldri þannig að nú þarf AVP að tóra aðeins lengur til að komast í metabækur.


Vonandi lendir sumarið jafn mjúklega og þessar gæsir á Blöndu

Það hefur komið fram á þessum vettvangi að margir hafa af mér "þungar" áhyggjur vegna einsemdar minnar eftir að vínbúðin var frá mér tekin.  Af þeim sökum koma ýmsir í heimsókn til að bera mér heillaóskir og berja mér baráttuanda í brjóst. Yfirleitt átta menn sig fljótt á því að á mér hefur orðið til þess að gera lítil breyting þannig að hægt er að hefja allar umræður á æðra plan. Til dæmis bara í dag hafa þó nokkrir komið til þess eins að gleðja mig og halda að mér veröldinni. Sem dæmi má nefna að hingað leit inn Vignir Einarsson fyrrum kennari svo og vinirnir Hilmar Snorra og Jónas vert á Ljóninu. Rifjaðar voru upp sögur af hinu og þessu úr fortíðinni og stiklað á stóru. Gamlar sögur úr Vélsmiðjunni og sögur af veislum höfðingja í Vatnsdal voru rifjaðar upp svo eitthvað sé nefnt. Jónas á Ljóninu sagði okkur samtímasögu frá Ljóninu sem fjallaði um rafvirkja sem tengdi hjá honum pizzaofn í morgun. Tjáði Jónas að um mánaðrmótin gæti hann farið að framleiða pizzur og og jafnvel að senda vöruna heim.  Jafnframt kom fram að Jónas og a.m.k Jóhann Viðar "kjölfestufjárfestir" ætla í kvöld í Húnaver að fagna 90 ára afmæli hjá  Bólstaðarhlíðarkórnum.


Það þarf líka að þrífa vængjakrikann

Þegar ég leit yfir Glugga dagsins þá rak ég augu í vísu vikunnar sem að þessu sinni er eftir hana Önnu Árnadóttur á Blönduósi. Vísan er látlaus og einföld og alls ekki til þess fallin að flækja veröldina:

"Þegar lífinu líkur

legst maður niður og deyr.

Glóran og veröldin víkur

- svo vitum við ekki meir."

 

Þessi vísa minnti mig sem snöggvast á lífsspekivísu eftir Valgarð Ásgeirsson heitinn  sem var eiginmaður Önnu Árna. Valli Ásgeirs var einstakur á margan hátt og kom oft auga á hið einfalda og skemmtilega í lífinu en þessi vísa er svona:

 

Uppí Hæli voru tveir,

Jón og Tolli heita þeir.

Ef að annar þeirra deyr,

Þá eru þeir ekki lengur tveir.

 

Lífið er einfallt þrátt fyrir allt. Gleðilegt sumar  


15.04.2015 16:09

vorfiðringur og baráttan um sentimetrana fimm



Hreiðrar sig blikinn og æðurinn fer. Þessar ljóðlínur úr Vorvísu Jóns Thoroddssen þvældust lengi fyrir mér. Ég vissi aldrei hvert æðurinn var að fara

Það eru breytingar í lofti. Jörðin er farin að lykta öðruvísi og fuglarnir eru farnir að gera sig gildandi í alheimssöngnum. Það er vor í lofti og stutt er í sumarmál, dagana frá laugardegi fram að sumardeginum fyrsta. Gæsunum hefur fjölgað til muna frá því fyrir viku og skógarþrestirnir verða sífellt meira áberandi. Ég var ekki frá því að ég hefði heyrt í hettumáv í morgun og þarf að kanna það mál betur. Í gær skyngdist ég í veikri von eftir grágæsinni SLN en þessi eðalgæs hefur komið um þetta leiti ár hvert alveg síða árið 2000 en hún lét ekki sjá sig síðasta vor. Ég hef alið þá von í brjósti að eins sé farið með gamalgæsir sem gamalmenni (reyndar á þetta við um alla) að geta ruglast smá í ríminu endrum og eins og því hefði SLN kannski álpast á Krókinn í fyrra í stað þess að halla sér  að Héraðshælinu líkt og hún hefur ætíð gert. Ekki sá ég neitt til hennar með sitt silfraða hálsmerki en ég veit um eina gæs sem var merkt á Blönduósi árið 2000 sem ungi með fótamerkinu AVP og hana sá ég og fleiri í fyrra. Gaman væri að rekast á hana við tækifæri.

Það er gaman að velta sér upp úr vorinu  því þar er framtíðin falin, upphaf vaxtar og viðkomu. Talandi um vöxt og viðgang þá er gaman að segja frá því að lofthæðin í eldhústrukk Jónasar á Ljóninu hefur aukist um 5 cm á einni viku og má segja að dagur hinna hávöxnu sé risinn. Fyrir viku sagði ég frá áformum Jónasar við uppbyggingu eldhúsbíls sem mun verða staðsettur fyrir utan Ljón norðursins en sá galli var á gjöf Njarðar að lofthæðin var takmörkuð og hefði hurft að handvelja þá sem nýta vildu trukkeldhúsið eftir hæð. Jónas sagði mér í óspurðum fréttum að nú væri hann að vinna í því að auka lofthæð í eldhúsbílnum og má segja að hann hafi aukið notagidið um 5cm eins og áður hefur komið fram.


Jónas að störfum í eldhústrukknum

Hér að ofan sagðist ég líklega hafa heyrt í hettumáv og ég fór niður í ós til að sannreyna þetta og viti menn, hettumávurinn er kominn og bíð ég spenntur eftir því að heimildarmaður RÚV á Blönduósi hringi í fréttastofuna og segi frá því að krían sé komin. Ekki veit ég hver þessi heimildarmaður er en óvenju oft hef ég heyrt það í Ríkisútvarpinu undangengin ár að krían komi fyrst á Blönduós.


Sigurjón á Rútsstöðum kom í kurteisisheimsókn áðan svona til að vita hvernig mér liði eftir að við hættum að hittast reglulega yfir 1000 kílóa bjórbrettum. Ég sagði honum sem var að ég hefði það nokkuð gott en þakkaði honum hugulsemina. Ég er ekki frá því að hann hafi næstum haft jafn gott af því að sjá mig og ég hann. Annar snillingur sem reglulega heimsótti mig í hornið mitt á Aðalgötunni meðan vín og öl voru í hverri hillu kom um daginn og rifjaði upp gamla harmonikkutakta. Hér á ég að sjálfsögðu við Magnús Rúnar Agnarsson.Ég man nú ekki nákvæmlega hvaða harmonikkusnillinga hann var með undir geislanum í Súkkunni sinni en minnir þó að þeir hafi eitthvað verið kenndir við afahlutverkið. En það var gaman að heyra taktfastan polkann breiðast yfir Aðalgötuna og gleðja hin örfáu eyru sem enn enn leynast í götunni.


Veit ekki hvort eftirfarandi vísa eigi við í þessu tilfelli því nú geta allir ekið óáreittir um Húnvetnska grund meðan lögreglan dundar sér á hótelinu

                   Vökul, röggsöm, vakir glögg,
                             veldur skröggum kvíða.
                             Blönduóslöggan býsna snögg
                             bregður flöggum víða.

Þessa vísu orti Sigrún Haraldsdóttir hinn frábæri hagyrðingur sem ættuð er úr Svínavatnshreppi hinum forna

En hvað sem öllu líður þá er keimur af vori í lofti og sá keimur getur ekki gert neitt annað en glatt sálina og rennt stoðum undir það að hvað sem við mennirnir höfumst að þá kemur enn vor í dal.

08.04.2015 15:49

"kulnar eldur nema kyntur sé"


Svona dagar voru fátíðir í vetur en velþegnir. Brekkan og Spákonufellið

Nú eru páskar að baki, sólin hækkar stöðugt á lofti  en skógarþrestirnir láta ekki sjá sig. Þröstur minn góði, hvar heldur þú þig í þessu landi lægðanna? Það hefur mátt ganga að því vísu að þrestirnir hafi byrjað  sinn morgunsöng fyrir okkur hjónin  þann 31. mars ár hvert en ekki núna. Það er rúm vika frá mánaðarmótum og ekkert bólar á þessum ágæta fugli sem Jónas, fæddur á Hrauni í Öxnadal gerði ódauðlegan á sínum tíma. Mér stendur ekki á sama, það er hökkt í náttúrunni. Grágæsirnar sem venjulega eru farnar að streyma í stórum stíl í heimahagana á Blönduósi eru hikandi og það er hægt að telja þær sem komnar eru á fingrum beggja handa og tám hægri fótar. Já það er hik á vorinu en eins og svo oft áður þá hefur maður orðið vitni á því að það kemur og fer oft  á vordögum og jafnvel fram á sumar.


Fyrstu gæsirnar komu 26. mars en þeim hefur lítið fjölgað síðan þá

Þó hik sé á einstaka farfuglum þá er ekkert hik á Jónasi vert á Ljóninu. Hann kom eins og svo oft áður 1. apríl. Það er semsagt búið er að aftengja Sólu rútu rafmagninu í Laugardalnum og vaggar hún núna blíðlega í suðvestan bálinu fyrir utan Ljón norðursins. Blái leigubíllinn hans Jónasar setur líka svip sinn á umhverfið því hann er eins og akandi auglýsing fyrir skyndibita og annað góðgæti en falleg er myndin af afstelpum hans og Bellu sem einnig prýðir bílinn bláa. Enn einn bíl á Jónas en það er gamall Bens trukkur með "boddýi" sem ætlað er að gegna hlutverki eldhúss fyrir ferðamenn sem gista. Einn ljóður er á trukknum að lofthæðin í "boddýinu" er ekki nema 180 cm og því eiga hávaxnari ferðamenn en þessari lofthæð nemur á hættu að verða fyrir höfuðáverkum við morgunverkin í eldhúsbílnum. En það er svo með þetta eins og svo margt annað sem Jónas kemur nærri að vandamálin má leysa með einföldum hætti. Jónas hefur í hyggju að taka mál af ferðmönnunum við komu og skipa þeim í viðeigandi eldhús til matseldar, þ.e.a.s. þeir sem ekki ná 180 cm verða sendir í "boddýið" en hinnir hærri í eldhús í kjallara Ljónsins. Hlutirnir þurfa ekki að vera flóknir ef gengið er skipulega til verks.


Eldhúsbifreið Ljónsins fyrir alla þá sem eru lægri en 1,8 metrar

Nú er liðinn meira en mánuður síðan "Ríkið" yfirgaf mig og hef ég fundið fyrir mikilli samkennd samborgaranna. Þeim finnst ég yfirgefinn og umkomlaus, einn í 100 fermetra húsnæði og hafa sumir haft á orði að hin mikla þögn sem nú ríkir á bloggsíðu minni megi rekja til þessara aðstæðna. Vel getur það verið að einhverju leiti því óneitanlega er til muna minni umferð í kringum mig eftir þessar umbreytingar og færri samborgarar sem kveikja undir frásagnargleðinni því það er aldrei svo að einstaka maður kallar stundum fram myndir í huganum. Hingað kom maður í dag og spurði mig hreinlega hvort ekki væri allt í lagi með mig og var farinn að undrast þess gafarþögn á heimasíðunni. Hann gekk meira að segja svo langt að tala um að hann væri farinn að finna fyrir fráhvarfseinkennum vegna ekkiskrifa minna. Ég komst nú hálfpartinn við er hann sagði þetta því satt best að segja þá hélt ég að fáir hefðu af þessu gaman. Ég fór ósjálfrátt að leita að góðum málshætti sem mætti tengja við þessi orð þessa einstæða manns sem saknar skrifa minna til að réttlæta áframhaldandi skrif. Ef ég á að vera hreinskilinn þá lenti ég bara í bölvuðum vanda því þegar ég var búinn að finna málshátt þá rifjaðist nánast samstundis upp annar sem lagði til að ég léti hér staðar numið. Mér datt svona í hug að málshátturinn "á misjöfnu þrífast börnin best" og jafnvel "betri eru fimmtán ær aldar en tuttugu kvaldar" gætu átt við. Þessi síðasti olli mér svolitlu hugarangri því hann er tvíbentur en hughreysti mig svo með  "kulnar eldur nema kyntur sé" en komst svo að því að  "ræðan er silfur en þögnin gull". Að þessu skrifuðu er niðurstaðan sú ein  að framritaðir málshættir eru ekki síðri en þeir sem ég heyrði af vörum ættingja og vina þegar þeir lásu máshætti þá er í páskaeggjunum þeirra leyndust.

Æðarfuglinn og skarfurinn hafa dvalið hér við flóann í allan vetur en þrestir og gæsir láta bíða eftir sér

18.02.2015 14:44

hugsað upphátt á "sníkjudýradegi"


Þreytist seint á að setja inn myndir af Kvennaskólanum á Blönduósi því fáar stofnanir hafa gegnt jafn miklu hlutverki í húnvetnsku samfélagi

Eitt er víst í henni veröld að við eldumst og nálgumst endalokin sem engin veit nákvæmlega hvar eru. Ef þetta er ekki að gerast hjá manni þá er maður einfaldlega dauður svo einfalt er það. Ferðalagið í gegnum lífið sem svo margir hafa ort um er æði misjafnt hjá hverjum og einum og líka hjá manni sjálfum og ekkert er sjálfgefið. Við erum ólík og förum misjafnar leiðir á þessu tímabili og smíðavinna gæfunnar er misjöfn. Sumir dansa gegnum lífið með bros á vör og aðrir böðlast áfram með hornin í allt og öllu. Tilbrigði lífsins eru svo mörg að eyjarnar í Breiðafirði og Vatnsdalshólarnir þó ótaldir séu blikna í tölfræðilegum samanburði. Í stuttu máli, lífið er óútreiknanlegt þó margt sé fyrirsjáanlegt hjá flestum. Hér áður fyrr meir (Guðmundur Jónsson skólastjóri) hélt ég að ég væri einstakur þverhaus og kynjakvistur hinn mesti því margt sem mínir nánustu töldu að venjulegur eiginmaður, faðir,  hefði gaman að eða ætti að gera hafði ég bara alls enga ánægju og jafnvel ama af. Með árunum hefur mér lærst að ég er ekki einn um mína sérvisku þegar ég heyri eiginkonur annar karla lýsa mönnum sínum og viðbrögðum þeirra nákvæmlega eins og ég hef gengið í gegnum. Ekki ætla ég að tiltaka nein dæmi en ég veit að flestir kynbræður mínir hafa skynjað hið sama með auknum þroska. Já ég er að eldast og ég verð ríkari og ríkari með hverju árinu sem líður og fyrir það þakka ég. Hvað er betra en vera ríkur og geta baðað sig upp úr auðæfunum dag eftir dag. Reyndar liggja ekki auðæfi mín öll inni á bankareikningi eða í hlutabréfum heldur er ég að tala um eilífðina sem er fólgin í börnum og barnabörnum. Fyrir rúmri viku bætist í minn ættarauð lítið barnabarn það sjöunda í röðinni. Litla barnið mitt hún Ásta (24 ára) eignaðist sitt fyrsta barn , stúlku sem vó 16 merkur og náði fæðingarlengd afa síns, 52 cm. Þarna liggur minn auður, ágætlega gerð börn og barnabörn, heilbrigð og þroskavænleg. Ég er ekkert að gleyma tengdabörnunum því með þeim hafa börnin mín aukið verðmætið.


 Set inn nokkrar myndir af sælgætissöngvurunum sem urðu jafnframt söngnum að greina frá ætt og uppruna

Til mín í morgun komu tveir Skarphéðnar sem báðir eru skírðir í höfuðið á Skarphéðni Einarssyni (Andréssonar frá Bólu) frá Ytra Tungukoti. Erindi þeirra voru misjöfn en ánægju hafði ég af heimsókn þeirra nafna því þeir kunna frá mörgu að segja. Ég spurði Skarphéðinn Ragnarsson að því hvort afi hans og nafni, þekkt skytta á sínum tíma, hafi skotið með riffli botnin úr glerflösku sem þeytt hefði verið upp í loft með þeim hætti að skotið hefði farið í gegnum stútinn og tekið botnin úr. Ekki kannaðist Skarphéðin R við það en sagði sögu af afa sínum þegar hann skaut af löngu færi hunangsflugu á húsvegg. Þessu get ég alveg trúað því þeir Skarphéðnar sem frá Skarphéðni skyttu frá Ytri-Tungukoti eru komnir og ég þekki eru slík ólíkindatól að sannleikurinn verður lyginni líkastur.


Ekki er hægt að skilja við þessi skrif án þess að nefna vertinn í Ljóninu hann Jónas Skafta. Hann bað mig á mánudaginn að kanna fyrir sig hvort kisan hans hún Bella væri ekki örugglega á sínum stað á Ljóninu. Hann hafði heyrt það annarsstaðar frá að kötturinn væri týndur og hafði af því nokkrar áhyggjur, staddur víðsfjarri í höfuðborginni. Ég lofaði að líta eftir Bellu þegar ég færi heim eftir vinnu. Ég lagðist á gluggann þar sem Bella dvelur jafnan fyrir innan og kallaði nafn hennar. Ekki leið á löngu áður en hin grábröndótta kisa sem að mörgu leiti er ólík húsbónda sínum svaraði mér og það ákaflega með hinu auðþekkjanlega kattarmáli "Mjáááá" og færðist í aukana eftir því sem samtali okkar vatt fram. Bella stökk út um gluggann og heilsaði mér og vildi vísa mér leið inn um aðaldyrnar en ég sagði henni að inn um þær dyr gæti ég ekki farið því engin hefði ég lyklavöldin. Sagði ég Bellu að það væri nú bara réttast fyrir hana að fara bara aftur í sitt fyrra fleti í kjallaranu. Það voru mörg mjáin sem ég fékk frá Bellu áður ég hélt mína leið og verð ég að viðurkenna að ég fann svolítið til með hinni geðþekku en einmanna Bellu. Bráðum verð ég einn eftir í kjallara líkt og Bella því vínbúðin er að flytja frá mér út fyrir á.


Glugginn er kominn og hinn landsþekkti hagyrðingur Magnús Ólafsson frá Sveinsstöðum á Gluggavísu vikunnar sem fjallar að sjálfsögðu um frægasta Húnvetninginn þessa dagana, hana Maríu Ólafsdóttur (dóttir Ólafs Baldurs frá Kringlu)  Júróvisionfara.

En hvað sem öðru líður þá er suðaustan kaldi utandyra með 4 gráðu hita og skýjuðu veðri og þetta er afmælisdagurinn minn. Ég hef verið kysstur af tveimur konum, mátt þola smá hnjóð en ekkert sem getur spillt deginum. Að auki er þetta stóri "sníkjudýradagurinn" þegar börnin fara á milli fyrirtækja og syngja í von um góðgæti.

28.01.2015 14:43

aldurstengdar vangaveltur


Það snjóar á Blönduósi í dag. Fyrir tæpum 90 árum var Skáksamband Íslands stofnað fyrir innan þessa glugga

Þá er 28. dagur ársins runninn upp og þess sjást merki í umhverfinu. Einna skýrust er merkin sem sjá má á dvöl dagsbirtunnar meðal málleysingja og alþýðunnar. Ég er þeirrar gerðar að líka betur við birtu og yl en kulda og dimmu. Ég er ekki frábitinn  vetrinum ef hann er vetri líkur og býður upp á stillur og annað sem góðan vetur á prýða. Þessi endalausu umhleypingar með hálku og vindsperringi eru ekki að mínu skapi. Veturinn þarf að fara að gera það upp við sig hvort hann vill vera vetur, vor eða haust. Ég hef það á tilfinningunni að sumarið sé með svipaða áráttuhegðun og veturinn að geta ekki ákveðið sig fullkomlega hvort það eigi að vera sumar, vor eða haust. Kannski tengjast þessar vangaveltur aldri þess sem þetta ritar því í minningunni var alltaf sól og blíða á sumrum nema þegar farið var í girðingavinnu en snjór og stillur á vetrum.


Hús Helga Braga í muggunni í dag

Þorrinn er genginn í garð og eitt þorrablót að baki. Það tókst í alla staði vel og Vökukonum til sóma. Matur var góður, skemmtiatriði stóðust væntingar og hef ég ekki enn hitt neinn sem fór skaddaður frá þessu blóti þó stundum væri þjarmað að mönnum. Um tónlistina sá nokkrir ungir drengir úr héraði sem kalla sig Trukkana og tókst þeim að halda mönnum vel að söng og dansi og það eitt segir allt sem segja þarf um frammistöðu þeirra. Þetta var gott blótt þar sem góður andi sveif yfir vötnum.


Jóhanna Atla og Ívar Snorri viðra hunda sína. Dekkri hundurin hann Moli er allur að koma til eftir að hafa lamast í afturhluta um hátíðarnar

Jónas á Ljóninu kom á mánudaginn til að huga að fjallaeldhúsbílnum sínum. Það var rétt um hálf ellefu í gær sem ég heyrði þungan nið fyrir utan hjá mér og skömmu seinna gall við hávær flautuhlómur.  Við aðstæður sem þessar stendur maður eðlilega upp úr sínum stól og gægist út um glugga til að aðgæta hverju þetta sætir. Jú mikið rétt fyrir utan var Jónas kominn í hlað á fjallaeldhúsbílnum og ljómaði hann líkt og lítill drengur með heimasmíðaðann vörubíl í eftirdragi í sandkassa, vörubíl sem er þannig gerður að hann er með sjálfstæða fjöðrun á hverju hjóli; þeir voru flottastir. Hinn einlægi gleðisvipur leyndi sér ekki en hann baðst afsökunar á flautinu og bar því við að hann hefði verið að leita að rofa fyrir rúðuþurrkurnar. Frá mér hélt Jónas á Fjallaeldhúsbílnum áleiðis til Skagastrandar með viðkomu hjá Himma Snorra og saman ætluðu þeir í hádegismat á Borgina á Skagaströnd.

Glugginn er kominn og er auglýsing frá Hreppaþorrablótinu á forsíðu. Að þessu sinni verður það haldið í félagsheimilinu á Blönduósi 7. febrúar en þorrablót Bólhlíðinga og Svínhreppinga verður haldið í Húnaveri núna um helgina. Gluggavísa vikunnar er núna líkt og svo oft áður eftir Rúnar á Skagaströnd , skáldið undir Borginni og er hann að þessu sinni líkt og í síðasta Glugga með mannlífslýsingar frá Skagaströnd. Í síðustu viku fjallaði hann um Ásu póst frá Felli en í dag fjallar hann um þá hlýju sem felst í því að sjá leikskólabörnin fara um bæinn í halarófu.


Hrafn á sveimi yfir Kvennaskólanum í snjókomunni í dag. Það hafa margir "fuglar" sveimað þarna yfir og allt um kring hér áður fyrr meir

Það er annar Rúnar sem ég þyrfti að koma hér að en það er hann Rúnar hillufyllir í Samkaupum. Hann hefur ekkert ort fyrir mig né leyft mér að hlýða á harmonikkutóna úr geislaspilara Súkkunnar sinnar. Það er farið að fyrnast yfir Arnt Haugen, Famelien Flix og aðra góða listamenn. Snevalsen, strekkebuksepolka og fleiri gæðamelódíur eru við það að þurkast út úr minni mínu. Mér finnst það miður en hugga mig við að daginn er tekið að lengja.

21.01.2015 16:57

mörsugur kveður og þorrinn heilsar

     Það leika mildir suðaustlægir vindar um Húnaþing þessa dagana og hitinn er 2 - 3 gráður fyrir ofan frostmarkið. Síðustu tveir dagarnir hafa verið til friðs og vindsperringurinn sem gert hefur mönnum lífið leitt að undanförnu hefur hægar um sig. Mörsugur er að renna sitt skeið á enda og nú eigum við bara eftir að þreyja þorrann og góuna.


   Borgarvirki. Daginn er tekið að lengja 

     Aligæsirnar sem hafa haldið sig við fuglaskoðunarhúsið að undanförnu eru horfnar og einu fuglarnir sem maður verður hvað mest var við eru æðarfuglar, hrafnar, auðnu- og snjótittlingar sem og stöku starri og svartþröstur. Einn og einn mávur sést líka og ekki má gleyma stokköndunum sem dvelja vetrarlangt í ósi Blöndu.

     21. janúar er merkilegur dagur fyrir margra hluta sakir. Til dæmis má nefna að 120 ár eru liðin frá fæðingu Davíðas Stefánssonar og 91 ár er liðið frá dauða Leníns og hófst þá Stalín handa að brjótast til valda í Sovétríkjunum. Spaugstofan birtist landsmönnum í fyrsta sinn árið 1989 undir nafninu 89 af stöðinni og "Bláa höndin" varð laus í hendi Hallgríms Helgasonar í Morgunblaðinu árið 2003. Af þessu má ljóst vera að þessi dagur er tilvalinn til að skapa og tortíma og allt þar á milli.

     Jónas á Ljóninu dvelur enn fyrir sunnan og reynir að lifa af leigubílaharki. Hann sefur í Sólu sinni á tjaldsvæðinu í Laugardal. Hann sagði mér í morgun að sem dæmi um það hversu vel færi um hann í hópferðabílnum Sólu að hann hafi sofið yfir sig í morgun og vaknaði ekki fyrr en kl 7:15. Hann ætlaði að vera kominn mun fyrr á fætur til að veita árrisulum þjónustu sína. Hann sagði mér í óspurðum fréttum að hann hyggði á norðurferð á mánudaginn meðal annars í þeim tilgangi að setja í gang fjalla- og eldhúsbensann sinn og taka einn "rúnt" á Skagaströnd.


     Bóndadagurinn er á föstudaginn og þar með gengur þorrinn í garð. Ég er orðinn spenntur að kíkja ofan í súrfötuna og er morgunljóst að þorramatur verður á borðum á mínu heimili á föstudagskvöldið. Svo verður haldið áfram á laugardagskvöldið á þorrablóti Vökukvenna.

     Laugardagurinn verður nokkuð sérstæður því þá verður til moldar borinn samstarfsmaður og vinur til þriggja áratuga, Guðbjartur Guðmundsson.  Ekki er ætlunin að rifja upp kynni mín við þennan einstaka mann sem hafði ungmennafélagsandann og samvinnuhugsjónina að leiðarljósi svo eftir var tekið heldur einungis að nota tækifærið hér til að þakka fyrir löng og farsæl kynni. Eitt er það sem mjög er tengt samskiptum okkar Guðbjartar að þegar 20. janúar var genginn í garð þá brást það ekki að Guðbjartur sagði: "Þegar komið er framundir 20. janúar sér maður loksins að daginn er farið að lengja." Blessuð sé minning Guðbjartar Guðmundssonar.

14.01.2015 15:05

af væntanlegum einbúa og nöldurstuðli



Meðan grágæsir bæjarins gista Bretlandseyjar dvelja hér tvær aligæsir og hafa valið sér stað við nýja fuglaskoðunarhúsið

Vindur er norðaustlægur þennan miðvikudaginn og og fer yfir láð og lög  á 8 metra hraða á sekúndu og er frostið í honum um 3 gráður. Lítilega hefur snjóað í nótt en svo lítið að vart er orð á gerandi. Það er bjart að sjá inn til landsins en éljabakkarnir lúra úti fyrir og í vestrinu og laumast endrum og eins yfir okkur hér við botn Húnafjarðar. Þessi inngangur stendur fyllilega undir fullyrðingunni að það er vetur í Húnaþingi og líklega víðar. Sólin er farin að hækka á himni og maður greinir að dagurinn lengist í afturendann. Það dimmir seinna og seinna. Allt saman eru þetta tákn um að tíminn heldur sínu striki hvað sem brölti okkar mannanna líður. Þessu til áréttingar langar mig að birta hér með áramótavísu Rúnars Kristjánssonar á Skagaströnd: " Tíminn ekki seinn með svarið/ sýnir engin grið./ 2014 farið,/'15 tekur við.


Éljabakkar sækja að okkur úr norðri og vestri

Þegar maður er þátttakandi í samfélaginu með hóflegan nöldur- og  óánægjustuðul er hægt að umbera flest sem aflaga fer og skaðar fáa. Margir fara mikinn þessa dagana í fullvissu sinni um sannleika lífsins, kærleika og umburðarlyndi gagnvart öllu og öllum og þekkja vel slóðina um hinn vandrataða veg alls þess sem áður er talið.  Það er gott að hafa fullvissu en ég er þó ekki alveg viss. En Agnes biskup ritaði fyrir skömmu  grein á samskiptamiðlum "Hið illa veður víða uppi og við því verður ekki brugðist nema með kærleikann að vopni. Mt. 7:12; Lúk. 10:27."

Jónas á Ljóninu er baráttumaður og ekki síðri en Don Quijote (Don kíkóte) og er ég á því að þeir hafi náð svipuðum árangri í baráttu sinni við allt og alla. Hann er brattur og væntingar hans til komandi sumars eru miklar og má til sanns vegar færa því að töluvert hefur verið bókað í sumargistingu hjá honum. Sumargesta bíða bjartar Húnvetnskar sumarnætur, niður Blöndu og breim Bellu. Sumargesta bíður meira því að ógleymdum unglingi á áttræðisaldri með grátt sítt hár sem sumir kalla afa Bítlanna bíður nýtt eldhús sem er í formi  "boddýbíls" af Bensgerð og staðsettur rétt utan við gististaðinn. Atgervi gesta þarf að vera gott til að komast upp í bílinn en svangur maður kemst flest.

Nú fer að styttast í það að vínbúðin verði frá mér tekin og færð í höfuðstöðvar Arionbanka.  Eftir sit ég einn í kjallarhorni í gömlu húsi við Aðalgötu í gamla bænum. Ég er ekki í nokkrum vafa um að ég á eftir að sakna margra sem leið hafa átt í vínbúðina og litið til mín í hornið til skrafas og ráðagerða. Gamli bærinn verður fátækari fyrir bragðið og einbúinn Jón verður að öllum líkindum með tímanum heimóttarlegur og undarlegur í háttum og upplagt efni í þjóðlegan þátt eins og Landann. Það er sem ég segi, "heimur versnandi fer".


Páll Ingþór aðstoðar hér Hauk bónda á Röðli við hrossasmölun

Glugginn, annað tölublað þessa árs er kominn út og á forsíðu er að sjá auglýsingu um að fyrsta þorrablótið í sýslunni verður á Blönduósi 24. jan.  Ég veit ekki hvað það er en ég hlakka alltaf til þorrablóts Vökukvenna og kemur það líkast til af því að maturinn er ávallt góður og skemmtiatriðin hafa sjaldnast brugðist. Einnig er það að andinn á þessum skemmtunum er góður og ungir sem aldnir koma saman og þurrka út hið margumtalaða kynslóðabil. Já, pungarnir og sviðasultan verða veidd innan skamms upp úr súrfötunni. Það er varla að maður geti skrifað vegna starfsemi munnvatnskirtlanna þannig að hér læt ég staðar numið í súrmetshjali sem og öðru hjali um allt og ekkert.

17.12.2014 15:06

öll él ............



Brimið lemur strönd Húnaflóa með bægslagangi

Það er vonlaust að byrja nokkra setningu án þess að veðrið "dúkki" upp og satt best að segja er legg ég mig allann fram um að reyna gleyma þessum látum sem lægðirnar valda en það er bara ekki hægt. Það má með sanni segja að veður hefur verið erfitt mörgum í meira en viku en á misjafnan hátt. Hvað mig varðar þá hef ég nánast að öllu leiti getað sætt mig við ástandið en fimmtudaginn fyrir tæpri viku komst ég ekki suður yfir heiðar vegna ófærðar í þeim tilgangi að fylgja Óskari bróður mínum hinsta spölinn. Þetta fannst mér erfitt en náttúruöflin ráða för og ekkert fær haggað þeim.

Það var einn vinur minn á "Feisbókinni" sem orðaði þetta ástand ágætlega þegar hann skrifaði: "það mætti halda að Jón Kalman hefði skrifað þetta veður". Þeir þekkja sem lesið hafa.


Séð yfir til Þingeyra á milli élja. Borgarvirki til hægri

Ég hef það á tilfinningunni og með námkvæmri yfirlegu yfir hinum ýmsu veðurkortum að þessu ástandi fari senn að ljúka og með þá ósk í brjósti þá bið ég í hjartans einlægni alla þá sem óska þess heitast að hafa mikinn snjó yfir jólin því það sé svo "kósý" að hætta að óska eftir meiri snjó því það er komið nóg.

Að öðru leiti þá er ástandið í mínu nánasta umhverfi í jafnvægi. Landhelgisgæslan, RARIK og gangnaver eru líkast til ekkert á leiðinni til okkar í nánustu framtíð og ljós logar í gömlu kirkjunni mér og mörgum til gleði og yndisauka. Ívar Snorri er einna duglegastur við að jólaskreyta umhverfi sitt hér um slóðir og nýji fjallabíllinn hans Jónasar á Ljóninu hefur staðið af sér öll veður.

Gluggi vikunnar er óvenju þykkur að þessu sinni því hann inniheldur mikinn fjölda jólakveðja frá fólki og fyrirtækjum. Það sem vekur hvað mesta athygli í síðasta Glugga ársins er forsíðuauglýsingin en hún er um opnunartíma Vínbúðarinnar á Blönduósi um hátíðirnar. Sá sem þetta ritar minnist þess ekki að hafa áður séð auglýsingu frá Vínbúðinni í Glugganum en til upprifjunar má geta þess að vínbúðin mun flytja úr Aðalgötunni einhvern tíma eftir áramót í húsnæði Arionbanka við Húnabrautina. Það er svolítið sérstakt að sjá auglýsingu frá Arionbanka á baksíðunni og má segja að þessi gjörningur sé svolítið táknrænn um framtíðina. Hinir síðustu munu fyrstir verða.


Bráðum færist baksíðan á forsíðuna eða öfugt. Vínbúðin er á leiðinni í Arion banka eftir áramótin

Eins og ég hef marg sagt frá er nokkuð um liðið síðan ég hef fengið vin minn og harmonikkuunnanda Rúnar í Sólheimum í heimsókn með hressandi harmonikkutóna hinna ýmsu listamanna veraldar. Það hefði svo sem ekki skipt miklu máli þá hann hefði komið með tónana því þá hefði verið ill mögulegt að greina fyrir grenjandi vindi og hríð en þetta " margt er það sem miður fer " skáld er alltaf velkomið til að auðga andann.

Gamla hesthúsið sem ég held alveg örugglega að Hlynur Tryggva hafi einhvern tíma átt var rifið milli élja í gær.

03.12.2014 14:17

vangaveltur í byrjun aðventu

Fullveldisdagurinn er liðinn og sólin lækkar enn á lofti, aðventan er gengin í garð og æ fleiri ljós kvikna í gluggum og á húsum íbúanna. 


        

Ljós hefur verið tendrað á spádómskertinu, kerti sem minnir á spádóma Gamla testamentisins um frelsarann sem koma skyldi.
          Um framtíðina veit maður harla lítið annað en að hún kemur og flestir sæmilega gerðir menn ala í brjósti sér, von um bjarta framtíð, sér og sínum til handa. Þær spár sem maður hefur hvað mest fylgst með í gegnum tíðina eru veðurspár og það get ég sagt með sanni að þegar spáð er góðu veðri sem svo ekki verður, þá mislíkar manni en ef spáð er leiðinda veðri sem svo einhverra hluta kemur ekki, þá er maður nokkuð sáttur en samt ekki. Sem sagt maður er afar vakandi fyrir því sem hentar manni sjálfum. Guð sé oss næstur segir maður þegar "útlitin eru dimm" og aðstæður þannig að þær eru ekki á manns valdi. Hver er sjálfum sér næstur er sagt þegar maður hefur spilað rassinn úr buxunum algjörlega hjálparlaust. Þetta líf er ekki flókið þegar öllu er á botnin hvolft.
         Einn ágætur maður sagði einhverju sinni að það væri bara ein hlið á hverju máli og það væri sú hlið sem snéri upp. Reyndar er það svo að  margir sjálfskipaðir vitringar haft þessa kenningu að leiðarljósi og virðast bara hafa náð dágóðum árangri en á því eru reyndar tvær hliðar eins og annar ágætur maður sagði. Að fitja upp á þessu hér er efni í heila heimspeki grein og vangaveltur sem seint fengist botn í þannig að ég skil ykkur eftir með þessa vangaveltu fram að því að kveikt verður á Betlihemskertinu næstkomandi sunnudag og jafnvel lengur ef þess gerist þörf.


         

Bjarnastaðaskriða hljóp árið 1720 og fór yfir bæinn á Bjarnastöðum og stíflaði Vatnsdalsá. Þá myndaðist Flóðið, stöðuvatnið innan við Vatnsdalshóla

Það er frekar rólegt á Aðalgötunni þessa dagana. Jólaskraut er komið í hótelgluggana sem og í Aðalgötu 8 en dimmt, eins og stundum  áður í gömlu kirkjunni  og verður seint sagt að það kæti mig en líkast til breytir það engu um gang himintunglanna hvað mér finnst um hlutina en Kirkju-Sveinn gæti að skaðlausu borgað eitt rafmagnsmánaðargjald á einni sparperu sem fæst hjá Lionsklúbbnum fyrir kr 1.000 kr (reyndar tvær í pakka fyrir 2.000 kr).  

Það hefur  vakið athygli að  ljósin á jólatrénu hafa logað undanfarið  án auglýsingar í Glugganum um formlega opinbera tendrun. Þetta er stílbrot en ljósin fara vel á jólatrénu á kirkjuhólnum, tré sem hefur lagað sig að suðvestanáttinni á aðdáunarverðan hátt því oft hefur þetta ágæta tré sem einhvern tíma var gjöf frá vinarbæ okkar Moss í Noregi, brotnað í upphafi aðventu.  Við eigum óbrotið jólatré sem sem hallar sér til norðausturs og er líklega þarna statt á kostnað útsvarsgreiðenda.


Nýjasta viðskiptahugmynd Jónasar á Ljóninu. Um er að ræða gamla Bens bifreið sem á að nýtast sem eldhús fyrir gesti hans næsta sumar. Einnig hefur Jónas í huga að ferðast með velstæða ferðamenn inn á hálendið en pláss er fyrir 6 manneskjur inní "boddíinu"

Það var eins gott að Glugginn barst mér í hendur áður en ég sendi þennan pistil frá mér því auglýst hefur verið að jólatréð á kirkjuhólnum er frá norsku vinum okkar í Moss og ljósin á því verða opinberlega tendruð á sunnudag eftir aðventumessu. Hafa skal það sem sannara reynist. Annað sem vakti athygli mína í nýjum Glugga og gladdi mig töluvert en það er að Sigurlaug og Sigurður eru að opna  "Litlu Dótabúðina" að Húnabraut 4. Það er ávallt gleðiefni þegar einhver tekur sig til og reynir að koma einhverri starfsemi á lagginar í okkar litla samfélagi, það munar um hvert eitt starf.

12.11.2014 15:23

af Sólu, dimmu og brjósttölvu

Dimman heldur  ótrauð áfram og mun gera það enn um sinn. Dagarnir æða hjá óháð birtuskilyrðum og ekkert bíður okkar nema framtíðin. Dagurinn í dag sem vill svo til að er miðvikudagur og er samkvæmt vísindalegum rannsóknum  talinn erfiðasti dagur vikunnar fyrir hinn venjulega mann fer ekki rólega yfir.  Það er svolítið merkilegt að 5 gráðu heitur norðaustan vindur fari yfir með 12 metra hraða á sekúndu á miðvikudegi því eins og glöggir lesendur þessarar síðu hafa tekið eftir er oftast nær hægviðri á þessum vikudegi. Já miðvikudagar eru varasamir dagar og einhversstaðar las ég það í lærðri grein að framhjáhald væri líkegast á miðvikudögum milli kl 17 og 19 og þegar ég rifjaði þetta upp og hef ný  sagt konunni að ég þurfi að mæta í perupökkun hjá Lionsklúbbnum  frá 17 - 19 í dag og einhvern veginn er mér farið að líða eins og sakamanni þrátt fyrir að vilji standi til einskis annars en að vinna að góðu máli. Miðvikudagar eru merkilegir dagar því þeir lenda alltaf í miðri vinnuviku. Smá leiði er farinn að gera vart við sig eftir hvíld síðustu helgar og enn eru tveir dagar eftir þar til næsta helgi gengur í garð. Miðvikudagar eru svona eins og miðjubarn í fjölskyldu sem stundum hefur verið sagt um að lendi á milli frumburðarins og yngsta barnsins í athyglinni en kannski er þetta allt tóm vitleysa því allir vita að allt snýst um miðjuna og er sólin þar eitt gleggsta dæmið.


Einmanna mávur mót norðaustanáttinni í ölduróti lífsins

Jónas á Ljóninu sem all oft hefur komið hér við sögu er farinn suður í leigubílaharkið. Hann býr í henni Sólu sinni í Laugardalnum í vetur líkt og hann hefur gert undanfarna vetur. Sóla er langferðabifreið hans sem m.a. hefur flutt gangnamenn á Auðkúluheiði milli staða sem og hestaferðamenn á vegum Hauks Suska í Hvammi í Vatnsdal. Sóla gegnir sem sagt hlutverki vetrarhallar Jónasar og þegar ég spurði hann um það hvort honum yrði aldrei kalt eða hvort illa færi um hann svarar hann " Ég er engin kelling". Þó svo Sóla beri "kellingarnafn" þá fer hún vel með Jónas á Ljóninu og er ég ekki frá því að hún veiti honum hugarró og beini huga hans frá öllum þeim sem hann hyggst lögsækja í náinni framtíð.


Stokkendur eða grænhöfðar synda makindalega framhjá bjöguðum Kvennaskólanum sem stendur á haus í Blöndu

Glugginn er kominn og má þar reka augun í uppskeruhátíð búgreinafélaganna í A-Hún sem haldin verður í Húnaveri 22. nóv. Einnig er vert að geta þess að taflfélag Blönduóss heldur aðalfund eftir viku. Ég hélt í einfeldni minni að þetta félag væri ekki til en gaman til þess að vita að svo er ekki og ekki síst í ljósi þess að Skáksamband Íslands verður 90 ára á næsta ári en það var einmitt stofnað á Blönduósi  á sínum tíma, nánar tiltekið í Aðalgötu 5 þar sem áður var gamli spítalinn.

Gluggavísu vikunnar á eins og oftast áður á Rúnar Kristjánsson, skáldið undir Borginni á Skagaströnd og fjallar hún um hrútamál bænda  sem samkvæmt Rúnari taka sig upp þegar líður meira á árið.


Tvær af þremur gæsum sem ætla sér að þrauka af veturinn með okkur hinum sem Blönduósbæ byggja

Rúnar vinur minn , harmonikkutónlistarunnandi lætur ekkert sjá sig þessa síðustu daga, já eða vikur en hinn síungi Himmi Snorra rekur stöku sinnum inn nefið til að fá brjóstsykursmola og fréttir af Jónasi á Ljóninu. Svona er nú staðan hjá mér þennan miðvikudag og ef fer eins og áætlað er mun engin pistill verða skrifaður næsta miðvikudag því þá verð ég líklega að ná áttum á Landspítala með glænýja tölvu bak við vinstri brjóstvöðva  e.t.v. á undanþágu frá verkfalli skurðlækna.

29.10.2014 14:14

eins og veruleikinn bak við veruleikann



Kvennaskólinn með Spákonufellið í baksýn

Það er merkilegt við miðvikudaga að þá ber nánast aldrei upp á neina merkilega daga í almanaki Háskólans svona eins og tveggja postula messu sem var í gær. Þrátt fyrir þennan annmarka á miðvikudögunum þá eru miðvikudagar í skammtímaminninu oftast stilltir og bjartir dagar nema í undantekningar tilvikum. Til dæmis er dagurinn í dag stilltur og bjartur en ber í sér -4 gráðu svala úr ASA. Reyndar er þetta ekki heppilegasta áttin hvað varðar gasið úr eldgosinu í Holuhrauni en þegar þetta er skrifað verður maður ekkert var við SO2 í andrúmsloftinu og fyrir það þakkar maður.


         Skuggi sólar varpar krossi á kirkjuvegginn

           Þó svo miðvikudaga beri ekki upp neina merkilega daga í almanaki Háskólans þá hefur Steinn Steinarr gert þennan dag ógleymanlegan með ljóðinu "Miðvikudagur"

 

 Miðvikudagur. ­- Og lífið gengur sinn gang,
eins og guð hefir sjálfur í öndverðu hugsað sér það.
Manni finnst þetta dálítið skrítið, en samt er það satt,
því svona hefir það verið og þannig er það.

Þér gangið hér um með sama svip og í gær,
þér sigrandi fullhugar dagsins, sem krónuna stífið.
Í morgun var haldið uppboð á eignum manns,
sem átti ekki nóg fyrir skuldum. ­ Þannig er lífið.

Og mennirnir græða og mennirnir tapa á víxl,

og mönnum er lánað, þó enginn skuld sína borgi.
Um malbikuð strætin berst múgsins háværa ös,
og Morgunblaðið fæst keypt niðr'á Lækjartorgi.

Miðvikudagur. ­- Og lífið gengur sinn gang,
og gangur þess verður víst hvorki aukinn né tafinn.
Dagbjartur múrari eignaðist dreng í gær,
í dag verður herra Petersen kaupmaður grafinn
.

 

sem svo vel gæti hafa verið ort í dag þó svo ég viti ekki fyrir víst hvort Morgunblaðið fáist keypt niðri á Lækjartorgi . Gunnar Kristjánsson prófastur ritaði á sínum tíma í tilefni aldarafmælis Steins m.a. eftirfarandi: "Í ljóðum Steins er hvort tveggja að finna, annars vegar sterka afneitun á tilgangi lífsins en hins vegar sterka vitund um að lífið sé borið uppi af leyndardómi, af von, draumum og ást. Í "Stiganum" (Rauður loginn brann 1934) lýkur hugleiðingum ljóðsins um stigann með samanburði við lífið sjálft":

Svona undarlegur 

         er þessi stigi, ... 

         eins og lífið sjálft, 

         eins og veruleikinn 

          bak við veruleikann


Endur á flugi með kirkjuna og snævi þakið Langadalsfjallið í baksýn

         Svo skemmtilega vill til að ég rakst fyrir tilviljun á ljóð eftir Stein Steinarr sem ort var í húsi sem nú ber nafnið Blöndubyggð 9 og hýsir nú kaffihúsið "Ljón norðursins". Í þessu húsi hékk ljóðið í ramma uppi á vegg en  Steinn mun hafa gist í þessu húsi þegar Páll Geirmundsson og Hjálmfríður Anna Kristófersdóttir bjuggu þar og má segja að þau séu með þeim fyrstu sem voru með veitinga- og gistiþjónustu fyrir ferðamenn hér um slóðir. Kvæði þetta  er um stigann í þessu húsi sem enn stendur og hljóðar svo:

Þessi stigi er sjálfsagt eins

og aðrir stigar

í öðrum húsum.

Hann liggur niður í kjallara

og upp á efstu hæð,

svona auðmjúkur og kurteis

gagnvart öllum mönnum,

sem um hann fara.

Og hér hefur hann verið

frá því húsið var byggt,

í hálfa öld eða jafnvel lengur,

og heyrt og séð allt, sem gerðist

í þessu húsi,

bæði á sumri og vetri,

vori og hausti.

Svona þögull og alvarlegur

eins og hann er í dag

hefir hann alltaf verið,

hvort sem börn eða gamalmenni

gengu tröppur hans,

hvort sem íbúar hússins

héldu brúðkaup sitt

eða voru bornir til grafar.

Svona undarlegur

er þessi stigi,

svona óskiljanlegur

í sínum einfaldleika,

eins og lífið sjálft,

eins og veruleikinn

bak við veruleikann.  

Þetta ljóð um "Stigann" yrkir Steinn lögnu eftir að hann birti ljóð sitt um "Stigann" sem áður er getið og hann notar niðurlagið úr fyrra ljóðinu í þetta ljóð með smá viðbót. Sagan er allsstaðar og meinlaus miðvikudagur getur verið uppspretta einnar slíkrar.


 Fuglinn í fjörunni á flugi yfir ós Blöndu

Glugginn er kominn og  og ber þar hæst að "Drengjakór íslenska lýðveldisins" undir stjórn Sólveigar Sigríðar Einarsdóttur mun skemmta á Pottinum um helgina og  Jooð Ess yrkir vísu vikunnar. Samkvæmt áræðanlegum heimildum þá mun þessi vísa vera eftir "undrabarnið" Jónas Skaftason á Ljóninu og mun vera 20 ára gömul og ort í tilefni þess að þá fór nýstofnuð vínbúð annað en til hans og Guðsteins í kaupfélaginu. Ekki ætla ég að birta þessa vísu hér því ég óttast að Magnús Ólafsson frá Sveinsstöðum gæti fengið nett bragfræðilegt áfall en bendi áhugasömum á vísuna inni á huni.is (http://www.huni.is/index.php?pid=1).

22.10.2014 16:26

styrktartónleikar og litur rjúpunnar


Loksins sást yfir á Standir eftir langan huliðshjálm náttúruaflanna.

Dagurinn byrjaði með hægri austlægri át og frostið var -3 gráður um klukkan níu. Í dag er meiri ró yfir veðrinu en verið hefur en ásýnd jarðar hefur breyst mikið því hinn hvíti litur rjúpunnar hefur náð yfirhöndinni. Þessi litur á jörðinni kemur sér vel fyrir hænsnfuglinn rjúpuna sem eignast nýjan óvin á föstudaginn.  Ég veit að á föstudaginn ef veður leyfir þá mun fjölmenni fara um fjöll og dali í leit að þessum eftirsótta jólamat , mat sem mér finnst ómissandi á aðfangadagskvöld. Hér áður fyrr meir þegar maður var ungur og sprækur þá gekk maður til rjúpna og oftast nær einn. Það voru ógleymanlegar stundir þegar rölt var um óbyggðir gersamlega aleinn með skapara sínum og bakpokanum sem hafði að geyma kaffibrúsa og samloku með þykkri lifrarpylsu á milli. Það var notalegt að tylla sér á stein og sötra kaffið og gæða sér á orkumikilli samlokunni, horfa yfir héraðið og skynja smæð sína í veröldinni. Eitt þoldi ég ekki í þessum ferðum þegar maður var búinn að leggja á sig stranga göngu í leit að fugli að allt í einu var brunað fram úr manni á vélsleða og skömmu síðar heyrðust skothvellir og snjósleðinn brunaði til baka en ávallt í nægilegri fjarlægð þannig að hann væri ekki í skotfæri eða hægt væri að hafa tal af sleðamanni. Vonandi hafa veiðimenn það í heiðri að ganga til rjúpna í sæmilegu veðri, virða bráð og umhverfi sitt og koma til byggða með hæfilegt samviskubit.


Hluti af gamla bænum á Blönduósi. Hreppshúsið, Samkomuhúsið og Kiljan svo eitthvað sé nefnt

Þegar Ljón norðursins fer að hugsa þá getur allur allt gerst. Núna þegar ferðamannatímabilinu fer að ljúka hjá Jónasi á Ljóninu þá gefst honum aukinn tími til að virkja hið skapandi afl hugans. Hann er "brandsjúr" á því að hann ætlar að stefna nánast öllum yfirvöldum sem finnast á svæðinu og þó víðar væri leitað. Hann gerir sér grein fyrir því að "svoddan"  umstangi fylgja allnokkur útgjöld og nú gengur hann  með þá hugmynd að efna til styrktartónleika sjálfum sér til stuðnings og mun hann koma fram og gefa alla sína vinnu í þágu verkefnisins.  Jónas hefur ekki enn gefið upp stað og stund varðandi þessa tónleika en hann hyggst nota afganginn af ágóðanum til að stofna styrktarsjóð sem ætlað er að nýta í að styrkja siðferðisvitund allra þeirra sem hann ætlar að lögsækja.  Hann reifaði þá hugmynd að sjóðurinn ætti að að heita "Hjálpum þeim" en þar sem það nafn hefur áður verið notað í göfugum tilgangi þá ákvað hann að nefna sjóðinn " Til hjálpar þeim". Ég er ekki í vafa um að hann mun flytja lögin "komdu inn í kofann minn", "Þrek og tár, Hjálpaðu mér upp og "Heyr mína bæn" að ógleymdu laginu "Fúll á móti". Þetta finnast mér tíðindi allnokkur og er þá vægt til orða tekið.


Haustlauf (birkilauf) í garðinum heima áður en litur rjúpunnar lagðist yfir 

Rúnar lét loksins sjá sig eftir allnokkra fjarveru og hafði mér til mikillar ánægju með sér harmonikkulagið "Strekkbuksepolka" með snillingnum Arnt Haugen. Þetta var vel til fundið hjá Rúnari þó svo hann sé ekki búinn  að yrkja neitt af viti. Hann gæti svo sem alveg hafa ort þetta:

Margt er það sem miður fer,

marinn af samviskubiti.

Næstum allur, október

og ekkert ort af viti.

Það er gaman að sjá Rúnar aftur eftir langan tíma því hann leyfir mér að hamast í sér (pönkast) án nokkurra eftirmála.


Horft yfir Húnafjörð með hestana hennar Huldu Leifs í forgrunni

Glugginn er líka kominn og þar er annar Rúnar sem yrkir um Svangrundar -Móra og Vatna - Jón. Ekkert kannast ég við þessar persónur en einasti Vatna - Jón sem mér kemur í hug er athafnamaðurinn í Ölfusi Jón Ólafsson vatnsútflytjandi.

15.10.2014 15:00

í lognkyrri blámóðu

    

    Blönduósinn seinni partinn í gær. Þá var mengunin ekki orðin eins mikil og í dag

     Það eru stilltir, bjartir og kaldir dagar umvafðir blámóðu úr eldgosinu í Holuhrauni sem umlykja okkur hér við botn Húnafjarðar þessa dagana.  Ég fagna þessu öllu nema blámóðunni sem skerðir sýn til fjalla og hafs og er ekki frá því að mér súrni örlítið í augum. Í gær var fyrsti dagurinn á þessu hausti sem ég þurfti að skafa hélu af bílrúðunni og held ég að þetta haust hafi til þess að gera verið óvenju milt.


     Langadalsfjallið var í móðu í dag

     Vertinn á Ljóninu hugsar óvenju mikið þessa dagana og ber mönnum ekki saman um það hvort það sé gott eða slæmt. T.d er gaman að geta þess að vertinn hugsar núna mikið um að bæta við gistihýsum á lóð sinni og næsta nágreni. Hann er afar veikur fyrir fyrir húsi sem er þannig hannað að hægt er að ganga upp á það og njóta þannig betur útsýnis yfir ánna og flóann. Þessi húsgerð er ekki svo ólík fuglaskoðunarhúsinu sem eigi er langt frá Blöndubóli Ljónsins. Já, Jónas á Ljóninu hugsar mikið þessa dagana og eins og kom hér fram áðan þá greinir menn á um það hvort það sé til góðs eður ei. Það er nú með það eins og svo margt annað að það er ekki sama hver og hvernig á þetta hugsanferli er litið. Það er reyndar algjörlega út í bláinn að reyna að "fabúlera" eitthvað frekar um það því maður gæti bara lent í helvítis klandri.


    Sólin umvafin gosmóðu 

     Glugginn er kominn svona eins og hann gerir á miðvikudögum og kennir þar ýmissa grasa. Það sem vakti sérstaka athygli mína var auglýsing um að Hreppaþorrablótið verður haldið 7. febrúar 2015.  Þetta finnst mér ráð í tíma tekið og munaði engu að þorrablótsauglýsingin hefði komið áður en ég setti hrútspungana og siðasultuna í súr. Rúnar á Skagaströnd á eins og oftast áður vísu vikunnar í Glugganum  og segir hann: "Víða er hroki í hjörtum til/ heims úr þoku gerður." Það býr margt í heimsþokunni og vandratað um þá misbreiðu krákustíga sem þar er að finna.

     Ég var á ferðinni um suðvestur hornið um helgina og hitti þar marga gamla og góða  félaga úr hinum ýmsu geirum landbúnaðarins. Ferðuðumst við samann um Ölfusið og  Flóann og snæddum saman kvöldverð á laugardagskvöldinu. Þetta var hin ánægjulegasta ferð í alla staði. Það væri að æra óstöðugann að segja frá allri ferðinni í stuttum pistli en við komum m.a. við í Garðyrkjuskólanum í Ölfusi þar sem Guðríður Helgadóttir garðyrkjufræðingur og staðarhaldari tók á móti hópnum á sinn skemmtilega hátt. Þar komst ég að því að hópur eins og ég var í er gjörólikur hópi tyrkneskra garðyrkjumanna . Jafnframt upplýsti Guðríður eða Gurrý eins og hún er kölluð okkur um að hópur eins og ég tilheyrði hefði þægilegri nærveru við hlustun en tyrkneskir garðyrkjumenn því þeir væru mun nærgöngulli og stæðu nánast á tám hennar þegar hún segði frá auk þess skyldum við íslensku mun betur. Mér fannst gott að vita þetta, vita að ég væri betri í hóp en tyrkneskur garðyrkjumaður. Rétt er þó að geta þess að þessu gæti verið öfugt farið ef minn hópur hefði verið í heimsókn á tyrkneskum garðyrkjuskóla og Tyrki væri að skrifa um þetta.


   Rosknir landbúnaðarvísindamenn í fræðslu hjá Guðríði í Garðyrkjuskólanum í Ölfusi 

    En og aftur þá sé ég ekkert til hans Rúnars á Súkkunni og engin harmonikkutónar hafa ómað um gosmengaða Aðalgötuna og allir sem þetta lesa vita að mér finnst það miður.

08.10.2014 16:00

að laðast að því sem tortímir manni


Gamla kirkjan á Blönduósi hefur tekið stakkaskiftum í sumar

Í dag er fallegur haustdagur og það má að skaðlausu þakka fyrir undanfarna daga sem bæði hafa verið mildir og hægir . Þrátt fyrir rólyndisdaga þá hefur  þung alda leikið við ströndina. Það er eitthvað seiðmagn við þessar öldur sem eru tignarlegar en ógnvænlegar. Sjálfsagt er það brennt í undirmeðvitundina að hrífast af ógnaröflum, öflum sem maður hefur ekki nokkur tök á að hemja. Það er merkilegt að laðast að því sem tortímir manni. Ætli þetta eigi eitthvað skylt við freistingarnar sem verða á vegi manns, falli maður þá er voðinn vís. Ég skal ekki segja.

Ég brá mér í hálfs mánaðar frí til sólarlanda til að upplifa þá mestu rigningu sem ég hef á minni lífsfæddri ævi séð. Göturnar breyttust í stórfljót á örskotsstundu og fengu mann til að hugsa lítillega um syndarflóðið. Kannski hefur þetta verið vísbending að ofan, góðlátlegt olnbogaskot frá æðri máttarvöldum en hvað veit ég syndugur maðurinn sem þrammar áfram hinn breiða veg en sveigi þó frá stærstu keldum sé þess nokkur kostur.



Auðugt fuglalíf við Blöndu ós

Nú er ég búinn að vera við störf á Vesturbakkanum í rétta viku eftir frí og farinn að átta mig á staðreyndum lífsins. Það er greinilegt á öllu að ferðamanna tímabilið þetta árið er að líða undir lok. Þetta skynja ég á Jónasi vert á Ljóninu sem segir mér daglega að hann viti bara ekkert hvað hann eigi að gera því gestum hjá honum hefur stórlega fækkað hina síðustu daga. Ef ég á að vera heiðarlegur þá fer um mig ónotatilfinning þegar ég heyri þetta frá Ljóninu því ljón sem veit ekki hvað það á að gera getur tekið upp á öllum fjandanum eins og til dæmis að eltast við allt stjórnsýslukerfið með kærur í hverjum vasa. Það er sem sagt þannig að verkefnalausir baráttumenn eiga bágt og geta tekið upp á ólíklegustu hlutum sem í einhverjum tilfellum væri betur ógerðir.

Það eru ýmsar blikur á lofti hér á vesturbakkanum þessa haustdaganna. Má þar nefna að Erlendur listamaður Magnússon hefur auglýst húsið sitt sem kallað er Hemmertshús og stendur við hafið rétt neðan við hótelið. Gamalt fallegt hús með stórkostlegu útsýni yfir Húnaflóann.  Einnig hefur ÁTVR auglýst eftir húsnæði fyrir verslun sína sem hefur verið við Aðalgötu 8 alla daga frá því að þeir hófu verslunarrekstur á Blönduósi. Sjálfsagt er eitthvað fleira í gerjun sem ég hef ekki hugmynd um en það sem upp er talið eru töluverð tíðindi.


Þessi hrafn er ekki málaður á vegginn heldur átti bara leið um

Hef eiginlega ekkert orðið var við Rúnar vin minn Agnarsson síðan ég kom til vinnu eftir frí og finnst mér það  líkt og áður, heldur miður. En Glugginn er kominn og er svo sem ekkert með neinn stór boðskap en þó mikilvægan þeim  þurfa á honum að halda.  Píanóstillingar, kirkjuskóli  og Hyundai Accent árgerð 1999 og er tekið fram í auglýsingu að honum fylgi lyklar.  Vísa vikunnar er eins og svo oft áður eftir Rúnar Kristjánsson skáld á Skagaströnd og yrkir hann að ég tel að þessu sinni um útilistaverkasýningu sem nú er í gangi á Skagaströnd. "Grundahóla hækka ris/ heiðursvistar merkin, /er þar róla rangsælis / ryðguð listaverkin !"


Mál er að linni á fullu tungli. Dagurinn fyrir utan flokkast undir fallegan haustdag og ég mun glaður  teyga  brennisteinslausa súrefnið eftir klukkustund eða svo þegar vinnu lýkur og ég kemst út.

Um mig

Nafn:

Jón Sigurðsson

Farsími:

8623250

Afmælisdagur:

18.02 1952

Heimilisfang:

Árbraut 12 540 Blönduósi

Heimasími:

4524450

Faðir:

Sigurður M. Þorsteinsson

Móðir:

Ásta Jónsdóttir

Önnur vefsíða:

jonsig@tmumbod.is

Um:

Starfa sem umboðsmaður TM í A-Húnavatnssýslu auk þess að vera fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi

Uppáhalds bíómynd(ir):

Hotel Ruanda og svo að sjálfsögðu allar James Bond myndirnar

Uppáhalds tónlist:

Maggi Eiríks, Ernirnir og ekki má gleyma sjálfum Bítlunum

Uppáhalds manneskjur:

þær sem halda upp á mig

Uppáhalds matur:

Hrogn og lifur, saltfiskur, þorramatur, ýsa í ýmsum myndum að ógleymdum humarnum. Lambakjötið stendur alltaf fyrir sínu og fátt er betra en útigrillaðar lambakótilettur með kartöflusalati A La Magga

Eftirminnilegast:

Það er svo margt ef að er gáð

Kennitala:

180252-3639

Eldra efni

clockhere

Tenglar

Flettingar í dag: 62
Gestir í dag: 10
Flettingar í gær: 246
Gestir í gær: 12
Samtals flettingar: 64720
Samtals gestir: 11490
Tölur uppfærðar: 2.5.2024 11:44:54